Þegar degi hallar

Þegar degi hallar

Þegar sjálfsmyndin er brotin geta samskipti við annað fólk orðið manneskjunni þungur baggi, þar sem vanmáttur og óheilbrigði koma í veg fyrir að tengslamyndunin eigi sér stað á jafningjagrunni.

Hugleiðing flutt í æðruleysismessu í Dalvíkurkirkju

Þóra Jónsdóttir yrkir um sjálfsmyndina með eftirfarandi hætti:

Snertu varlega ófullkomna sjálfsmynd mína að hún ekki máist

Veldu henni stað á vegg hjarta þíns móti birtunni

og hún mun skýrast í vitund minni.

Þegar ég hóf störf sem æskulýðsfulltrúi og síðar æskulýðsprestur í Akureyrarkirkju fór ég inn í Verkmenntaskólann á Akureyri með lífsleikniverkefni Þjóðkirkjunnar í samstarfi við Glerárkirkju.

Verkefnið sem við kenndum snérist um samskipti og í stuttu máli um það hvernig sjálfsmynd okkar og sjálfsvirðing endurspeglast allt okkar líf í samskiptum við það fólk sem við mætum á lífsleiðinni.

Sjálfsvirðingin felur m.a í sér tvo þætti, annars vegar er um að ræða sjálfsmyndina sem felur í sér trú á eigið gildi eða þá tilfinningu sem einstaklingurinn hefur fyrir eigin gildi.

Í öðru lagi er um að ræða sjálfstraust, sem er trú á eigin getu, það er það að einstaklingurinn trúir því að hann sé fær um að gera það sem hann ætlar sér í lífinu.

Trú á eigin gildi og trú á eigin getu.

Ég nefndi alltaf í þessum stundum við krakkana að trúin á eigið gildi verði að koma á undan trúnni á eigin getu og það að trúa því að við séum einhvers virði og skiptum máli sem manneskjur er forsenda fyrir því að við trúum því að við höfum eitthvað fram að færa, sem er einhvers virði.

Það er svo ótal margt sem getur orsakað það í lífinu að sjálfsmynd okkar bíður hnekki, alveg frá fyrstu tíð og fram eftir lífinu öllu. Við getum orðið fyrir áföllum í æsku sem veikja það grundvallatraust sem við þurfum á að halda til að takast á við lífið síðar meir, getum orðið fyrir einelti bæði sem börn og sem fullorðið fólk, þar sem sjálfsmyndin er smátt og smátt brotin niður og trúin á okkar eigið gildi og getu verður eitthvað sem erfiðara og erfiðara er að viðhalda eftir því sem niðurbrotið verður meira.

Við getum svo brotið okkur niður sjálf, með vitlausum ákvörðunum, mistökum, með hegðunarmynstri sem meiðir okkar persónur og aðra sem við erum samferða í lífinu og skömminn og sektarkenndin verða fylgifiskar sem oft og tíðum erfitt er að segja skilið við.

Þegar skömm og sektarkennd fylgja okkur er oft erfitt að bera höfuðið hátt meðal fólks og vera þess, sem er þannig verður frekar víkjandi almennt í samskiptum.

Þegar sjálfsmyndin er brotin geta samskipti við annað fólk orðið manneskjunni þungur baggi, þar sem vanmáttur og óheilbrigði koma í veg fyrir að tengslamyndunin eigi sér stað á jafningjagrunni.

Meðvirkni, jámennska, vantraust, ótti við að standa með sjálfum sér og erfiðleikar með að taka gagnrýni eru oft afleiðingar brotinnar sjálfsmyndar og geta litað samskipti fólks svo um munar.

Í slíkum aðstæðum getur myndast tilfinningalegt stjórnleysi sem verður til af því að við erum ekki máttug í þeim aðstæðum að mynda tengsl við annað fólk. Heldur ríkir vanmáttur og það skiptir svo miklu máli í öllu bataferli að vinna á slíku stjórnleysi, að ná að vera við stjórn í sínu lífi þegar kemur að tilfnningum í garð annarra og sjálfs sín. Slíkur vanmáttur getur einnig verið valdur af því að við freistumst til að deyfa okkur með áfengi, fíkniefnum eða einhverju öðru, því kvíðinn, vanmátturinn og stjórnleysið veldur svo mikilli vanlíðan og svo miklum sársauka.

Það er svo vond tilfinning að vera ekki við stjórn í sínu lífi og í þeim samskiptum, sem maður á í á lífsleiðinni og vera sífellt að upplifa vanmátt og auðmýkingu vegna þess að trúin á eigin getu og gildi er ekki til staðar eða hefur beðið hnekki af fyrrgreindum ástæðum.

Góð og heilbrigð samskipti og tengsl geta nefnilega varpað birtu á sjálfsmyndina okkar, á meðan meiðandi samskipti varpa á hana skugga og sífellt erfiðara getur orðið að ná henni aftur fram og byggja hana upp á ný.

Afleiðingarnar geta birst í félagslegri einangrun og félagsfælni þar sem fólk hörfar til baka og forðast mannleg tengsl og vantraust verður stöðugt meira á því að fólk taki manni eins og maður er og það sé tilbúið að standa með manni í lífinu og það er staða sem enginn vill vera í, að vera einn á ferð.

Í einum af mínum uppáhaldstextum í Biblíunni segir frá því þegar tveir vinir Jesú eru á leið eftir páskaatburðinn upp til þorps sem heitir Emmaus og sem þeir ganga saman á veginum og ræða það sem gerst hefur, slæst maður í för með þeim og fer að spjalla við þá, en þeir gera sér ekki grein fyrir að það er Jesú sjálfur sem gengur með þeim á veginum.

Þegar þeir nálgast þorpið biðja þeir manninn um að vera hjá sér því kvölda tekur og degi hallar og þar sem þeir setjast niður til að matast saman, brjóta brauð og flytja þakkir, rennur upp fyrir mönnunum tveimur að það er Jesú sem hefur verið þeim samferða og í þeirri andrá hverfur hann fyrir augum þeirra.

Þessi frásögn af Emmausförinni lýsir því svo sterkt að mínu mati hvað við þurfum á hvert öðru að halda í lífinu, þörfinni eftir nærveru og návist og um leið hvað við þurfum að bera í brjósti trú á því að við göngum ekki ein á lífsleiðinni. Heldur eigum við okkur samferðafólk sem sér okkur, sem speglar veru okkar, sem varpar birtu á sjálfsmyndina okkar þannig að hún einmitt skýrist í okkar eigin vitund.

Við þurfum þannig að þora að treysta fólki fyrir því hver við erum, mistökunum okkar, ganga fram í auðmýkt og biðjast afsökunar á því, ef við höfum gert einhverjum rangt til. Og síðast en ekki síst þurfum við að kunna að fyrirgefa okkur sjálfum, skila skömminni og sektarkenndinni sem við berum í brjósti, ef þannig er fyrir okkur komið og muna að við sem manneskjur erum ekki fullkomin, við getum sagt klaufalega hluti, orðið vandræðaleg eða misst tillifnningalegt sjálfstæði okkar um stund.

Það að eiga sér ferðafélaga í lífinu sem sér og skilur getur gert kraftaverk og hjálpað veikri sjálfsmynd að styrkjast og minnkað óttann við að sitja uppi ein og án mannlegra tengsla.

Sterk trú á það að við göngum ekki ein og að yfir okkur vakir algóður Guð er líka máttugt vopn og getur aukið trúnna á að við höfum gildi sem manneskjur og að við höfum eitthvað fram að færa sem skiptir máli. Að eiga sér tilgang, samastað og góð tengsl við fólk er dýrmætara hverri manneskju en flest annað í lífinu.

Kirkjan og samfélag hennar getur nært slíka von og trú þegar hún miðlar heilbrigði og samfélagi sem boðar að þú sért velkomin sama hvaðan þú kemur eða hver þú ert. Samfélag þar sem við erum samferða og treystum á nærveru þess sem skilur þegar kvölda tekur og degi hallar í lífinu.

Amen.