Þorláksmessa

Þorláksmessa

Og enn eru að koma jól. Ég veit að þessa Þorláksmessu verða okkur ekki spöruð tíðindin af erfiðleikum og niðurlægingu þjóðar fremur en undanfarna daga. Við vitum að margur ber kvíða í brjósti fyrir þessi jól, jafnvel kvíða um eigin hag og ástvina sinna á hátíðinni sjálfri. Við þessu kann heimurinn fá ráð. Ekki ætla ég að þykjast kunna þau heldur.
fullname - andlitsmynd Sigurður Sigurðarson
23. desember 2008

Já, í dag er 23. desember. Aðventunni er brátt lokið og jólin að ganga í garð. Annars heyri ég sjaldan talað um 23. desember. Þennan dag nefnum við ávallt Þorláksmessu. Það nafn ber dagurinn fyrir það, að þennan dag lést Þorlákur biskup helgi hér í Skálholti árið 1193. Í Þorlákssögu er fögur frásögn af því hvernig Þorlákur biskup bjóst við dauða sínum. Í þrjá mánuði var hann rúmfastur og vissi hvað í vændum var.

Á bernskuheimili mínu voru lesnir húslestrar á föstutímunum. Á lönguföstu voru lesnir og sungnir passíusálmar Hallgríms Péturssonar. Á aðventu var frekar sunginn tíðasöngur. Þegar svo komið var að Þorláksmessu las faðir minn gjarnan frásögu Þorlákssögu af andláti Þorláks helga. Minnist ég þess að mér barninu fannst skjóta svolítið skökku við að vera að rifja þetta upp svona alveg rétt fyrir jólin, en um nálægð þeirra snerist hugur barnsins að sjálfsögðu. Ekkert hugsaði ég út í það, að fólk deyr rétt fyrir jólin og á jólunum sjálfum. Ekkert hugsaði ég heldur út í það, að mörg eru kvíðaefnin fólks þó að jólin séu að koma. Sjálfur kveið ég engu, hlakkaði bara til. Þegar ég seinna les þessa frásögu minnist ég þess að öll eigum við að deyja. Þá blasir einnig við mér að ekki skiptir höfuðmáli andspænis dauðanum hver dagurinn er eða stundin. Heldur skiptir það máli hvort í hjartanu býr ótti eða hvort þar býr von. Hin fáorða frásögn af andláti Þorláks fjallar einmitt um að ekki bjó með honum ótti heldur var hann ríkur af von. Sjö dögum fyrir andlát sitt hafði Þorlákur hlotið síðustu smurningu, en svo nefndist hinsta þjónusta við deyjandi mann á þeirri tíð. Venja var að fólk dæi svo í þeim sömu klæðum sem það var fært í fyrir smurninguna. Þennan dag bað Þorlákur um að hann fengi að hafa fataskipti. Hann var honum svarað því til að mönnum þætti ábyrgðarhluti að hræra þannig við honum og var hann spurður hvort hann vildi ekki vera í þessum fötum ef hann ætti skammt eftir ólifað. Þorlákur svaraði því til að af smurningunni vænti hann sér miskunnar af Guði en ekki þessum klæðum og að vel væri óhætt að hræra sig. Voru honum þá fengin önnur klæði og hélt hann góðum háttum sínum þann dag þangað til lokið var aftansöngnum. Að því loknu hlaut hann hægt andlát og segir sagan að öllum þætti betra hjá honum önduðum að vera en mörgum lifandi mönnum.

Og enn eru að koma jól. Ég veit að þessa Þorláksmessu verða okkur ekki spöruð tíðindin af erfiðleikum og niðurlægingu þjóðar fremur en undanfarna daga. Við vitum að margur ber kvíða í brjósti fyrir þessi jól, jafnvel kvíða um eigin hag og ástvina sinna á hátíðinni sjálfri. Við þessu kann heimurinn fá ráð. Ekki ætla ég að þykjast kunna þau heldur. En til þess að geta nú þrátt fyrir allt hlakkað til jólanna í þetta sinn finn ég huggun í því að minnast þess af hverju ég vænti mér og þjóð minni miskunnar af Guði. Það er ekki af hinum ytri umbúnaði jólanna heldur af því fagnaðarerindi sem þau boða um að okkur sé frelsari fæddur, frelsari frá synd og dauða og frá öllu því sem gegn okkur rís. Gleymum því ekki að staðnæmast við jötu hans þar sem hún stendur á jaðri alls sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Þarna stendur hún fátækleg en fögur því að um hana ljómar himneskt ljós og af henni megum við vænta miskunnaraf Guði. Það er vagga hans sem í máttarorði sínum boðar mér og þér og heiminum öllum líf og sáluhjálp.

Gleðileg jól.