Launastefna himnaríkis og starfslokasamningur

Launastefna himnaríkis og starfslokasamningur

Guð greiðir jafnt þeim, sem koma snemma til vinnu, og hinum, sem koma seint. Guð er ekki hreppaguð heldur skapari litríkrar fjölvíddarveraldar, djúp allrar elsku, ljós alls ljóss. Lífeyrissjóður himins er digur.

Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið oss. Hann segir við þá: Farið þér einnig í víngarðinn.

Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.

Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn? Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Guðspjall: Matt. 20.1-16

Fjölvídd Húmorslausir menn eru hættulegir veröldinni. Hverjir og hvar eru slíkir? Það eru þeir, sem sjá einfalt, hafa ekki auga fyrir litadýrð lífsins, sjá tilveruna í svart-hvítu. Það þarf húmor fyrir listina, ástina, trúna og vonina. Það eru húmorslausir menn sem þessa dagana brenna danska krossfánann. Húmorslausir og reiðir menn eru efni í ofsamenn. En húmorsleysi er ekki bara í útlöndum, heldur líka í okkar samfélagi. Við þurfum stöðugt að þjálfa skynjun okkar svo að við sjáum liti lífsins, við þurfum að æfa heyrnina til að nema gleðitíðindi og opna sál okkar fyrir að tilveran hefur fleiri en tvær víddir. Margbreytileikinn er til lífs, einhæfnin deyðir og húmorsleysið er bráðdrepandi. Vissulega eru mál og myndir með ýmsu móti. Það er hægt að gera þau að tækjum eða vopnum til að níða, en líka til að opna nýja sýn. Í dag hugum við að merkilegri sögu með margar víddir, sem Jesús sagði í framhaldi spurningar sem Símon Pétur bar fram. En fyrst er það skopsaga þar sem Símon Pétur kemur líka við sögu.

Bænaframköllun!

Einu sinni dóu prestur og leigubílstjóri á sömu stundu og komu að hliði himinsins saman. Þar var löng röð meðan flett var upp og úrskurðað. Presturinn lét sér lynda að bíða í röðinni, viss um góða heimvon. Honum til mikillar undrunar var leigubílstjórinn lóðsaður inn fyrir hliðið án nokkurrar tafar. Það þykknaði í mínum karli og hann spurði með nokkrum þjósti hvernig á þessu stæði. Lykla-Pétur svaraði: “Á því er einföld skýring, prestur góður. Þegar þú prédikaðir í kirkjunni sofnaði söfnuðurinn! En það var nú eitthvað annað þegar bílstjórinn var á ferðinni. Hann var ekki fyrr lagður af stað en farþegarnir fóru að æpa á hjálp Guðs. Svo báðu þeir alla leiðina. Þessi leigubílstjóri hefur gert meira en margir prestar, hann efldi bænalíf fólks og tengdi það við Guð.”

Sagan er nú talsvert alvörumál fyrir okkur klerkana! Þetta er flökkusaga og til í mörgum útgáfum. Hún er aðlöguð aðstæðum kirkjudeildanna. Í kaþólsku samhengi er það páfinn, servus servorum, þjónn þjónanna sem kemur til himna með bílstjóra úr Rómarumferðinni. Það er ökuþórinn sem þeysir inn í himnaríkið á meðan aðrir standa í röðinni möglandi. Svona brandarar hafa alltaf brodd, einhverja stunguhugsun sem vekur til íhugunar og umhugsunar. Auðvitað vitum við að frammi fyrir Lykla Pétri, frammi fyrir Gullna hliðinu, er presturinn eða páfinn ekki með hraðmiða VIP-ara í höndunum. Sögurnar eru ekki bara sagðar til að skemmta heldur hafa margar skotlínur, þær lifa vegna þess að þær hafa margar skírskotanir.

Farangurinn

Til eru ýmsir brandarar um það að vera á himnum, en þó eru til miklu fleiri skopsögur um þann viðburð, þegar menn koma að Gullna hliðinu, hver farangurinn er, hvernig við þeim er tekið og hvaða væntingar menn hafa. Af hverju skyldi það vera? Jú, vegna þess að þær hafa dýpri tilgang en að lýsa hinu ólýsanlega. Margar þessara grínsagna minna á, að við tökum ekki með okkur veraldargæði yfir mærin miklu, ekki heldur stöðu okkar í lífi eða samfélagi, ekki orðspor, ekki klæði, ekki kæki, ekki sjálfsvitund – ekkert af þessu sem gerir okkur að ásýnd eða skapar eða tryggir stöðu í samfélaginu. Við mætum við himinhliðið sem manneskjur. Farangur okkar er aðeins mennskan og trú - þar eru við persónur í mynd Guðs. Á það eitt er litið. Það er hinn litskrúðugi réttlætisboðskapur brandaranna. Gullna hlið Davíðs Stefánssonar er á svipuðu róli.

Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að þessar sögur eru eiginlega ekki um einhverja handanveru og örlög manna, heldur vísa inn í líf okkar, fjalla um lífið hér og nú. Sagan um prestinn eða páfann er því saga sem á við veröldina en ekki himininn. En svo er það auðvitað annað mál að veröldin vísar alltaf inn í himininn, þannig er hún sköpuð.

Landbúnaðarstarf

Við þekkjum að saga verður ekki brandari nema að útkoman sé óvænt. Brandarar hafa alltaf einhvers konar óvæntan snúning eða óvænta niðurstöðu, sem skemmtir. Þegar bílstjórinn fer fram úr páfa og presti í biðröð himinsins er það ekki beinlínis það sem maður býst við og alla vega ekki úr prédikunarstóli. En það merkilega er að dæmisögur Jesú hafa svipaða gerð eða uppbyggingu og brandari. Reyndar er margt líkt með dæmisögum almennt og bröndurum. Þetta þekkja smásöguhöfundar og nýta sér við sagnagerðina. Jesús var meistari sögunnar og í Nýja testamentinu eru eftir honum hafðar myndrænar líkingasögur með óvæntum endi. Í þeim er viðsnúningur, sem þjónar því hlutverki að fá fólk til að hugsa. Stundum er snúningurinn jafnvel sjokkerandi. Dæmisagan í guðspjalli dagsins getur jafnvel pirrað þegar sagan er skoðuð.

Starfslokasamningur

Það er til skilningsauka að muna eftir því, að Jesús sagði sögu dagsins, þegar Símon Pétur var að velta vöngum yfir launum sínum. Spurning Péturs var þessi: “Hvað græði ég á því að vera í liði með þér, Jesús? Ég fór frá öllu til að fylgja þér - launin hljóta að vera mikil?” Símon Pétur var sem sé að prútta um eigin starfslokasamning! Þá sagði Jesús söguna af bóndanum, sem fór út til að ráða verkamenn í garðavinnu. Hann réð til sín menn snemma morguns, um miðjan morgun og svo áfram út daginn, alls sjö sinnum að því er virðist af textanum. Við verkalok voru launin greidd, fyrst þeim sem síðast komu. Þrátt fyrir stuttan vinnutíma fengu þeir borgað eins og þeir hefðu puðað allan daginn. Hinir voru farnir að ímynda sér gríðarlega útborgun, þeir hlytu að fá vel borgað fyrst þeir síðustu báru svo mikið úr býtum. En þeim skjátlaðist. Allir fengu sömu laun þótt vinnuframlagið væri ólíkt. Og þá mögluðu þeir yfir því, sem þeim fannst óréttlátt.

Íhugunarskotið

Er ekki hægt að setja sig í þessi spor? Ef við verðum vitni að óréttlæti bregðumst við flest við og jafnvel harkalega. Samanburður launa er einn stærsti þátturinn í aðdraganda og gerð samninga. Við viljum almennt, að sömu laun séu greidd fyrir sömu vinnu.

Svo snýr Jesús uppá þetta allt. Og bóndinn í sögunni bendir launþegunum á, að þeir geti ekki möglað yfir launum sínum, þótt hann borgi þeim síðustu jafn mikið. Þeir geti ekki kvartað yfir gjafmildi. Þar er snúningurinn, þar er íhugunarskotið, sem Jesús sendir okkur.

Laun himins

Hvað segir þá sagan? Auðvitað er verið að tala um himininn og eilífðarlaunin. Gagnvart Símoni Pétri í samningahrotu um eilífðarumbun er svarið skýrt. Laun himinsins eru söm og jöfn fyrir alla. Engu skiptir hvort menn hoppa á eilífðarvagninn snemma eða seint, allir ná sama marki. Þetta voru mikilvæg skilaboð í frumkirkjunni, menn skyldu ekki setja sig á háan hest þótt þeir hefðu snemma orðið fylgjendur Jesú. Þetta varðar síðan alla kirkjumenn. Broddur Jesú er gegn kirkjueigendum allra tíma. Enginn er yfir annan settur þegar launum er útdeilt, allir eru jafnir. Síðan er líka elskudjúp í þessari sögu. Enginn er of seinn eða útilokaður frá Guðsríkinu hvar svo sem menn hafa verið, hvað sem þeir hafa gert og hversu djúpt þeir hafa sokkið.

Hvers konar Guð?

Enn er ein vídd sem er ástæða til að nefna. Í sögum Jesú er umhyggja gagnvart öllum. Enginn er settur hjá, guðsríkið er allra. Menn hafa löngum velt vöngum yfir hverjir komist til Guðs, hverjir verði hólpnir. Hvað verður um óskírt barn sem deyr? Margir hafa grátið yfir þeirri spurningu. Hvað verður um þau sem tilheyra öðrum trúarbrögðum? Spurningar af þessu tagi eru margar. Þegar við svörum er mikilvægt, að við stöldrum við og spyrjum okkur hvers konar Guð við trúum á og hvers konar Guð Biblían túlkar og Jesús Kristur birtir okkur.

Dæmisagan um gjafmilda bóndann er um Guð, sem úthellir jafnt þeim sem koma seint til vinnu og koma snemma. Við getum séð í henni, og ýmsum öðrum sögum Jesú, túlkun á elskuríkum Guði, sem er mun stærri og meiri en smáguð ættbálks eða þjóðar. Sá Guð er skapari alls sem er, djúp allrar elsku, ljós alls ljóss, brunnur fegurðarinnar, forsenda manngildisins, hinn mikli húmoristi sem skapar litríka fjölvíddaveröld.

Kristinn maður sem trúir á slíkan stórguð hlýtur þar með að vona að allir megi njóta himinvistar, óháð ætt, uppruna og fyrri störfum! Guðfræðingarnir hafa ekki viljað búa til dogmu, kenningu um frelsi allra, en kristin kirkja biður hins vegar fyrir upprisu allra. Múslimum, hindúum, trúlausum og trúarveikum mætum við með þeirri bæn til Guðs að Guð geymi hann, hana, þau öll. Þetta er hin vonarríka afstaða.

Gjöf Guðs en ekki gjald

Launamál eilífðar eru með öðru móti en launamál samfélagsins. Guð á fleiri ráð en við þekkjum. Lífeyrissjóður himinsins er ekki gulltryggður heldur Guðstryggður, sem er æðri öllum þekktum tryggingum. Meginstarfsregla þess sjóðs er gjafmildi, greiðslur eru ekki samkvæmt innlögn heldur umhyggju Guðs og þörf manna. Í guðspjallssálminum sem við sungum áðan segir í síðasta erindinu:

Og þegar síðast kvöldið kemur, hann kallar sérhvern verkmann heim, hann geldur engum öðrum fremur, en öllum saman gefur þeim. Ó, met sem gjöf, en gjald ei, það, sem Guðs son hefur verðskuldað. Amen

Prédikun í Neskirkju 12. febrúar 2006. Lestrar fyrir 1. sunnudag í níuviknaföstu – A röð

Lexía: Jer. 9.23-24 Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum. Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun segir Drottinn.

Pistill: 1Kor. 9.24-27 Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau. Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær. Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.