Biðjum:
Góði Guð.
Nú frammi fyrir þér
ó, faðir, birtumst vér
og heitt af huga klökkum
þinn helgan kærleik þökkum. Amen. (sl. 70:1)
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Kenn oss
Gamlársdagur í dag, gamlárskvöld, síðasti dagur ársins. Nýr dagur á morgun, nýtt ár, ef Guð lofar, eins og góður maður í okkar hópi segir gjarnan.
Ef Guð lofar.
Árið 2022 að renna sitt skeið. Hvað færði það þér?
Við áraskil er eðlilegt að staldra við og horfa yfir liðið ár, meta stöðuna, hvar erum við stödd á lífsins vegi, hvar ert þú stödd/staddur á þínum lífsins vegi?
Viska kynslóðanna mætir okkur í textum dagsins. Þar má finna áleitnar spurningar um lífið og framgang þess, þar sem postulinn er sannfærður um að ekkert geti komið í veg fyrir að Guð sé okkur nærri. Þar má finna dæmisögu um fíkjutré. Þar má finna ljóð er miðlar nærveru Guðs þar sem sálmaskáldið segir meðal annars og biður til Guðs:
„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“
Samhengi dæmisögunnar um fíkjutréð
Hvar skal bera niður þegar ólíkir árþúsunda gamlir textar eru lesnir og við ætlum að reyna að heimfæra þá, eða boðskapinn, upp á okkar líf, hér og nú? Heimfæra, þýðir að reyna að draga lærdóm af textunum sem hafi merkingu fyrir okkur í dag.
Dæmisaga Jesú um fíkjutréð er sögð í ákveðnu samhengi. Stundum er gott að skoða samhengi textanna því það gefur manni gjarnan dýpri merkingu og skilning á því sem Jesús segir. Jesús segir þá dæmisögu í samhengi mikillar alvöru, þar sem Pílatus lét drepa Galíleumenn.
Þarna í aðdragandanum var Jesú sagt frá mönnum sem voru að iðka sína trú með sínu helgihaldi, þeir voru að færa Guði fórnir, líkt og tíðkaðist hjá þjóðinni á þessum tíma. Þeir komu fram fyrir Guð að færa Guði fórnir en Pílatus lét drepa þá „svo að blóð þeirra blandaðist fórnarblóðinu.“ Eins og segir í þeim texta.
Sú frásaga er í takt við framgöngu margra yfirvalda á þeim tíma, sem komu fram við þegna sína sem sláturdýr. Mannréttindi voru ekki til, almenningur bjó við ógnir og ofbeldi.
Samhengi dæmisögunnar er því mjög brútalt.
Þar segir:
Í sama mund komu einhverjir til Jesú og sögðu honum frá Galíleumönnunum sem Pílatus lét drepa er þeir færðu fórnir sínar svo að blóð þeirra blandaðist fórnarblóðinu. Jesús mælti við þá: „Haldið þér að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn fyrst þeir urðu að þola þetta? Nei, segi ég yður, en ef þér takið ekki sinnaskiptum munuð þér allir farast á sama hátt. Eða þeir átján sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, haldið þér að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn sem í Jerúsalem búa? Nei, segi ég yður, en ef þér takið ekki sinnaskiptum munuð þér allir farast á sama hátt.
Almenningur þarna var í augum yfirvalda í sömu stöðu og sláturdýr. En Jesús hvetur viðmælendur sína þarna til sinnaskipta. Hann hvetur þá til að leggja traust sitt á þann Guð sem elskar þá, en ekki á yfirvöld þessa heims. Líkt og postulinn segir í pistli dagsins sem Páll postuli skrifaði söfnuðinum í Róm. Hann segir:
Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.
Mildi Guðs og kærleikur
Þrátt fyrir brútal staðreyndir lífsins, aftöku á Galíleumönnum sem voru að iðka trú sína líkt og segir frá í aðdraganda guðspjalls dagsins eða árásarstríð Pútíns sem myrðir börn og allt sem fyrir honum verður, líkt og er reynsla okkar í samtímanum, þá mun ekkert geta komið í veg fyrir að Guð elskar. Að það er raunverulega til Guð sem vakir yfir öllum mönnum og veitir af náð sinna þeim sem til hans leitar, blessun, ljós og líf.
Jafnvel þótt að okkur þyki líf okkar bera rýran ávöxt. Jafnvel þótt að okkur finnist við ekki verð neins sérstaks, þá erum við öll, og allir menn, dýrmæt í augum Guðs.
Eins og dæmisdaga Jesú um fíkjutréð miðlar, lát það standa enn eitt árið, segir þar. Guð vill gefa tækifæri til að hlúa að, bera að áburð, til að auka líkurnar á að ávextir lífsins verði sýnilegir. Leggjum okkur því fram, hlúum enn betur að lífinu, eins og segir um fíkjutréð, þar sem hvatningin var að grafa um það og bera að því áburð, og sjá, það má vera að það beri ávöxt síðar.
Þetta er dæmisaga um það hvernig við eigum að huga að okkar lífi og framgöngu. Síðan er merkilegt hve trén eru mikilvæg í hinu Biblíulega samhengi. Í dag eru þau síðan að verða gríðarlega mikilvæg í baráttu heimsbyggðarinnar við loftslagsbreytingar. Hlúa að lífríkinu, rækta og planta.
Ávextirnir og blómin eru síðan stundum ósýnilegir. Hin góðu fræ sem við sáum með framgöngu okkar og lífi, bera stundum ávöxt á annan máta en við gerum okkur í hugarlund.
Líkt og með fíkjutréð sjálft.
Fíkjutréð sjálft
Nokkur orð um fíkjutréð. Fíkjutréð er eitt af lykitrjánum í mörgum skógum heimsins. Það býr til ávexti allt árið og er lykilfæða fyrir mörg af skordýrum skóganna. Blóm fíkjutrésins eru falin inn í ávexti fíkjutrésins, vissu þið þetta? Margar þjóðir héldu að plantan héldi ekki blóm, en blómin eru falin inn í ávexti fíkjutrésins. Það þarf svo ákveðið skordýr, fíkjuvespu, til að fíkjutréð sjálft beri ávöxt. Fíkjuvespan ferðast marga kílómetra til að verpa inn í annarri fíkju og þannig gengur það koll af kolli.
Það þarf því ákveðna samvinnu og samhengi í lífríkinu til að ávextir og blóm fái að prýða tilveruna. Þannig er það einnig með lífið allt, að það er margbreytileikinn, það er fjölbreytileikinn, það er flóran öll, sem skiptir máli, í lífríki, náttúru og mannlífi.
Áburður og andleg rækt
Svo er það eitt hugtak hér í lokin sem ég vil draga út úr þessum mögnuðu textum. Það er hugtakið áburður. Það þarf áburð til að fíkjutréð fái notið sín. Í samhengi lífsins okkar þarf einnig einhverskonar áburð. Hver er sá áburður sem við þurfum að huga að til að rækta okkar mennsku, mannlíf og samfélag?
Mildi í eigin garð og annarra.
Dugnað og hugrekki, kjark og þor, til að takast á við verkefni lífsins og áskoranir.
Margt er það nú fleira sem er manninum gagnlegt. Hvað fleira dettur ykkur í hug?
Hvernig ræktum við þessa mikilvægu eiginleika?
Andleg iðkun og bæn, er ein af dýrmætustu leiðunum sem við höfum til að bæta mennskuna, auka heilsu og hamingju. Andleg iðkun og bæn, lestur, íhugun, núvitund, bænastundir. Einnig það að biðja með og fyrir öðrum.
Hagur annarra
Svo er það þetta með að hafa hag og heilsu annarra að okkar eigin markmiði.
Það er merkilegt hvað það gefur, að gefa öðrum.
Gefa öðrum af tíma sínum. Gefa öðrum af fjármunum sínum. Veita öðrum athygli, rétta öðrum hjálparhönd, hlusta á aðra, setja sig í annarra spor.
Í slíkri afstöðu leynist hamingjan og þakklætið fyrir að fá að vera til. Að finna til þakklætis er dýrmæt Guðs gjöf.
Því í raun og veru eru verkefni okkar hér í heimi einföld, en þau eru fólgin í því er við mætum hvert öðru í gleði og alvöru og tökum þátt í lífinu hvert með öðru. Þar miðlum við öll bæði visku og blessun, huggun og styrk, því einnig við eigum að vera hvert öðru og samferðarfólki okkar til gæfu. En einmitt þar er það Guðs kærleikur sem mætir okkur, þegar við vöknum á hverjum morgni og við blasa nýir möguleikar og ný tækifæri til að verða öðrum til gagns, þótt það sé jafnvel ýmislegt í okkar eigin lífi sem er erfitt og sárt.
Megi nýtt ár gefa okkur mörg tækifæri til að verða öðrum til gagns. Megi nýtt ár færa þér og þínum blessun og gæfu, ljós og líf.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Ég vil nota tækifærið hér og þakka kirkjukór Grensáskirkju, kantór, messuþjónum og sóknarnefnd, sem og samstarfsfólki, innilega fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
Takið postulegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.
Prédikun við aftansöng í Grensáskirkju á gamlárskvöld 2022.