Guðspjall: Mark. 10. 46-52 Lexia: 2. Mós. 33. 12-13 Pistill: Heb. 5. 7-10
Í dag er annar sunnudagur í föstu. Langafastan er það tímabil kirkjuársins nefnt sem sérstaklega er helgað minningunni um þjáningu og dauða Jesú Krists sem sr. Hallgrímur Pétursson gerði svo greinargóð skil í passíusálmunum. Undanfarnar vikur hefur geðblær jólanæturinnar mótað tilfinningar okkar og við höfum fengið að ganga í því ljósi og lúta þeim sannleiksboðskap sem jólin flytja okkur. Þá voru einkunnarorðin þessi: "Sjá, ég flyt yður mikinn fögnuð". En einkunnarorð lönguföstunnar eru: "Hann var særður vegna vorra synda kraminn vegna vorra misgjörða".
Í dag ætlum við að hugleiða söguna um blinda manninn, Bartímeus er sat tötrum klæddur í vegkantinum í Jeríkó og bað um ölmusu. Hann var einskis nýtur talinn vera, enginn virti hann viðlits. Hann virtist jafnvel vera nafnlaus Fólkið sem fór um strætið þurfti aldrei að nota nafnið hans. Að sögn var hann sonur Tímóteusar. Bartimeus hafði gefist upp. Þarna hafði hann setið árum saman, blindur og umkomulaus, vafinn skítugum frakkalörfum sem hann vafði utan um sig til þess að mynda skjól fyrir kuldanum, rigningunni, hundunum og mannfjöldanum. Hann átti hvergi höfði sínu að halla, nema undir frakkaboðungnum sem varla hélt þó vatni. Hann hreyfði sig sjaldan, öðru hvoru rétti hann fram hönd sína í von um að einhver vegfarandi gæfi honum pening eða brauðbita.
Dag einn heyrði hann óvenjumikinn hávaða við götuhliðið í fjarska. Hljóðið varð hærra og hærra. Bartimeusi leist ekki á blikuna, færði sig út í horn og vafði frakkann enn fastar að sér. Hann hafði áður verið í æstum mannfjölda og það var ekki gott að vera blindur við þær kringumstæður. Þá heyrði hann nafn Jesú nefnt og fólk lofaði Guð. Þetta var þá engin uppreisn, fólkið var að fagna Jesú sem átti leið hjá.
Jesús var á leið til Jerúsalem til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni páskanna en gyðingar héldu páska til minningar um frelsunina frá Egyptalandi. Aðalvegurinn til Jerúsalem lá í gegnum Jeríkó. Þegar virtur rabbíi eða kennari var á slíku ferðalagi var venja að margt fólk fylgdi viðkomandi m.a. vegna þess að þeir kenndu gjarnan á göngunni. Þeir höfðu með sér lærisveina sem hlustuðu á þá á göngunni. Þetta var algeng kennsluaðferð á þeim tíma. Ekki áttu allir heimangengt á páskahátíðina enda þótt lög kvæðu á um að allir gyðingar 12 ára og eldri skyldu fara á hátíðina í Jerúsalem ef þeir byggju í námunda við borgina. Þeir komu sér hins vegar fyrir í vegkantinum í því skyni að óska hinum fjölmörgu pílagrímum blessunar á vegferð þeirra á hátíðina.
U.þ.b. 20 þúsund prestar þjónuðu í stóra musterinu í Jerúsalem í 15 mílna fjarlægð frá Jeríkó. Þeim var skipt niður í marga hópa. Telja má víst að margir þeirra hafi búið í Jeríkó. Á laufskálahátíðinni þjónuðu allir prestarnir hins vegar til þess að hægt væri að sinna öllum þeim mannfjölda sem kominn var á hátíðina. Telja má víst að margir þeirra hafi verið á leið á hátíðina í námunda við Jesú er leið hans lá inn fyrir norðurhlið Jeríkó borgar þar sem Bartimeus var í vegkantinum.
Prestarnir litu Jesú miklu hornauga vegna þess að hann hafði gagnrýnt tilbeiðsluhættina í musterinu, og sagt að þeir væru einskis virði.
Bartimeus heyrir fótatakið, nafn Jesú ber á góma. Skyndilega langar hann til að vekja athygli Jesú á sér. Hann sviptir frakkalörfunum af sér og hrópar upp af öllum lífs og sálarkröftum: JEEESÚUUUSS!
Þegar mannfjöldinn fylgdi Jesú á göngunni þá kenndi hann að sið rabbía. Það þótti mikil ókurteisi að grípa fram í fyrir þeim sem var að kenna. Þess vegna reyndu áheyrendur Jesú að þagga niður í Bartimeusi en hann hrópaði því hærra og meira: "Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér". Enginn skyldi taka frá honum möguleikann að geta flúið heim myrkursins. Hróp hans skar í eyrun, snerti við innstu kviku vegfarenda er gengu hjá, ekki síst Jesú sjálfs. Skyndilega heyrði Bartimeus að pílagrímagangan hafði stöðvast, allt var fallið í dúnalogn. Rödd ein rauf þögnina og mælti: "Kallið á hann". Aðrar raddir sögðu honum að standa upp og koma. Hann staulaðist á fætur og var fylgt til Jesú sem sagði við hann: "Hvað vilt þú að ég gjöri fyrir þig?" Bartimeus svaraði: "Herra minn, að ég fái aftur sjón!" Jesús sagði við hann: "Far þú, trú þín hefur bjargað þér".
Trú hans gjörði hann heilan, hans eigin trú. Heyrðuð þið þetta? Þetta kraftaverk er ólíkt öðrum kraftaverkum Jesú því að venjulega fór fólkið sem hann læknaði til síns heima og tók til við dagleg störf heima fyrir sem það hafði ekki getað sinnt sem skyldi vegna veikinda.
Bartimeus gerði það ekki. Hann átti hvergi höfði sínu að halla, hann var vegalaus og heimilislaus. Hann sótti ekki einu sinni frakkann sinn. Hann fór og fylgdi Jesú upp frá þessari stundu. Hafði Jesús ekki sagt við hann: "Far þú", jafnvel áður en hann fékk sjónina? Hann fékk sjónina af því að hann trúði því að Jesús gæti gert kraftaverk. Og hann ákvað að fylgja Jesú vegna þess að frelsarinn hafði sagt að lærisveinar sínir myndu fá að gera jafnvel stórkostlegri hluti en hann hefði gert.
Svo mörg okkar virðast vera nafnlaus líkt og Bartimeus. Við erum stundum blind í felum á bak við frakkann líkt og hann. Við vitum stundum ekki sjálf fyrir hverju eða hverjum við erum að fela okkur. Erum við í felum fyrir okkur sjálfum? Þorum við ekki að horfast í augu við eigin bresti og blindu og biðjast fyrirgefningar þegar þrengir að í lífi okkar?
Fyrir örvæntingarfulla þrá fékk Bartimeus að sjá Jesú. Hann brást tafarlaust við kalli frelsarans og fleygði þungum frakkanum af sér til þess að hann kæmist fyrr til Jesú. Margur maðurinn heyrir kall Jesú en segir að bragði: "Bíddu þangað til ég hef gert þetta" eða " bíddu þangað til ég hef lokið þessu". Bartimeus kom eins og skot til Jesú þegar kallið kom. Vissir hlutir henda aðeins einu sinni á lífsleiðinni. Bartimeus gerði sér grein fyrir því að hann varð að grípa þetta einstaka tækifæri.
Stundum finnum við löngun hjá okkur til að hætta slæmu hegðunarmynstri. Okkur langar e.t.v til að hreinsa til í hugskoti okkar og hjarta, losna t.d. við biturleika í garð einhvers sem hefur þjakað okkur um langt skeið. E.t.v langar okkur að færa okkur nær Jesú, gefast honum en betur á vald með því að tileinka okkur kenningar hans og siðferðisboðskap í ríkari mæli en áður. En oftar en ekki þá gerum ekkert í því, tækifærið rennur okkur úr greipum, það kemur jafnvel aldrei aftur upp í hendurnar á okkur.
Bartimeus vissi nákvæmlega hvað hann vildi, hann vildi fá sjónina aftur. Þegar við förum til læknis þá viljum við að hann taki á tilteknu vandamáli sem er að hrjá okkur á hverjum tíma. Þegar við förum til tannlæknis þá biðjum við hann einungis um að sinna þeirri tönn sem er sjúk. Þannig ætti það að vera milli okkar og Jesú. Jesús veit hvað okkur vanhagar um en hann vill fyrst og síðast að við komum sjálf auga á vandamálið og könnumst við það áður en við berum það upp við hann. Og hann vill jafnframt að það sé vilji fyrir hendi hjá okkur til að takast á við vandamálið og sigrast á því með hjálp Guðs. Hvað er það í fari okkar sem mætti betur fara? Eigum við auðveldara með að sjá flísina í auga náungans en símastaurinn í eigin auga? Er það óhófleg áfengisneysla, margvísleg fíkn, óráðssía í fjármálum heimilisins, hjónabandserfiðleikar sem einkennast af því að hjón eru hætt að hlusta á hvert annað og tala ekki saman nema í gegnum einhverja aðila út í bæ? Eru það annars konar erfiðleikar í samskiptum á heimilum, á vinnustað eða innan veggja skólans?
Hvað hefði Jesús gert fyrir okkur ef okkur auðnaðist að koma sjálf auga á vandamálið og bera það upp við hann í bæn?
Jesús hefði spurt okkur líkt og hann spurði Bartimeus: "Hvað vilt þú að ég gjöri fyrir þig?"
Það stóð ekki á svari hjá Bartimeusi eins og við heyrðum vegna þess að hann vissi hvað hann vanhagaði um fyrst og fremst. Hann vildi fá sjónina aftur. Bartimeus var í mikilli neyð er hann bað Jesú að hjálpa sér. Jesús brást við kalli hans og hann átti upp frá því persónulegt samfélag við frelsarann sem byggðist á trausti og kærleika. Hann var Jesú óendanlega þakklátur fyrir það sem hann hafði gert fyrir sig. Þannig bregst Jesú einnig við neyðarkalli okkar þegar það kemur frá okkar innstu hjartans rótum. Þá svarar Jesú okkur með þeim hætti sem hann telur okkur sjálfum fyrir bestu. Svar hans verður okkur hvatning til að reyna að verða að heilli og næmari manneskjum á þarfir samferðafólks okkar.
Við erum minnt á kærleiksboðorðið sem Jesús kenndi á ferðum sínum þar sem hann sagði: "Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og af öllum mætti þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig". Ef okkur auðnast að líta í eigin barm þar sem við rannsökum huga okkar og hjarta, lærum að virða tilfinningar okkar, hugsanir og þrár, þá lærum jafnframt að bera virðingu fyrir okkur sjálfum. Þá opnar Kristur augu okkar fyrir því sem var okkur hulið um okkur sjálf og kom e.t.v. í veg fyrir að við gátum átt eðlileg og heilnæm samskipti við annað fólk.
Í dag er konudagurinn samkvæmt almanaksárinu. Heillavænlegt hjónaband byggist á því að báðir aðilar virði þarfir hvors annars og finni það að gagnkvæmur kærleikur ríki á milli þeirra. Það er ekki nóg að kærleiksorðið berist t.d. konunni til eyrna. Finnur hún með raunverulegum hætti að hún sé elskuð og að hennar þörfum sé mætt í hvívetna? Á þessum degi geta eiginmenn spurt konurnar sínar líkt og Jesús hefði gert. "Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?" Síðan geta þeir leitast við að mæta þörfum þeirra til líkama og sálar. Amen.