Flutt 27. maí 2018 í Neskirkju
Það er grænt um að litast hér í helgidómnum. Steingrímur organisti og vinir hans Tómas og Björk hafa fært okkur þessar plöntur sem hafa þraukað í gegnum ótíðina undanfarnar vikur. Mér skilst þessi magnaða þrenning hafi verið á þönum undanfarið að bjarga þeim inn í gróðurhúsin og svo þegar sést hefur til sóar, hafa þau fengið að fara út.
Garðyrkja
Það er ekki lítil vinna þegar þúsundir plantna vaxa í bakgarðinum hjá fólki. Þessar sögur af því þegar þau hlaupa til og frá og setja grængróðurinn undir opinn himin, minnir á það þegar beljunum er sleppt lausum á vorin og þær dansa á túninu. Væntanlega stíga plönturnar sinn dans líka, þótt hægari sé. Hann er tilkomumikill þar sem þau gera sitt til að vera álitlegur kostur fyrir flugur og annað það sem gerir þeim kleift að fjölga sér. Það er nú þannig með allt líf á jörðinni. Reyndar hafa þau þurft að þeytast með plönturnar inn aftur þegar skyndilega hefur kólnað.
Starf garðyrkjumannsins er óeigingjarnt en um leið er fátt er eins gefandi og að sjá uppskeru erfiðis síns. Þetta á ekki aðeins við um uppskeru í sinni hefðbundnu mynd, heldur um allt starf okkar í lífinu. Bestu og innihaldsríkustu stundir ævinnar tengjast því þegar okkur tekst að hlú að því sem lifir og dafnar. Hliðstæðurnar eru margar í tilverunni: Uppeldi, uppvöxtur, já að sinna nýgræðingum.
Þar kennir heilög ritning að tilgangur okkar leynist og liggi. Þegar við gefum af tíma okkar og auðlindum öðrum til gangs, lítum yfir gróskuna og gróandann sem af því verður ef allt er með felldu þá sendir sálin okkur einhver skilaboð sem kunna að hljóma á þessa leið: „Það er þetta sem þér er ætlað að gera á þínum takmörkuðu ævidögum. Nýttu þá vel, því það er ekki alltaf sumar, hvorki í árstíðum náttúrunnar né í lífi þínu.“
Garðar
Garðar eru líka alltaf áberandi. Helgisögnina um aldingarðinn Eden er að finna í fyrstu köflum Biblíunnar. Hún lýsir hinu ákjósanlega ástandi með vísan í garð, fullan af liti og lífi. Líf mannsins er sannarlega þrautarganga en öll eigum við samt einhverja hugmynd um það hvernig lífið á að vera. Þennan veruleika túlkar Biblían sem brottrekstur úr hinum fagra aldingarði, sem var afgirtur og maðurinn átti ekki þangað afturkvæmt.
Já, garðar eru út um allt. Í gærkvöldi mændi ég, ásamt hundruðum milljóna annarra jarðarbúa á fagurgræna grasflöt. Allt í kringum flötina voru áhorfendabekkir og umhverfis þá, voru háir múrar, lokuð hlið og verðir sem gættu þess að þau ein fengju aðgöngu sem höfðu greitt háar fjárhæðir fyrir aðganginn að þessari flöt. Ekki ætla ég að reyna að giska á verðmætin sem skiptu um hendur við þessa tæpra tveggja klukkustunda athöfn sem ég og flestir aðrir horfðum á í sjónvarpi. Þau eru óskapleg og þó verður enn meira undir þegar bestu lið heims mætast á sambærilegum grasflötum.
Grasflötin var leiksvið þessa fótboltaleiks sem vakti sterkar tilfinningar. Annað liðið uppskar ríkulega en liðsmenn hins liðsins gengu út af vellinum með tár á hvarmi. Það er eins og leikurinn sendi okkur þá áminningu að ekki ber allt okkar erfiði þann ávöxt sem við myndum kjósa. En eins og góðir garðyrkjumenn vita er oft mestan lærdóm að fá þegar uppskeran er rýr. Þá vinna hugur og hönd af enn meiri krafti við endurbætur og frekari uppgræðslu.
Þrenning
Nú ber nýgræðingsmessuna upp á sjálfa þrenningarhátíð. Það er líklega ein nafntogaðasta hátíð kirkjuársins þótt lítið fari fyrir henni svona í samfélaginu almennt. Við vísum til hennar þegar við teljum sunnudagana eftir þrenningarhátíð. Þeir eru alls 26 talsins og munar um minna. Við erum sem sagt með þennan tiltekna sunnudag á vörunum hálft árið í kirkjunni.
Það er eitthvað leyndardómsfullt við þessa hátíð og textarnir bera það með sér. Samtal Jesú og Níkódemusar fer fram í nóttinni og þar ber á góma hið óræða málefni endurfæðingarinnar. Sagan kallast á við aðra frásögn úr sama guðspjalli, samtal Jesú við samversku konuna. Í því tilviki var það nafnlaus kona sem Jesús ræddi við þar sem þau stóðu við brunninn. Hér er það nafngreindur leiðtogi gyðinga sem skiptist á orðum við hann um hin dýpstu trúaratriði.
Biblían ræðir um Guð í gátum. Hún skilur margt eftir fyrir ímyndunina og hið óræða. Hún kennir að við mætum Guði á þrennan hátt: Í föðurnum, sem er hið skapandi afl er gerir heiminn og hvert andartak sem fæðist og deyr. Í Jesú Kristi sem birtist okkur í guðspjöllunum og sýnir okkur hvernig Guð er og starfar. Og loks í heilögum anda sem er með okkur á hverri stundu og nærist og eflist í samfélagi kristins fólks. Þegar við byrjum trúarjátninguna á því að tala um Guð föður, skapara himins og jarðar, þá er það í raun rammpólitísk yfirlýsing. Hún bendir á moldina, jarðveginn sem plönturnar okkar vaxa úr og segir að hið jarðneska er í grunninn gott. Sú afstaða var í rau ólík þeirri sem mörgum var tamt að hugsa á þeim tíma þegar játningin var sett saman.
Það er eitthvað merkilegt við þessa mynd sem kirkjan hefur haldið á lofti af Guði. Hún byggir í raun á því að Guð sé í eðli sínu, tjah, nánast eins og listigarður – þar sem margir litir birtast, fjölbreytnin er einhvern veginn til staðar mitt í einingunni. Þrenningarhátíð kirkjunnar er eins og guðlegur óður til samfélagsins sem birtist í öllum litbrigðum sínum.
Lífið er leyndardómur
Lífið er líka heimikill leyndardómur. Hið forna litu menn svo á að þegar fræi væri sáð í jörðu myndi það fæðast að nýju og vakna til nýs lífs. Sú hugsun býr að baki samtali Jesú og Níkódemusar um endurfæðinguna. Þær upplýsingar sem líffræðin hefur fært okkur eru í raun ekki síður merkilegar. Ég hef sagt það áður við svipað tilefni og ég geri það enn. Það er ekki lítið undur að þessi frjókorn sem eru allt í kringum okkur skuli í raun réttri vera gagnabankar, stútfullir af upplýsingum. Já frækorn eru allt í kringum okkur. Þau svífa um í loftinu, liggja í görðum og á stéttum, sofa í frostinu eins og við sungum hér í upphafi. Við snæðum þau með morgunkorninu og ofan á brauðið og leiðum sjaldanst hugann að því hvílík undur sköpunar er þar á ferð.
Gróandinn skiptir nú ekki litlu máli. Lífið á þessari jörðu á allt sitt undir starfi blaðgrænukornanna. Það er líka eitthvað töfrandi við þessa garða okkar sem við leggjum mismikla rækt við eins og gengur. Edengarðurinn var ímynd hins fullkomna ástands og hann var afgirtur eins og segir í sögunni. Þangað komst enginn aftur inn. Við leitum hans þó ítrekað í lífinu þegar við drögum upp mynd af hinu ákjósanlega. Mögulega var Garðurinn í Kænugarði þar sem stórleikurinn fór fram í gær ein birtingarmynd hans. Kristin trú bendir á litina og margbreytileikann þegar hún dregur upp mynd af ríki Guðs. Trúin er ekki einsleit heldur birtist hún í margvíslegri mynd. Hún auðgar líf þeirra sem eiga hana og fyllir hjörtu þeirra þeirri sýn að lífið og lífverurnar eru stórbrotið kraftaverk sem okkur ber að hlú að og fagna.