Tárasveigur

Tárasveigur

Hvernig er hægt að tala um dýrð krossins,  sem er hræðilegasta og átakanlegasta aftökuaðferð síns tíma? Hversvegna talar Kristur um það að hann verði dýrðlegur gjör á krossi?

Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: Jesús frá Nasaret, konungur gyðinga. Jóh. 19.19

Kæri söfnuður.

Við gætum tekið hvert vers fyrir sig úr píslarsögunni og gert að sérstöku umhugsarefni og predikunartexta, en við skulum að þessu sinni halda okkur við þetta þó að vanti í yfirskriftina einmitt það sem máli skiptir: Frelsari mannanna. Frelsari heimsins.

Ég skal ætíð, ætíð játa: Á þig trúi' eg, krossins gáta. Fullting veit, er fast að sverfur, fylgd mér ljá, er sýn mér hverfur, heim í lífsins björtu borg. (Sb.142.9)

Enn söfnumst við saman undir krossi Krists á föstudaginn langa hér á Þingvöllum. Við sem getum öll tekið undir þetta vers Valdemars Snævarr. Við sem erum trúfastur hópur sem hefur gát á því að ekki falli niður bænahald og söngur og íhugun Guðs Orðs á þessum helga stað íslenskrar þjóðar. Þetta er sannur helgistaður í sögu þjóðarinnar og í framtíð hennar. Um þá framtíð má lesa í Sálmi 22 , sálminum sem Jesús bað sjálfur á krossinum.

Í gærkveldi kom það í minn hlut að lesa ritningartextana meðan altarið í Hallgrímskirkju var afskrýtt. Það er alltaf jafn áhrifamikið. Sérstaklega var það áhrifamikið, þegar barnið hafði komið með rósirnar fimm til að leggja á altarið, að mega lesa niðurlag sálmsins: (28-32)

Endimörk jarðar skulu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans. Því að ríkið er Drottins, hann drottnar yfir þjóðunum. Öll stórmenni jarðar munu falla fram fyrir honum og allir sem hníga í duftið beygja kné sín fyrir honum. En ég vil lifa honum, niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni og óbornum mun boðað réttlæti hans því að hann hefur framkvæmt það. (Sálm. 22.28-32)

Kæri söfnuður. Þetta er orð Drottins. Ef sagt er að í því orði sem Jesús bað megi fræðast um það sem hann bað þá og líkja eftir því, þá er með því of lítið sagt. Hér talar hann sjálfur. Hér gefur hann fyrirheit sem við þufum aldrei að efast um.

Niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni og óbornum mun boðað réttlæti hans því að hann hefur framkvæmt það.

Það er fækkun í þjóðkirkjunni. En það eru engin merki um það að hún leggist af. Þvert á móti. Hún stendur traustum fótum og lifir af fyrirheiti Drottins. Og því til staðfestu er þessi ágæti fulltrúi næstu kynslóðar sem hér aðstoðar í dag. Það hafa aldrei verið keyptar jafn fáar sálmabækur og fyrir fermingarnar í ár. Af hverju? Of margir segja að það sé óþarfi og það eigi að spara. Of fáir segja, sleppið frekar einum rétti í veislunni en haldið sálmabókinni.

Það er sótt að kirkjunni, og sótt að trúnni. Of mörg þeirra sem tilheyra söfnuðinum eru of feimin við að taka afstöðu gegn því sem mest grefur undan trúnni, en það er virðingarleysið fyrir henni. Virðingarleysið fyrir trúnni getur líka verið búið skartklæðum gæsku og góðvildar og allra þeirra dyggða sem prýða manninn mest. Virðingarleysið kemur líka fram í óvarlegu tali, jafnvel spaugsyrðum um hið heilaga. Alvara trúarinnar er ekki til að spauga með.

Við þurfum að rannsaka ritningarnar. En fyrst og fremst þurfum við að hlusta á ritningarnar og heyra Guð tala. Við eigum sannarlega að hlusta eftir táknum samtímans, líka hjá þeim sem vegna visku sinnar hafna Kristi og trúnni og setja mannlegar tilfinningar æðst , eins og vináttuna og samúðina og gera að sínum trúarbrögðum. Fyrir þeim sem hið jarðneska líf er upphaf og endir alls og mannsandinn æðsti máttur er það að leita Guðs ekki á dagskrá. Við eigum heldur ekki að vænta þess, eða krefjast þess.

En fyrirheit Drottins stendur óhaggað.

Sagan um Jesú Krist sem fagnað var , og svikinn var, hæddur, barður og krossfestur og reis upp á þriðja degi og er hér á meðal okkar, er sögð aftur og aftur með nýjum kynslóðum og nýjum áherslum og nýjum játendum.

Fyrir skemmstu var Jóhannesarpassían eftir Jóhann Sebastian Bach flutt á tónleikum í Hallgrímskirkju og víðar. Það voru eftirminnilegir tónleikar. Það er ekki út í bláin sem Bach hefur verið kallaður fimmti guðspjallamaðurinn, vegna þess að þegar hann segir söguna þá fær hún ekki bara nýtt yfirbragð heldur eru ýmsir þættir í innihaldi hennar dregnir fram með þeim hætti að maður heyrir þá betur og öðruvísi. Og til þess að draga enn betur fram hið mikla drama sem þessi frásögn er, fellir Bach inn í frásöguna annarsvegar þekkta sálma, þar á meðal tvo af þeim sálmum sem við syngjum hér, en hinsvegar aðra texta sem hann setur fram sem aríur. Aríuformið gerir honum kleift að íhuga nánar tiltekin atriði píslarsögunnar. Ein aría býður sig sérstaklega fram til íhugunar hér og nú. Reyndar eru þær tvær aríurnar hlið við hlið: Fyrst syngur bassinn:

Taktu eftir sála mín með ánægju og ótta með beiskri þrá og klemmdu hjarta, að stærsta eignin þín er þjáning Jesú, Eins og á þyrnum þeim sem nísta höfuð hans blómgaðist himnalykill handa þér, og sætan ávöxt bæri malurtin. Því bein til hans án afláts sjónum þínum .

Glöggir grasafræðingar vita að primula elatior heitir reyndar huldulykill á íslensku en ekki himnalykill eins og hér stendur, en það er þýska heitið. Og svo syngur tenórinn:

Hugleið nú, hve bak hans sært og marið er himni líkt við sjatnað syndaflóð er dýrðarfagur regnbogi sem tákn um náð og miskunn Guðs þar glóir.

Sá sem síðari aríuna söng vildi fá að vita hvað þetta merkti og spurði: Hvernig getur bakið á Jesú sem hefur verið limlest hræðilega með svipuhöggum minnt á himininn. Er ekki himininn staður dásemdanna?

Kæri söfnuður. Við vitum svarið.

Guð sagði við Nóa:

Ég stofna til sáttmála við ykkur: Aldrei framar skal allt hold tortímast í vatnsflóði. Aldrei framar mun flóð koma og eyða jörðina.“ Og Guð sagði: „Þetta er tákn sáttmálans fyrir allar ókomnar aldir sem ég stofna til milli mín og ykkar og allra lifandi skepna sem hjá ykkur eru. Boga minn hef ég sett í skýin. Hann skal vera tákn sáttmálans milli mín og jarðarinnar. Þegar ég færi ský yfir jörðina og boginn sést í skýjunum mun ég minnast sáttmálans milli mín og ykkar og allra lifandi skepna, alls holds, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði sem tortímir öllu lífi. Hverju sinni sem boginn stendur í skýjunum mun ég sjá hann og minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi vera, alls sem lifir á jörðinni.“ (1Móse.9.11-17)

En mennirnir héldu áfram að rjúfa sáttmálann. Og halda því áfram enn. Jesús Kristur sonur Guðs, gerðist sjálfur hinn nýi friðarbogi með því að taka út á sjálfum sér alla þá þjáningu sem mannkynið hafði valdið með því að rjúfa sáttmálann aftur og aftur. Og meira en það. Hann breytir sjálfri sköpunarsögunni sem syndafallssagan er hluti af og gerir nýja sköpun. Hann leysir hana frá sinni fornu arfleifð með því að ganga inn í hlutverk Adams og frelsa hann og með honum allt mannkyn, frá upprunasynd hans og afkomenda hans.

Í íkonum austurkirkjunnar af krossfestingunni býr mikil speki. Þar sést í jarðveginum undir krossi Krists grilla í hauskúpu. Það er auðvitað næsta eðlilegt á þeim stað sem kenndur er við hausaskeljar. En þessi höfuðbein eru bein Adams. Blóð Krists fellur á bein Adams til tákns um endurlausn allra manna.

Jesús er sjálfur orðinn friðarboginn milli himins og jarðar.

Það er þessi hugsun sem er einkennandi í trúarhugsun fyrri tíðar og þarf að vakna aftur betur til vitundar. Við megum ekki ganga framhjá krossinum með hangandi haus eða horfandi annað á hraðri leið til páskanna. Að hafna sorginni en leita gleðinnar einnar.

Ég fékk að vera kynnir á söngvahátíð barnanna í Hallgrímskirkju í gær. Þar voru m.a. sungnir söngvar frá Suður Ameríu og Suður Afríku. Söngvar, fullir af gleði sem fædd er í mikilli þjáningu. Kannski getur enginn glaðst eins og sá sem þekkir þjáninguna. Rétt eins og varla er nokkur gleði meiri en gleði móður yfir barninu sem þó er fætt með þraut. Við þurfum að læra aftur að sjá og skilja regnbogann í blóðugu baki Jesú Krists. Þá munum við líka aftur geta talað um dýrð krossins.

Hvernig er hægt að tala um dýrð krossins,  sem er hræðilegasta og átakanlegasta aftökuaðferð síns tíma? Hversvegna talar Kristur um það að hann verði dýrðlegur gjör á krossi?

Líf Jesú Krists í jarðnesku holdi var líkt  og tónverk. Líf með vaxandi styrk og afgerandi  hápunkti. Á krossi. Krossinn var honum dýrðartakmark lífsins sem opnaði leið til eilífðar dýrðar. Stundin er komin að mannssonurinn verður gjörður dýrlegur, -  sagði hann.

Dýrð krossins fólst í því að þá varð ljóst hver hann var og er í raun, og þá var verk hans fullkomnað.  Dýrð krossins sjálfs er engin, án Krists og  án upprisu. Kross án Krists er þjáningin ein, tilgangsleysið eitt, illskan ein.

Þegar þar kemur í Jóhannesarpassíunni að sungin eru orð Jesú: Það er fullkomnað, syngur altröddin:

Það er fullkomnað. Hvílík huggun særðum sálum. Þetta er síðasta stund sorgarnæturinnar. Hetjan frá Júda sigrar í mætti og lýkur bardaganum. Það er fullkomnað.

Og tenórröddin setur fram stóra spurningu til áheyrandans og hjarta hans:

Þú hjarta mitt, úr því að veröld öll kvelst í Jesú kvöl, sólin klæðist sorgarklæðum , fortjaldið rifnar og björgin brotna, jörðin bifast og grafirnar opnast af því að þau líta dauða skapara síns, hvað ætlar þú þá að gera þar sem þú ert?

Svar:

Frelsishetja, friðargjafi, fyrr þó blinduð veröld hafi krýnt þig þyrnum, sært þig sárum, sjá, ég flétta vil með tárum kærleikssveig um krossinn þinn. Amen. (Sb. 142.1)

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen