Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið oss. Hann segir við þá: Farið þér einnig í víngarðinn.Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.
Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn? Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Matt. 20.1-16
Nú er runninn enn einn dýrðardagurinn sem við þiggjum úr hendi Guðs og það er dagur sem okkur er ætlað að nýta sem best til að lofa hann. Þess vegna heitir hann Drottins dagur. Svo koma hinir dagarnir fram eftir vilja Guðs til að við getum unnið í sveita andlitsins að einhverju þörfu verki. Vinnutíminn er mjög einfaldlega frá sólarupprás til myrkurs enn þann dag í dag einsog þá, er saga guðspjallsins á sér stað, það er að segja á þessum breiddargráðum, þar sem lengd daga og nátta eru nær óbreytanlegar stærðir frá einum tíma ársins til annars. Á Íslandi hefur þessi klisja yfirleitt verið skoðuð sem myndræn líking á gangi dagsins.
Einhvern tíma heyrði ég að indíánar hefðu þann skilning á dagrenningu og lokum vinnudags, að við myrkur var deginum einnig lokið hjá þeim. Hvað sem ógert var varð þar með að verkefni morgundagsins. Þeir létu einfaldlega nótt nema staðar, en svo var líka gaman að sjá, hvernig þeir áttu það til að setjast niður á miðjum degi, ef þeir voru á nokkurri ferð, og bíða eftir sjálfum sér. Sálin hafði dregist aftur úr. Það heitir á íslensku að ná sér. Á miðju ferðalaginu fundu þeir fyrir því að þeir voru orðnir utan við sig og jafnvel eftir sig, eða á eftir sér. Sál og líkami urðu að ná sama stað í tilverunni, til að maðurinn gæti aftur orðið heill. Þegar þetta tókst varð maðurinn með sjálfum sér aftur. Það er aðdáunarvert að heyra af svona hugsun, hvað svo mikil sannindi geta verið augljós í siðum og orðum og skýringum manna á meðal í ólíkum samfélagsgerðum.
Í dæmisögu guðspjallsins segir frá því að allir verkamennirnir fá greidda jafnháa upphæð óháð vinnutíma hvers og eins. Þeir sem unnið höfðu allan daginn fengu jafnmikið og þeir sem aðeins unnu síðustu klukkustundina eða svo. Reiði þeirra verkamanna, sem unnu allan daginn, frá því um sólarupprás, “í hita og þunga dagsins” er skiljanleg ef sjónarmiðið er aðeins á mannlegum nótum. Reiðin er réttlát á vissan hátt, en þó aðeins að skilningi manna.
Auðvitað kemur það svolítið á óvart, að allir hljóti sömu laun fyrir mismargar vinnustundir. En sú greiðsla er í dæmisögunni ekki síst fyrir góðsemi víngarðseigandans. Þeir sem komu síðastir eiga það ekki skilið að fá sömu laun, en hljóta þau vegna góðsemi og náðar víngarðseigandans. Ég held að merking þessa guðspjalls sé sú að okkur er öllum ríkulega skammtað af náð Drottins. Við erum öll Guðs börn og framlag okkar í lífinu til þess að vinna að ríki hans er ekki metið á jarðneskan hátt, ekki eftir réttlæti manna. Í þessu æðra réttlæti geta hinir síðustu orðið jafnir þeim fyrstu. Launin eru mikið meiri en sanngjörn að skilningi manna. Þau nema hvorki meira né minna en einu heilu eilífu lífi. Miðað við samhengi kaflans í heild tel ég að það hljóti að vera niðurstaðan. Svo mætti auðvitað leika sér að því að tengja þetta við réttlætingu af náð eftir kenningum Lúthers. Menna öðlast náðina án verkanna og hún er öllum ætluð. Þetta vekur hugrenningatengsl við söguna að manninum sem átt tvo syni og fleiri sögur. Það er ef til vill eitt af aðalatriðum sögunnar að daglaununum verður ekki skipt. Einum denar verður ekki skipt eða honum deilt upp. Það sama er trúlega hægt að segja til að lýsa því hvernig náðin er óskipt. Annað hvort hlýtur maður hlutdeild í eilífu lífi eða ekki. Við hljótum ekki bara pínulitla hlutdeild eða dagpart í himnum. Við verðum ekki kóngar í einn dag. Þannig verður réttlæting af trú heldur ekki skoðuð sem svolítil réttlæting eða réttlæting að hluta til. Annað hvort er maðurinn réttlættur eða ekki. Í augum Páls postula verður það ekki skilið öðru vísi en svo að maðurinn er allur réttlættur, þegar hann á annað borð hefur gengið þannig undir náð Guðs að hann réttlætir hann fyrir þá trú sem hann sýnir.
Þetta tengist þá einnig því sem segir í pistlinum að við eigum aðeins að hrósa okkur af því að við eru svo hyggin að þekkja Guð. Og ef við erum svo hyggin að við þekkjum Guð eigum við að vita að Drottinn auðsýnir miskunnsemi og hann leiðir fram rétt og réttlæti á jörðinni. Og ef við erum hyggin vitum við líka að Drottinn hefur velþóknun á réttlæti og miskunnsemi. Við ættum því síst af öllu að hrósa okkur af styrkleika okkar, sem þó getur vel verið hrósunnarefni, né heldur eigum við að hrósa okkur af auðæfum okkar, ríkidæmi eða háum launum, jafnvel þótt það sé verulega mikið þakkarefni og þakkarvert að vera sterkur og ríkur. En vegna þekkingarinnar á Guði erum við einmitt að sjá það svo augljóslega í þessari messu – heyra það af orði Drottins – að þótt þessi efni séu þakkarverð, er þó aðeins tilefni til að hrósa sér af því einu að vera svo hyggin að við þekkjum vilja Drottins og vitum hvað hann lítur velþóknunaraugum í fari okkar og lífi.
Að þessu öllu sögðu hlýt ég að taka til dæmi úr samtímanum þar sem reynir á þessi atriði öll og ekki síst af hverju við hrósum okkur helst. Það er svolítið jöskuð tugga að ætla sér að fara yfir það hvernig við ættum ekki að hrósa okkur af auðæfum, og leiða svo talið yfir á hina ríkulegu efnishyggju nútímans, leiða talið að verslunarmennsku og Mammonsdýrkun. En það ætla ég einmitt ekki að gera að þessu sinni, einmitt út frá því sem ég sagði áðan um allt það sem við eigum Guði að þakka í ytri efnum í þessum heimi, styrk og afl og auð. Ég ætla frekar að fara yfir í það sem við erum að hrósa okkur af, en ættum alls ekki að hampa á þann hátt sem við gerum. Hér er ég auðvitað að tala um áróðursstríðið um myndbirtingar á Múhameð spámanni í vestrænum fjölmiðlum. Þar tel ég fjölmiðlana einmitt vera að hrósa sér af þeim styrk sem þeir eiga í tjáningarfrelsinu. Blaðamenn og jafnvel stjórnmálamenn hafa viljað hrósa sér af tjáningarfrelsinu, en það ættu þeir einmitt ekki að gera samkvæmt boðskap dagsins. Þeir ættu ekki að hrósa sér að styrkleika sínum. Það hefur leitt þá til þess að gera það sem hlýtur að flokkast undir vanþekkingu á vilja Guðs, hvað varðar ábyrgð kristins manns. Við erum vissulega kölluð til að bera himnaríkinu vitni og sannleikanum vitni og allt það. En við erum þó fyrst og síðast kölluð til að auðsýna miskunnsemi og lifa samkvæmt því, að við erum réttlætt af trú og lifum undir náð Drottins.
Þeir sem hafa verið að hrósa sér af tjáningarfrelsinu, sem ekki ríkir meðal manna um allan heim, því miður, heldur aðeins meðal manna þar sem hin vestrænu gildi mannréttinda og frelsis almennt séð, ríkja eins og hjá okkur og hjá flestum þjóðum Evrópu og Norður Ameríku svo dæmi séu tekin, þeir hafa verið að vaða í mikilli villu. En einmitt með því að hrósa sér af tjáningarfrelsinu og nota það mikla gildi sem það hefur í okkar menningu til að traðka á trúarlegum og andlegum gildum annarra menningarheima er hroðalegt slys.
Tjáningarfrelsisstríðið hefur ekki aðeins magnað upp andúð í garð annarra menningarheima, heldur hefur það orðið til að vanvirða og lítillækka þá tjáningu sem er helgust í hugum allra manna, sem er tjáning trúarinnar og tjáning sannfæringarinnar. Og þessi atlaga að trúartjáningu múslíma hefur orðið til að trúartjáning okkar kristinna manna er sviðin og fótum troðin með því að norræni krossfáninn er nú brenndur á báli víða um lönd. Og við getum ekki dæst og talað um það í hálfum hljóðum hvað við erum heppin að íslenski fáninn er ekki líka brenndur. Hann er vissulega líka brenndur í hvert sinn er danski Dannebrogfáninn er brenndur, því í sögunni af himneskum uppruna danska krossfánans er einmitt að finna fyrirmyndina að því hvers vegna okkar fáni er einnig krossfáni. Fánar okkar eru einfaldlega meira en lítið skyldir og verða trauðla aðskildir með öllu. Og þetta er allt afraksturinn af því að tjáningarfrelsið hefur hlaupið stefnulaust útí loftið suður á Jótlandi. Vonandi ber íslensk blaðamannastétt lengi áfram, sem oftast nær fram að þessu, gæfu til að bera virðingu fyrir fólki sem er af ólíku bergi brotið og alið upp við annan menningarheim og önnur menningarleg og trúarleg gildi en við.
Lykillinn að lausn þessarar alþjóðlegu deilu liggur ekki í styrkleika okkar menningarlegu gilda eins og til dæmis tjáningarfrelsis. Við munum heldur ekki komst áfram í lausn þessarar hatrömu deilu með því að fordæma trúarbrögðin. Lykillinn er þegar í höndum okkar og það er einmitt mjög merkilegt að sjá, hvernig lausn þessarar deilu byggist einmitt á því að skoða hin ólíku trúarlegu og menningarlegu viðhorf sem tekist er á um milli múslíma og kristinna manna. Reiðin er ekkert óskyld þeirri reiði sem braust fram í guðspjallstexta dagsins hjá þeim sem þáðu daglaunin, því reiðin er sprottin af réttlætiskennd dauðlegra manna. Reiðin varð til í sögunni að skilningi manna, en ekki sem reiði sprottin af hinu himneska réttlæti sem Guð gefur okkur örlitla mynd af með orði sínu.
Til að ná sáttum á milli þjóðanna og menningarheimanna að þessu sinni, þurfum við að leita á náðir þeirrar guðfræði sem kennd er við fyrirgefninguna. Guðfræði fyrirgefningarinnar byggir einmitt á því að við leitumst við að mæta öllum mönnum í ljósi þeirrar fyrirgefningar sem Guð veitti mannkyni öllu eftir því sem við sjáum í verki, boðun og lífi Jesú Krists. Í ljósi þessarar fyrirgefningar hljótum við að mæta öllum mönnum af þeirri virðingu, sem okkur ber að auðsýna öllu fólki, hvernig sem það lítur út, hverrar skoðunar sem það er, og hvernig svo sem það fólk tjáir hugsun sína eða trú, nú eða hvernig sem það tjáir þau gildi, sem það lifir eftir. Við þurfum með öðrum orðum að virða það hvernig fólk tjáir vandlætingu sína þegar því þykir vegið að helgustu gildum trúar sinnar og sannfæringar.
Hin ólíku andlit trúarbragðanna eru einmitt ekki hindrun í því að leysa þennan mikla hnút heldur lykillinn að því að koma á friði og skapa sátt í garð hvers annars. Þessi sátt getur orðið jafndjúpstæð og deilan hefur rist djúpt. En það er ótrúlega mikil bjartsýni fólgin í þessum orðum líka, ef ég gerist svolítið gagnrýninn á sjálfan mig. Ádeilan á báða bóga ristir óskaplega djúpt í sögulegu tilliti og þar kennir ekki grunns í því að taka til dæmi um það. En það er á sama hátt hægt að segja að framtíð heimsins og þó einkum heimsfriðarins er undir því komin að göfugir menn freisti þess að leita fyrirgefningar, gagnkvæmrar virðingar og einlægrar sáttar. Þetta tókst ekki fyrr en seint og um síðir í blóðugri borgarastyrjöld milli þjóða, þjóðarbrota og kirkjudeilda í fyrrum Júgóslavíu. Friður í Bosníu varð þá fyrst er menn mættust á grundvelli fyrirgefningar og gagnkvæmrar virðingar fyrir ólíkum viðhorfum. Guðfræði fyrirgefningarinnar var einnig forsenda að lausn til friðar í mannskæðum átökum í Belfast um langa hríð. Og þannig gæti ég lengi haldið áfram að rekja sögu fyrirgefningar og sáttagjörðar um allan heim. Stríðið með tjáningarfrelsið að vopni er dæmigerð deila að hætti manna. Við getum ekki hrósað okkur af því og hlaupið svo stefnulaust kapphlaup út í loftið, sérstaklega ekki ef mótherjinn í þessu kapphlaupi er einfaldlega að hlaupa eitthvað allt annað hlaup á allt öðrum stað í menningunni. Það verður enginn sigur út úr því, né nokkur sigursveigur að lokinni þeirri misheppnuðu keppni. Við þurfum nú, sem endranær, að sækjast eftir hinum óforgengilega sigursveig, sem hlotnast okkur, ef við göngum eftir þeirri braut, sem réttlæti Guðs hefur varðað. Við upphaf og við enda á þeirri leið, sjáum við sigurtáknið sjálft, sem er hin altæka fyrirgefning Guðs í garð þessa mannkyns í heild fyrir þann sigur sem Jesús Kristur vann á krossi. Megi það verða okkar daglauna denar að hljóta hlutdeild í þeim sigri og hlutdeild í upprisu Jesú Krists frá dauðum.
Það verður gaman þegar við förum öll að tjá okkur á sama máta í himnaríkinu, á því máli sem enginn misskilur og enga deilu vekur, þessu tungumáli, sem telpan litla kallaði himnesku. Fyrir þá von um fyrirgefningu og frið í eilífðinni, sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Sr. Kristján Björnsson