Sem ég sat í morgun í guðsþjónustu og á tónleikum Kammerkórs Digraneskirkju sem voru frábærir, laukst upp fyrir mér ný vídd á hvítasunnutextum kirkjunnar. Þar minnumst við stofndags kristinnar kirkju þegar lærisveinarnir höfðu djörfung á ný eftir aftöku Jesú og upprisu hans. Tryggustu lærisveinarnir, gera má ráð fyrir að þeir hafi verið af báðum kynjum því margar konur fylgdu Jesú, voru á bæn í Jerúsalem. Þá var eins og húsið fylltist af orku óveðurs og þau sem viðstödd voru fóru að tala nýjum tungum. Þetta var heilagur andi sem snerti á þennan nýstárlega hátt við þeim. Þau sögðu frá undrum Guðs á mismunandi tungumálum því í borginni var fólk allavegana frá 13 þjóðlöndum og öll skildu þau boðskapinn þegar talað var til þeirra á þeirra eigin tungumáli. Fólk vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið en þarna var andinn góði kominn til að hjálpa sínu fólki að segja frá elsku Guðs. Með heilögum anda hvarf óttinn frá þeim þrátt fyrir andstreymi.
Þessi frásaga hefur oft verið notuð til að benda á að Guðs andi
skapar skilning á milli þjóða, einstaklinga og hópa. Hann brýtur niður
fordóma og veggi. Önnur áhersla sem bent hefur verið á, sérstaklega af
hvítasunnumönnum eru áhrif andans á einstaklinginn og halda þeir á lofti
tungutalinu, tungumáli englanna sem andinn skenkir sumum og veitir þeim
blessun.
Þriðja víddin varð mér svo tær í morgun út frá orðum Jesú:
„En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt.“ (Jóh. 14. 26a).
Það er skilningurinn inn á við. Þegar við erum opin og eftirvæntingarfull að þiggja af hinu heilaga þá opnar andinn okkur nýjan skilning á aðstæðum í okkar lífi, náungans eða þjóðarinnar. Það er skilningur sem eykur samræmi í lífið og heildarhugsun, visku og það sem mikilvægast er, skapar sýn á hvernig við eigum að bregðast við til góðs. Og ekki er það síðra að heilagur andi gefur okkur kraft og kærleika til að framkvæma það sem er sjálfum okkur og þjóðinni til heilla.