Sumarhúsasyndromið

Sumarhúsasyndromið

Sakarábyrgð lítur um öxl en deild ábyrgð horfir fram á veginn.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
31. desember 2014
Flokkar

Samtalsprédikun flutt í Bessastaðakirkju

J: Jæja, Bjarni minn, nú ætlum við að bjóða upp á samtalsprédikun hér við þessa hátíðlegu athöfn. Ekki hefur nú ekki allt verið birtingarhæft sem á milli okkar hefur farið í gegnum tíðina?

B: Hvað áttu við með þessu?

J: Við vorum nú dálítið frumstæð í samskiptum okkar framan af hjónabandinu. Þú kannast við það.

B: Já, börnin okkar hafa minnst á það að stundum hafi eitthvað gengið á. Þú gast verið dálítið hvöss.

J: Og þú gast tuðað út í eitt og verið óþolandi.

B: Það heitir að vera fastur fyrir.

J: Já, já, ég þóttist líka vera voða ákveðin og viss í minni sök. - En svo fór þetta allt að lagast.

B: Já, það fór að lagast. Ég man ekki hvernig eða hvenær. En það er satt sem þú segir, átök eru orðin sjaldgæf í seinni tíð.

J: Þú átt nú mestan þátt í því Bjarni minn.

B: Jæja?

J: Þú hefur lagast mikið. Þú varst oft alveg óþolandi en þótt þú hafir engu gleymt í þeim efnum og hafir enn alla burði til að vera óþolandi þá er eins og þú hafir áttað þig og náð vissri stjórn.

B: Takk fyrir að segja þetta Jóna Hrönn. Mér þykir hrósið gott og get glatt þig með því að ég hygg að ekki sé síður ástæða til að hrósa þér í þessum efnum. Þú hefur tekið stórstígum framförum að mínu mati. Svo dæmi sé tekið...

J: ... Já, já Bjarni minn við skulum geyma þetta og ræða í meira einrúmi. Leyfðu mér frekar að spyrja þig einnar spurningar í ljósi þessa alls.

B: Gott og vel. Þú mátt spyrja.

J: Finnst þér líf þitt hafa heppnast?

B: Finnst mér líf mitt hafa heppnast?! - ertu að spyrja mig að því?

J: Já. Þú ert fimmtugur karlmaður, kominn í seinni hálfleik. Búinn að ala upp börnin þín og slípast til í hjónabandi hátt á þriðja áratug - telur þú að líf þitt hafi heppnast?

B: Þetta er skrýtin spurning, Jóna Hrönn, og ég velti því fyrir mér hvort hún sé hreinlega viðeigandi. Ég gæti sagt þér hvort ég teldi eldamennskuna mína á aðfangadag hafa heppnast og jafn vel lagt mat á áramótaskaupið í kvöld í sama ljósi, en það er e.t.v. full langt gengið að halda því fram að líf manns heppnist eða misheppnist. Er yfir höfuð hægt að mæla mannslíf á slíkum kvarða?

J: Bjartur í Sumarhúsum taldi að svo væri.

B: Bjartur í Sumarhúsum?

J: “Sá sem stendur í skilum er konúngur." sagði hann. „Sá sem dregur fram sínar kindur býr í höll.” (Sjálfstætt fólk 9. úgáfa 4. prentun s. 16.)

B: Noh! það er bara vitnað í bókmenntirnar! - Bjartur hefði þó ekki verið ánægður með máltíðina heima hjá okkur á aðfangadag.

J: Gott og vel þú ætlar að koma því að hérna að þú hafir getað eldað bæði rjúpu og önd skammlaust. Það er þá komið fram. Til hamingju. Þú stóðst þig vel í eldhúsinu.

B: Ég þakka... En Bjartur vildi hvorki rjúpu né önd. „Við hérna kunnum nú betur við kjarnafæðuna," sagði hann við aðvífandi veiðimann sem kom í dalinn[...] „við viljum hafa það salt eða súrt.“ (s. 263) Og Halldór Laxnes greinir svo frá í sögunni af Sjálfstæðu fólki að aldrei hafi börnin á bænum langað meira í mat en einmitt þegar staðið var upp frá máltíð. Slíkur var kosturinn í Sumarhúsum.

J: Vel heppnað líf að áliti Bjarts var ekki spurning um að þrífast vel eða líða vel, heldur það að borga skuldir og láta ekkert standa upp á sig.

B: Áttu við að manni hafi þá heppnast að lifa ef maður er bragglegur og líður vel?

J: Nei, ég held að það væri mikil einföldun að segja það. Og raunar deili ég þessari tilfinningu þinni að það sé yfir höfuð hæpið að tala um vel heppnað mannslíf. Og mig grunar að það sé einmitt einn lærdómur sögunnar af sjálfstæðu fólki að lífið sé stærra en aðalpersónan komi auga á.

B: Bjartur er ekki vondur maður. Samt verður hann öllum til tjóns sem eru dæmdir til að elska hann.

J: Er það ekki að vera vondur maður? Að verða öllum til tjóns sem tengjast manni!

B: Hugsum aðeins saman hérna... Það er stutt hér yfir í Gálgahraun.

J: Nei, nei við förum ekki þessa leið. Nú ertu kominn út á hálann ís. Það er gamlárskvöld og við ætlum að vera á jákvæðu nótunum og ekki tæpa á viðkvæmum málum.

B: Það er vel hægt að ræða viðkvæm mál og gera það af kurteisi. Sjálfstætt fólk er bók um viðkvæm mál en hún er kurteis bók. Þess vegna er hún góð og mikilvæg. Og ég held að hún varpi einmitt fallegu ljósi á það sem gerðist hér úti í hrauni í sumar sem leið.

J: Gott og vel. Hvað áttu við.

B: Þegar við lesum Sjálfstætt fólk frá upphafi til enda verðum við vitni að ótal óförum, miklum sársauka, misbeitingu, ranglæti og dauða. Manstu hvernig bókinni lýkur?

J: Já. Báðar eiginkonur Bjarts eru dánar. Hallbera gamla móðir seinni konunnar er örvasa gamalmenni, Ásta Sóllilja er orðin ung kona og fylgir föður sínum, sem auðvitað er ekki pabbi hennar heldur hreppstjórasonurinn frá Rauðsmýri, en það er önnur saga...

B: ...þrílyft húsið stendur uppsteypt en ófrágengið og yfirgefið eftir að efnahagsbólan sem til kom vegna styrjalda í útlöndum er sprungin og eina ferðina er einyrkinn flúinn úr stað sínum og lagður á heiðina. Gamla konan situr á einhverjum húðarklár og ekkert er framundan í lífi þessarar fjölskyldu nema heiðarmyrkrið, suddinn og óvissan. J: „Einyrkinn heldur áfram að vera til í hörmung öld fram af öld," stendur orðrétt. „Einyrkinn heldur áfram að vera til í hörmung öld fram af öld, svo lengi sem maðurinn er ekki mannsins skjól heldur versti óvinur mannsins.“

B: Þessi orð eru nokkurskonar niðurstaða sögunnar og maður skynjar einmitt að Bjartur er í raun ekki vondur maður. Vandi hans allan tímann út í gegnum alla bókina er sá að hann sér ekki út fyrir boxhringinn. Hann skortir ekki greind eða dugnað en hann skortir ímyndunarafl til þess að leiða hugann að nýjum viðbrögðum við lífinu.

J: Og Gálgahraun...?

B: Sjáðu fyrir þér Ómar Ragnarsson.

J: Hann er einyrki!

B: Eins og Bjartur - og þjóðin elskar þá báða.

J: Ég finn til með löggæslumönnum sem neyddust til að handtaka Ómar. Hvernig liði þér að vera neyddur til að beita Ómar Ragnarsson valdi?

B: Það er nákvæmlega málið. Við finnum til með löggæslumönnum og tækjamönnum Vegagerðarinnar og öðrum sem komu að þessu máli hinumegin frá. Það voru allir í vondri stöðu. Hvern langar að binda hendur tónlistarmanns? Taka unga leikkonu og bera hana nauðuga upp í bíl, eða aðra virðulega mótmælendur sem þarna lágu í mosanum?

J: Þeir hafa örugglega horft á Ómar og ekki komist hjá því að rifja upp í huganum eitthvert gamalt lag af SG hljómplötu síðan þeir voru börn, séð fyrir sér glugga úr gömlum Stikkluþætti eða sjónvarpspsmyndir af íslenska hálendinu.

B: Það vill enginn vera í þeirri stöðu að bera Ómar Ragnarsson nauðugan.

J: Hugsið ykkur ef ýtustjórinn hefði komið með bakkelsi úr nærliggjanid bakaríi, fulltrúi vegagerðarinnar látið köflótta fóðrið í frakkanum sínum njóta sín sem dúkur í mosanum. Löggan senst með einhverjum fulltrúum mótmælenda eftir drykkjarföngum....

B: ... og myndatökumaður sjónvarpsins hefði munað eftir gítarnum í skottinu á bílnum sínum. Svo hefði landslýður fengið að sjá þetta fólk að snæðingi í góða veðrinu syngjandi 'sá ég spóa suðrí flóa' í keðjusöng!?

J: Hvað þá?

B: Það hefði verið óvænt og skapandi. - En það er einmitt það sem ekki getur gerst hjá Bjarti í Sumarhúsum og fólkinu hans.

J: Manstu þegar aðvífandi ferðamaður spurði börnin í Sumarhúsum hvort þau kynnu að leika sér þá önsuðu þau því til að þau kynnu ekki að leika því þau ættu alltaf að halda áfram að gera eitthvað... „Það er gaman að leika sér„ segir þá þessi ónefndi gestur...

B: Já, og í framhaldi samtalsins býður hann þeim upp á andarsteik í tjaldi sínu. Það er dásamlegt atriði. (s. 259- 261) Það er leikurinn og lystin á lífinu sem skortir í Sumarhúsum. Lífið á að heppnast þannig að skuldir séu greiddar og hagvöxtur haldist. Annað skiptir ekki máli.

J: Þegar þessi ónefndi ferðamaður sem vill ferskan fisk og fugl en ekki bara súrt og salt spyr Bjart leyfis í upphafi heimsóknar sinnar hvort hann megi tjalda í þessum fallega dal, þá ansar Bjartur: „Fallegur, - ja, það er nú mest undir því komið hvort heyið fer alt í grút eða ekki.“ (s. 248)

B: Er ekki Sumarhúsavandinn og Gálgahraunsvandinn einn og sami vandinn? Þetta er ekki spurning um hvort einhver sé góður eða vondur, hvort einhver eigi að skammast sín eða hljóta lof. Þetta er meira spurning um það hvort maður telji að lífið sé þannig vaxið að það geti heppnast eður ei.

J: Bjartur ætlar að láta lífið heppnast og hann sér ekkert út fyrir þann ásetning. Það er hans vandi og allra sem undir hann heyra.

B: Og það er eins í þessu merkilega Gálgahraunsmáli, þar er engin ný hugsun, engin skapandi lausn. Og svo þegar málið er dómtekið þá hefur dómskerfið okkar ekkert í höndunum nema lagasetningu í anda Sumarhúsa þar sem mál leysast ef hinn seki finnst.

J: Vegurinn um Gálgahraun skal liggja hingað að Bessastöðum, ekki satt?

B: Jú, meðal annars.

J: Hingað skal vegurinn lagður - en sannleikurinn er auðvitað sá að þetta snýst hvorki um veginn né hraunið, sekt eða sýknu. Þegar frá líður mun litið á mótmæli Hraunavina sem táknræn ekki síður en praktísk. Séð héðan frá áfangastaðnum Bessastöðum eru mótmælendur alveg jafn mikið að benda í vestur eins og austur, þau eru ekkert síður að beina sjónum okkar hér yfir á Snæfelsjökul.

B: Hann er að bráðna.

J: Það er það sem ég meina.

B: Nú er ekki lengur um það deilt að hlýnun jarðar er af mannavöldum. Verður hægt að dæma í því máli? Mun dómskerfið okkar geta leyst hlýnun jarðar með úrskurði og sakfellingu?

J: Eða munum við e.t.v. þurfa að nota hugmyndaflugið og hugsa málin upp á nýtt? Ættum við hugsanlega að setjast niður í mosann og ræða saman um ábyrgð okkar gagnvart náttúrunni?

B: Já, þú segir! Setjast niður og ræða saman um deilda ábyrgð inn í framtíðina í stað þess að horfa einungis aftur í tímann og ræða hugsanlega sakaábyrgð.

J: Þetta er mjög merkilegt; Sakarábyrgð lítur um öxl en deild ábyrgð horfir fram á veginn. - Þarna er lausnamiðuð hugsun að fæðast.

B: En vitaskuld verðum við að geta horft til baka, rannsakað mál og fundið menn seka. Við erum ekki stödd í neinni Paradís.

J: Já, já, eitt útilokar ekki annað. Það mikilvæga í þessu er bara það að festast ekki í því að reyna að heppnast eða tapa, vera saklaus eða sekur. Þetta eru gagnlegir mælikvarðar til síns brúks en þeir ná ekki utan um veruleikann af þeirri einföldu ástæðu að veruleikinn er stærri og flóknari en svo. Við þurfum að hafa fleiri mælikvarða og fleiri viðmið. T.d. hvort við séum í góðu samspili við annað fólk og við lífríkið. Hvort tryggt sé að allar raddir séu að heyrast og öll sjónarmið uppi á borði.

B: Þú nefndir áðan að ég hefði alla burði til þess að vera óþolandi.

J: Já.

B: Þú sagðir líka að þér þætti ég hafa náð vissum tökum á sjálfum mér í þessu tilliti.

J: Já.

B: Er það ekki eins með Sumarhúsasyndromið? Er ekki hægt að ná tökum á því jafn vel þótt Bjartur bóndi búi í manni? Við viljum ekki kveðja okkar dal á flótta frá hálfbyggðu húsi, og að eftirlifendur hafi það helst um okkur að ræða hvort við höfum nokkuð verið svo vond, hvort við höfum ekki bara verið þröngsýn og þess vegna valdið svona miklum skaða.

J: Nei, það er ömurleg tilhugsun.

B: Andrúmsloft guðspjallsins sem lesið var áðan er í þessa veru. Eigandi víngarðsins var kominn með óþol gagnvart fíkjutrénu sem aldrei bar ávöxt og var farinn að hugleiða að höggva það upp. „Hví á það að vera engum til gagns?“ En víngarðsmaðurinn svaraði honum: „Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“ (Lúk. 13.) Ef mannkyni auðnast ekki að hætta að vera óþolandi í hinu stóra samhengi mun hjónaband þess og lífríkisins slitna og lífríkið mun hrista af sér óværuna. Vegurinn um Gálgahraun verður bara óljós lína frá sjónarhóli fuglanna hulin grænum mosa að vori. Lóan syngur, loftið ilmar og öllum líður vel en mannkyn heyrir sögunni til af því að það var óþolandi.

J: Við eigum hugsanlega enn val. Nú eru Sameinuðu þjóðirnar að vinna að nýjum markmiðum sem taka við af þúsaldarmarkmiðunum sem sett voru fyrir 15 árum og náðust svo furðu vel einkum varðandi aukið fæðuöryggi og aðgang að hreinlæti og heilsugæslu á heimsvísu. Í ljós hefur komið að mannkyn getur tekið höndum saman í mikilvægum málum. Núna er spurning hvernig okkur tekst varðandi mengunarmálin og hlýnun jarðar samhliða málefnum fátækra. Mögulega má breyta.

B: Já, mögulega getum við sæst við okkar fagra dal og fullgert okkar sumarhús.

J: En það verður ekki gert nema við kveðjum sumarhúsasyndromið; setjumst í mosann og spjöllum, njótum veitinga og tökum lagið saman.

Amen.