Þakkarbankinn

Þakkarbankinn

Lifandi kertaljós var eina vopnið þeirra, friðarbæn og kirkjan eina skjólið þeirra

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Heilög er kveðjan. Gleðileg jól. Nú tindrar allt og skín frá hæstri hátíð. Við finnum svo vel hvað hún er kærkomin. Velkomin vertu hátíð ljóss og friðar og megum við öll finna og þiggja gjöf kærleika hennar, máttar, birtu og friðar. “Gef mér dýrð Guðs og englavakt, gef frið um jarðarból” Hvað finnst ykkur nú best við jólin? spurði ég fermingarbörnin um daginn. Bara svona - sögðu þau - gjafir og góður matur og frí í skóla og sofa út og vera með fjölskyldunni. Auðvitað er það gott, jólin eru tilbreyting frá hversdeginum, það skynja unglingarnir eins og við hin eldri sem yngri. Hátíðinni sem við fögnum nú, verður ekki lýst einungis með orðum, til þess er hún er of djúp, há og víð og snertir í raun svo marga þætti mannlegs lífs, hún fagnaðarboðskapur, fjölskylduhátíð, fegurð og vonarhátíð. Í sunnudagaskólanum í vetur höfum við verið með þakkarbanka.

Í lok hverrar samveru þá spyr ég börnin hvað þau vilji þakka sérstaklega. Og við sameinumst um eina eða tvær bænir, ég skrifa hana á blað og læt í þakkarbankann sem er kassi sem lítur út eins og pósthólf.

Við vonum svo að Guð heyri og lesi allar bænir okkar og það eru líka á bankanum eyru, því börnin vilja kannski hvísla bænir, sem enginn annar má heyra.

Og við treystum því að engill flytji bænir okkar til Guðs. Í sunnudagaskólanum fyrir jólin spurði ég börnin hvað við ættum að þakka núna. Það stóð ekki á svari: Bænin sem fór í þakkarbankann var: Guð við þökkum þér fyrir að búa til jólin. Svo falleg og einlæg bæn og minnir á, að jólin eru hátíð sem ástæða er að þakka Guði fyrir. Já takk Guð fyrir að búa til jólin.

Það er ákveðin lífsafstaða að vera þakklátur. Það er gott að spyrja sig, jafnvel á hverjum degi: Hvað get ég þakkað í dag. Það er svo oft ástæða er til að þakka og stundum er sem augu opnist, víðsýni aukist þegar við hugsum um þakkarefni. Við horfum gjarnan lengra, út fyrir okkur sjálf. Ég hef tekið eftir því að börnunum í sunnudagskólanum er ekki efst í huga að biðja fyrir sér sjálfum, heldur að biðja fyrir einnig fyrir öðrum.

Ég heyrði um athyglisverða könnun sem fer fram í Harvard háskóla og hefur staðið í yfir í 75 ár og eru þátttakendur yfir 700 manns. Þetta er víðfeðm rannsókn og beinist að því að kanna og leita að því sem gefur mannlegu lífi mest gildi. Hvað það er sem mikilvægast er og gefur fólki mestu lífsgæðin. Margir eru víst látnir sem upphaflega tóku þátt í rannsókninni, en nýir fjölskyldumeðlimir þeirra hafa tekið við og það er þriðja kynslóð sérfræðinga við Harvard sem sér um könnunina núna.

Eftir yfir 75 ára eftirfylgd, er það helsta niðurstaða vísindamannanna að það sem veitir mestu lífsgæðin og lífsfyllingu, það eru ekki auðæfi, frægð eða völd, heldur samskipti og góð og traust tengsl við aðra. Þeir sem eiga góða fjölskyldu, trausta vini, rækta samband og tilheyra góðum hópi mælast hærra en aðrir á hamingjuvoginni. Við erum félagsverur sem njótum okkur best í samfélagi með öðrum, þar sem við ræktum kærleikann saman. Og hér erum við saman í kirkjunni í kvöld og eigum það sameiginlegt að fagna og þakka jólahátíð og boðskapurinn er kærleikur og tengsl Guðs og manns. Um daginn las ég viðtal, þar sem viðmælandinn var spurður hvað hann mundi gera ef hann fengi að ráða heiminum í einn dag. Hann sagði að hann myndi byrja á því að afnema trúarbrögðin, - hann notaði ekki orðið banna, heldur afnema. Hvers vegna? Jú, viðmælandinn sagði að trúarbrögðin væru svo oft orsök fyrir hatri og vonsku í heiminum. Þessi fullyrðing heyrist oft. Að trúarbrögð, trú fólks sé ein helsta orsök styrjalda og kyndi undir hatur, sundrungu og ill verk, jafnvel hryðjuverk.

Desmond Tutu biskup og mannréttindafrömuður í S-Afríku var eitt sinn spurður hvers vegna menn fremja svo mörg ill verk í nafni trúar.

Hann tók upp hníf og sagði: “Sjáðu þetta verkfæri. Þetta er hnífur. Þú getur notað hann til að skera brauð og gefa hungruðum að borða, en þú getur einnig notað hann til að deyða fólk. Það sama gildir um trúarbrögðin”. Flest trúarbrögð eru grunnurinn að því góða í heiminum, grundvöllur siða okkar og gilda og góðra verka. Og það er sannarlega margt gott gert í nafni trúar. En eins og svo margt annað sem maðurinn höndlar og notar, þá geta öfgamenn framið ill verk sem stjórnast af hatri og þykjast gera það í nafni trúar sinnar. Heimurinn verður ekki betri ef kristin trú er afnumin. Það eitt er víst.

Í vor kom ég til þýsku borgarinnar Leipzig. Leipzig tilheyrði A-Þýskalandi á sínum tíma. Hún var borg sem var talin eins konar vagga þeirrar heimspeki sem kommúnisminn í Þýskalandi stóð fyrir. Í lok 9.áratugar síðustu aldar var andblær frelsis að berast um A-Evrópu og ríkin sem áður voru svo lokuð handan járntjalds opnuðu í auknum mæli landamæri sín og frelsi íbúa til ferðalaga jókst. Í A-Þýskalandi hins vegar, var haldið í höftin, kommúnistastjórnin þar reyndi að koma í veg fyrir allar kröfur fólks í átt til lýðræðis og frelsis.

Þessi stjórnvöld gerðu lítið úr gildi kristinnar trúar eða áhrifum kirkju, en létu þó afskiptalausar kirkjurnar, því þau töldu ekki mikla ógn af þeim. Trúin hafði verið afnumin. Árið 1989 fór hópur fólks að venja komur sínar til vikulegra mánudagsbæna í kirkju heilags Nikulásar, sem er í miðborg Leipzig. Þar fann það eina skjólið fyrir vökulum augum valdhafa sem njósnuðu og vantreystu fólki. Hreyfingin fór ört vaxandi, fólk hélt á lifandi friðarkerti í kirkjunni og brátt var kirkjan of lítil og þúsundir manna og kvenna settust líka á torgið fyrir framan kirkjuna með kertin sín á hverju mánudagskvöldi.

Í kirkjunni er freska, í loftinu yfir altarinu af friðarengli, táknræn mynd fyrir það sem þarna gerðist. Þessi friðsamlegu mótmæli við Nikulásarkirkjuna fóru síðan eins og bylgja um aðrar borgir og önnur austantjaldslönd. Yfirvöld voru sem lömuð og vissu ekki hvernig átti að bregðast við. Fólk með logandi kerti í hendi er ekki ógnvekjandi og getur ekki borið vopn að neinum. Það voru engin öskur, enginn æsingur, einu orðin sem mótmælendur sögðu í kór voru þessi: “Við erum fólkið”. Og lifandi kertaljós var eina vopnið þeirra. Friðarbæn og kirkjan eina skjólið þeirra.

Her og lögregla sem send var á vettvang, gerði lítið og sumir lögreglu-og hermenn settust jafnvel niður með mótmælendum og kveiktu einnig á kerti. Stjórnvöld voru viðbúin með áætlun, hvernig bregðast ætti við mótmælum og óeirðum, en þetta reyndist þeim ofviða - þau kunnu ekki að svara friðsamlegu fólki sem hélt á kerti. Og sú friðarbylgja sem þarna hófst átti mikilvægan þátt í að Berlínarmúrinn féll þ 9. nóv. árið 1989 og Þýskaland var sameinað.

Já friður, fegurð og kærleikur og lifandi ljós hafa svo mikinn mátt andspænis tilfinningalausu kerfi stjórnvalda. Samstaða, samvinna, tengsl koma miklu til leiðar. Á það minnir þessi frásögn af atburðum sem gerðust í og við kirkju heilags Nikulásar í Leipzig. Í anddyri þessarar kirkju, tekur á móti manni mynd af barni í jötu, barni sem er uppljómað af ljósi. Og þetta barn, Jesúbarnið, snertir enn og alltaf hjörtu okkar. Í kvöld tökum við undir með sálmi sr. Einars Sigurðssonar: Vil ég mitt hjarta vaggan sé, vertu nú hér minn kæri.

Friðarengill sem segir: Verið óhræddir, því sjá ég boða yður mikinn fögnuð. Yður er í dag frelsari fæddur.

Þetta er vonaróðurinn mesti. Lífið upphefst, ljómar og skín, það verður svo bjart í heimi. Á Betlehemsvöllum, hjá fjárhirðum ljómar allt og í jötu er hann, sjálfur frumglæðir ljóssins, sem enn sendir bjarta vonarljósið í dimman heim, heim sem þráir svo oft ljós, von og huggun. Ég boða yður mikinn fögnuð sagði engillinn. Guð kemur til okkar, jörðin er heilög vegna þess að hann snertir hana, lýsir hana upp og hann snertir okkar líf, helgar það, upphefur það, reisir við, gefur því ljós, sem aldrei slokknar. Guð segir: Þú skiptir máli, þú ert Guðs elskað barn, hver sem þú ert og hvar sem þú ert. Og elskið hvert annað, því við erum öll hans elskuð börn sem hann hefur vitjað og vill vera hjá.

Það er vonin sem er okkur öllum gefin. Lifandi ljósið er tákn um hana. Jólahátíðin boðar svo sterkt trúna á lífið, hversu dýrmætt það er, og það er kærleikurinn sem tengir okkur saman. Guð er með okkur, himinn og jörð verða eitt. Við getum svo margt sameinuð með góðum huga. . Við erum eins og englar með einn væng og getum ekki flogið nema með öðrum, með því að haldast hönd í hönd, rækta samkennd og elska, hjálpa, vona og þakka og þiggja Guðs stærstu gjöf: Ó Jesúbarn, þú kemur nú í nótt og nálægð þína ég í hjarta finn. Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt í kotin jafnt og hallir fer þú inn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda amen.