Krossferli að fylgja þínum fýsir mig, Jesú kær. Væg þú veikleika mínum þótt verði´eg álengdar fjær. Þá trú og þol vill þrotna þrengir að neyðin vönd. Reis þú við reyrinn brotna og rétt mér þína hönd. AmenJesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var. Lúkas 18: 31-34
Þetta var ekki það guðspjall sem postularnir áttu von á, þar sem þeir voru í trúnaðarviðræðum við meistara sinn.
Hann er á sigurför, þeir eru í vinningsliðinu, hann er búinn að sýna það, gera hluti, sem enginn lék eftir, tala eins og sá sem hefur vald, veit hvað hann er að segja. Hann hefur læknað sjúka, gefið vonlausum von, reist fólk upp frá dauðum.
Þeir eru uppteknir af hugmyndinni um konunginn sem kemur. Telja hann muni nú sýna vald sitt í Jerúsalem. Þá svipti hann hulunni af öllum leyndardómum. Konungurinn, sem þjóðin hafði alltaf beðið eftir, hann er kominn. Á næstu mánuðum muni hann setjast í hásætið. Þeir og fólkið þeirra þegar farnir að hugsa um hvaða stöður þeir muni skipa í hinni nýju ríkisstjórn, hvaða bitlingar þeim muni bjóðast.
Það gat varla nokkuð staðið fyrir honum. Hermennirnir, pólitíkusarnir, varðliðarnir, allt liðið myndi beygja sig og bukta fyrir honum. Þetta er glæst framtíðarsýn.
Svo kemur þessi ræða. Hann verður framseldur og hann verður pyndaður og tekinn af lífi. Og nú leggjum við í hann. Þetta er framundan í höfuðborginni þegar við komum þangað!
Það er þrítekið í þessu stutta guðspjalli hvað þeir voru algerlega skilningsvana, lærisveinarnir. Þó eru þetta skýr orð, hann hefur talað við þá nokkur misseri, þeir þekkja hann, nánustu samstarfsmennirnir hans. Hann segir þeim þetta í trúnaði. En það dugir ekki til. Vissu þeir þó hvernig heimurinn er. Hvernig hafði farið fyrir Jóhannesi skírara, þeir voru á vettvangi, fylgdust með þeim ósköpum.
Þeir vita ekki, þekkja ekki samhengið. Það sem Jesús segir þarna er þetta: Leiðin liggur inn í myrkrið. Þessi leið er löngu mörkuð. Guð hefur fyrir löngu gefið til kynna, að braut lausnarans liggi gegnum myrkur og þjáningu. Frelsun heimsins, hjálpræðið felst í því að leiðtoginn fórni lífi sínu.
Þeir reiknuðu ekki með þessari gerð af Messíasi.
Mannshugurinn á það til að meðtaka ekki annað en hann vill – við heyrum stundum ekki annað en það sem við viljum heyra. Enginn er eins blindur og heyrnarlaus og sá sem vill hvorki sjá né heyra. Blákaldur veruleikinn getur líka stundum verið of kaldur fyrir okkur. Óskhyggjan, pollýönnu-aðferðin, hún getur oft virkað vel. En hún dýpkar kannski ekki skilning okkar á lífinu.
Nú er sunnudagurinn í föstuinngangi. Framundan eru þessar vikur föstu og mótlætis. Margur upplifir krappari kjör, óvissari framtíð en stundum áður. En þegar stærstu tölurnar eru nefndar, þegar hyldýpi kollsteypunnar er útmálað fyrir okkur í fjölmiðlum, þá fer okkur eins og postulunum. Við skiljum ekkert í þessu.
Stundum þegar farið er yfir námsefni með fermingarbörnum þá verður maður þessa var: Þau botna hvorki upp né niður.
Pistill dagsins fellur vel að guðspjallinu. Orð krossins er heimska hverjum vitibornum manni. Þetta er skynseminni ofviða, þetta gengur ekki upp. Að eitthvað jákvætt, jafnvel það allra besta sem fyrir geti komið, endurlausn, frelsun, hjálpræði, geti bara átt sér stað gegnum þjáningu og dauða. Hvernig getur lífið falist í því að deyja? En sá er einmitt skilningur Jesú Krists á hlutverki sínu. Honum fannst það tæpt líka, örugglega, fráleitt á köflum. En þarna, í þessum orðum sem við höfum fyrir framan okkur, þá hefur hann tekið ákvörðunina. Þetta er leiðin sem hann á að ganga. Það er leið krossins, þjáningarinnar, dauðans. Þannig hyggst Guð koma hjálp sinni til heimsins. Jesús efaðist. Baráttuna háði hann síðast í Getsemane-garðinum. „Verði ekki minn heldur þinn vilji“, segir hann í bæninni til Guðs. Alltaf þó með það á hreinu að kærleikurinn sem með honum býr, kærleikurinn, sem leggur allt í sölurnar, heldur áfram á krossinn.
Þetta er hneyksli krossins. Þetta er fjarstæðan við kristna trú. Margir hafa reynt að gera kristindóminn aðgengilegri. Spekingar, trúmenn, guðfræðingar, hafa beitt ýmsum leiðum til að sanna tilvist Guðs. Þeir hafa beitt rökfræðinni og verufræðinni, tilvistarspekinni, eins og Anselmus frá Kantaraborg, eða Tomas frá Aquino, sem benda til veruleikans, sköpunarinnar og þess að hún hljóti að eiga sér höfund. Báðir þessir snillingar segja þó, að kristin trú verði þó aldrei meðtekin einungis út frá skynsemi og skilningi. Sú er jafnan niðurstaðan. Framhjá því getur enginn kristinn maður litið, að svona er kjarni kristindómsins. Þú getur ekki meðtekið hann aðeins með skilningi þínum og skynsemi. Þetta hefur alltaf verið svona. Menntað fólk, upplýstar kynslóðir, margir meðal fólks allra þjóða, allra tíma, hefur hrokkið frá vegna þess að þetta er óskiljanlegt. Það er hins vegar alveg sama hvernig við fjöllum um kristindóminn, hvort okkur tekst að gera hann spennandi, það verður aldrei boðaður sannur kristindómur án þess krossinn sé þar miðlægur. Leið Jesú Krists, fórnarleið kærleikans, sem leggur allt í sölurnar, án vitundar eða vissu um ávinning, hún er þarna. Og hana þarf að fara.
Þetta er leyndardómur trúarinnar. Trúin verður aldrei fullkomlega skiljanleg og skynsamleg. Hún er trú. Hún er traust, traust þitt á að Jesús Kristur hafi valið réttu leiðina. Hann hafi séð það rétt að leið hans ætti að liggja gegnum þrengingarnar, þjáninguna og dauðann.
En trúin endar ekki þarna. Kristur nefnir aldrei píslir og þrautir einar sér. Trúin á sér líf, upprisu og eilíft líf. Framundan er sigur lífsins. Báðir dagarnir, hvorir tveggja atburðirnir, föstudagsins langa og páskadags, færa okkur fagnaðarerindið. Myrkrið og ljósið, dauðinn og lífið í fylgd með Jesú Kristi.
Þessu eigum við að ná betur og betur, eftir því sem lífið og atburðir daganna okkar gefa okkur að sjá. Við reynum stundum í eigin mætti. Og sumir telja sig komast vel af án trúar. Undarlegt er það þó hvað þeir eiga erfitt með að sjá aðra í friði með sína trú. En við, mannfólkið teljum okkur stundum ráða við þetta ein. Gott og vel. Engum vil ég óska erfiðleika eða óþæginda. Hitt veit ég að enginn kemst hjá raunum. Hversu vel tekst okkur að horfast í augu við það? Á maður sjálfur einhverjar lausnarleiðir frá því? Hvað ertu hreinskilin(n) við þig? Hvað viltu með þennan stutta tíma sem þú hefur og ævi þín er?
Kristur vill segja þér að líf hans, dauði og upprisa geti snert þitt líf og auðgað það meira en nokkuð annað. Hvernig? Því get ég ekki almennilega svarað. Ég er jafnráðþrota þegar kemur að því að útskýra það. Hann valdi þessa leið. Svo algerlega tengdi hann kristna trú og hjálpræði lífi sínu og örlögum að annaðhvort verðum við að gera: Taka því eða hafna því.
Fastan er reynslutími. Ótaldar milljónir fólks í heimi okkar samsama sig þessum ferli, krossferli Krists. Og þau munu síðan gleðjast með jafn óskiljanlegum hætti á páskunum. Það höfum við þó fram yfir skilningsvana postulana forðum að við vitum að Kristur reis upp frá dauðum. Að páskasólin kemur upp í fyllingu tímans. En einnig því verðum við að taka í trú.
Amen, í Jesú nafni.