Keltneskur arfur á Vesturlandi

Keltneskur arfur á Vesturlandi

Þorvaldur segir jafnframt í texta sýnum frá dýrlingum keltneskrar kristni eins og heilögum Kolumkilla, St. Columba á latínu, og heilögum Patreki, postula Írlands. Með því dregur hann fram trúar- og menningaruppruna landnámsmanna, sem komu hingað til lands frá keltneskum löndum og menningarsvæðum og settust margir að á Vesturlandi.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
19. ágúst 2013

,,Keltneskur arfur á Vesturlandi,” er heiti á vandaðri og eftirtektarverðri sýningu sem nú stendur yfir í Safnaskála í Minjasafninu á Görðum á Akranesi. Hún felur í sér vandaðar uppsetningar á ljósmyndum, sem Friðþjófur Helgason, ljósmyndari, hefur tekið og unnið við skýringar og fróðleikstexta Þorvalds Friðrikssonar, fréttamanns og fornleifafræðings.

Þorvaldur skrifar um landslag og umhverfi á Vesturlandi, sem bera nöfn er hann telur vera af keltneskum uppruna og eru vart skiljanleg nema að því sé gætt. Myndir Friðþjófs sýna þessa tilgreindu staði. Þegar staðarnöfnin eru túlkuð út frá gelísku, keltneskri tungu, svo sem Þorvaldur gerir, kemur augljóslega fram að þau lýsa vel svip fjalla og staðhátta og merking þeirra upplýkst og kemur í ljós á nýjan veg. Saurbær fær þá t.d. merkinguna Miklibær og Dagverðarnes Gæðaland, Skorradalur merkir Tindadalur og vísar þá væntanlega til tinda Skarðsheiðar.

Þorvaldur segir jafnframt í texta sýnum frá dýrlingum keltneskrar kristni eins og heilögum Kolumkilla, St. Columba á latínu, og heilögum Patreki, postula Írlands. Með því dregur hann fram trúar- og menningaruppruna landsnámsmanna, sem komu hingað til lands frá keltneskum löndum og menningarsvæðum og settust margir að á Vesturlandi. Landnámabók greinir enda frá því að tvær kirkjur á Vesturlandi hafi verið helgaðar Guði og Kolumkilla, kirkja á Innra Hólmi í Hvalfjarðarsveit og kirkja á Esjubergi á Kjalarnesi.

Mörg staðarnöfn á Vesturlandi munu vera komin frá eyjunni Lewis, sem er stærst Suðureyja Skotlands og norrænir menn til forna nefndu Ljóðhús (Lewis er ljóslega komið af því heiti), t.d. nöfnin Esja, Kjós og Akranes. Um miðja 19. öld fundust í Ljóðhúsum nær hundrað fagurlega útskornir taflmenn, sem taldir eru hvað merkastir taflmenn, sem fyrirfinnast og eru nú meðal dýrgripa Breska þjóðminjasafnsins. Hugmyndir hafa nýverið komið fram um að þessir taflmenn kunni að vera íslensk smíð og gerðir í smiðju Páls Jónssonar, Skálholtsbiskups, við lok 12. og í byrjun 13. aldar og þá væntanlega af hagleikskonunni Margréti oddhögu og hennar starfsliði í Skálholti.

Á þeim tíma munu Íslendingar hafa átt töluverð viðskipti við Grænlendinga og fengið frá þeim rostungs- og náhvalstennur, sem voru þá afar verðmætar og eftirsóttar um hinn þekkta heim, nýtt þær til smíða og flutt þær áfram til Evrópulanda sem hrávöru og ekki síður sem dýrmæta smíða- og listgripi. Þessi útflutningsvara var jafnfram mikilvægur gjaldeyrir fyrir Íslendinga sem fóru víða um lönd á þessum tíma og höfðu efni á því að bera sig vel, skrifa t.d. bækur um sögu og menningu sína á dýr kálfskinn.

Sýningin ,,Keltneskur arfur á Vesturlandi” stendur til sunnudagsins 25.ágúst og er opin á opnunartíma Minjasafnsins frá kl 10-17 alla daga. Sjá nánar um dagskrá safnsins á www.museum.is .