Það má segja að árið 2014 hafi verið ár vanþóknunar og reiði, ekki bara á Íslandi, heldur í heiminum öllum. Fjöldamótmæli, bæði hér heima og erlendis, settu svip sinn á árið, fréttir af ofbeldisverkum og stríðsátökum náðu nýjum hæðum á árinu o.s.frv. Ég veit ekki með ykkur, en eftir hrunið, þá fylltust margir á Íslandi bjartsýni, að við hefðum nú lært af hrakförum okkar, að við myndum gera upp samfélagið og taka höndum saman um að gera samfélagið okkar betra, réttlátara og heiðarlegra. Við ætluðum að semja nýja stjórnarskrá, við héldum þjóðfundi þar sem við sammæltumst um þau gildi sem við vildum láta ráða förinni á hinu nýja Íslandi, það voru skrifaðar rannsóknarskýrslur um allt sem aflaga hafði farið í samfélaginu, sett á stofn sérstakt saksóknaraembætti sem átti að hafa hendur í hári þeirra sem höfðu gerst brotlegir og rúið samfélagið inn að skinni, og átti að sjá til þess að þeir fengju sína refsingu. Stjórnvöldum var steypt og almenningur fékk það á tilfinninguna að hann gæti haft áhrif á það hvernig samfélagið virkar og hvernig stjórnmálamenn og embættismenn sinna störfum sínum.
Í byrjun árs 2015, rúmum sex árum eftir að Ísland, ásamt umheiminum, hrundi, þá sjáum við hvernig vonir okkar og væntingar hafa ekki gengið eftir. Ég held að við getum flest verið sammála um að við upplifum ekki að við lifum í réttlátara og betra samfélagi á Íslandi í dag. Fáir hafa verið dregnir til ábyrgðar vegna hrunsins. Bankarnir virðast vera komnir á sama stað og fyrir hrun, ofurlaun, bónusar og gróði ráða förinni, stjórnmálamenn eiga ekki traust okkar, jafnvel ennþá síður en fyrir hrun, en virðast samt ekki hafa lært að axla ábyrgð og koma heiðarlega fram, fordómar, útlendingaótti, ótti við önnur trúarbrögð, ótti við okkar eigin trúarbrögð, allt virðist mér þetta hafa einkennt árið sem er nýliðið. Og ójöfnuður hefur aukist, fátækt hefur aukist, það eru hjálparstofnanir sammála um. Og enn er mótmælt.
Vanþóknun og reiði, þetta eru tilfinningar spretta gjarnan upp úr vonbrigðum. Eitthvað er ekki eins og við viljum að það sé og við verðum óörugg. Og við reiðumst þeim sem ekki hugsa eins og við. Aðhyllast aðrar skoðanir. Lífsgildi. Því að þau gera okkur óörugg. Þau ógna því sem er okkur kærast og stendur hjarta okkur næst.
Ein ástæðan fyrir því að við upplifum harkalegri skoðanaskipti og meira óþol í garð annarra gæti verið sú að með tilkomu samfélagsmiðlanna hafa allir rétt og möguleika á að tjá sig, fleiri raddir heyrast, og margar þeirra gera okkur óörugg.
Þetta á líka við um kirkjuna. Hún hefur ekki lengur þann sess í samfélaginu sem hún hafði, og gagnrýnisraddirnar á hana verða háværari. Oft eiga þær fullan rétt á sér, því kirkjan hefur haft þann sess í samfélaginu síðustu aldir að hún hefur tekið sér stöðu sem hluti af valdinu. Bara það að prestar eru embættismenn lýsir ákveðinni afstöðu kirkjunnar til ríkisvaldsins. Og almenningur hefur oft upplifað valdníðslu og kúgun af hálfu kirkjunnar og málsvara hennar, sem oftast hafa verið prestarnir, embættismennirnir.
Umræðan um kirkjuheimsóknir í skóla hefur einmitt oft einkennst af þessari vanþóknun og jafnvel reiði. Hún snertir greinilega við tilfinningalífi okkar og á aðeins að takmörkuðu leyti rökrænan uppruna. Því að þarna mætast tvennir tímar. Tíminn þar sem kirkjan var óumdeild afl í samfélaginu, og þjónar hennar þar með forréttindafólk sem hafði aðgang að öllum kimum samfélagsins og gátu skilgreint orðræðuna og stjórnað henni eftir sínu höfði, jafnvel í skjóli lagalegra forréttinda, t.d. um bann við guðlasti. Og tíminn í dag, þar sem kirkjan hefur ekki lengur þessi forréttindi, þar sem rödd kirkjunnar og rödd trúarinnar er aðeins ein af mörgum jafnháværum röddum í samfélaginu, og þar sem við kirkjunnar þjónar þurfum ekki aðeins að láta rödd trúarinnar berast, heldur einnig að svara fyrir misgjörðir fortíðarinnar, með því að berjast gegn vantrausti á starf kirkjunnar og þau sem þjóna í henni. Og það eru því miður ýmsir innan raða kirkjunnar sem telja að við sem samfélag ættum ennþá að vera stödd á hinu fyrra tímabili, sem eiga erfitt með að aðlaga sig breyttum tíðaranda og aðstæðum. En svo eru líka því miður ýmsir sem vilja nýta sér tíðarandann til að jaðarsetja trú og trúartjáningu og ég vil vara mjög alvarlega við því, og þá er ég ekki eingöngu að tala um aðstæður kirkju og kristni, heldur allra þeirra sem vilja hafa frelsi til að tjá trú sína í hinum opinbera rými. Ég vil minna á að þau samfélög sem hafa gengið lengst í að hefta frelsi til trúarlegrar tjáningar, eru samfélög sem hafa einkennst af kúgun og ofbeldi, þar er nóg að taka Sovétríkin sálugu sem dæmi.
Guðspjall dagsins er mjög stutt. Það er í rauninni niðurlag kaflans í Jóhannesarguðspjalli sem segir frá því þegar Jesús fer í musterið í Jerúsalem og hrindir þar um koll borðum víxlaranna og rekur alla út og ásakar þá um að hafa gert hús Guðs að ræningjabæli. Svo er vitnað í mörg önnur tákn sem Jesús gerði og að þau hafi áunnið honum fylgi margra. Jesús hratt um borðum víxlaranna í musterinu. Hann réðst með offorsi gegn því sem honum fannst vera misnotkun á trúarlífi og trausti fólks. Hann notaði hreinlega til þess ofbeldi, hann sýndi vanþóknun sína á mjög svo áberandi og aggressívan hátt. En Jesús var ekki að þessu til að fá útrás fyrir eigin frústrasjónir og vonbrigði. Gjörningur Jesú var hluti af miklu stærra samhengi. Þjónusta hans og boðun beindist öll að því að taka sér stöðu með lítilmagnanum gagnvart valdinu. Að bjóða þeim öflum birginn sem misnotuðu vald sitt til að skara eld að eigin köku, sem notuðu vald sitt til að skilgreina orðræðuna og segja til um það hvað var samfélagslega viðurkennt og hvað ekki, hverjir voru inni og hverjir voru úti. Og þessi öfl var að finna víðsvegar í þjóðfélaginu. Allt frá fæðingu ógnaði hann hinu veraldlega valdi, Heródes konungur leit á hann sem ógn og reyndi að láta myrða hann. Hann bauð karlaveldinu byrginn þegar hórseka konan var leidd fram fyrir hann og hann sagði þessi fleygu orð, sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum. Og hann bauð hinu trúarlega valdi birginn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, í rökræðum sínum við faríseana. En það má kannski segja að hápunktur þessarar mótspyrnu Jesú, sem annars var friðsamleg, hafi verið að velta við borðum víxlaranna í musterinu. Þar var hann staddur í innsta vígi hins trúarlega valds, sem hann hafði gagnrýnt svo mjög. Og jafnvel þar hafði ranglætið fengið að grassera, svo mjög að í eina skiptið á ferli sínum greip Jesús til ofbeldis. Ekkert minna dugði til að reka út hið illa sem hafði fengið að hreiðra þar um sig.
Þau samfélagsöfl sem Jesús bauð birginn með boðun sinni fyrir rúmum 2000 árum eru því miður enn að verki í dag, og miðað við það sem hefur verið efst á baugi í fréttum á síðasta ári, hafa þau ekkert látið undan síga. Það getur verið auðvelt að láta sér fallast hendur þegar við stöndum frammi fyrir þeim, en það er okkar hlutverk að bjóða birginn öllum þeim öflum sem ástunda ranglæti, kúgun og misnotkun. Þetta er okkar hlutverk, bæði sem einstaklingar, og sem kirkja. Því að kirkjan má aldrei gleyma þeirri skyldu sinni að taka sér alltaf stöðu með lítilmagnanum. Þeirri skyldu sinni að taka sér alltaf stöðu gegn valdinu. Að bjóða valdinu birginn. Að því leyti á kirkjan alltaf að vera í stjórnarandstöðu. Að því leyti má kirkjan aldrei verða það nátengd hinu veraldlega valdi, að hún fari að njóta forréttinda og verða værukær. Og við skulum ekki gleyma því að hver einasti jólasálmur sem við syngjum er sálmur vonar. Boðskapur jólanna er sá að myrkrið fær aldrei sigrað. Sama hversu dökkt útlitið er, sama hversu vanmáttug við upplifum okkur gagnvart öflum eyðileggingar og ójöfnuðar, þá eigum við þá von og fullvissu að Guð hefur tekið sér stöðu með okkur. Og þannig getum við gert hver einustu áramót sem við lifum að tímamótum vonar og uppbyggingar. Ég bið þess að við megum öll ganga til móts við nýtt ár, staðráðin í því að bjóða birginn öllum þeim öflum sem vilja eyðileggja og misnota, og að við göngum til liðs við ljósið, ljós heimsins, Jesú Krist.
Dýrð sé Guði, sem sendir okkur hið sanna ljós sem lýsir upp myrkrið.