María Magdalena hefur verið mikið í umræðunni síðustu árin, ekki síst vegna þess lykilhlutverks sem hún gegnir í bók Dans Brown um Da Vinci lykilinn. Í hinni fræðilegu umræðu hefur María Magdalena líka verið áberandi á síðustu áratugum og það löngu áður en Brown skrifaði bók sína. Þar hefur skipt sköpum fundur fleiri heimilda sem fjalla um líf og starf frumkirkjunnar, sem og aukin krafa um endurskoðun fyrri hugmynda um virkni kvenna í lærisveinahópnum. Í guðspjöllum Nt fer ekki mikið fyrir konunum og engin kona er í hópi postulanna tólf. Af þeim sökum hefur oft verið litið svo á að konur hafi ekki gegnt mikilvægu hlutverki í hópi fylgjenda Jesú og löng hefð fyrir að nota það sem rök gegn fullri þátttöku kvenna í vígðri þjónustu kirkjunnar, til jafns við karla.
Þó að hlutur kvenna í guðspjöllum Nt. sé mun rýrari en karlanna, þá er ljóst að konur voru á meðal nánustu samstarfsmanna Krists. Þannig segir í 8. kafla Lúkasarguðspjalls:
Eftir þetta fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar, er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum. (Lk 8.2-3)Annað dæmi um mikilvægt hlutverk kvenna í frásögum Nt. er að finna í upprisufrásögunum, þar sem konur gegna hlutverki fyrstu upprisuvottanna og eru fyrstar til að flytja áfram fréttirnar af tómu gröfinni. Konur höfðu vissulega ekki sama rétt og karlar í því þjóðfélagi sem Kristur lifði og starfaði í. Þar var litið á konur sem annars flokks þegna og þæ t.d. ekki taldar vitnisbærar fyrir dómstólum. Því koma viðbrögð karllærisveinanna, þegar konurnar fluttu þeim fréttirnar af hinum upprisna, ekki á óvart. Í 24. kafla Lúkasarguðspjalls segir m.a.:
Og þær minntust orða hans, sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum. Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. (Lk 24.8-11)Engu að síður urðu orð kvennanna til þess að Pétur hljóp sjálfur út að gröfinni til þess að komast að hinu sanna í málinu.
Sú tortryggni sem kemur fram í viðbrögðum karllærisveinanna í garð kvennanna sem fluttu þeim fréttirnar af upprisu Krists. er mjög í samræmi við þá spennu sem lýst er í samskiptum karla og kvenna í mörgum hinna svokölluðu apókrýfurita, Þetta eru rit sem ekki tilheyra ritasafni Nt, en fjalla einnig um Krist og kirkju hans. Mörg þessara rita voru lengi óþekkt og sum þeirra allt fram á 20. öldina. Víða er Maríu Magdalenu lýst sem náninni vinkonu Krists og leiðtoga á meðal hinna frumkristnu. Þá kemur fram að hún hafi átt erfitt uppdráttar sem leiðtogi vegna valdatogstreitu sem ríkti innan frumkirkjunnar á milli hennar og annarra leiðtoga, sérstaklega hennar og Péturs.
Þó að María Magdalena sé ekki talin á meðal postulanna í ritum Nt., þá er ýmislegt í heimildum sem gefur til kynna að hún og Kristur hafi verið mjög náin. Hugmyndin um ástarsamband Maríu Magdelenu og Krists er alls ekki ný á nálinni, en ekkert er vitað fyrir víst hvers eðlis samband þeirra var. Sömuleiðis hefur lengi verið talað um Maríu sem vændiskonu, þó að það sé hvorki gert í guðspjöllum Nt. né í öðrum samtímaheimildum. Hér vegur þungt sú aldagamala hefð sem er fyrir því að rugla Maríu Magdalenu við aðrar kvenpersónur Nt., eins og t.d. bersyndugu konuna sem smurði fætur Jesú (Lk 7) og hórseku konuna sem Jesús bjargaði frá grýtingu (Jh 8).
Dæmi um þennan rugling er að finna í prédikun sem Gregoríus mikli páfi hélt í lok 6. aldar e. Kr. Hvort að vændiskonustimplinum hafi verið ætlað að draga úr trúverðugleika Maríu Magdalenu innan kirkjunnar verður ekki fullyrt hér, en víst er að hann hefur haft mikil áhrif á viðhorf fólks til hennar á liðnum öldum. Að margra mati er því löngu kominn tími til að hún sé hreinsuð af þessum tilhæfulausa stimpli. Þess í stað eigi hún að fá að njóta sín fyrir það sem hún var, þ.e. náinn samstarfmaður Krists og einn af áhrifamestu leiðtogunum innan frumkirkjunnar. Einmitt það markar sérstöðu María Magdalenu í sögu kristinnar kirkju.
Nánar má lesa um Maríu Magdalenu í þessum bókum:
- The Resurrection of Mary Magdalene. Legends, Apocrypha and the Christian Testament eftir Jane Schaberg
- The Woman Jesus Loved. Mary Magdalene in the Nag Hammadi Library and Related Documents eftir Antti Marjanen
- Women in Scripture. A Dictionary of Named and Unnamed Women in the Hebrew Bible, The Apocryphal/Deuterocanonical Books and the New Testament sem er ritstýrt af Carol Meiers.