Tilkynnt var í dag að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hlyti friðarverðlaun Nóbels í ár. Eins og búast mátti við hefur tilnefningin vakið mikla athygli og ólík viðbrögð.
Þrátt fyrir skamman tíma sem forseti hefur Obama tekist að ná athygli heimsbyggðarinnar og að vekja von með fólki um betri framtíð. Í tilkynningu norsku Nóbelnefndarinnar segir að Obama hljóti verðlaunin fyrir að stuðla að samvinnu og samtali meðal manna og þjóða. Útrýming kjarnavopna og áherslan á hnattræna hlýnun eru í tillögunni tínd til sem helstu málefnin sem Obama forseti hefur beitt sér fyrir á sínum stutta tíma á valdastóli. Sjá má tilkynningu norsku Nóbelnefndarinnar í fullri lengd hér: http://nobelpeaceprize.org/en_GB/home/announce-2009/
Frá kirkjulegu sjónarhorni er margt áhugavert við það hvernig Barack Obama hefur beitt sér. Kjarnavopnalaus heimur og hnattræn hlýnun eru mikilvæg málefni sem hafa verið á borði kirkna og kirknasamtaka um langa hríð. Og þótt það sé ekki nefnt í tilkynningu Nóbelnefndarinnar, hefur Obama forseti einnig látið að sér kveða á sviði samskipta ólíkra kynþátta og trúarbragða. Ekki síst hefur hann vakið athygli fyrir að vera ómyrkur í máli þegar hann talar um tengsl kristinna og múslima.
Fræg er ræða sem Obama hélt í háskólanum í Kaíró í Egyptalandi í júní síðastliðnum, þar sem hann kallaði eftir nýju upphafi I samskiptum kristna heimsins og hins múslimska. Obama sagði um ræðuna að hann vildi með henni “segja sannleikann” um tengsl Islam og Bandaríkjanna. Hann hvatti bæði vesturlandabúa og múslima um allan heim að hætta að hugsa í staðalímyndum um þessa hópa og horfa ekki á það sem sundarar okkur sem mannkyni heldur á það sem sameinar okkur.
Til að styðja þessa sýn endaði Obama ræðuna sína í Karíó á því að vitna í trúarrit kristinna manna, gyðinga og múslima; Biblíuna, Talmúd og Kóraninn. Þar sagði Obama:
Við höfum í hendi okkar að skapa þá veröld sem okkur finnst eftirsóknarverð, en aðeins ef við höfum hugrekki til að hefja nýtt upphaf og hafa í huga það sem skrifað stendur.Í hinni helgu bók, Kóraninum segir: “Ó, þú mannkyn! Við sköpuðum ykkur karla og konur; og við höfum skapað ykkur eftir ólíkum þjóðum og ættflokkum, til þess að þið megið þekkja hvert annað.”
Talmúd segir okkur: “Allt lögmálið bendir okkur á friðarveg.”
Í heilagri ritningu segir: “Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.”
Mannkyn allt getur lifað saman í friði. Við vitum að það er samkvæmt vilja Guðs. Og það er það sem við verðum að vinna að hér á jörðinni.
Þessi ræða hlaut vitaskuld misjafnar móttökur. Fulltrúi Ísraelstjórnar sagði að Obama væri ekki í tengslum við veruleikann og frá Hamas samtökunum kom tónn um að hér væri bara diplómatískt smjaður á ferðinni.
Þrátt fyrir tortryggni af þessu tagi, hlýtur það að vekja von um breyttar áherslur í heimspólitík og samskiptum fólks að sjá sameiginlegum friðarboðskap hinna ólíku trúarbragða vera lyft fram með þessum hætti.
Útnefning Barack Obama til friðarverðlauna Nóbels í ár er kannski fyrst og fremst pólitískur leikur til að setja pressu á Bandaríkjastjórn að endurhugsa hernaðaríhlutanir sínar í miðausturlöndum. En hún er líka tjáning um þá ósk að sá valdamikli aðili sem situr á forsetastóli í Bandaríkjunum verði í fararbroddi í nýju upphafi þar sem fólk með ólíkan trúarlegan og menningarlegan bakgrunn vinnur saman að friði á jörð.
Ljósmynd með pistlinum: