Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Finnst ykkur stundum lífið vera í móðu og mistri?
Skin og skúrir?
Urð og grjót og upp í mót?
Ég var til dæmis í vikunni að keyra og velta fyrir mér hvað ég ætti að hugleiða hér í kvöld.
Hugsaði mér að ég yrði að vera beittur, stuttorður, og, og, og, og.
Fann að ég var stressaður fyrir hvað ég ætti að segja.
Fór að velta þá fyrir mér textanum, sem var sunginn á áðan, sem hljómar á ensku hjá U2: “I stil haven´t found what I am looking for.”
Fannst ég svo engu nær í þessum pælingum og dæsti innra með mér.
Vildi fara að hugsa eitthvað annað og kveikti því á útvarpinu í bílnum.
Hvaða lag haldið þið að hafi þá hljómað?
“I stil haven´t found what I am looking for.”
Var það tilviljun.
Eru tilviljanir til?
_____________________________ Ef ég tek niður gleraugun mín sé ég ekki andlitin ykkar, hef ekki týnt ykkur en sé ykkur ekki vel.
Þegar ég set þau aftur upp þá má segja að ég hafi fundið ykkur með gleraugunum mínum og ljósið hjálpar mér til að sjá ykkur betur.
Ég reyndar sé ekki nógu vel með þessari umgjörð á erfitt að lesa með henni og er þess vegna að fá í vikunni tvískipt gleraugu og mun þá sjá enn betur.
Með hjálp gleraugnanna minna sé ég betur og finn hluti betur.
Fyrsta, sem ég geri þegar ég vakna á morgnanna er að fálma með höndunum á náttborðinu mínu til að finna gleraugun og setja þau á mig.
Og áður en ég bið bænirnar á kvöldin þá legg ég gleraugun frá mér á náttborðið, svo þau séu sem næst mér. _________________________________
Það má finna ýmislegt í þessu lífi án þess að sjá það með augum og gleraugum, til dæmis með því að skynja og upplifa í hjartanu.
Hljómsveitin U2 gerir til dæmis; leit og upplifanir að yrkisefni sínu og við fáum hér í kvöld, í kirkju að upplifa flutning góðrar hljómsveitar og kórs á tónlist U2.
Textar og tónar geta kallað fram hughrif og tilfinningar og það getur hið heilaga, orð Guðs gert ef við opnum hugi okkar og hjörtu fyrir því.
Bestu gjafirnar sem við fáum í þessu lífi þurfa endilega ekki að kosta mikið og vænst þykir okkur efalaust um þær sem eru gefnar með hjartanu. ______________________
Á föstudaginn var hugsaði maður einn eitthvað á þessa leið:
“Efalaust eiga ekki allir peninga til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni fram að næstu mánaðarmótum.
Róður margra er að þyngjast í því árferði, sem nú er.
Viðkomandi knúði því seinni partinn á föstudeginum, dyra í húsi einu, þar sem hann vissi að stuðningur við matarinnkaup yrði vel þeginn.
Afhenti húsráðanda lokað umslag með gjafaúttekt í matvöruverslun.
Rúmri klukkustund síðar barst gefandanum eftirfarandi tölvupóstur: “Langaði að þakka aftur fyrir mig, ég var bara svo orðlaus eitthvað áðan og hissa en þú veist heldur ekki hvað þú hittir á sterka óskastund.
Það er oft mikið basl á okkur við erum með x unglinga á okkar framfæri og þrátt fyrir að reyna að vera skynsöm og skipuleggja vel innkaup, greiðslur og annað, þá dugar það bara ekki til.
Helsta skýringin er líklega sú að leigan hjá okkur hefur hækkað um 110.000,- krónur frá því við byrjuðum að leigja fyrir fjórum árum en launin hafa hins vegar lítið breyst.
Í dag fara útborguð laun mín beint í leiguna.
Við erum lítið fyrir væl og vol, förum mjög langt á bjartsýninni og trúum því að einn daginn verði þetta auðveldara.
Þangað til er bara að berjast áfram og njóta þess sem við höfum en hugsa ekki um það sem við höfum ekki.
Þessi mánuður er því búinn að vera frekar strembinn.
Við erum mjög trúuð og biðjum daglega.
Höfum svo sem ekkert hátt um það en við spjöllum gjarnan við himnaföðurinn og hans engla þegar okkur dettur í hug og trúðu mér það er oft.
Síðast í gærkvöldi var ég andvaka vegna restarinnar af mánuðnum.
Er búinn að nota nánast allt sem ég get notað í matinn og taka fyrirfram af launum og hafði áhyggjur. Ég átti þar af leiðandi afar langt spjall í nótt og bað um að einhver lausn myndi verða á vandanum í dag, sérstaklega þar sem eitt barnið á afmæli.
Á leiðinni úr vinnunni í dag var ég að velta þessu fyrir mér.
Þá komst þú bara sísvona færandi hend svo þú skilur að ég varð orðlaus leið eiginlega hálf kjánalega en vá hvað þakklætið er mikið. Bara endalaust takk fyrir að hugsa til mín.
Það hefur einhver lítill engill hvíslað í eyrað þitt í morgunn, það er á hreinu.”” _______________
Er hér um að ræða tilviljun?
Er hér um að ræða bænheyrslu?
Notaði maðurinn, með matargjafakortið innri augu sín til að styðja náunga sinn í lífsbaráttunni?
Hlustaði og hann og skynjaði með innri augum sínum?
Í guðspjallinu er talað um blindan mann og Jesús Krist.
Af hverju var maðurinn blindur? Er það kannski synd foreldranna, með öðrum orðum er það refsing gagnvart sögunni, kynslóðunum?
En Jesús segir: “Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum:” Jóh. 9:3
Blindur maður sér ef til vill ekki umhverfið með sama hætti og sá eða sú, sem hefur augu sem sjá.
En ég hef kynnst blindum einstaklingum, sem hafa mun betri sjón á mannlífið en ég, sem á að teljast sæmilega sjáandi þó ég noti gleraugu.
Það er þá af því að sá hinn blindi hefur ef til vill öðlast betri sýn til þess, er varðar manneskjuna sem slíka og þá þætti, sem hafa með viðhorf, yfirsýn og hæfileika til að draga ályktun út frá því, sem skiptir raunverulega máli í mannlegu samfélagi.
Megum við finna það sem við leitum að.
Megum við horfast í augu við erfiðleika lífsins, vinna úr þeim fyrir stuðning og eigin verðleika og lifa áfram ótrauð í trú, von og kærleika þrátt fyrir að ýmislegt bjáti á.
Guð gefi okkur betri sýn á neyð náungans og skarpari sjón hjartans til að lifa með Guði.
“Ég fell að fótum þínum og faðma lífsins tré. Með innri augum “mínum ég undur mikil sé. Þú stýrir vorsins veldi og verndar hverja rós. Frá þínum ástareldi fá allir heimar ljós.”
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun: “Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.”. Amen.
“Guðspjall: Jóh 9.1-11 Á leið sinni sá Jesús mann sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“ Jesús svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.“ Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gerði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: „Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam.“ (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom aftur sjáandi. Nágrannar hans og þeir sem höfðu áður séð hann ölmusumann sögðu þá: „Er þetta ekki sá er setið hefur og beðið sér ölmusu?“ Sumir sögðu: „Sá er maðurinn,“ en aðrir sögðu: „Nei, en líkur er hann honum.“ Sjálfur sagði hann: „Ég er sá.“ Þá sögðu þeir við hann: „Hvernig fékkst þú sjónina?“ Hann svaraði: „Maður að nafni Jesús gerði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina þegar ég var búinn að þvo mér.“