Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið sjúk. Hún var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ Þá lagði Jesús hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð.En samkundustjórinn reiddist því að Jesús læknaði á hvíldardegi og mælti til fólksins: „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna ykkur og ekki á hvíldardegi.“
Drottinn svaraði honum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“ Þegar Jesús sagði þetta urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir en allt fólkið fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum er hann gerði. Lúk. 13. 10–17
Svona hafði hún verið í átján ár. Bakið bogið og hún alls ófær um að sjá nema niður á tærnar á sér. Kannski hefur hún verið farin að sætt sig við ástand sitt. Eftir öll þessu ár var hún efalaust farin að venjast því að sjá ekki samferðafólk sitt, að geta ekki litið í kringum sig, hvað þá upp í himininn, á sólina, tunglið og stjörnurnar, og sjá bara jörðina sem hún gekk á.
Hún stóð álengdar, hefur væntanlega ekki viljað koma of nálægt, enda vön því að konunum væri ekki ætlaður staður í fremstu röð. Þær áttu ekki að trana sér fram. Hefðarsætin voru jú fyrir karlana.
Hún átti ekki von á því að neinn veitti henni athygli, hvað þá sá sem allt snerist um. Hvað átti hún að gera þegar hann allt í einu kallaði á hana? Átti hún að láta sem hún heyrði ekki í honum? Eða gat hún annað en svarað kalli hans?
Við vitum svo sem ekki hvað hún var að hugsa. Í textanum segir hún ekki eitt einasta orð. Hún sækist ekki eftir athyglinni og hjálpinni. Hún ver sig heldur ekki þegar samkundustjórinn ræðst gegn henni og öllum hinum sem voru komin til þess að fá lækningu meina sinna á sjálfan hvíldardaginn. Í textanum segir aðeins að hún hafi lofað Guð um leið og hún gat aftur rétt úr sér.
Aðstæður kvenna í Ísrael á dögum Jesú voru um margt ólíkar þeim aðstæðum sem við íslenskar konur búa við í dag. Hlutverk Gyðingakvennanna var að þjóna eiginmönnum sínum, en þær voru eign þeirra. Konunum var ætlað að halda sig til hlés, þeirra staður var inni á heimilinu og utan þess var lítið pláss fyrir þær. Til að mynda var konum ekki leyft að bera vitni fyrir dómstólum. Þær voru með öðrum orðum ekki marktæk vitni, af því að orð þeirra voru ekki tekin alvarlega. Stóran hluta ævi sinnar voru þær taldar óhreinar og máttu þá ekki koma út á meðal fólks. Þetta var sá tími þegar þær voru með blæðingar og eftir að þær eignuðust börn, í sjö daga þegar konan hafði fætt sveinbarn og 14 daga eftir að fæða meybarn. Það hlýtur að hafa haft mótandi áhrif á sjálfsskilning þeirra að vera álitnar óhreinar og vera útilokaðar frá mannamótum, þar á meðal helgidóminum, svo vikum eða mánuðum skipti ár hvert.
Það er jú mikilvægt að hafa þessar aðstæður í huga þegar við lesum frásögur guðspjallanna af samskiptum kvenna og Jesú Krists. Við heyrðum lesnar hér áðan frásagnir annars vegar af konunni með blóðlátið og hins vegar af bersyndugu konunni sem smurði fætur Jesú. Sú fyrrnefnda reyndi að láta fara lítið fyrir sér þar sem hún kom að baki Jesú og snart fald klæða hans í þeim tilgangi að fá bót meina sinna. Vegna blóðlátsins var hún óhrein og útilokuð frá mannamótum, auk þess sem Jesús mátti alls ekki snerta hana án þess að smitast af óhreinleika hennar. En í stað þess að skamma konuna fyrir að brjóta reglur Gyðingasamfélagsins, þá læknaði Jesús hana og hrósaði henni fyrir trúna, sem varð henni til bjargar.
Bersynduga konan var aftur á móti óhrein af siðferðilegum ástæðum. Hún var óvelkomin í hús faríseans þar sem Jesús var gestkomandi. Hún kom til að sýna Jesú virðingu með því að smyrja fætur hans með smyrslum. Vegna þess að konan var bersyndug þá mátti hún ekki serta hann, án þess að hann yrði líka óhreinn. Fyrir þetta gagnrýnir Símon farísei Jesú. En Jesús svarar gagnrýni hans með því að verja konuna og framkomu hennar. Í báðum þessum sögum stendur Jesús með konunum sem brutu gegn reglum samfélagsins. Hann réttlætir framkomu þeirra og mætir þörfum þeirra. Hann læknar þá sjúku og fyrirgefur henni sem brotið hafði af sér. Þannig gerir hann þeim mögulegt að snúa aftur til samfélagsins sem þær höfðu verið útilokaðar frá.
En hvað með það? Hverju breytir það fyrir okkur, að vita að Jesús hafi af einskærri meðaumkun rétt hlut örfárra kvenna sem bjuggu við kvenfjandsamlegar reglur og viðmið í samfélagi sem var stýrt af karlmiðlægum gildum. Hvað um allar hinar konurnar, sem hann umgekkst? Breytti þetta einhverju fyrir þær? Og hvað um okkur sem búum við allt aðrar aðstæður. Hvernig geta tæplega tvö þúsund ára sögur breytt einhverju fyrir okkur?
Það er vissulega rétt að konurnar eru ekki mjög margar sem sagt er frá í guðspjöllunum og urðu vitni að umbreytandi áhrifum af nærveru Jesú í eigin lífi. En það er engu að síður merkilegt að þessar sögur skyldu varðveitast í samfélagi sem stjórnað var af körlum og karllægu gildismati. Og þó að við vitum ekki hversu stór hópur kvenna fylgdi Jesú, þá gefa þessar sögur ótvíræða vísbendingu um þá uppstokkun á ríkjandi gildum og viðmiðum sem Jesús boðaði. Margt, ekki bara í guðspjöllunum, heldur líka í Postulasögunni og bréfum Nýja testamentisins, bendir líka til þess að konur hafi verið virkir þátttakendur í hinu nýja samfélagi sem mótaðist í kringum Jesú og við köllum gjarnan frumkirkjuna. Í yngstu ritum Nt er hins vegar ýmislegt sem gefur til kynna að hið nýja samfélag hafi smátt og smátt orðið fyrir áhrifum af ríkjandi samfélagsháttum, og konunum ýtt út á jaðarinn á ný, þar sem réttur þeirra til að boða og þjóna var verulega skertur.
Hið nýja samfélag sem Jesús Kristur stofnaði og gerði ekki ráð fyrir flokkun fólks eftir kyni, kynþætti eða stétt, vék þannig fyrir lagskiptri samfélagsskipan, þar sem viðgekkst að verðleggja fólk eftir því hvers kyns það var, hvaða kynþætti það tilheyrði, eða stétt. Eftir stóð þó skírnin sem tók við af umskurninni sem aðeins var ætluð drengjum. Skírnin er vitnisburður um hið nýja samfélag, þar sem allir eru eitt í Kristi. Með skírninni var full mennska þeirra sem af einhverjum ástæðum hafði verið ýtt út á jaðar samfélagsins, viðurkennd. Með skírninni var áréttað að frammi fyrir Guði væru allir eitt, sköpuð í mynd Guðs, til þjónustu við Guð.
Þær aðstæður sem konur hafa búið við um aldir, bera vitni um eitthvað annað en það sem hinu nýja samfélagi, kirkjunni, var ætlað að vera. Með því að styðja það að konum væri meinað að mennta sig og að stunda ákveðin störf, þar á meðal þau störf sem tilheyrðu vígðri þjónustu kirkjunnar, þá hefur kristin kirkja brotið gegn grundvallar viðmiði kristinnar trúar um jafna stöðu allra frammi fyrir Guði.
Þó að víða hafi orðið miklar breytingar á stöðu kvenna, þá er mikilvægt að gleyma því ekki að flestar þær breytingar sem orðið hafa í átt til aukins jafnréttis kvenna og karla eru tiltölulegar nýtilkomnar. Enn þann dag í dag býr samt stór hluti kvenna í heiminum við kúgun og óréttlæti sem rekja má til karlaveldisins. Við sjáum þess víða merki, líka hér hjá okkur. Margar konur búa við líkamlegt ofbeldi á heimilum sínum. Konur eru fórnarlömb nauðgana og annars kynferðislegs ofbeldis. Vinnuframlag kvenna er ekki metið sem skyldi, hvorki til launa né almennrar viðurkenningar. Og ennþá er fjölda kvenna meinaður aðgangur að hinum vígðu embættum kristinnar kirkju vegna kynferðis síns. Ennþá eru stórar kirkjudeildir sem halda því fram að konur geti ekki gegnt vígðri þjónustu innan kirkjunnar, því að kynferði þeirra geri þær óverðuga erindreka í Krists stað. Af þessum sökum getur stór hópur kristinna kvenna ekki hlýtt köllun sinni til prestsþjónustu.
Í þessu samhengi er vert að rifja það upp að aðeins eru rúmir þrír áratugir síðan fyrsta íslenska konan var vígð til prestsþjónustu innan íslensku þjóðkirkjunnar, þrátt fyrir að lögin um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta hafi verið í gildi allt frá árinu 1911. Án efa vita færri að til voru þeir Alþingismenn sem við setningu laganna vildu undanskilja prestsembættið og meina þannig konum áfram að gegna prestsþjónustu. Og enn hefur kona ekki hlotið biskupsvígslu innan okkar kirkju og til eru þeir sem ekki telja rétt að konum sé veittur aðgangur að hinu æðsta vígða embætti kirkjunnar, þó að þær geti þjónað þar sem prestar.
Það er í þessu samhengi sem sögurnar um Jesú og konurnar fá merkingu í okkar aðstæðum. Það er andspænis óréttlætinu sem ennþá viðgengst, sem krafan um fullt jafnrétti kvenna og karla er sett fram. Slíkt jafnrétti byggir annars vegar á því að maðurinn, konan og karlinn, eru sköpuð í mynd Guðs og hins vegar á skírninni, inntöku í hið nýja samfélag í Kristi, þar sem hvorki er Gyðingur né Grikki, þræll né frjáls maður, karl né kona. Krafan um fullt jafnrétti kvenna og karla er með öðrum orðum grundvallaratriði kristinnar trúar, hvorki meira né minna. Slíkt jafnrétti er forsenda þess að við fáum öll að njóta fullrar mennsku okkar. Það er forsenda þess að við getum rétt úr okkur, eins og konan í sögunni, og séð allt það góða sem Guð hefur gefið okkur. Það er forsenda þess að við getum elskað Guð af öllu hjarta, sálu og mætti og þjónað náunga okkar í kærleika, eins og við erum sköpuð til.
Dýrð sé Guði, sem hefur skapað okkur og endurleyst, og vill varðveita okkur í samfélaginu við sig. Amen.