Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið oss. Hann segir við þá: Farið þér einnig í víngarðinn.Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.
Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?
Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Mt. 20,1-16
Heimsbyggðin hefur skolfið undanfarið af reiði múslíma víða um heim vegna birtingar teikninga af Múhameð spámanni sem birst hafa í blöðum í Danmörku, Noregi og víðar. Reiðin sem þær hafa leyst úr læðingi kemur okkur spánskt fyrir sjónir og við undrumst hatrið og það hugarfar að Danir og Norðmenn séu réttdræpir þótt þeir hafi sem einstaklingar ekkert til saka unnið. Krafist er dauða teiknaranna þó að myndirnar hafi verið birtar í blöðum án þeirra leyfis. Það var athyglisvert að lesa um það í vikunni að norsk kona hefði bjargað lífi sínu í miðausturlöndum með því að segjast vera íslensk.
Víða um lönd fer fólk í kröfugöngur og sums staðar er danski fáninni brenndur, jafnvel þótt bent hafi verið á að í honum sé helgasta trúartákn kristinna manna. Hvað er á seyði?
Múslímar í miðausturlöndum gera engan greinarmun á trúarbrögðum og stjórnmálum. Lög Kóransins eru öðrum lögum æðri og móta almenna löggjöf í ríkjum þeirra. Þeir telja sig hafa verið kúgaða af vestrænum þjóðum um langt árabil og arðrænda meðal annars á þann hátt að olíuverði hafi verið haldið niðri. Yfirgangur þeirra hafi meðal annars sýnt sig í innrásinni í Írak og Afghanistan. Múslímar líta á Vesturlönd sem kristnar þjóðir og þar af leiðandi séu þeir ofsóttir af kristnum mönnum í heild. Sú tilfinning er mjög djúpstæð og á rætur að rekja allt til krossferðanna er kristnir menn fóru fram með ránum og morðum í löndum þeirra í mið-austurlöndum að kristnir menn séu þeim fjandsamlegir. Reiðin vegna birtingar myndanna af Múhameð sýnir fyrst og fremst uppsafnaða reiði þessa fólks. Myndbirtingarnar voru aðeins kornið sem fyllti mælinn og er ásamt ofbeldisfullu framferði vestrænna þjóða árás á sjálfsvirðingu þeirra. Múslímum finnst að þeim hafi verið sýnd lítilsvirðing á þann hátt að það sem er þeim helgast hafi verið troðið niður í svaðið. Myndbirtingarnar voru vatn á myllu öfgamanna sem bentu á að nú hefði verið farið yfir strikið. Sannleikurinn er hins vegar sá að um langt árabil hafa myndir af spámanninum Múhameð verið birtar í bókum og blöðum á Vesturlöndum án þess að það ylli vandræðum.
Öfgamenn á meðal múslíma hafa verið áberandi víða um lönd á undanförnum árum og margir eru uggandi vegna þess að þeir virðast hafa uppi áform um að vinna hryðjuverk á trúleysingjum á Vesturlöndum, eins og þeir kalla okkur. Margir múslímar taka trú sína alvarlega og vinna að útbreiðslu hennar á Vesturlöndum þar sem þeim fjölgar ár frá ári. Víða eru þeir orðnir að afli sem ekki verður gengið fram hjá. Sumir hrukku í kút er biskup Íslands hélt því fram í nýjársprédikun árið 1999 að jafnmargir sæktu moskur og kirkjur í viku hverri í Englandi. Hvernig er það í Hollandi, Þýskalandi og Frakklandi? Í Hollandi eru dæmi um að kirkjum hafi verið breytt í moskur. Raddir heyrast um að gera slíkt hið sama í Danmörku vegna dræmrar kirkjusóknar sums staðar.
Atburðirnir undanfarið hafa fært okkur heim sanninn um að trúarbrögð sem tekin eru alvarlega eru mjög sterkt afl sem móta lífssýn fólks og breytni. Þau rista dýpra en stjórnmál. Á tíma alþjóðavæðingar berast miklu meiri erlend áhrif til okkar litla Íslands en áður eru dæmi um og fólk hvaðanæva að úr heiminum hefur ákveðið að setjast hérna að. Það flytur að sjálfsögðu með sér trú sína og siði og margir þeirra taka trú sína mjög alvarlega. Sumum okkar finnst sú tilhugsun ógeðfelld að moska muni rísa á miðlægum og áberandi stað í Reykjavík eins og allt stefnir í. En er það ekki hið besta mál? Verður það okkur ekki til umhugsunar? Fær það okkur ekki til að velta því fyrir okkur hvers virði hin kristna trú er okkur og hvort við viljum hlúa að henni og halda áfram að byggja okkar íslenska samfélag á gildum hennar í heilbrigðiskerfi, skólakerfi og löggjöf eða viljum við önnur grundvallargildi en mannúð, kærleika og jöfnuð?
Guðpjallið í dag greinir frá tíma sem er ekki ósvipaður heyskap á íslenskum sveitabæ, sérstaklega áður fyrr er allir sem vettlingi gátu valdið þurftu að hjálpa til við að koma heyinu í hlöðu á meðan þurrkur hélst, eða vertíð sem stendur í afmarkaðan tíma. Allir verða að hjálpast að við að vinna að aflanum áður en hann skemmist og skapa eins mikil verðmæti og hægt er. Það var uppskerutími í Ísrael. Tíminn til að koma vínuppskerunni í hús var stuttur því að haustregnið gat komið þá og þegar og eyðilagt hana. Það var því mikið í húfi að bjarga verðmætunum í hús í tæka tíð. Í sögunni er sagt frá vínbónda sem þurfti fleiri hendur en til voru á heimilinu og því fór hann á markaðinn í leit að verkamönnum. Hann kom aftur og aftur til að ráða fleiri. Þetta voru daglaunamenn sem fengu aðeins vinnu í einn dag í senn. Atvinnuleysi þýddi að lítið yrði á borðum í máltíðum á heimilum þeirra. Bóndinn í sögunni vildi fá eins margar hendur og hann gat til vinnu og fór því aftur og aftur á markaðinn í leit að vinnuafli. Tíminn virðist hafa verið það knappur að hann gaf öllum sem hann fann tilboð sem þeir gátu ekki hafnað, full laun þótt liðið væri á daginn. Mikið lá við, tíminn var knappur.
Það eru tvö áhersluatriði í þessari sögu sem Jesús vill miðla okkur. Í fyrsta lagi er það örlæti bóndans sem greiddi öllum jafnt, hvort sem þeir unnu allan daginn eða aðeins hluta úr degi. Við erum, held ég, sammála verkamönnunum sem unnu allan daginn og voru óánægðir með að fá ekki hærri laun en þeir sem ráðnir voru um eftirmiðdaginn. En bóndinn stóð við sína samninga. Hitt atriðið í sögunni er mikilvægi þess að bjarga uppskerunni í hús áður en það verður of seint. Uppskeran í bókstaflegum skilningi snýst um inngöngu í Guðs ríki og hverjum það stendur til boða. Akurinn er starfsvettvangur Guðs sem er allur heimurinn. Uppskeran er mannkynið og sá hluti hennar sem bjargast í hús en það er fólk sem trúir á Guð í Jesú Kristi og leyfir honum að móta líf sitt. Ísrael, hin útvalda þjóð Guðs, var í sérstöku sambandi við Guð. Með komu Jesú var Ísrael ekki eingöngu hin útvalda þjóð Guðs heldur kirkjan. Hlutverk hennar er að uppskera, bjóða eins mörgum og hægt er inn í Guðs ríki og mögulegt er. Þess vegna sagði Jesús í öðru samhengi: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru“ (Jh. 4,35) og í annan stað: Uppskeran er mikil en verkamenn fáir, biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar“ (Matt. 9,37-38). Það síðasta sem hann sagði lærisveinum sínum var: „Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum“ (Matt 28,20). Jesús er vínbóndinn. Honum er í mun að eignist samband við sem flesta, að þeir kynnist honum, geri hann að hluta af lífi sínu. Þess vegna er kirkja á Íslandi og í Keflavík. Þess vegna eru kristniboðar sendir til annarra landa. Hér eru allir jafnir. Allir uppskera það sama, fyrirgefningu syndanna og eilíft líf hvort sem þeir ganga inn í guðsríkið sem börn eða gamalmenni. Enginn getur mútað sér leið inn. Bóndanum í sögunni lá á. Jesú liggur á að bjarga uppskerunni í hús. Bóndinn var rausnarlegur. Þannig er afstaða Jesú til okkar sem einstaklinga og allra annarra. Hann hvetur okkur til að koma til sín jafnvel þótt við vildum geta strokað yfir ýmisleg í fortíðinni. Páll postuli vildi ekki missa af því og líkir lífi sínu við kapphlaup þar sem aðeins einn fær sigurlaunin. Hann hagaði lífi sínu þannig að hann fengi þau og hvetur okkur til að gera það einnig. Sigurlaun okkar eru óforgengileg, eilíft líf sem hefst hér og nú í samfélaginu við Guð.
Í Opinberunarbókinni segir um endi tímanna: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“ (Op. 21,5). Það er saga margra sem hafa verið hluti af þeirri uppskeru sem bjargað hefur verið í hús. Ég hef kennt á ótalmörgum Alfa-námskeiðum en þau hafa verið kennd hér í kirkjunni í mörg ár, eins og mörg ykkar vitið. Það er stórkostlegt að verða vitni að því hvernig trúin glæðist smátt og smátt hjá mörgum þátttakendanna og sumir eignast nýtt líf.
Man eftir þekktum manni í Reykjavík sem sagði eitt sinn í umræðum á námskeiðinu: Ég vildi að ég hefði kynnst trúnni fyrr. Mér finnst verst, er ég lít til baka, að hafa eytt svo mörgum árum af lífi mínu án þess að hafa iðkað hana.
Ung, hámenntuð kona bað mig síðast liðið haust eftir krókaleiðum að koma og biðja fyrir heimili sínu vegna þess að henni fannst eitthvað óhreint vera þar. Hún vaknaði upp á nóttunni með martraðir og fannst einhver ill vera vera inni hjá sér. Hún átti erfitt með svefn. Sonum hennar leið einnig illa. Eftir að ég og vinur minn höfðum beðið allt illt burt úr íbúð hennar í Jesú nafni og fyrir henni gerðum við okkur líklega til að fara, en þá spurði hún hvort hún ætti ekki að greiða okkur fyrir að koma. Ég sagði að hún þyrfti það ekki en skyldi inna greiðsluna af hendi með því að sækja Alfa-námskeið. Eftir fyrirbænina hefur hún og synirnir sofið vel og ekki orðið varir við neitt illt. Hún sótti Alfa-námskeið og hefur eignast nýja sýn á lífið. Hún er hámenntuð raunvísindakona sem taldi að ekkert væri til í heiminum annað en það sem hægt væri að vega og mæla. Nú er hún að læra að feta veg trúarinnar og hefur eignast gleði og öryggi sem hún þekkti ekki áður. Annað dæmi er ungur maður sem á föður sem er múslími. Að námskeiðinu loknu skírði ég hann. Trúin hefur haft afgerandi jákvæð áhrif á líf þessa manns. Ég gæti nefnt mörg önnur dæmi og veit að mörg slík væri hægt að tína til héðan úr Keflavík.
Hlutverk okkar sem kirkju hér í Keflavík er að miðla þessum boðskap til allra íbúa þessa bæjarfélags. Við erum öll verkamenn og þátttakendur í því starfi. Ég talaði í upphafi um sterkar tilfinningar múslíma vegna birtingar teikninga af Múhameð spámanni. Kristnir menn hafa ekki alltaf komið fram við múslíma af kærleika Krists. Einnig þeim er boðið inn í guðsríkið. Þeir eru einnig hluti af uppskerunni sem þarf að bjarga í hús. Kristið fólk, kirkja, sem leyfir kærleika Krists að ríkja í samfélagi sínu laðar að sér fólk, einnig múslíma. Ísland þarfnast lifandi kirkju. Við erum kirkjan. Við þurfum að halda vöku okkar. „Hver sem vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem ausýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinnni, …- segir Drottinn. Tökum þetta með okkur út í vikuna. Öll getum við verið verkamenn hvert á okkar stað í daglegu lífi.