Hungur!

Hungur!

Þetta hungur rekur manneskjuna áfram þegar hún skapar sér til líf, við finnum það á unglingsárunum þegar lífið blasir við, við finnum það andspænis skemmtilegum verkefnum í námi og starfi, við finnum það þegar við klífum fjöll og njótum náttúrunnar, við finnum það þegar við erum ástfangin.

"Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“ (Jh 6.47-51)

Þrjár brauðsögur Þrjár brauðsögur koma í hugann. Fyrsta gerist ekki svo langt héðan, í Mosfellsdalnum. Í Sögunni af brauðinu dýra eftir Halldór Laxness segir frá vinnukonu prestsins á Mosfelli, Guðrúnu Jónsdóttur. Hún hélt yfir Dalinn til að baka hverabrauð en villtist upp á Mosfellsheiði og fannst ekki fyrr en eftir nokkra daga. Brauðið sem henni hafði verið trúað fyrir, hafði hún ekki snert. Því sem manni er trúað fyrir, er manni trúað fyrir, segir Guðrún, og setur fordæmi um hvernig er að vera trúr yfir litlu.

Hefðum við ekki álitið það heimsins eðlilegasta hlut að manneskja sem villist í óbyggðum, leggi sér til munns matinn sem hún hefur meðferðis, til að seðja hungrið og hjálpa sér í erfiðum aðstæðum? Jafnvel presturinn, eigandi brauðsins, hefði örugglega ekki álasað henni fyrir að gæða sér á því, vegna þess í neyð gilda aðrar reglur en öllu jafna.

Brauð af himnum Matarlaust fólk í óbyggðum er einmitt viðfangsefni lexíu dagsins. Það er önnur brauðsagan. Við skyggnumst inn í hina löngu eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna sem tók allt í allt fjörutíu ár, undir leiðsögn Móse. Einu sinni sem áður hefur þjóðin rekist á hindranir og erfiðleika, mórallinn er í botni og lýðurinn möglar. Leiðtoginn Móse brýtur heilann um hvað skal gera, til að halda fólkinu fókuseruðu, sáttu og láta það ekki missa sjónar á takmarkinu. Þá mæta þeim gjafir náttúrunnar, gjafir Guðs, og allt í einu er nóg af mat. Brauðið sem þekur jörðina, verður þeim til bjargar og hver og einn safnar nóg fyrir sig og sína. Sumir söfnuðu miklu en aðrir litlu - og ekkert varð afgangs hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. Allir höfðu nóg og enginn hafði of mikið.

Brauð sem seður hungur Þriðja myndin af brauðinu kemur úr ævintýraheiminum í bók Astrid Lindgren um elsku Míó minn. Þar var það amman í skóginum - sem var amma smalans Nonno - sem átti brauðið sem seður hungur. Þar var líka brunnurinn sem slökkvir þorsta og brunnur sem hvíslar á kvöldin gömul ævintýri. Hvíslið í brunninum helst í hendur við hvíslið á milli trjánna, og tónanna úr flautum smalanna, en það segir frá hlutverkinu sem Míó konungssyni er ætlað - að drepa vonda riddarann Kató en illskuverk hans hafa legið eins og mara á landinu í fjarskanum og börnum þess. Brauðið sem seður hungur lék lykilhlutverk í þessari áætlun, því á ögurstundu gaf það Míó kraft til að halda áfram og framkvæma það sem var ætlast til af honum.

Brauð er ekki bara brauð, eins og við sjáum á þessum sögum. Brauðið hennar Guðrúnar varð henni siðferðismælikvarði, sem hún einsetti sér að lifa eftir og sem hún gat speglað sig í. Brauðið sem féll af himnum og kom Ísraelsþjóðinni til bjargar, er tákn um gnægtir og nægjusemi í senn, hinn vandrataða veg sjálfbærninnar, þar sem vistkerfið viðheldur sjálfu sér án þess að upp komi skortur eða ofgnægtir hlaðast upp. Brauð ömmunnar í landinu í fjarskanum var töfrum gætt - eða þess eðlis - að þrjóta aldrei heldur vera til taks og veita hinum hungraða styrk til að framkvæma það sem honum var ætlað og uppfylla þannig tilgang sinn.

Hvorki skortur né offramboð Mig langar að nema staðar við sjálfbærnina, sem vísar í margar áttir í aðstæðum okkar í dag. Hvort sem um er að ræða samhengi okkar eigin heimilis, eigin neyslu, í samhengi þjóðarinnar okkar eða jarðarinnar allrar, verðum við sífellt betur meðvituð um ójafnvægið sem ríkir. Á meðan of mikill matur er vandamál á okkar slóðum er skortur á mat vandamál annars staðar. Hér er sóun á mat viðvarandi, matur sem skemmist eða er hent óskemmdum af því að það er allt of mikið á diskunum, á hlaðborðinu, í grænmetisborðinu og nestisboxinu. Annars staðar þjáist fólk og deyr vegna þess að það hefur ekki aðgang að mat.

Iðnaðurinn í kringum matvæli er líka undir smásjánni þessa dagana. Það virðist sem ótrúlega oft að matvæli séu seld án þess að framleiðendur standi undir því sem þeir fullyrða. Ekkert kjöt í kjötbökum, hestakjöt í nautaborgurum og svo frameftir götum. Fjölmargar siðferðilegar spurningar vakna sömuleiðis í meðferð á dýrum sem eru ræktuð til manneldis og allt á þetta heima í stóra samhenginu um jörðina og takmörkuð gæði hennar.

Matur og hjarta Sambandið okkar við mat er líka flókið og viðkvæmt. Stundum truflast sambandið sem við höfum við matinn og við borðum meira en við þurfum og meira en er gott fyrir okkur. Önnur truflun er að sniðganga mat sem er góður og nauðsynlegur, til að megra sig eða hafa áhrif á líkamann. Sambandið við matinn verður ekki bara til með huganum heldur hjartanu. Þar sé ég tenginguna við orð Jesú sem koma til okkar í dag: "Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs."

Jesús er brauðið sem seður hungur, hungur eftir ást, hungur eftir lífi, hungur eftir tilgangi og hungur eftir frelsi. Það er þetta hungur sem rekur manneskjuna áfram þegar hún býr sér til líf, við finnum þetta vel á unglingsárunum þegar lífið blasir við, við finnum þetta andspænis skemmtilegum verkefnum í námi og starfi, við finnum þetta þegar við klífum fjöll og njótum náttúrunnar, við finnum þetta þegar við erum ástfangin.

Hungur í líf sem meikar sens Áhugavert viðtal var í vikunni sem leið í útvarpinu, við unga konu sem er hæfileikaríkur tónlistarmaður og tónskáld. Hún er einnig ein af fáum sem hafa stigið fram hér á landi og rætt opinberlega um einhverfuröskun sem hún var greind með fyrir rúmlega ári síðan.

Áður en hún var greind með Aspergerheilkennið, hafði hún vitaskuld þurft að lifa með fötluninni sem því fylgir. Greiningin sjálf kom því eins og léttir sem útskýrði margt fyrir konunni sjálfri og umhverfi hennar, og breytti lífi hennar til hins betra. Það sem heillaði í viðtalinu var ást og ákafi Mamiko í garð tónlistarinnar, sem skipar stóran hluta af lífi hennar. Hún hefur lokið burtfararprófi í píanóleik, útskrifast úr tónsmíðadeild og einbeitir sér núna að jazzpíanóleik. Stóri draumurinn er að fá tækifæri til að semja tónlist við kvikmynd. Í þættinum voru flutt tvö verk eftir Mamiko. Útskriftarverkefni hennar var Japönsk sálumessa sem hún samdi til afa síns og ömmu sem eru japönsk, við ljóð afans til ömmunar.

Hungur eftir lífi sem gengur upp og er skiljanlegt, þótt það sé líf með fötlun, og hungur eftir tónlist er það sem knýr ungu konuna Mamiko áfram. Guðrún vinnukona á Mosfelli hefði getað satt líkamlegt hungur sitt með brauði prestsins en hún valdi að standa frekar við sitt. Það gaf henni meira að geta afhent það sem henni var trúað fyrir, þótt allir hefðu skilið ef hún hefði látið undan svengdinni og gætt sér á brauðinu. Nú var hún manneskja sinna orða, það nærði hana og gaf henni sjálfsvirðingu, sem hana hungraði í.

Ég er hið lifandi brauð, segir Jesús. Að hverju beinist hungrið í lífi þínu? Með hverju svarar þú því? Með hvaða brauði seður þú hungrið? Tökum á móti hinu lifandi brauði sem engin svik eru í. Tökum á móti lífi í jafnvægi og sátt sem við fáum að þiggja af himnum. Þar er nóg fyrir okkur og nóg fyrir alla.