Myrkrið

Myrkrið

«Á dimmri nóttu bárust boð um bjartan, nýjan dag». Segir í jólasálmi sr. Hjálmars Jónssonar. Þau orð minn á þann atburð sem öllu er stærri. Að inn í myrkur haturs og vansældar sendi Guð son sinn til að fæðast sem ungabarn undir skini stjörnu í Betlehem. Þá skein ljós yfir myrkrið skærast og það heldur áfram að lýsa í atburðum jólanna. Það ljós er kærleikurinn til allra manna. Líf Jesú, orð hans og athafnir birta ljós sem er ekki af þessum heimi. Það ljós hefur mörgum reynst vel í baráttunni við myrkrið og óreiðuna sem víða sækir að.

Ég las á dögunum frásögn manns sem fór út í myrkrið. Hann ákvað í mesta skammdegismyrkrinu í desember að finna stað sem ljós næði ekki til. Staðurinn var ekki auðfundinn því þéttbýli er mikið og víða sjást ljós frá húsum eða götulýsingu. Að lokum fann maðurinn laut þar sem ekkert ljós var nema frá himinhvolfinu. Því ekki getur nokkur maður flúið stjörnurnar. En þarna í myrkri laut lagðist hann niður. Myrkrið var þétt. Það var alveg eins og þykkur svampur sem hefði vafist utan um hann. Myrkrið fyllti í senn öll skynfæri. Það var næstum þungt að draga andann. Allt áreiti var horfið. Í fyrstu fann maðurinn fyrir hvíld og ró í myrkrinu en svo kom hjálparleysið.. Sú var niðurstaða lautarferðar mannsins, að hann þakkaði ljós stjarnanna sem gáfu birtu á dimmri nóttu. Án stjarnanna vildi hann ekki vera og ekki án ljósanna heldur.

 

Hvað gekk þessum manni til? Líklegt er að ferðin í myrkrið hafi verið liður í einhverskonar andlegri leit þessa manns. Hann var þreyttur á öllu áreiti daganna og kröfum sem að honum var beint. Hann fann fyrir órósemi hið innra og ákveðinni uppgjöf líkamans. Það er alþekkt leið trúarbragða að fólk skuli draga sig úr hávaða dagsins og leita kyrrðar. Sú athöfn er gagnleg. Með íhugun kemst ró á hugsanir og friður í hjarta.  Maðurinn þráði frið og ró. Hann var þreyttur á öllu sem var að hringsnúast bæði innra með honum og allt um kring. Sannarlega skiljanlegt okkur sem flest þekkjum eril desembermánaðar og allar þær kröfur sem lífið gerir, ekki bara þá heldur, alla daga ársins.  

 

En hvað gerði myrkrið? Það límdi sig utan um manninn. Þrengdi að honum á allan hátt. Hann fann í því stundar frið en svo  skynjaði hann ógn og bjargarleysi. Í myrkri getur nefnilega enginn maður lifað. Þess vegna höfum við ljósið. Myrkrið veitir hvíld en ljósið er lífið sjálft og án þess getum við ekki verið.

 

Það er til annað myrkur hinu verra. Oft göngum við því á vald án þess að taka eftir því sjálf. Það myrkur býr í hatrinu og öfundinni, baktalinu og græðginni sem aldrei lætur staðar numið og þarf að eignast allt.  Myrkur í huga okkar er allt það sem fær okkur til að gera það sem skaðar aðra og okkur sjálf. Gegn því myrkri þarf að berjast.  

 

«Á dimmri nóttu bárust boð um bjartan, nýjan dag». Segir í jólasálmi sr. Hjálmars Jónssonar. Þau orð minn á þann atburð sem öllu er stærri. Að inn í myrkur haturs og vansældar sendi Guð son sinn til að fæðast sem ungabarn undir skini stjörnu í Betlehem. Þá skein ljós yfir myrkrið skærast og það heldur áfram að lýsa í atburðum jólanna. Það ljós er kærleikurinn til allra manna. Líf Jesú, orð hans og athafnir birta ljós sem er ekki af þessum heimi. Það ljós hefur mörgum reynst vel í baráttunni við myrkrið og óreiðuna sem víða sækir að.

 

Ég mæli með lestri Lúkasarguðspjalls þessa aðventu. Það er betri kostur en leggjast í dimma laut. Jesús svarar mörgum knýjandi spurningum um tilgang lífsins, um kærleika og ást. Spurningum um sátt og frið, umhyggju og umburðarlyndi og siðgæði er öllu tekur fram.

 

Guð gefi þér og þínum gleðilega hátíð ljóss og friðar og megi birta jólanna lýsa þér á nýju ári.

 

Sr. Arnaldur A. Bárðarson,  prestur í Árborgarprestakalli