Það er sjálfsagt misjafnt hvað fólk hugsar um þegar það hugsar um fermingu. Sumir hafa þá skoðun að börnin sem láta ferma sig hugsi bara um gjafirnar og meini eiginlega ekkert með þessu. Ég tel að þetta séu fordómar sem eigi ekki við rök að styðjast. Ég hef bara of mikil samskipti við fermingarbörn og starfsmenn kirkjunnar sem sinna fermingarfræðslu til að taka mark á slíkri fullyrðingu. Allt annar sannleikur blasir nefnilega við mér. Þau vita vel um hvað þetta snýst, hafa skoðanir á lífinu, trúnni og þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera maður. Um þetta eru þau að fjalla allan veturinn í fermingarfræðslunni.
Ferming hvað? Svar Hjálparstarfs kirkjunnar væri: Stórkostleg ábyrgð á systur og bróður í Afríku, ekki bara í orði heldur í verki. Þú hváir kannski enn. Jú, um 3000 fermingarbörn standa fyrir söfnun til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í nóvember á hverju ári. Þau ganga í hús með merkta bauka Hjálparstarfs kirkjunnar og setja þrýsting á okkur hin að leggja okkar af mörkum af því að þeim er ekki sama um þau sem hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Þeim er ekki sama um að stúlkur komist ekki í skóla vegna þess að þær þurfa að nota svo mikinn tíma í að sækja vatn langar leiðir. Þeim finnst líka ósanngjarnt að skyldur heimilisins hvíli langmest á konum og stúlkum. Hreint vatn í næsta nágrenni gerir þeim kleift að komast í skóla, með menntun nær jafnrétti frekar fram að ganga, þó að það geti tekið tíma.
Þú getur verið ósammála innihaldi fermingarinnar en ertu ekki sammála því að allir eigi að hafa aðgang að hreinu vatni? Þú getur verið ósammála því að gera Jesú að leiðtoga lífs þíns, en ertu ekki sammála því að stúlkur fái að ganga í skóla og jafnrétti kynjanna aukist?