Gleðilegan mæðradag.
Mæðradagurinn verður til á fyrri hluta 20. aldar sem hátíðisdagur og útbreiðsla hans um allan heim sýnir að þjóðir heims hafa getað sameinast um að heiðra mæður sínar með einhverjum hætti á slíkum degi.
Í Bandaríkjunum er hann rakinn til konu að nafni Ann Jarvis er vildi heiðra minningu móður sinnar með því að koma á fót degi þar sem mæðrum yrði gert hátt undir höfði. Móðir hennar, sem var einlæg trúkona, hafði hjúkrað hermönnum í borgarastríðinu og beitt sér fyrir bættri heilsu og kjörum kvenna á 19. öld. Fyrsti mæðradagurinn var haldin hátíðlegur í kirkjum í heimabæ þeirra mæðgna og Ann Jarvis fékk það í gegn árið 1915 að þáverandi bandaríkjaforseti, Woodrow Wilson, viðurkenndi hann sem hátíðisdag 2. sunnudag í maí ár hvert.
Mæðradagurinn barst hingað til lands í gegnum dönsku kirkjuna en þar í landi var messa annan sunnudag í maí tileinkuð mæðrum að bandarískri fyrirmynd. Fyrstu blaðaskrifin voru þó fordæming en vesturíslendingurinn og skáldkonan Rannveig K.G. Sigurbjörnsson sagði daginn „hjáguðadýrkun” í aðsendri grein í Lögberg (14.5.1925) og taldi það að upphefja konur á sérstökun degi slíka heimsku að það gangi næst „sankti Kláusar dýrkuninni á jólum”.
Öllu jákvæðari tón bar við í Lindinni, tímariti Prestafélagi Vestfjarða, árið 1932 en þar hvetur Sigurður Zófanías Gíslason Prestafélag Íslands til að taka upp mæðradag í messum að danskri fyrirmynd. Hann skrifar: „Íslenska þjóð! Getur kirkjan gefið þjer nokkra betri gjöf en móðurást, svo að þú verðir ekki í framtíðinni gleymin á hið góða og fagra, sem þú því miður vanrækir um of nú. Móðirin bregst aldrei skyldu sinni, gleymir aldrei barni sínu. Og sje hægt að tala um það sem veruleika, að elska náungann eins og sjálfan sig, þá er það móðurinni að þakka.”
Prestafélagið svaraði kalli Sigurðar seint, því það var mæðrastyrksnefnd sem fyrst stóð að mæðradeginum og fékk það samþykkt á Landsfundi íslenskra kvenna árið 1934 að 4. sunnudagur í maí yrði „sameiginlegur hátíðisdagur mæðra.” Mæðradagurinn er því formlega áttræður í ár, þó vísir að honum hafi verið haldinn árið sem mæðrastyrksnefnd beitti sér fyrir opinberri stöðu dagsins.
Mæðradagurinn fagnar því undri sem móðurástin er og ég er á þessum gleðidögum umvafinn slíkri ást á heimili mínu þar sem sex vikna sonur minn og móðir hans fylla heimilið helgi með tengslum sínum. Við tilkomu barns opnast í sálarlífinu nýjar víddir elsku. Getan til elsku hreinlega eykst með þeim hætti að við bætist elska til þess nýfædda barns, sem jafnframt skyggir ekki á elskuna til eldri systkina. Það er því ekki að undra að foreldraástin hafi verið trúararfinum hugleikin frá fyrstu tíð.
Móðurástin er víða í helgri ritningu lögð til grundvallar myndmáli er lýsir elsku Guðs. Spámenn Gamla testamentisins grípa víða til slíkra líkinga: Hósea segir sem dæmi Guð nálgast lýð sinn eins og móðir: Ég reyndist þeim eins og [sú] sem lyftir brjóstmylkingi að vanga sér. Ég beygði mig niður að honum, gaf honum að eta. (Hós 11.3-4) Þekktust eru orð Jesaja: Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki.
Hlutur slíkra mynda í kristinni hefð hefur langt frá því verið rýr og móðurlegt myndmál er áberandi hjá Páli postula og síðar kirkjufeðrunum. Móðurlegt myndmál í pálsbréfum hefur ekki mikið verið skoðað, samanborið við aðra pálínska texta, en feminískir guðfræðingar eru í vaxandi mæli að rannsaka áhrif slíks myndmáls á stöðu kvenna í hinni fornu kirkju. Í Galatabréfi og Korintubréfi segir Páll sig vera brjóstmóður safnaðanna, sem gefur þeim trúarlega mjólk sem ekki þola fasta fæðu (Gl. 4.19 / 1Kor 3.1-2), og hann segir sköpunarverk Guðs vera í fæðingarhríðum með komu Krists inn í heiminn (Rm 8).[i] Sjálfur hef ég fjallað um kvenlegt orðfæri kirkjufeðra, sem verður þeim verkfæri til að árétta karlmennsku sína.[ii]
Þekktasta móðurmynd kristininnar er að sjálfsögðu María guðsmóðir, sem fær það hlutverk að fæða Guð inn í þennan heim. María er mikilvæg persóna í öllum kirkjudeildum, sem og í Íslam, en upphafning hennar er mest áberandi í kaþólskum sið. Sameiginlegt stef í öllum þessum myndum er sú hugmynd að móðurástin endurspegli ást Guðs og sé farvegur fyrir elsku hans inn í þennan heim.
Að baki þeirri guðfræði er meðvitund um þá staðreynd að hagmunir og heilsa kvenna við barnsburð og brjóstagjöf er samofin hagsmunum allra og í þróunaraðstoð er árangursríkasta leiðin til að efla hag fólks að búa um heilsa mæðra. Ungbarnadauði á Íslandi var með því hæsta sem þekktist í Evrópu um miðja 19. öld en er nú sá lægsti í heiminum[iii] þökk sé starfi kvenfélaga og samtaka á borð við mæðrastyrksnefnd.
Hlutskipti feðra í samfélaginu er ekki síður mikilvægt og er það sláandi að ekki sé hefð fyrir sambærilegum feðradegi hér á landi. Í bandaríkjunum stóð KFUM að því að stofnsetja feðradag, sem náði fótfestu samhliða mæðradeginum og hafði sömu markmið, að fagna hlut feðra í uppeldi barna og í þágu samfélagsins.
Hérlendis stóð Félag ábyrgra feðra fyrir feðradegi árið 2006 til að vekja athygli á mikilvægi feðraorlofs til að tryggja ungbörnum umönnun beggja foreldra. Dagurinn virðist vera að festa sig í sessi en hann er haldinn þriðja sunnudag í júní, líkt og sá bandaríski. Hlutfall þeirra feðra sem taka orlof hefur því miður minnkað mikið á árunum eftir hrun en hámarksgreiðslur úr orlofssjóði eru langt undir meðallaunum launþega á vinnumarkaði í fullu starfi.[iv]
Í guðspjalli dagsins fjallar Jesús um bæn og þau fyrirheiti sem við eigum í trúnni að Guð svari okkur, börnum sínum, er við biðjum. Annarsvegar segir Jesús dæmisögu af áleitnum biðjanda sem krefur nágranna sinn um brauð og verður að ósk sinni sökum þraustsegja. Hinsvegar eru orð sem einnig er að finna í Fjallræðu Jesú: „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.”
Með glettnum húmor og ögrandi framsetningu líkir síðan Jesús bænasvörum Guðs við föður sem mætir þörfum barna sinna: „ Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.”
Sú hugmynd að Guð svari ekki bænum er í huga Jesú jafn fáránleg og faðir sem gerir börnum sínum grikk er þau biðja um mat. Jafnvel þau sem skeyta ekki öllu jafna um þarfir annara, og eru samkvæmt skilgreiningu Jesú vond, mæta þörfum sinna eigin barna eftir bestu getu. Með sama hætti mætir Guð þörfum barna sinna með þeirri gjöf sem er öllum dýrmætari, anda hans í lífi okkar.
Öllu myndmáli fylgja hættur og þessi áhersla á móður- og föðurímyndir af Guði hafa jafnframt reynst mörgum flóknar. Reynsla okkar af heiminum er grundvölluð í æsku og ekkert hefur jafn afgerandi á guðsmynd okkar og það fólk sem við erum komin af og ber að reynast okkur vel. Feður sem brugðist hafa börnum sínum og mæður sem ekki hafa staðið undir hlutverki sínu valda því óhjákvæmilega að sú mynd sem við berum af Guði ber keim af fólki sem í eðli sínu er breiskt. Þeir fyrirvarar eru orðaðir, jafnt af Jesú sem og af spámönnum Gamla testamentisins, en myndmál trúarinnar hefur þrátt fyrir það staðið í mörgum.
Mæðradeginum er ætlað að þakka fyrir það sem mæður okkar hafa lagt til í lífi okkar og við getum hvílt í þeirri vissu að sérhvert foreldri gerir sitt besta, eftir þeim efnum og með því heilbrigði sem það hefur yfir að ráða hverju sinni. Guð býr ekki yfir slíkum brestum og því megum við læra að treysta á náð hans þegar við biðjum, leitum og knýjum á.
Bænasvör lærum við fyrst að þiggja í lífi okkar við móðurbarm og því leitir hugurinn þangað í leit að svörum við leyndardómum Guðs. Heilag önd er með í för með elsku sinni og umönnun, hvar sem beðið er í þörf eða barn borið til bænar á örmum foreldra sinna.
Guð blessi mæður þessa heims, þau börn sem þau ala önn fyrir og veit okkur fúsar hendur til að starfa í þeirra þágu í kirkju Krists á jörðu.
[i] Beverly R. Gaventa, Our Mother Saint Paul 2007.
[ii] http://skemman.is/item/view/1946/19511
[iii] Loftur Guttormsson, Ungbarna- og barnadauði á Íslandi 1771-1950 : nokkrar rannsóknarniðurstöður (Saga 2001/39: s. 51-107)
[iv] http://www.visir.is/faerri-fedur-i-faedingarorlof/article/2014711269927