„Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk!“
Þannig hljóðar tilboðið í lexíu dagsins úr Gamla testamentinu. Hræddur er ég um að hillurnar í verslunum mundu tæmast ef þetta tilboð hljómaði í auglýsingum og hillurnar í Ríkinu líklega á undan öðrum!
Hér er á ferð dæmigerð hýperbóla eins og það heitir á fræðimáli, yfirdrifin frásögn, eitthvað sem sprengir hugsunina og er þar með óhugsandi og fjarstæðukennt.
Og þannig er í raun margt sem að trúnni snýr, það er næstum óhugsandi og hljómar jafnvel fjarstæðukennt. Nær allt sem Guð gerir sprengir hugsun okkar manna. Hann gengur lengra, sér dýpra, hugsar hærra en mannlegur hugur nær að fanga með sínum takmarkaða skilningi.
Samt erum við, þetta takmarkaða og breyska fólk, andlag elsku hans. Að okkur beinist hugur hans og umhyggja en um leið áminning og brýning um alvöru lífsins, um blessun eða bölvun, frelsun eða glötun. Lífið er dauðans alvara en um leið er það undursamleg veisla.
Og guðspjall dagsins fjallar um veislu og þangað er öllum boðið. Kallað er til veislu og í kallinu birtist enn eitt tilboðið. Því er beint til allra, allra á jörðu:
-Komið öll! Verið velkomin!
Hér er þó alls ekki um hýperbólu að ræða, ekkert yfirdrifið, heldur er það altækt og öllum ætlað, sett fram í fullri meiningu. Enginn er þar undan skilinn.
Altari kirkjunnar er veisluborð og þangað er okkur stefnt til helgrar máltíðar brauðs og víns. Og kirkjan er almenn eins og segir í postullegri trúarjátningu: „ég trúi á heilaga almenna kirkju“. Á ensku er sagt holy catholic church sem vísar ekki til kirkjunnar í Róm sem slíkrar heldur hinnar almennu kirkju. Í þeim skilningi erum við kaþólsk kirkja, almenn kirkja sem er opin öllum og býður öllum til samfélags um orðið og borðið. Öllum!
Og þegar við komu að borði Drottins og meðtökum brauð og vín þá erum við að meðtaka allt það góða og fagra sem Kristur stóð fyrir. Orðin hans: „þetta er líkami minn, þetta er blóð mitt“, vísa til alls þess sem hann gerði, til lífs hans og lausnar, kenninga hans og krossdauða, orða hans, elsku og upprisu. Við þiggjum það allt í þessari einföldu máltíð og samsömum okkur þar með hugsjónum hans. Enginn hefur flutt fegurri boðskap um lífið, um mann og heim, en Jesús Kristur. Öllum menntastofnunum veraldar með öllum heimsins spekingum og öllum vísindamönnum á liðnum tveimur þúsöldum, hefur ekki tekist að bæta einum stafkróki við kenningar Krists um lífið og tilveruna, um hið stóra samhengi alls sem er. Það verður ekki betrumbætt, enda er það Guð sjálfur sem mælti fram viskuna. Orðið, viskan og máttur himinsins, varð hold, Guð sjálfur gerðist maður í Jesú Kristi.
Sá hinn sami sem kenndi þetta allt og bauð fólki forðum til fylgdar við sig býður okkur enn til samfélags og nú hér í Ísafjarðarkirkju, býður til máltíðar, til veislu, til að fagna lífinu og gleðjast yfir því að Guð elskar þennan heim og leggur sig fram um það í starfi heilagrar kirkju að boða öllu mannkyni þennan boðskap. Veislan er opin! Verið velkomin!
Þessa sögu sem birtist okkur í guðspjalli dagsins má líklega með nokkrum rétti heimfæra upp á Þjóðkirkjuna. Henni er falið verkefni af Guði. Hann hefur sent út þjóna sína með orðið og skírnina til að bjóða fólki í brúðkaup hins hæsta konungs. Og brúðkaupssalurinn er þéttsetinn. Salurinn vísar ekki til himneskra salarkynna þar sem menn sitja sem gestir við borð í Guðsríki. Heldur er hér vísað til forgarða himinsins hér á jörðu, hinnar sýnilegu kirkju í þessum heimi. Og einmitt hér gildir það sem Jesús sagði: Margir eru kallaðir, bæði vondir og góðir. Guð vill að allir frelsist. Okkur er boðið hér og nú, í þessari tilveru, sæti við veisluborð til að smakka á gjöfum himinsins – í orðinu og í aflausninni eftir syndajátninguna og svo í altarisgöngunni sjálfri. En þrátt fyrir að margir séu kallaðir eru aðeins fáir útvaldir. Samt er þetta ekkert venjulegt, jarðnekt prófkjör. Í trúarlegu samhengi merkja orðin ekki að Guð hafi frá upphafi vega ætlað sumum það hlutskipti að glatast. Guði er hins vegar full alvara með köllun sinni. En honum er um leið fullkomlega ljóst hvernig hlutirnir verkast oft í veruleikanum. Hann veit að margt af því sem hann ætlar nær ekki fram að ganga. En þrátt fyrir það þá hegðar hann sér alveg eins og góður jarðneskur faðir eða móðir. Jafnvel þótt skynsemin segi að eitthvað sé vonlaust, til dæmis að unglingnum sé ekki viðbjargandi, þá lætur hann ekki af að gera allt sem verða má honum til góðs. Þannig vinnur Guð og ekki bara í garð þeirra sem eru honum sem hlýðin börn heldur líka gangvart þeim sem hafna kærleikanum og trampa á miskunn hans.
Guð veit hins vegar hvenær kærleikur hans nær í gegn og vinnur einstakling á band elskunnar. Þann einstakling leiðir hann og verndar þannig að ekkert geti gert hann viðskila við elsku hans. (Rm 8.28n) Slíka einstaklinga má nefna útvalda. Jesús sagði að fáir væru útvaldir. Og þá liggur beinast við að spyrja: Drottinn, eru þá aðeins fáir sem frelsast? En svarið fáum við aðeins í þessum orðum: Keppið eftir því að komast inn um þrönga hliðið. Sjáið til þess að verða ekki sjálf eftir utangarðs.
En hvað þá með þann sem ekki var í brúðkaupsklæðum? Í þessari líkingu sem Jesús setti fram er ekki hægt að skilja allt eða útskýra í smáatriðum. En hér snýst málið líklega um þau klæði sem við fáum ókeypis. Málið snýst um að „íklæðast hinum nýja manni“, þeim sem verður til þegar við eignumst trú á Jesú Krist. Í skírninni íklæðumst við lífgjöf Krists sjálfs og réttlæti hans. Skírnarkjóllin er tákn þess hreinleika og réttlætis sem Guð einn getur gefið. Við eigum að varðveita hinn hvíta skrúða réttlætisins og lifa sveipuð því góða sem Guð einn getur gefið. Við þurfum á hverri tíð að líta í eigi barm og spyrja okkur: Hvernig eru brúðkaupsklæðin mín? Hef ég varðveitt trúna, eflst og þroskast í trúnni? Hér er meiri alvara á ferðum en í ljóði Einars Más Guðmundssonar þegar hann spyr: Er einhver í Kórónafötum hér inni? Guð spyr um trúna á hverri tíð. Klæði trúarinnar eru engin jarðnesk merkjavara. Guð verður aldrei blekktur með merkjavöru eða annarri sýndarmennsku, hann þekkir okkur út og inn. Hann spyr um trúna.
Hvað gerum við með trú okkar í daglegu lífi? Hvað hefur orðið um fermingarheitið okkar?
Hvað verður um þessa þjóð ef trúin dofnar og kulnar? Hvar eru Vesturlönd og hin svonefndu kristnu lönd á vegi stödd í trúarefnum? Hvar eru brúðkaupsklæðin? Vitum við hvað það þýðir og kostar að vera kristin á tímum þegar undirstöðurnar eru að molna undan okkur? Er okkur ljóst að fjöldi fólks deyr árlega fyrir kristna sannfæringu sína? Í löndum múslima er það til að mynda dauðasök að taka kristna trú. Nýlega skírði ég ungan mann sem snerist frá islam til kristni. Getur hann snúið aftur til sinna heimkynna? Ég efa það. Og í Kína hefur til skamms tíma verði þrengt að kristnu fólki og það líflátið svo þúsundum skiptir fyrir trú sína. Sagt er að fleiri láti lífið fyrir sína kristnu sannfæringu árlega nú á dögum en á verstu ofsóknartímum á dögum Rómverja.
Erum við tilbúin til að verja trúna, standa á okkar sannfæringu eða eigum við kannski enga sannfæringu? Og svo má líka spyrja samtíð okkar: Hvert leiðir taumlaust frelsið okkur? Hvernig ætlum við að mæta sívaxandi afstæðishyggju annars vegar og svo heittrúuðu fólki af öðrum trúarbrögðum hins vegar ef við vitum ekki hvaðan við komum, hvar við stöndum eða hvert för er heitið? Og hvernig getum við varist spillingu í þjóðlífinu og hnignun á hinu siðferðilega sviði?
Svarið við þessum spurningum er fólgið í því að við göngum í okkur eins og týndi sonurinn sem hafði horfið frá hinum góðu gildum sem hann fékk í arf og sólundað auðæfum sínum og snúum aftur heim og klæðumst brúðkaupsklæðunum á ný.
Við erum kristin þjóð og menning okkar og undirstaða öll er kristin. Skólakerfið, heilbrigðisþjónustan, félagsþjónustan, réttarkerfið, menningarlífið, allt hvílir það á kristnum gildum, kristnum mannskilningi og bjargfastri trú og von um betri heim. En verður það svo áfram? Brúðkaupsklæðin. Hvar eru þau? Hvar er barnatrúin? Hvernig hefur okkur tekist að miðla arfinum? Hin réttu klæði trúarinnar koma meðal annars fram í því að við önnumst æskuna, stöndum vörð um réttlæti og sanngirni í þjóðfélaginu, búum vel að öldruðum og þeim sem minna mega sín, vinnum gegn spillingu og styðjum allt það sem er heilt og gott, að við ræktum trúna í samfélagi kirkjunnar, biðjum og iðjum.
Konungurinn í sögunni kom til að líta á veislufólkið og kom auga á mann sem ekki var í brúðkaupsklæðum, sem ekki hafði varðveitt það sem honum var gefið, heldur sóað því af kæruleysi og hirðuleysi. Látum það ekki henda okkur sem einstaklingar eða þjóð.
Í skírnarritúali kirkjunnar segir prestur þegar hann hefur ausið barnið vatni í nafni heilagrar þrenningar:
„Almáttugur Guð, faðir Drottins vors Jesú Krists, sem nú hefur endurfætt þig fyrir vatn og heilagan anda tekið þig í ríki síns elskaða sonar, þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp – hann styrki þig með náð sinni til eilífs lífs. Friður sé með þér.“
Síðan er farið með bæn Drottins, Faðir vor, barnið blessað og loks eru foreldrar, skírnarvottar, fjölskylda og söfnuður allur minntur á ábyrgð sína á trúaruppeldi barnsins. Lífið framundan skiptir máli. Í skírnarsálminum góða Ó, blíði Jesú, segir í lokaerindinu:
Ó, gef það vaxi’ í visku og náð og verði þitt í lengd og bráð og lifi svo í heimi hér að himna fái dýrð með þér.
Þetta vers hefur verið sungið yfir íslenskum skírnarbörnum um aldir. Það skiptir máli hvernig við lifum. Enn höfum við tækifæri. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur. Snúum okkur til hans sem fórnaði öllu fyrir okkur og göngum af alhug til verka með mestu umbótahreyfingu sögunnar, kristinni kirkju og sigrum með Kristi. Göngum til veislu hans sem gefur ókeypis þau gæði sem mölur og ryð fá ekki grandað.
Okkur er boðið til veislu. Komum fagnandi og þiggjum lífið!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.