Nú gengur mikið á í umræðunni um kirkju og kristni á Íslandi. Gjarnan er vísað til “almennings” eða “þjóðarinnar” eða “fólksins í landinu” og gert ráð fyrir að þær óljósu stærðir vilji hag þjóðkirkjunnar sem minnstan og helst koma biskupi frá. Ég spyr mig með hvaða valdi slíkar fullyrðingar séu settar fram. Hver er þessi “almenningur” sem iðulega er gert ráð fyrir að hafi sömu skoðun og þau sem gefa tóninn í umræðunni?
Ég leyfi mér að minna á hinn stóra hóp trúaðs og trúfasts kirkjufólks, bæði innan þjóðkirkju og í öðrum kristnum trúfélögum. Fáa þekki ég í þeim hópi sem láta fjúka gífuryrði og órökstudda gagnrýni á menn og málefni kirkju og kristni. Gagnrýni er vissulega þörf á hverri tíð en hún þarf að vera málefnaleg og laus við persónulegt hnjóð. Umræðan eins og hún hefur verið gerir fátt annað en að fita púkann á fjósbitanum, svo vitnað sé í gamla íslenska þjóðsögu.
Nú er þörf á því að taka höndum saman og horfa fram á veginn, í stað þess að fólk skipi sér í skotgrafir. Við sem unnum kirkju og kristni finnum til undan umræðunni, ekki síst vegna hinnar hróplegu mótsagnar sem er á milli málflutnings skoðanamótendanna og þess dýrmæta samfélags sem þjóðkirkjan og aðrar kristnar kirkjur hafa upp á á bjóða. Verum dugleg að vekja athygli á því sem gott er gert, minnumst hins kyrrláta og trúfasta starfs sem unnið er í söfnuðum landsins, með börnum og ungmennum, fjölskyldum og öldruðum, já alls konar fólk á öllum aldri.
Hvers eigum við hin fjölmörgu að gjalda sem finnum kröftum okkar farveg í samfélagi trúaðra og í hinni hóglátu þjónustu við söfnuðina, hvort sem er í launuðu eða ólaunuðu starfi? Það er sárt að finna ævistarfið og lífsköllunina, að ekki sé talað um hinar helgustu trúartilfinningar, troðið í svaðið eins og gert hefur verið í hinni opinberu umræðu. Fylkjum okkur um hið góða sem gert er og munum að Guð á ávallt útgönguleið, líka út úr því öngþveiti sem við virðumst vera stödd í núna.