Samkvæmt nýjustu tölum vilja ¾ aðspurðra í þjóðarpúlsi Capacent-Gallup aðskilnað ríkis og kirkju. Fyrir tæpum áratug var helmingur þessa sinnis. Marktæk breyting hefur því orðið á þessum tíma og fjöldi aðskilnaðarsinna er orðinn mikill. En hvernig ber að túlka þessa þróun?
Á bakvið já-svar við aðskilnaði býr margs konar afstaða. Margir sem tilheyra ekki þjóðkirkjunni fylgja eðlilega aðskilnaði. Þeir sem sjaldan eða aldrei leiða hugann að trúmálum eru líkast til sömu skoðunar Meðal virks þjóðkirkjufólks, jafnvel vígðra þjóna, óska einnig ýmsir aðskilnaðar. Þeir telja tengsl við ríkisvaldið fjötra kirkjuna. Fyrr á tíð höfðu þeir mikið til síns máls en síður eftir setningu þjóðkirkjulaga 1997. Þau tryggja þjóðkirkjunni umtalsvert sjálfstæði.
Líklegasta skýringin á þessum háu tölum nú er eðlileg tortryggni fólks í garð flestra opinberra stofnana eftir hrun. Það varð ekki aðeins efnahagshrun haustið 2008. Fleira dróst með í fallinu og jafnvægi er engan veginn komið á. Hvers vegna skyldi þjóðkirkjan ekki líka kenna á þeirri reiði og sársauka sem ríkir í samfélaginu?
Er aðskilnaður nauðsynlegur?
Nú á dögum er fólki tíðrætt um fjölmenningu og eðli hennar. Spurt er hvort réttlætanlegt sé að einum trúarbrögðum, einni kirkjudeild, jafnvel einu trúfélagi sé sköpuð stjórnarskrárvarin og löghelguð sérstaða í fjölmenningarsamfélagi. Verða ekki öll trúfélög að hafa sömu stöðu? Eiga nokkur tengsl að vera milli ríkisvalds og trúarstofnana? Eiga trúmálin ekki að lúta reglum einkamálaréttarins? Útheimta trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar ekki að þjóðkirkjuskipan hennar verði felld úr gildi?
Hér vakna mörg álitamál. Borið saman við flest önnur samfélög er íslenska samfélagið enn ekki fjölmenningarlegt. Enn tala lanflestir sem í landinu búa sömu tungu, eiga sameiginlega sögu og deila reynslu í flestu því sem sameinar fólk, skapar þjóð. Við erum hins vegar á leiðinni inn í fjölmenninguna. Það er rétt að taka tillit til þess með því að virða minnihluta og fyrirbyggja frá upphafi fordóma og spennu sem einkenna samskipti mismunandi þjóðfélagshópa víða í löndunum umhverfis okkur. — Þar er þó að fleiru að hyggja en trúmálum og ýmsar stofnanir eiga erfiðara með að fóta sig í fjölmenningunni en kirkjan. — Enn er það svo að evanglísk-lúthersk kristni er sú trúarhefð sem langstærsti hluti landsmanna leitar í þegar svo ber undir og þjóðkirkjan það trúfélag sem þjónar flestum.
Í alþjóðlegri mannréttindaumræðu og nýlegum innlendum og erlendum dómum ríkir sá skilningur að þjóðkirkjuskipan brjóti ekki í bága við trúfrelsi þar sem söguleg, menningarleg og samfélagsleg rök hnígi að slíkri skipan. Þó er þess auðvitað krafist að trúarlegir minnihlutahópar njóti fulls frelsis og einstaklingar missi í engu borgaraleg réttindi þótt þeir standi utan trúfélags meirihlutans og raunar allra trúfélaga.
Því eru enn ekki þær aðstæður upp komnar í íslensku samfélagi að aðskilnaður ríkis og kirkju hljóti að álítast nauðsynlegur. Hitt er annað mál að huga mætti að auknum jöfnuði trúfélaga og þá um leið lífsskoðunarfélaga. Það mætti gera með því að hið opinberra styddi fleiri trú- og lífsskoðunarfélög en þjóðkirkjuna eina og þá á grundvelli þess hlutverks á sviði almennra velferðarmála sem hvert félag fyrir sig telst gegna.
Er aðskilnaður mögulegur?
Sú spurning er áleitni hvort fullur aðskilnaður ríkis og kirkju sé í raun mögulegur hér á landi og annars staðar þar sem stórar meirihlutakirkjur eru við lýði. Í Svíþjóð var stefnt að „aðskilnaði“ um aldamótin 2000 og lagabreytingar gerðar í þá veru. Nú bráðum áratug síðar er hætt að tala um „skilnað “ þar í landi og þess í stað rætt um „tengslabreytingu“. Aðskilnaðurinn í Svíþjóð mistóks ekki þrátt fyrir þetta. Tengsl ríkis og kirkju eru einfaldlega flókið fyrirbæri. Það er t.d. ekki svo að kostirnir hér á landi séu annað tveggja núverandi skipan eða fullur aðskilnaður. Þvert á móti eru mörg. Svíar völdu eitt þeirra.
Hér á landi er „fullur aðskilnaður“ sérstaklega flókinn þar sem fjármál þjóðkirkjunnar og ríkisins voru splæst saman á óheppilegan hátt í upphafi 20. aldar. Fram að þeim tíma var kirkjan að mestu sjálfbær stofnun sem rak starf sitt með afrakstri af kirkjujörðum. Á ákveðnum umbrotatímum var ákveðið að hið opinbera tæki yfir forráð kirkjueignanna að prestssetrum undan skildum en greiddi í staðinn laun prestanna. Ef fullur fjárhagslegur aðskilnaður ætti að verða þyrfti að gera upp eignatilfærsluna með formlegum hætti. Aðskilnaður væri aldrei hugsanlegur án þess að rekstrargrundvöllur kirkjunnar yrði tryggður að nýju. Það er einfaldlega ekki hægt að bakka út úr 100 ára sögu.
Er sparnaður að skilnaði?
Af þessum sökum er spurning hvort sparnaður yrði af róttækum breytingum á sambandi ríkis og kirkju sem í daglegu tali kallast aðskilnaður. Eignadæmið þyrfti að gera upp með ærinni fyrirhöfn og tilkostnaði. Ríkið sæti eftir sem áður uppi með fjárhagslega skuldbindingu gagnvart þjóðkirkjunni. Þann hnút mætti leysa með aðferð sem oft er beitt þegar opinberar stofnanir eru leystar úr tengslum við fjárveitningarvald og felst í því að þeim er fenginn höfuðstóll af þeirri stærðargráðu að vextir og annar afrakstur standi undir rekstri til frambúðar. Þetta yrði væntanlegra síst ódýrara en núverandi fyrirkomulag.
Þá er líklegt að ríkisvaldið mundi eftir sem áður veita fjármunum til meirihlutakirkjunnar vegna fjölþættra menningar- og samfélagshlutverka sem hún mundi áfram gegna. Nægir þar að nefna varðveislu friðlýstra kirkjubygginga og kirkjustaða sem eru sameiginleg menningarverðmæti þjóðarinnar.
Ekki þarf að nefna sóknargjöldin í þessu sambandi. Þau eru ekki ríkisframlag heldur gjald sem ríkið innheimtir af þeim sem tilheyra þjóðkirkjunni þótt það sé gert á óþarflega flókinn hátt. Þetta þyrfti ekki að breytast við aðskilnað þar sem ríkið innheimtir nú þegar hliðstæð gjöld fyrir öll skráð trúfélög. Fyrirkomulagið er því óháð þjóðkirkjuskipaninni.
Í þessu sambandi skal á það bent að við aðskilnað mundu auðvitað allir sem nú eru skráðir í þjóðkirkjuna áfram tilheyra meirihlutakirkjunni og greiða til hennar gjöld þar til hver og einn ákvæði að segja sig úr henni. Trúfélagið leysist ekki upp þrátt fyrir breytt tengsl við ríkið.
Að þessu skoðuðu er hæpið að aðskilnaður spari ríkinu eða einstaklingunum nokkurt fé. Fjármálaleg rök standa því ekki til aðskilnaðar.
Hvað er þjóðkirkja?
Hér á landi er þjóðkirkjuhugtakið oftast notað í lögformlegri merkingu stjórnarskrárinnar, þjóðkirkjulaganna frá 1997 og annarra laga sem til álita koma. Þar er orðið viðhaft um kirkju sem er sjálfstæðari og lýðræðislegri en ríkiskirkjur fyrri alda en tengdari ríkisvaldinu og lögformlegar upp byggð en fríkirkjur.
Þjóðkirkjuhugtakið má þó nota í ýmissi annarri merkingu. Ein er tölfræðileg og lýsandi. Þá merkir hugtakið einfaldlega meirihlutakirkja. Þessi merking liggur til grundvallar í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Hún skyldar ríkisvaldið ekki til að „styðja“ og „vernda“ þjóðkirkju landsins vegna þess að hún er lúthersk heldur af þeirri ástæðu að meirihluti þjóðarinnar tilheyrir henni.
Enn má nota þjóðkirkjuhugtakið í sögulegri og menningarlegri merkinu. Þá nær það yfir kirkju sem hefur starfað og strítt með einni þjóð gegnum þykkt og þunnt um aldir, hefur orðið hluti af innviðum samfélags hennar, stutt við menningu hennar og orðið einstaklingum og hópum það skjól sem leitað er í þegar á móti blæs.
Loks er mögulegt að skilgreina þjóðkirkjuhugtakið guðfræðilega. Þá nær það yfir hluta af kirkju Krists á öllum stöðum og öllum tímum sem skynjar sig á sérstakan hátt kallaðan til að þjóna ákveðinni þjóð og öllum sem þjóðinni tilheyra án tillits til trúfélagsaðildar eða trúar. Þá er aðeins spurt: Vilt þú þiggja þjónustu, taka í útrétta hendi? — Slík þjóðkirkja þarf ekki að starfa í neinum tengslum við ríkisvald.
Að vera eða vera ekki ...
Burtséð frá skoðanakönnun Capacent-Gallup þarf íslenska þjóðkirkjan að taka þjóðarpúlsinn, telja hjartslögin og spyrja: Erum við og viljum við vera þjóðkirkja? Þá skipta tengsl við ríksivaldið engu máli heldur tengslin við þjóðina sjálfa. Hvað merkja ¾ hlutarnir sem nefndir voru í upphafi? Er samleið kirkjunnar og þjóðarinnar að rakna?
Þetta eru spurningar sem þjóðkirkjan verður að spyrja sig nú. Framtíðartengsl hennar og þjóðarinnar munu að miklu leyti ráðast af því hvernig kirkjunni tekst að standa með þjóðinni að uppbyggingunni eftir hrunið.
Verður þjóðkirkjan í fararbroddi þeirra sem leita sannleikans um hrunið og berjast fyrir réttlátu uppgjöri eða stendur hún álengdar? Hvernig tekst henni að styðja og styrkja þau sem urðu illa úti í hruninu eða eiga eftir að gjalda afleiðinga þess? Sækir hún út eða hverfur hún inn í sig sjálfa? Verður hún fljót að endurheimta það traust sem hrunið svipti hana og flestar opinberar stofnanir eða ekki? Á því veltur staða hennar sem þjóðkirkju hvernig svo sem menn kjósa að marka henni lagalega stöðu í framtíðinni.