Kæru kirkjugestir, gleðilega páska!
Nú er það vorið sem bíður okkar handan við hornið. Veturinn er að verða afstaðinn, í það minnsta samkvæmt almannakinu, og við tekur lífið sem kviknar með hækkandi sól og hlýnandi veðri. Nú bíðum við þess að taka á móti lífinu. Sumir bíða þess að sleppa af skólabekk, ljúka námi vetrarins og hlaupa út í vorið á meðan aðrir bíða þess að hefja vaktina á jötubandinu - vaktina sem gjarnan er löng og strembin en virðist svo sannarlega þess virði þegar saklaus augu lambsins opnast. Þessi nýju augu sem aldrei áður hafa litið dagsins ljós. Ég gleymi því aldrei þegar ég var stödd hjá tengdaforeldrum mínum í fyrsta skipti í sauðburði, og fékk þann heiður að standa næturvaktina í fjárhúsinu á eigin spýtur. Mér fannst mikið til þessarar ábyrgðar koma - ekki síst af því að ég var kannski enginn sérfræðingur í dýrahaldi en hafði engu að síður alltaf verið áhugasöm um sauðburð. Eftir að hafa lent í talsverðu basli við að stúka rolluna af sem líkleg var í næsta burð og runnið um leið eftir fjárhúsgólfinu endilöngu á sleipum Víking stigvélum, fannst mér ég vera orðin að uppistandara hjá 200 áhorfendum sem stóðu agndofa af undrun yfir þessari skelkuðu mannsskepnu sem þarna átti að vera þeim til aðstoðar. Ég minnist þess að hafa orðið hálf skömmustuleg þegar ég tilkynnti þeim í óðagáti upphátt að mér hefði ekki orðið meint af fallinu. Í þakklætisskyni fyrir þagmælskuna tókst mér þó að taka á móti einu lambi áður en vaktinni lauk. Þessi takmörkuðu kynni mín af sveitastörfum hafa gert mér fyllilega ljóst að bændur eru upp til hópa dugnaðarforkar, þeir eru ósérhlýfnir og óhræddir við að takast á við náttúruna og þau öfl sem hún býr yfir. Það þarf kjark í slíkt verk.
Á páskum minnumst við upprisunnar, þess merka atburðar sem svo erfitt er að skilja en er engu að síður einn merkasti atburður sem mönnunum hefur verið falið að varðveita. Trúin um hinn upprisna Jesú voru ný og óheyrilega mikil skilaboð sem báru uppi trúboð frumkristninnar - sú trú var jafnframt kveikjan að siðferðisboðskap Nýja testamentisins. Hér er innblásturinn fyrst og fremst lífið sem lifir áfram, uppsprettan og vonin. Markúsarguðspjall, sem segir frá atburðum dagsins um upprisuna, er talið elst guðspjallanna en þar er að finna viss smáatriði sem lífga frásögnina og hljóma líkast því að vera minningar einhvers sem staddur hefur verið mitt í hringiðu atburðanna. Markús segir einn frá því að Jesús hafi sofið á kodda í skut bátsins þegar stormur brast á og Markús segir einn frá því að Jesús hafi litið með ástúð á ungan og ríkan mann, sem kom til hans og spurði hvað hann ætti að gera til að öðlast eilíft líf. Þá er Markús jafnframt eini guðspjallamaðurinn sem greinir frá því að Jesús hafi tekið börnin sér í faðm. Þegar slíkir fornir textar eru lesnir, er mikilvægt að gefa gaum að þessum smáu aukaatriðum sem gefa frásögninni líf og lit. Það er þó ekki þar með sagt að við eigum að lesa textann í blindni og taka á móti boðskapnum umhugsunarlaust, nei hann stenst nefninlega alveg gagnrýna hugsun, hugsun sem aldrei verður ofnotuð í þeim tilgangi að hún komi okkur að gagni, auki skilning og efli frjósemi hugans. Hún hjálpar okkur jafnframt að gera okkur betur grein fyrir þeim lífsgildum sem við viljum fylgja og lifa eftir. Gagnrýnin hugsun aðstoðar okkur í leitinni að því samfélagi sem við viljum lifa í. Slík hugsun er alltaf af hinu góða. Það er þó ekki sama á hvaða grunni hún er byggð. Það dugir ekki til að sitja við eldhúsborðið og hneykslast á nágrananum, nei gagnrýnin hugsun - svo hún verði marktæk, þarf að byggja á rökum. Vel ígrunduðum rökum.
Markúsarguðspjall leggur línurnar í allri frásögn af lífi og starfi Jesú. Það má segja að guðspjallið sé leikrit í fjórum þáttum þar sem sá síðasti greinir frá sigri upprisunar. Frásögnin af því þegar konurnar komu að gröf Jesú og sáu að gröfin stóð opin. Hægra megin í gröfinni sat ungur maður, klæddur í hvíta skikkju, konurnar urðu hræddar. En maðurinn sagði við þær: “skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upprisinn, hann er ekki hér”. Þessi frásögn af sigri upprisunnar myndar lokaþátt í fjórskiptri lífssögu Jesú í Markúsarguðspjalli.
En hvað segir þessi texti sem ritaður var á síðari hluta 1. aldar, okkur sem hér erum stödd í dag? Hvernig getum við sett hann í samhengi við nútímann? Hér er boðskapurinn meðal annars vonin, vonin um hinn nýja tíma, vonin um vorsólina, vonin um lífið sem heldur áfram - vonin sem aldrei skal lögð til hliðar. Það er nefninlega alltaf von. Þegar við finnum til sársauka vitum við að við erum á lífi, við getum skynjað veruleikann, höfum tilfinningar og ákveðið næmi sem gerir okkur jafnframt kleift að finna gleði, hamingju og vellíðan. Stundum er það allt að því ógnvænlegt hvað þjáning og vellíðan virðast vera nátengdar og allt að því þrífast á hvor annarri. Úr harmi og sorg rís von, fyrirgefning og huggun - svo aftur von. Þannig sigrar lífið dauðann og þannig reis Kristur upp frá dauðum.
Þannig má líka segja að vorsólin sem ég minntist á hér áðan gefi okkur von. Hún er merki þess að lífið heldur áfram, nýtt líf kviknar, og annað vaknar úr dvala - springur út. Það er svo í okkar höndum að spila úr því lífi sem við tökum á móti og þiggjum. Í pistli dagsins úr Fyrra Korintubréfi segir á einum stað „Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig“. Hér er hugmynd Páls postula sú að reyna að höfða til skynsemi manneskjunnar með leiðbeiningum um hófsemi og nægjusemi. Páll leggur að einhverju leyti upp með ákveðna dygðasiðfræði sem auðvelt er að heimfæra á nútímann. Ekki eru öll svör Páls góð og gild í dag en hér vegur hann ýmis gildi hvert á móti öðru og ráðleggur svo það sem hann telur best. Hér eru í hávegum hafðar dygðir hins góða manns. Heimspekingurinn Friedrich Nietzsche var á þeirri skoðun að ekki væri til ein tegund af góðum manni. Nietzsche skrifaði á sinn kómíska hátt:
Hve heimskulegt er að segja: “svona á maður að vera!” Veruleikinn leiðir fyrir sjónir okkar heillandi úrval tegunda, gnægtir fjörlegra tilbrigða og breytilegra forma - og svo segir eitthvert vesælt siðferðispredikaragrey: “Nei! Maður á að vera öðruvísi.” Þessi þröngsýni vindhani þykist jafnvel vita hvernig menn skuli vera.
Það er svo sannarlega margt til í þessum orðum Nietzche en hér er ekki laust við að hann styðjist við gagnrýna hugsun. Það sem er athyglisvert í þessari nálgun Nietzche er fjölbreytileiki mannsins og ekki síst þær ólíku aðstæður sem maðurinn stendur frammi fyrir á misjöfnum tímum. Sem dæmi má nefna að konan í fornöld sem lét aldrei sjást svo mikið sem í beran handlegg og nútímakonan á baðströndinni hafa mjög ólíkann mælikvarða á velsæmi. Engu að síður geta þær báðar verið aðdáunarverðar, hvor á sinn hátt. Mannkostir geta verið breytilegir í ljósi þess að fólk kýs að lifa lífinu á mismunandi hátt. Þannig má augljóslega segja að dygðirnar séu breytilegar frá einum til annars. En þrátt fyrir þessar mismunandi dygðir sem maðurinn lifir eftir, er líka mikilvægt að hafa hugfast að það er ákveðinn kjarni sem allir menn eiga sameiginlegan, ákveðinn grundvöllur sem segir okkur þá um leið að allir menn muni ávallt hafa þörf fyrir ákveðin lífsgildi. Jafnvel í hinum ólíkustu löndum eiga menn við sömu grundvallarvandamálin að etja og hafa sömu grunnþarfirnar. Þó að auðsýnilega hafi eitthvað verið til í orðum Nietzsche um siðferðispredikaragreyið, sem lesin voru hér áðan, er ljóst að Nietzsche yfirsást þessi kjarni manneskjunnar sem allir eiga sameiginlegann. Kjarninn sem snýr að grunnþörfum okkar til að komast af. Þá á ég ekki bara við það sem við þiggjum frá öðrum heldur líka það sem við gefum af okkur. Því það er ekki síst það sem nærir okkur hvað best. Það að reynast náunga sínum vel, geta hugsað hlýlega til hans og finna þá löngun í eigin hjarta að honum farnist vel - það er gjöf sem gefur okkur mikið.
Já, páskar eru vorsól eins og minnst var á hér áðan, þeir eru upprisa og staðfesting á lífinu - lífinu sem svo erfitt er að fanga í orð og staðsetja nákvæmlega.
Eins og segir í sálmi Valdimars Briem:
Í austri rís upp ársól skær, í austri sólin, Jesús kær, úr steinþró djúpri stígur, Sú páskasólin björt og blíð, er birtist öllum kristnum lýð og aldrei aftur hnígur.
Við skulum fagna Páskum í dag með gleði í hjarta og hafa hugfast að vonin sigrar óttann að lokum, því Kristur er upprisinn - vorsólin er upprisin.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir. Amen.