En hann sagði þeim þessa dæmisögu: “Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni ? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.”
Við áramót, líkt og við önnur mörk tímans, lítum við til baka, til þess tíma sem er að líða. Í helgidóminum kveðjum árið sem er að líða og fer frá okkur með gleði sinni og sorgum, og biðjum um náðarár, hagfellda tíð. Guðspjall gamlársdags geymir fáein orð um tré, fíkjutré. Tré sem ekki hefur spjarað sig og gefið ávöxt. Tré sem á litla framtíð. Tré sem á að upphöggvast og hverfa.
Þetta er dæmisaga sem minnir okkur á að við erum kölluð inn í þennan heim, þiggjum tíma, daga ár heila ævi til að starfa og þjóna. Hratt flýgur stund, segjum við sem eldri erum og þykir stutt frá síðustu áramótum., en þökkum af hjarta hvert ár sem Guð gefur.
Þessi saga geymir áminningu og kröfu, kröfu um vöxt. Tréð á að gefa ávöxt, til þess er það, annars fær það ekki að lifa og er ekki til neins.
Þetta ætti nú ekki að vera erfitt að skilja. Við erum mikið kröfugerðarfólk, við sem byggjum þetta land, íslensk þjóð.
Stöðugar kröfur um vöxt, hagvöxt, framfarir og enn ríkulegri lífsgæði, einkenndu síðustu ár. En nú um þessi áramót, sem hin síðustu, erum við um margt hnípin þjóð í vanda; þjóð sem hefur fengið ærlegan skell og stendur í harðri glímu við að koma skikk á sjálfa sig – læknadeila, heilbrigðisþjónusta á brauðfórum – skólar sem glíma við niðurskurð; þetta er veruleikinn sem við horfumst í augu við og mun marka kjör okkar hin næstu ár.
Endurmats og uppbyggingar er þörf. Um margt höfum við getað staðið saman. En iðulega hefur sundurlyndisfjandin farið mikinn og spillt lífsgleði okkar; tekið frá okkur umburðarlyndi, gert okkur orðljót, fælt okkur hvert frá öðru. Enn eitt þvarg og rifrildisárið er að kveðja.
Sagan um um fíkjutréð fjallar ekki um hagvöxt, heldur öðru vísi vöxt, vöxt andans – verðmæti sem ekki er hægt að mæla með reglustriku hagvaxtarins en verðmæti samt, sem eru ekki síður mikilvæg en það sem við þurfum til daglegs viðurværis.
Verum þó minnug þess að ekki er alltaf langt milli efnis og anda. Með sæmilegum andlegum þroska setjum við hin efnislegu gæði í rétt samhengi; þekkjum mörk þeirra og vitum að þau ein og sér skapa ekki hamingjuna, og tjóðrum mammón í okkur sjálfum.
Ávöxturinn sem Drottinn Jesús vill sjá, er kærleikur, umhyggja, réttlætiskennd og samstaða. Forfeður okkar og formæður; íslenskt alþýðufólk í gegn um aldir, höfðu ekki úr miklu að spila, í fátækt og basli, oft í sárum skorti barðist þetta fólk; spor þess voru ávalt á brattann.
Líf þjóðar okkar var um aldir, kynslóð fram af kynslóð, líkt og segir í ljóði Davíðs Stefánssonar, Sjá dagar koma: „ Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk, í hennar kirkjum helgar stjörnur loga, og hennar líf er eilíft kraftaverk“
Og þetta fólk sem erfiðaði linnulaust til að komast af, í miðju kraftaverksins, vissi að börnin þurftu ekki aðeins brauð, heldur einnig andlega næringu og atlæti. Það vissi að ofalið barn, sem hefur gnótt af heimsins gæðum, en fer á mis við orð og andlega rækt, barn sem ekki trúir, treystir ekki heldur, reynir sára fátækt, snautt af gleði, öryggi og ró, og eignast ekki frið við Guð og menn.
Og við gefum gjafir á jólum og þiggjum. Enn og aftur til að minna okkur á gjafir Guðs til okkar og þeirra sem okkur eru kærir. Með því að gefa þökkum við líf og lán. Við skulum líka horfa út yfir höfin, á hinn stóra heim. Þar eru víða djúpstæð mein.
Við eigum að stíga þannig fram að eftir sé tekið vegna þess að við látum hlutskipti hinna minnstu bræðra og systra vítt vítt um heiminn okkur einhverju varða, að það sé metið og viðurkennt meðal annarra þjóða, að íslendingar horfi ekki á útlönd og útlendinga aðeins sem eitthvað sem hægt er að græða á og hafa gott af, heldur leggi í alvöru fram, gjafir sínar, styrk og stuðning til að byggja upp samfélög sem eru í rústum vegna styrjalda, arðráns og kúgunar, hjálpi fólki sem er örvingluð fórnarlömb og sér hvergi von – að við gefum til guðsþakka. Þrátt fyrir samdrátt og og lakari lífskjör okkar, nú um stundir.
Við þurfum líka að horfa heim. Í morgun heyrði ég í fréttum að tæp tíu prósent þjóðar okkar búi við efnalegan skort af einhverju tagi. Það þýða tvö hundruð manns hér í Borgarprestakalli. Við þurfum ekki bara sátt þjóðar um laun lækna, heldur líka kjör þeirra sem lakast standa.
Skömm er að því hvernig mein skortsins hefur fengið að búa um sig meðal okkar. Og það mun koma okkur öllum í koll. Þeir sem líða skort reyna vansæld og óhamingju. Allir þurfa sitt daglega brauð.
Við ætlumst til þess af ríkisstjórn og Alþingi að orðaskak verði minnkað, að samræða verði þannig að hlustandi sé á, og veki ekki með okkur ógleði og að samvinna verði uppi á borðum – samvinna stjórnar og stjórnarandstöðu um að stýra þessu heimili, sem Ísland er, þannig að mannsæmandi líf og viðunandi afkoma sé ekki lottóvinningur heldur almenn regla.
Mér þótti gott að heyra í dag orð nýskipaðs umhverfisráðherra, Sigrúnar Magnúsdóttur. Þessi væna kona hafði þau orð um verkefni sín, að hún myndi nálgast þau af auðmýkt. Auðmýkt. Þarna slær nokkuð við nýjan tón. Þetta var vel mælt og hugsað. Guð láti gott á vita. Megi henni farnast vel í þjónustu sinni.
Ráðamenn þurfa að vita að þeir eru hér til þess valdir fyrst og fremst til að þjóna en ekki stjórna og slá um sig með valdhroka.
Það er oft talað um þjóðarsál. Hvað það er veit nú víst enginn, en það er einhvers konar mælikvarði á hvernig við erum. Samfélag okkar einkennist nú um stundir af linnulausum upphlaupum; einhver ráðamaður segir skakkt orð og þá fer allt í bál og brand. Og vantraust á stofnunum og grunngerð samfélagsins er áberandi.
Þetta höfum við til dæmis séð varðandi okkar dýrmætu þjóðkirkju. Margir hafa sagt sig frá henni á liðnum árum. Þar kunna að vera góðar og gildar ástæður, en því miður birtist þetta fár oft líkt og tískufaraldur, og svona einhvers konar - -af því bara -- viðhorf.
Sniðugt og smart að vera utan kirkju. Svona gáleysistal hefur heyrst.
En þá þarf að skoða afleiðingarnar. Úrsögn einstaklings úr þjóðkirkjunni bitnar á afkomu sóknanna einhvörðungu. Og afkoman er nógu slæm fyrir. Við þurfum ekki annað en stíga út úr þessum helgidómi, Borgarneskirkju til að sjá brýna þörf á viðgerðum á múrhúð kirkjunnar. Þessi dýrmæti helgidómur er okkur ekki til sóma. Vonandi tekst okkur að bæta nokkuð úr á nýju ári.
En sóknin er fjárvana, og svo er um fleiri sóknir. Kirkjan fékk á sig mun meiri niðurskurð eftir hrun en sambærilegar stofnanir - þrátt fyrir loforð stjórnarflokkanna um leiðréttingu hafa engar efndir orðið. Og ef við bætast úrsagnir úr kirkjunni er voðinn vís.
Þetta er mikið alvöru mál. Sóknir bera ábyrgð á helgidómum sem snerta líf flestra, helgidómum sem margir hverjir eru ómetanleg menningarverðmæti.
Nú fer þetta allt að grotna niður, þrátt fyrir ótrúlega elju og fórnfýsi sóknarnefndarfólks, og verður þjóð okkar til skammar. Þjóð sem ekki vill gera helgidómum sínum til góða, getur vart kallst menningarþjóð.
Kreppa getur verið margs kyns. Efnaleg og andleg. Kreppa getur verið sálarsjúkdómur heillar þjóðar – sem nagar að innan.
Vers Hallgríms úr 4. Passíusálmi kemur í hugann.
Andvana lík, til eins kyns neitt, er að sjón heyrn og máli sneytt, svo er án bænar sálin snauð, sjónlaus, köld og rétt steindauð.
Þannig getur sál þjóðar sem ekki á bæn, von, samstöðu og friðarvilja orðið. En munum líka næsta vers Hallgríms. Vaktu minn Jesú, vaktu í mér, vaka láttu mig eins í þér.
Við áramót minnumst við margs í bænum okkar. Við þökkum liðið ár og biðjum um gjöfula daga á nýju ári.
Við biðjum um frið á jörðu. Biðjum um réttlæti handa hinum svívirtu og brotnu. Biðjum um brauð handa hinum soltnu er líða sáran skort. Biðjum um ljós inní sálarmyrkur. Við biðjum fyrir þeim sem reynt hafa sáran missi og sakna nú og syrgja. Guð leggi líkn með þraut.
Biðjum um betra líf fyrir börn sem búa við hörð kjör, og þrá að fá að mennta sig og þroska hæfileika sína.
Þökkum Guði fyrir börnin okkar og þess er þau njóta. Biðjum líka að við fáum að varðveita barnið í okkur sjálfum, hreinlyndi, sakleysi og gleði.
Biðjum um auðmýkt í hjörtu okkar.
Sagan um fíkjutréð segir okkur, að enn er tími, enn er miskunn Guðs rík. Misjöfn erum við sannarlega - og misgóðir eru dagar okkar. En við erum líkt og fíkjutréð, þurfum aðhlynningu og næringu, svo við fáum lifað og borið góðan ávöxt.
Í bæn, er við leitum Drottins í hugsun okkar og orðum, í ákalli, í nauðum, í lofsöng og í gleði, þiggjum við það sem hann vill gefa, það sem hagvöxtur heimsins getur ekki gefið og ekkert niðurbrot mannlegra verðmæta getur frá okkur tekið.
Við megum þakka af hjarta fyrir að á nýju ári fáum við enn tíma, einn dag í einu. Biðjum um vit og dómgreind til að fara vel með það sem er á okkar valdi, svo að dagar okkar verði góðir. Göngum saman djörf og sterk.
Guði sé lof fyrir nýtt ár sem hann gefur. Guð gefi að við getum unnið ljóssins verk meðan dagur er. Gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni. Amen.