Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“
Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“
Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“
Og enginn þorði framar að spyrja hann.
Markús 12.28-34
Tötrum klæddur strákur stóð skjálfandi á gangstéttinni í vetrarkulda þegar kona gaf sig á tal við hann. Samtalið endaði með því að hún fór með hann í verslun og keypti á hann föt. Þegar þau höfðu kvatt hvort annað snerist strákur á hæli og spurði: - Ertu mamma’ hans Guðs? - Nei, svaraði hún, en ég veit að ég er Guðs barn. Þá brosti strákur og sagði: - Já, ég vissi að þið væruð skyld.
Hún hefur slegið rækilega í gegn, kvikmyndin Mamma mia! með tónlist sænsku hljómsveitarinnar ABBA. Ég er einn þeirra mörgu sem séð hafa þessa skemmtilegu mynd sem í senn einkennist af litríku umhverfi og líflegri tónlist. Svo er söguþráðurinn um ástina sem snertir alla sem á annað borð hafa lifandi hjarta og sál. Ung brúður í myndinni á í vanda. Hún leitar föður síns og þráir að vita hver pabbi hennar er. Unga konan er í tilvistarvanda eins og það er gjarnan kallað. Orðið tilvistarvandi er notað um það þegar einstaklingur glímir við sjálfsmynd sína, leitar uppruna síns, tilgangs og markmiðs í lífinu. Öll glímum við við tilvistarspurningar. Hvaðan komum við? Hver er tilgangur lífsins? Hvernig ber okkur að breyta? Hvers megum við vænta að þessu lífi loknu?
Lífið er flókið. Hvernig rötum við um stigu þessa lífs og hver leiðbeinir okkur? Yfir okkur dynja upplýsingar alla daga, allan ársins hring, um það hvernig okkur beri að lifa til þess að við verðum hamingjusöm, upplýsingar um hvað okkur vanhagi um og hvað við ættum að kaupa til að fullkomna hamingjuna. Í auglýsingum eru lagðar fyrir okkur tálbeitur í þaulhugsuðum orðum og útpældum myndum. Við erum líka mötuð af margvíslegri hugmyndafræði í skólum og sagt að hamingjan felist í þessu eða hinu. Og við þeytumst á milli staða á bílunum okkar og vöfrum á veraldarvefnum til að finna bestu tilboðin. Við erum fólk í hamingjuleit.
Um hvað snýst lífið? Hvað skiptir mestu? Ég ætla ekki að skilgreina eða telja upp það sem okkur er sagt í fjölmiðlum eða menntastofnunum um hamingjuna en ég vil gjarnan skoða með ykkur hvað mikilvægasta bók veraldar, Biblían, hefur að segja um það sem mestu skiptir, þessi bók sem lagt hefur grunn að hugmyndafræði meirihluta mannkyns. Í Biblíunni eru margskonar ráðleggingar. Samkvæmt gyðinglegri, rabbínskri hefð eru 613 mizvot eða boð í Mósebókunum fimm. Þar má finna reglur um nánast allt milli himins og jarðar. Stundum er talað um regluverk í pólitískri umræðu og öll þekkjum við fullyrðingar um gríðarlegt skriffinnskubákn Evrópusambandsins þar sem her manns situr við að semja, þýða og túlka. Er lífið flókið eins og regluverk sem enginn hefur yfirsýn yfir? Já, það er það í vissum skilningi. En svo er það líka ofur einfalt. Jesús sagði til að mynda: Nema þér verðið eins og börn komist þér aldrei inn í himnaríki. Í guðspjalli dagsins spyr fræðimaður Jesú um það hvert sé æðst allra boðorða. Fræðimaðurinn hafði þá þegar heyrt Jesú tala við hóp manna um tvö aðskilin mál sem enn eru fólki hugleikin, efnahagsmál annars vegar, um það hvort gjalda ætti keisaranum skatt og svo eilífðarmálin eða upprisuna hins vegar. Nú vill fræðimaðurinn fá hnitmiðað svar og honum verður að ósk sinni. Jesús vitnar í Gamla testamentið og flytur þekkta texta sem allir Gyðingar kunnu, texta úr 5. Mósebók (6.4.). Hann grípur til texta sem kallaður er Shema á hrebresku og merkir: heyr, hlustið, takið nú eftir. „Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn!“ Svo notar hann annan texta og nú úr 3. Mósebók. Jesús umorðar textann í Þriðju Mósebók 18.19 í svari sínu en þar segir orðrétt: „Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.“ Með þessum tilvitnunum dregur Jesús saman kjarna þess sem máli skiptir í þessu lífi. Hann setur þetta efst og þá fellur annað í skuggann og margt af því sem við skiljum ekki og þolum ekki í Biblíunni hættir að skipta máli og sumt verður bara marklaust eins og til að mynda lögmálið auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Hann setur þessi tvö boðorð um elskuna efst á blað og býr til úr þeim eitt sem við köllum Tvíþætta kærleiksboðorðið. Já, það er eins og þráður spunninn úr tveimur þáttum sem báðir fjalla um að elska, fyrri þátturinn um að elska Guð, hinn síðari um að elska aðra og að hafa heilbrigða sjálfsmynd. Orðin úr Mósebókunum voru rituð á hebresku og Jesús talaði arameísku en orð hans voru síðar rituð á síður Nýja testamentisins og þá á grísku. Blæbrigðamunur er alltaf á merkingu orða þegar þýtt er á milli tungumála. Frumtextinn á hebresku segir í raun þetta um að elska náungann og sjálfan sig: Þú skalt elska náungann af því að „hann er maður eins og þú.“ Hann er maður eins og þú! Hér erum við öll minnt á samkenndina, það að setja okkur í spor annarra og muna það á hverri tíð að hver einasta manneskja á þessari jörð er maður eins og ég og þú. Menn sem teljast til mikilmenna og hinir sem við köllum skúrka eru menn eins og við. Þú ræður mestu um það hverskonar manneskja þú ert eða verður, hvort þú lætur hið góða ráða í lífi þínu eða hið illa. Landamæri hins illa og góða liggja ekki úti í hinum stóra heimi, milli islam og kristni, austurs og vesturs, norðurs og suðurs, heldur milli góðs og ills í hjarta þínu og mínu.
Við Íslendingar erum gæfuþjóð vegna þess að við erum mótaðir af boðskap kristninnar um að elska náungann og virða aðra. Menntakerfið, heilbrigðisþjónustan og í raun allar stofnanir þjóðfélagsins eru mótaðar af mannskilningi kristinnar trúar. Það er í tísku að skilgreina og setja sér markmið. Spyrja má: Hvert er markmið skólanna, heilbrigðisþjónustunnar, almannatrygginga? Svarið er einfalt: Að elska náungann. En stendur það eitt og sér að elska náungann? Engin gildi geta svifið í lausu lofti. Þau verða að hafa einhvern grunn, bakland eða innistæðu eins og traustur gjaldmiðill. Boðið um að elska náungann hvílir á grunni elsku Guðs og þeim mannskilningi sem elska hans boðar. Þegar Jóhannes guðspjallamaður lýsir Guði notar hann ekki nema þrjú orð: Guð er kærleikur. Innsta eðli allrar tilverunnar, hugsunin að baki öllu sem til er, er elska. Það er gott að minna sig á þessa staðreynd í lífsbaráttunni sem við öll tökum þátt í með einum eða öðrum hætti. Veröldin hefur ástina í hjartastað. Og lífið snýst þar með um að vera á bandi elskunnar, á bylgjulengd kærleikans.
Við heyrðum lesna þrjá biblíutexta fyrr í messunni. Sá fyrsti inniheldur boðorðin sem við þekkjum öll og kunna að hljóma harkaleg og hafa í sér krefjandi tón. En þau hefjast á þessum mikilvæga inngangi sem setur þau í samhengi: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.“ Hér kynnir Guð sjálfan sig sem frelsara og það er á grundvelli frelsunar hans og elsku sem boðorðin hvíla. Í ljósi inngangsins um björgun Guðs verður tónninn í fyrsta boðorðinu allur annar því þar segir í raun: Ég er Guð sem bjargaði þér. Treystu mér en ekki öðrum guðum. Við erum frjáls, eða eigum í það minnsta að vera það, höfum í verki Krists og kenningum verið leidd út úr þrælahúsi. Nema við séu enn stödd í fjötrunum og vitum ekki af frelsuninni, vitum ekki í hverju frelsunin er fólgin? Í franskri þáttaröð um tímabil nýlenduveldis og þrælahalds, sem nýlega var sýnd í Sjónvarpinu, var atriði þegar blökkukona fékk frelsi. Þykkur málmhringur sem hún bar um hálsinn var tekinn af henni. Hún varð laus við helsið. Orðið frjáls er myndað af samskonar gjörningi, að vera frí-hálsuð, laus við helsi eða hálsband. Sá sem er frjáls er frí-hálsaður. Við erum frjáls eins og Ísraelsþjóðin þegar hún hafði verið leidd út úr Egyptalandi. Guð hefur frelsað okkur í Kristi, birt okkur í lífi hans nýjan skilning á stöðu okkar í tilverunni. En hvernig förum við með þetta frelsi? Hvernig kemur það fram í lífi okkar að við erum frjálsar manneskjur á grundvelli kenninga Krists? Horfum út í hinn stóra heim og spyrjum: Hvernig væri til að mynda ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs ef Ísraelsmenn færu eftir hinu tvíþætta kærleiksboðorði Jesú sem tekið er úr þeirra eigin Biblíu, Gamla testamentinu? Og hvernig væri heimurinn ef heimskir menn beittu ekki Guði fyrir sig í hefndarverkum og styrjöldum? Og hvernig væri þjóðfélag okkar ef við lifðum betur í anda elskunnar? Erum við frjáls? Þrengir eitthvað að hálsi okkar? Hvert er helsið í lífi okkar?
Lausnarorð margra á liðnum árum er frelsi en af því orði er myndað orðið frjálshyggja sem skírskotar til frjáls markaðar, frjálsra viðskipta. Og víst er að margt gott hefur frelsið í þeim efnum leitt af sér, en um leið blasir það við okkur, einmitt nú á þessum síðustu dögum sem aldrei fyrr, að frelsið hefur á sér fleiri hliðar og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Höfum við höndlað frelsið? Svari því hver fyrir sig.
Gildishlaðin hugtök geta aldrei staðið ein og sér. Frelsi getur aldrei staðið út af fyrir sig. Frelsi fylgir nefnilega annað hugtak og það er hugtakið ábyrgð. Frelsi án ábyrðar leiðir af sér helsi. Frelsi sem hefur ekkert mótvægi, ekkert aðhald, engar skyldur, má líkja við blöðru fyllta af gasi, sem svífur frjáls og lyftist hærra og hærra og tútnar út þar til hún springur vegna þess að enginn heldur í þráðinn og skapar jarðsamband. Það er talað um taumlaust frelsi, það gengur aldrei. Og frelsi er ekki bara frelsi frá einhverju heldur miklu fremur frelsi til einhvers, frelsi til að elska, frelsi til góðra verka.
Ég verð með hveru árinu sem líður heillaðri af hinni skynsömu kristnu sýn á manninn, sem sér hann í jafnvægi, annars vegar sem kórónu sköpunarverksins, frjálsan og færan, en hins vegar sem syndugan, breyskan og brothættan. Hæfileiki mannsins til að elska gerir honum kleift að gera hið góða en breyskleikinn gerir það að verkum að honum hættir til að rata í ógöngur þar sem síngirnin gerir hann gráðugan og gleyminn á þarfir náungans. Af þessum sökum þarf að fara varlega í að veita honum sjálfdæmandi vald. Við búum við lýðræðishefð þar sem sjónarmið fjöldans fá að ráða og í þjóðfélaginu eru viss svið sem ætla má að ekki verði sinnt með viðunandi hætti í þágu almennings nema að þau séu undir yfirráðum og í höndum fjöldans. Og hér koma orð trúarinnar enn til áminningar og leiðbeiningar: Þú skalt elska náungann því að hann er maður eins og þú. Við, breyskar manneskjur, þurfum að muna þetta. Þessi hugsun er forsenda réttláts þjóðfélags, samkenndin með öðrum og skilningurinn á kjörum annarra.
Fyrir nokkrum árum hitti ég á förnum vegi mann sem ég hafði þekkt árum saman. Hann var þá á sjötugsaldri og var í meðferð á sjúkrahúsi vegna alvarlegs meins. Hann var dauðvona. En þegar ég spurði hann út í líðan hans fann ég að í gegnum þjáninguna skein gleði sem stafaði af því að hann hafði fundið það sem hann þráði alla ævi sína. Honum hafði þá nýverið auðnast að finna móður sína sem hann varð viðskila við þegar hann var ættleiddur sem barn. Nú gat hann kvatt þennan heim í sátt.
Að vita og þekkja uppruna sinn, geta staðsett sig í tilverunni er ein af frumþörfum hverrar manneskju. Og hvort sem við þekkjum jarðneska foreldra okkar eða ekki þá stöndum við frammi fyrir stærstu spurningunni: Hver er faðir alls sem er - faðir, móðir, frumlag, forsenda? Engin spurning er mikilvægar þessari og svarið við henni hefur úrslitaþýðingu fyrir alla menn, hvort sem þeir með niðurstöðu sinni hafna Guði eða ekki.
Maðurinn sem ég hitti fann móður sína. Strákurinn í sögunni, sem naut gjafmildi konunnar, sagði: Ég vissi að þið Guð væruð skyld. Og unga brúðurin í myndinni Mamma mia, fann föður sinn og móður sína líka á nýjan hátt þegar mamman fann og viðurkenndi sjálfa sig og tilfinningar sínar. Góðar sögur hafa góðan endi. Hvernig mun sagan þín enda? Mun hún enda í taumlausu frelsi og þar af leiðandi tómleika vegna þess að lífið snerist um innantómt dót og eftirsókn eftir vindi? Eða endar saga þín í lofsöng vegna þess að það var innihaldsríkt líf sem lifað var á grunni elskunnar?
Þessi veröld á sér föður á himnum sem lætur sér annt um sköpun sína. Guð elskar þig. Hann hefur birt það í orði sínu. Og best og fegurst hefur hann talað í orðum og verkum Jesú Krists sem kenndi okkur að trúa á Guð kærleikans. Hann sagði okkur að ávarpa hann sem föður er hann kenndi okkur að biðja Faðir vor. Og hann gekk lengra því hann kenndi okkur að tala við Guð sem pabba þegar hann notaði arameíska orðið Abba um Guð.
Abba, Mamma mia - Guð er pabbi og mamma - og hann er miklu meira en þessi jarðnesku myndlíkingar gefa til kynna. Hann er stærri en okkar takmarkaði heili ræður við að skilja en um leið svo auðskilinn að barnið skynjar hann. Svona er nú lífið í senn flókið og einfalt, svo einfalt að það að eiga samfélag við Guð er ekki flóknara en að segja: Faðir vor ...
Megi sú fagra og góða bæn fylgja okkur alla daga, allt til enda. Þá endar sagan okkar vel.
Við erum skyld, ég og þú, sömu ættar. Við erum börn Guðs og náungi okkar er maður eins og ég og þú.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.