Vinátta og samtal

Vinátta og samtal

Við sem skrifum þessa grein eigum margt sameiginlegt. Bæði vinnum við með börnum, við erum kennari og æskulýðsprestur, okkur eru trúarhefðir okkar kærar, við erum múslimi og kristinn, og við viljum að um trú okkar og hefðir sé rætt af sanngirni. Það á jafnt við um trúarbragðakennslu í skólum, í umfjöllun fjölmiðla og í almennri umræðu.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
19. apríl 2015
Meðhöfundar:
Derya Özdilek

Við sem skrifum þessa grein eigum margt sameiginlegt. Bæði vinnum við með börnum, við erum kennari og æskulýðsprestur, okkur eru trúarhefðir okkar kærar, við erum múslimi og kristinn, og við viljum að um trú okkar og hefðir sé rætt af sanngirni. Það á jafnt við um trúarbragðakennslu í skólum, í umfjöllun fjölmiðla og í almennri umræðu.

Það er sameiginleg sannfæring okkar trúarhefða að kærleikur liggi til grundvallar sköpuninni. Kærleikurinn er bjart ljós í myrkrinu og kraftur sem getur yfirstigið allar hindranir. Náungakærleikur og vinátta eru hugtök sem við öll skiljum. Við erum fædd í kærleika og án þeirra fordóma sem okkur lærast með tímanum. Fordómar byggjast á fáfræði, andúð og ótta við þau sem eru okkur ólík.

Lýðræðislegt samtal varðar leið okkar til vináttu og er öflug aðferð í baráttunni gegn fáfræði, andúð og fordómum. Lýðræði ætti ekki einungis að vera aðferðafræði stjórnmála, heldur einnig aðferðarfræði til að koma á vitund um samfélag þar sem litróf einstaklinga fær að njóta sín til fulls. Það er dapurlegt hversu fordómum er oft leyft að hindra framgöngu vináttu og kærleika. Norðurlöndin hafa á undanförnum misserum upplifað marga harmleiki, nú síðast í Kaupmannahöfn á viðburði í anda lýðræðislegs samtals sem bar yfirskriftina „List, guðlast og tjáningarfrelsi“. Þannig ofbeldisverk eru árás á grundvöll lýðræðisins sjálfs og eru með öllu óverjandi. Afleiðingar slíkra atburða eru að við erum sem samfélög meidd og hætt er við að andúð okkar og reiði birtist í auknum fordómum hvers í garð annars.

Auðga heildina Í leit að nýrri fótfestu í samtali okkar um menningar- og trúarhefðir, viljum við leggja til að við lítum til þess umhverfis sem við búum börnum. Börn eiga rétt á því að á þau sé hlustað og að á þeim sé tekið mark, en ekki er brugðist við allri tjáningu þeirra með sama hætti. Þegar barn tjáir ótta, reiði eða sársauka, er því mætt með skilningi og fúsleika til að verða að gagni. Þegar barn sýnir eineltis- eða ofbeldistilburði gagnvart öðrum, þá er slík hegðun stöðvuð og þeirri tjáningu er ekki gefið rými í umræðunni. Markmið samtals og skoðanaskipta er að gefa börnum vettvang til að setja sig í spor annarra og til að stuðla að skilningi, samúð og samvinnu.

Gerðu ekki það við aðra, sem þú vilt ekki að aðrir geri við þig. Við getum í umræðunni tekist á og tjáð skoðanir okkar af eindrægni, en með því að jaðarsetja skoðanir eða hópa í umræðunni mun vandi okkar aukast. Fáfræði, andúð og fordómar mun ekki færa samfélagi okkar frið, heldur auka enn frekar á vandamál og ólgu heimsins.

Skilningur og fræðsla eru forsendur tjáningarfrelsis, frelsis til tjáningar sem krefst þess ekki að gert sé lítið úr öðrum. Virðing og umburðarlyndi eru aðalsmerki lýðræðislegs og skapandi samtals.

Við erum ólík, við greinarhöfundar og við sem saman myndum íslenskt samfélag. Þessari fjölbreytni ber að fagna og sérkenni okkar á sviði þjóðernis, menningar og trúarhefða eru mikilvæg framlög sem auðga heildina.