Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum. Ef. 4.1-6
Á undanförnum mánuðum hefur hugtakaparið kristilegt siðgæði verið nokkuð til umræðu í tengslum við markmiðsgrein frumvarps til grunnskólalaga sem nú liggur fyrir Alþingi okkar Íslendinga. Þetta hugtak kom inn í grunnskólalögin 1974 en lagt var til við þá endurskoðun sem farið hefur fram að undanförnu að það yrði afnumið og þess í stað haft orðalagið að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Nú hefur menntamálanefnd gert að tillögu sinni að til viðbótar komi orðin kristileg arfleifð íslenskrar menningar. Þar með er gætt að samhengi sögu og nútíma, sem samofin er kristinni trúarhugsun og verður vonandi sátt um þetta orðalag.
Hin sammannlega samviska
En það er ástæða til að staldra við og spyrja hvað kristilegt siðgæði sé og á hvern hátt það sé annað en siðgæði almennt. Samkvæmt biblíulegri hugsun er öllum mönnum áskapaður hæfileikinn til siðrænnar hugsunar. Sá hæfileiki byggir á því sem við blasir í sköpunarverkinu, vitund um ósýnilega veru Guðs sem sjá má af verkum hans (sbr. Róm 1.19-20). Mennirnir eru því án afsökunar, eins og fram kemur í 1. kafla Rómverjabréfsins, enda hver manneskja sköpuð í Guðs mynd, Guðs sem er kærleikur.
Forsendan til siðrænna ákvarðana er þannig sammannleg og byggir á gjöf lífisins sem mönnum ber að sýna virðingu í hvívetna. En eins og fjallað er um svo víða í Biblíunni felst synd mannsins í því að hann sýnir höfundi lífsins óvirðingu og þar með oft á tíðum einnig samferðafólkinu. Siðgæðisröddin, samviskan, sem manninum er lögð í brjóst er iðulega þögguð niður og helgi lífsins fótum troðin, guðsmyndin skert.
Mismunandi viðmið siðgæðis
Nú er það svo að samviskan verður ávallt að hafa eitthvert viðmið. Þetta viðmið getur tekið á sig mismunandi form. Það sem þykir gott og gilt í einu samfélagi flokkast undir verstu mannvonsku í öðru. Augljóst dæmi eru aftökur sem felast í því að hinn meinti afbrotamaður – sem kann að vera stúlka ásökuð um lausung á kynferðissviði – er grafinn í sand upp að höfði og síðan grýttur til bana. Þetta þykir sanngjörn refsing, gott siðgæði, meðal ákveðinna þjóðfélagshópa á ákveðnum svæðum heims, án þess líklega að valda minnsta samviskubiti hjá þeim sem valdið hafa. Orðið siðgæði getur því varla staðið eitt út af fyrir sig, án skilgreiningar.
Meðal þjóða sem mótast hafa af kristnum sið gilda reglur sem byggja á boðorðunum tíu. Segja mætti að grundvöllur kristilegs siðgæðis felist í endurreisn þeirra siðferðilegu viðmiða að umgangast allt sem lifir af virðingu. Upphaf þess er í trausti til Guðs, svo sem fyrstu þrjú boðorðin greina. Hin sjö boðorðin snúa að náunganum og fjalla um virðingu milli foreldra og barna, að hlú að lífinu og mannlegum samskiptum og virða eignarrétt annarra. Þetta finnst okkur, sem alist höfum upp við kristna arfleifð, ef til vill sjálfssagt. Það er þó ekki sjálfssagðara en svo að löggæslan hefur ekki enn gert sig óþarfa. Í manninum býr mótþrói við reglur, jafnvel þær sem vilja gæta réttar heildarinnar og stuðla að því að lífið fái að dafna óáreitt.
Krafan um kærleiksríka framkomu
Til kristinna manna eru gerðar kröfur um kærleiksríka framkomu. Það er eðlileg og ljúf krafa, ekki byrði heldur virðingarstaða, gefin af Guði. Boðorðin öll eiga sér samnefnara í tvöfalda kærleiksboðorðinu, um að elska Guð og náungann. Enda segir Páll postuli: Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins (Róm 13.10).
Hér í Efesusbréfinu orðar Páll þetta þannig að við eigum að hegða okkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem við höfum hlotið. Við eigum að hegða okkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem við höfum hlotið. Köllun okkar er köllun til kærleika. Hún er ekki köllun til kristilegrar arfleifðar, þó allt gott megi um hana segja. Hún er köllun til lifandi kærleika hvern dag, að við séum samkvæm okkur sjálfum og forsmáum ekki þann kærleika Guðs sem á að vera sýnilegur í lífi okkar.
Hin daglega æfing Æfum okkur daglega í þessum eiginleikum, sem postulinn telur upp í Ef 4.2. Skoðum okkur sjálf í ljósi þessara hugtaka. Í dag gæti ég einbeitt mér að því að vera lítillát og hógvær. Á morgun gæti ég þjálfað með mér þolinmæði og langlyndi. Næsta dag mætti ég skoða sértaklega hvernig ég umber og elska aðra.
Versin 3-6 varða síðan samhengi hinnar kristnu fjölskyldu kirkjunnar, bæði eins og það birtist í smáum hópum og í hinu alþjóðlega systkinasamfélagi kristninnar. Þar er hvatningin sú að við kappkostum að varðveita einingu andans í bandi friðarins því öll tilheyrum við einum líkama og einum anda í einni von. Vinnum saman að kærleiksköllun okkar sem byggir á einum Drottni, einni trú, einni skírn, einum Guði og föður allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.
Það er kristilegt siðgæði.
Á morgun verður borinn til grafar dr. Björn Björnsson, prófessor í félagslegri siðfræði við guðfræðideild Háskóla Íslands. Þessar hugleiðingar eru tileinkaðar minningu hans.