Páll postuli hefur nú ekki vitað um kreppuna á Íslandi 2008 þegar hann sagði okkur að vera alltaf glöð. Væri ekki nær að hvetja okkur öll til að vera ábyrg, sparsöm og skynsöm? Eigum við ekki að vera áhyggjufull og leið? Veislunni lokið og sumum líður einsog eftir gleðskap þar sem fljótandi veiga hefur verið neytt í óhófi og ekkert nema timburmenn með tilheyrandi kvíða og ógleði. Er ekki barnalegt að bjóða okkur upp á boðskap Páls postula um að vera ávallt glöð?
Hún er sígild frásögn Jesú af liljum vallarins sem eru svo dásamlega fallegar einfaldlega af því þær eru til. Áhyggjulausar, ekki of feitar eða mjóar, ekki of fölar eða sólbrúnar, fallegar. Við bætum ekki efnahagsástand þjóðarinnar með áhyggjum. Því fer einnig víðs fjærri að við bætum líf okkar eða annarra með áhyggjum.
Ef við lítum lengra og minnum okkur á að við erum ekki endilega nafli alheimsins þá blasir við okkur að í stóra samenginu er nokkuð sterkt að nota orð eins og kreppa um efnahagsástandið. Erfiðleikar eða niðursveifla væri nær raunveruleikanum.
Þá getum við áfram spurt, hvaða erindi eiga orð postulans þegar um er að ræða raunverulegar þjáningar. Hjá fólki sem ekki hefur í sig eða á. Þar sem stríð með tilheyrandi hryllingi ríkir. Hjá fólkinu okkar sem hefur misst heilsu. Þeim sem eru örkumla eftir slys eða áföll. Þeim sem hafa misst ástvini sína og syrgja og sakna. Verum ávallt glöð.
Trúin okkar kennir að við eigum að lyfta erfiðleikum, sorg og sjúkdómum til Guðs. Þar er okkur mætt í þeim aðstæðum sem við erum og með tímanum víkur sorg og myrkur fyrir gleði og birtu. Það er boðskapurinn sem við skulum taka á móti í dag. Mætum þeim sem á vegi okkar verða í dag með gleði. Við getum haft áhrif á umhverfi okkar til góðs. Tökum það alvarlega, sýnum ábyrgð með því að vera glöð.