Í ár ber föstudaginn langa upp á 22. apríl og það minnir mig á að þessi drungalegi en áhrifamikli dagur í kirkjuárinu hefur löngum verið tengdur tölunni 22, þ.e. 22. Davíðssálmi.
Sálmur 22 hefur verið kallaður áhrifamesti harmsálmur einstaklings í Saltaranum. Hann sýnir skyldleika bæði við Jobsbók (30:9-11) og ljóðin um hinn líðandi þjón í Jesajaritinu (einkum það síðasta, Jes 52.13-53.12)..
Sálmurinn er vafalaust þekktastur fyrir að þangað eru orð Jesú Krists á krossinum sótt, raunar í arameiskri gerð: „Elí, elí lama sabaktaní?“ (Mt 27:46; Mk 15:34). „Guð minn, Guð minn! Hví hefur þú yfirgefið mig?“
Menn hafa velt því fyrir sér hvort Jesús hafi bara viðhaft þessi orð eða hvort hann hafi hreinlega farið með allan sálminn. Sagt hefur verið að það sé í samræmi við venju ef guðspjallamaðurinn hafi bara vitnað í upphafsorðin en átt við allan sálminn. Talið er að sálmurinn hafi á tímum Jesú verið túlkaður sem messíanskur sálmur (þ.e. spádómur um komu Messísar/Krists). Skoðað í ljósi þess gætu orð Jesú á krossinum verið allt annað er örvæntingar- eða uppgjafarorð. Þau bæri þá frekar að túlka sem sönnun þess að Jesús hafi á krossinum haldið fast við tilkall sitt til þess að vera Messías/Kristur.
Sálmur 22 og píslarsagan
Spor eftir sálm 22 sjást raunar víðar í píslarsögunni. Hjá Matteusi 27:39 (og Mk 15:29) er sagt frá því hvernig viðstaddir hæddu Jesú og hristu höfuðið, sbr. Sl 22:8. Og Matteus (27:43) bætir því við að þeir hafi vitnað í Sálm 22:9: „Hann fól málefni sitt Drottni,/ hann hjálpi honum,/ og frelsi hann, hafi hann velþóknun á honum.“
Allir skýra guðspjallamennirnir frá því að hermennirnir hafa skipt klæðum Jesú milli sín með því að varpa hlutkesti (Mt 27:35; Mk 15:24; Lk 23:34; Jh 19:23 o.áfr.) = Sl 22:19: „Þeir skipta með sér klæðum mínum, kasta hlut um kyrtil minn.“
Þýðingin á v. 17 „þeir hafa gegnumstungið hendur mínar og fætur“ er raunar umdeild og hebreski textinn erfiður á þessum stað. En þetta vers hefur löngað verið túlkað sem spádómur um krossfestingu Krists.
Það má því ljóst vera að höfundar Nýja testamentisins hafa litið svo á að dauði Jesú á krossi hafi verið sagður fyrir í Sálmi 22 og að Jesús hafi á krossinum leitað þar fanga til að tjá þá tilfinningu sem hann bar í brjósti og vildi koma á framfæri við sinn himneska föður.
Danski ritskýrandin Aage Bentzen (1894-1953) komst þannig að orði: „Þetta er ekki sálmur um Golgata, en þetta er sálmur fyrir Golgata, sálmur fyrir þann sem þjáist og finnur sig yfirgefinn af Guði.“
Um mikilvægi harmsálmanna
Það gleymist oft að harmsálmarnir eru fjölmennasti flokkur sálmategunda í Saltaranum, um 1/3 hluti sálmanna telst harmsálmar. Á liðnum árum hafa guðfræðingar í auknum mæli beint sjónum að þessum sálmum og haldið því fram að það hafi verið skaðlegt hve þeir hafi verið vanræktir bæði í helgihaldi og trúarlífi kristinna manna, þ.m.t. guðsþjónustunni. Hér á landi má segja að Passíusálmar Hallgríms Péturssonar hafi bætt þar rækilega fyrir og vinsældir þeirra eru til marks um mikilvægi harm- og píslasálma í helgihaldi okkar og trúarlífi. „Enginn (Íslendingur) háði dauðastríð með ráði og rænu án þess að sækja sér svölun og styrk í orðum þeirra“ (Sbj.Ei.).
Lífið er ekki alltaf dans á rósum, við eigum öll okkar erfiðu stundir, verðum öll fyrir áföllum og líklega er ekkert okkar svo trúað að það hafi ekki upplifað, fundist og reynt að Guð sé fjarlægur og að hann svari ekki bænum okkar. Þá er gott að geta sótt í þann fjársjóð sem harmsálmar Saltarans hafa að geyma og minnast þess um leið að Jesús sjálfur átti í slíkri trúarbaráttu og leitaði þá í þennan sjóð. Á krossinum greip hann til sálms sem hann þekkti vel, eins áhrifamesta harmsálms sálmasafns Gamla testamentisins, 22. sálmsins.
Eitt okkar ástsælasta sálmaskáld, sr. Valdimar Briem (1848-1930), frá Stóra-Núpi orti út frá 22. Sálmi (eins og raunar út af öllum 150 sálmum Saltarans). 1. erindi hans er þannig:
Guð, minn guð, guð, minn guð! Gleðin þver. Hefur þú, herra, nú horfið mér? Yfirgefinn er ég hér, ekkert svar ég fæ frá þér. Hjálpin þín mér horfin er, horfin er.
Sr. Valdimar kynntist margvíslegri sorg og mótlæti í lífi sínu, missti foreldra sína báða með árs millibili er hann var níu og tíu ára að aldri. Son sinn missti hann síðar og eiginkonu sem hann syrgði mjög. Hann leitaði m.a. huggunar í Jobsbók og harmsálmum Biblíunnar. Þar hefur hann séð að örvæntingin er ekki síðasta orðið í harmsálmunum. Vonleysið breytist jafnan í von og fullvissu um bænheyrslu sem oftar en ekki endar í hreinni lofgjörð.
Harmsálmarnir tjá því vel sambandið milli föstudagsins langa og páskadagsins, á milli hyldýpis örvæntingar annars vegar og trúarsannfæringar upprisunnar hins vegar.
Í 22. sálmi kemur viðsnúningurinn í 22. versi: „Þú hefur bænheyrt mig“ og niðurlag sálmsins bætir um betur og segir: „Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni / og óbornum kynslóðum boðað réttlæti hans / því að hann hefur framkvæmt það“ (v. 32).
Fáir textar Gamla testamentisins tjá eins vel tengsl þess og hins Nýja og 22. sálmurinn, sálmur Golgata og föstudagins langa.