Hvað var fullkomnað?

Hvað var fullkomnað?

Í því ljósi virðast orðin „Það er fullkomnað“ enn fjarstæðukenndari. Hvað er fullkomið við þessa atburðarrás – er hún ekki einmitt lýsandi dæmi um brotinn heim, brotin samfélög og brotnar sálir?

Höfundur Jóhannesarguðspjalls lýsir dauðastríði Jesú á krossinum á annan hátt en hinir guðspjallamennirnir.

Það er fullkomað

Í frásögnum Mattheusar, Markúsar og Lúkasar er sársaukinn meiri og niðurlægingin. Hjá Jóhannesi, eins og við lásum hér er eins og áætlun sé framfylgt – áætlun þar sem Jesús sjálfur er við stjórnvölinn. Eins og víðar í þessari frásögn þekkir Jesús hugsanir og forsendur allar. Og þetta er engin undantekning.

Þegar hinn þjáði frelsari hrópar í Markúsarguðspjalli: Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? verða hinstu orð Jesú Jóhannesarguðspjalls af allt öðrum toga: Það er fullkomnað.

Hvað var fullkomnað? getum við spurt. Er það uppfylling þessara spádóma sem við lesum um í Gamla testamentinu um hinn líðandi þjón sem fórnar lífi sínu svo aðrir megi lifa? 

Atburðir föstudagsins langa rista dýpra en svo. Hérna stöndum við í myrkrinu miðju og sjáum vart handaskil. Jesús á krossinum talar til mannkyns sem er plagað af þrautum bæði á líkama og sálu. Það að Jesús Jóhannesarguðspjalls skuli einmitt vera með þessa yfirsýn alla og yfirvegun gerir það mögulega enn sterkara að hann skuli ganga inn í þjáningu og dauða sem lýst er með afdráttarlausari hætti hjá hinum sögumönnum. 

Svívirtur

Þarna er að sama skapi ekki staldrað við atriði sem sérfræðingar í samtímasögu Nýja testamentisins hafa bent á og að gera dauðastríðið kvalarfyllra og vonskuna meiri en gæti virst af þessum texta.

Böðlarnir létu sér ekki nægja að berja þá sem biðu aftöku á krossi. Þeir svívirtu þá einnig að sögn þeirra sem til þekkja. Og þegar Jesús lýsir þorsta sínum þá kemur njarðarvötturinn við sögu. Hvaða dula er það? getum við spurt. Aftur verður frásögnin viðbjóðslegri en kann að virðast við fyrstu sýn. Þetta var klútur sem hermenn höfðu í belti sínu og þurrkuðu sér með þegar þeir hægðu á sér.

Þarna mætir okkur því hin algera lítilsvirðing sem Jesú er sýnd og textinn eins og hlífir okkur við þessum nánari lýsingum. Er það ætlun guðspjallamannsins eða hafa aðrir ritskoðað frásögnina? Um það getum við ekki vitað en dauði á krossi var hlutskipti þeirra sem dæmdir voru fyrir uppreisn og landráð. Þeir sem krossfestir voru Jesú til beggja handa voru því ekki ræningjar eins og oft er haldið fram. Þeir hafa verið í hópi þeirra sem börðust gegn hernámsliðinu og hlutu því þessi örlög.

Manneskjan frammi fyrir valdinu

Já, krossfestingin á sér margar víddir. Hér er rétt að staldra við myndina af fólki sem þolir hinar verstu raunir af hálfu yfirvalda. Vopnaburður og sterk tök á samfélaginu gera valdhöfum kleift að kúga og pynta saklausa borgara. Og þá sjáum við einnig þessa hlið sem er einmitt fylgifiskur hernaðar, sem er kynferðislegt ofbeldi. Herir hafa hrifsað til sín land, svipt fólk frelsi, þeir hafa þvingað skipan sína yfir borgara og svo er gengið lengra eins og dæmin sýna og ofbeldið tekur á sig enn skelfilegri mynd.

Í því ljósi virðast orðin „Það er fullkomnað“ enn fjarstæðukenndari. Hvað er fullkomið við þessa atburðarrás – er hún ekki einmitt lýsandi dæmi um brotinn heim, brotin samfélög og brotnar sálir?

Þannig birtist veröldin okkur þegar við sjálf rísum upp á þann kögunarhól sem Golgatahæðin er í frásögninni. Öll þekkjum við hlutskipti fólks austur í Úkraínu þar sem ofbeldið verður sífellt viðbjóðslegra. Atburðir þeir draga að sama skapi fram þær ógöngur sem siðmenning okkar daga hefur ratað í. Lýðræðisþjóðir halda áfram að dæla stórfelldum fjármunum í vasa Pútíns og samverkamanna hans því þær geta ekki verið án þessa vökva sem heldur öllu gangandi.

Ekkert heilagt?

Olían er fíkniefnið sem hagkerfið getur ekki verið án. Hér má rifja upp orð Andra Snæs Magnasonar úr bókinni Um tímann og Vatnið sem kom út fyrir þremur árum.

Þar hugleiðir skáldið þau heljartök sem olían hefur heimsbyggðinni og talar um ofsatrú á eldinn. Við tendrum slíkt bál að ekkert sögulegt eldgos kemst í hálfkvisti við þann mikla loga. Og Andri Snær spyr hvernig þessar hundrað milljónir tunna af olíu sem við brennum á hverjum degi myndu líta út ef þær mynduðu rennandi á. Svartur vökvinn myndi steypast fram eins og dettifoss. 

Skuggalega stór hluti þess sem við sjáum í kringum okkur er á einhvern hátt unnið úr olíu. Undir vélarhlíf bifreiðanna logar hún, í flugvélum háloftanna, hún er formuð í plastinu sem er allt í kringum okkur og hefur samkvæmt nýjustu fregnum fundist í líkamsvefjum fólks. Við erum föst í þessum mikla seigfljótandi legi og náum ekki að landi. 

Þrátt fyrir alla fordæmingu á hryllilegum ódæðisverkum þá höldum við áfram að kaupa olíu af Rússum. Rétt eins og við höldum áfram að brenna henni með óbragð í munni eða deyfum skynjun okkar með síbyljunni sem nóg er af.

Skáldið talar í þessu sambandi um að núverandi kynslóðir hafi verið sveltar af æðri hugsjónum. Hér er enginn Guð lengur, engin æðri hugsjón, engin stór saga til að leggja eyrun við. Og þá finnur trúarþörfin sér annan farveg. Bæði í neyslunni sem kann sér engin mörk og í því sem við sjáum svo vel nú í austurvegi - grimmilegri þjóðernishyggju. „Er okkur ekkert heilagt?“ spyr hann.

Sjáið manninn!

Dauði Krists á krossinum fjallar um einstaklinginn frammi fyrir valdinu og frammi fyrir skynlausum fjöldanum. Pílatus stillti honum upp andspænis glæpamanninum Barnabasi og spurði lýðinn hvorn hann ætti að frelsa. Þeir hrópuðu nafn hins síðarnefna. Hérna sjáið þið þá konung ykkar – sagði landstjórinn og hefur örugglega fundið til yfirburða sinna. Og því til áréttingar þá lét hann festa skilti með þeirri áletrun sem sagt er frá í guðspjöllunum: „Jesús frá Nazaret, konungur gyðinga“ stendur þar. 

„Segðu að hann hafi sagst vera konungur gyðinga“ sögðu æðstu prestarnir. Nei það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað svaraði Pílatus. 

Markmið hans var jú að sýna fram á að í þessum þjáða og varnalausa einstaklingi höfðu þeir sjálfan konung sinn. Hversu aumur var sá hópur sem átti slíkan leiðtoga. Hvílíkur reginmunur á honum og landstjóranum sjálfum nú eða Tíberíasi keisara sem minnti af og til á sig vestan frá Rómaborg? 

Útsýnispallurinn Golgata

Golgatahæð, hauskúpuhóllinn sjálfur, er útsýnispallurinn þaðan sem við horfum á heiminn. Við sjáum þar sortann í mannlífinu, fjötrana sem halda okkur föstum, eyðilegginguna á því göfuga og fagra, sálir saklausra sem sem valdið svívirðir og deyðir. 

Og enn í dag er þessi kross okkur hins sístæða áminning. ,,Það er fullkomnað", sagði Kristur áður en hann gaf upp andann. Hvað er fullkomið? spyrjum við. Er ekki allt ófullkomið? er þetta ekki dómurinn yfir hugsjónum okkar og draumum?

Að horfast í augu við grimmdina

Þeirri spurningu svarar píslarsagan með afdráttarlausum hætti og talar þar inn í allt samhengi ritningarinnar og ég leyfi mér að segja, tilverunnar. Við þurfum að horfast í augu við grimmdina til að geta stigið upp. Við þurfum að ganga inn í myrkrið áður en ljósið fær að lýsa. Krossinn er andstæða síbyljunnar sem deyfir okkur og slævir. Hérna birtist hinn almáttugi okkur – ,,sjáið manninn!“, ,,sjáið konung ykkar!" ,,Sjáið guðinn!" Hann tekur á sig óréttlætið og dóminn. Hann færir fórnina sem hefur skilið eftir ginnungagap á milli manns og Guðs.

Og krossinn, sem hafði áður kallað fram hugrenningar um þjáningu og dauða verður að sigurtákni. Það er hann hér á altarisveggnum. Hann talar inn í hugsjónum firrta veröld og bendir á háleit markmið. En þar er engin blekking, ekkert tál, engin skrumskæld mynd af brotnum heimi. Það einmitt þetta sem gerir þessa atburði á sinn hátt fullkomna. Þeir skilja ekkert eftir. Þeir birta okkur mynd af heiminum eins og hann er. Og það er fyrst eftir að við höfum nánast þreifað á myrkrinu sem geislar upprisusólarinnar birtast okkur handan við sjóndeildarhringinn.