Hverjum degi nægir sín þjáning segir í guðspjalli dagsins og við höfum stundum þurft að hugga okkur við það. Reyndar held ég að við höfum oftar haft tilefni til þess að hugga okkur við þessi hughreystandi orð en við höfum áttað okkur á, en stundum í stað þess leitt hjá okkur þjáninguna, annað hvort eigin þjáningu eða þjáningu sem við heyrum af fréttum, að ekki sé talað um það sem berst okkur til eyrna frá útlöndum. Það er satt að segja eðli fjölmiðla að fara um allar grundir í leit að verstu tíðindum af átökum, áföllum eða árekstrum og miða hvert sinn á það land sem hefur vinninginn þann daginn. Ég veit að það hljómar svolítið kalt að tala um vinninginn en þá er ég að hugsa til þeirra sem lifa hörmungar í gleymdum stríðum og þögulli baráttu fyrir réttlæti. Það er þrátt fyrir allt líklegra til úrbóta og hjálplegra ef fréttir eru sagðar af áföllum því þá hugsa aðrir til þeirra með neyðaraðstoð og stuðning – þó ekki væri nema í bæn fyrir réttlæti og friði. Það er allt hjálplegt en þess njóta þeir ekki í sama mæli sem ekki fréttist af. Skilaboðin til okkar með þessari huggun dagsins, að hverjum degi nægi sín þjáning, er því að einbeita okkur að stuðningi við hvern þann sem þjáist þann daginn og helst af öllu að gleyma ekki þeim er þjást í gleymdum stríðum heimsins. Með okkar sterku stöðu og merku trú eigum við að geta tekið þjáningu annarra inn að hjarta og fundið til með þeim sem eru í alvarlegum vanda. Ríkari þjóðir, einsog okkar þjóð, hefur bara gott af því að gefa til fátækra. Öflugt trúarsamfélag, einsog okkar, hefur bara gott af því að horfast í augu við eymd náungans. Það kann að snerta við okkar eigin áhyggjuefnum eða jafnvel þeirri þjáningarreynslu sem við höfum sjálf mátt fara í gegnum í lífinu og það gæti blætt svolítið úr því. En þá vitum við líka að við skiljum þá sem þjást. Ekkert er gagnlegra fyrir okkur sjálf er við þjáumst en að finna samlíðun frekar en meðaumkun, samlíðun dýpri samúð, finna að sá sem við mætum í okkar þjáningu líður með okkur. Það er jafnan mesta huggunin. Og ef það virðist of mikið að líða með öllum þeim sem líða í heiminum, er hollt að hafa í huga þessi góðu orð í fagnaðarerindi dagsins, að hverjum degi nægir sín þjáning.
Við getum litið til fugla himinsins og séð að þeir virðast áhyggjulitlir. Þeir eru bara iðnir við sitt og hafa það eitt fyrir stafni að bjarga sér. Ekki þurfa þeir að kaupa kvóta til að geta stungið sér til fiskjar. Og farfuglarnir leggja einfaldlega af stað í sín langflug og lundinn fer til veru á sjónum hér sunnar. Frelsarinn beinir líka sjónum okkar að liljum vallarins. Það er engin hending að hann velur liljurnar, sjálfa Kristslíkinguna, sem við sungum líka um hér áðan. Sá sem orti ljóðið um liljuna fór í einu og öllu eftir orðum Drottins því hann byrjar ljóðið einmitt á að svara Jesú: „Ég leit eina lilju í holti.“ Hann heyrði að Drottinn sagði: „Hyggið að liljum vallarins og hversu þær vaxa.“ Ef við höfum vaxið í trú okkar skiljum við þetta og skiljum líka betur stöðu okkar hér á botni himinsins, einsog maðurinn sagði, þegar hann var að lýsa fegurð Eyjanna og stóð og horfði út á hafið. Allt rann saman, himinn og haf og eyjar. Einnig hann var að fara eftir orðum Frelsarans og líta til fuglanna sem svífa um þessa botna himinsins hérna hjá okkur.
„Hvað á ég að gera?“ spurði maður nokkur sem skynjaði þó neyð náunga síns og vissi margt um kærleikann. Þá kemur upp í hugann saga úr heimstyrjöldinni, eða öllu heldur eftir hana, sem nú hefur verið fjallað mikið um í tilefni 70 ára frá stríðslokum. Þar hafði mikið skemmst í borg einni og dómkirkja staðarins hafði ekki farið varhluta af loftárásum. Eitt af því sem enn stóð út af borðinu var hvað gera ætti með styttu eina af Kristi sem hafði brotnað. Hún hafði molnað þannig að báðar hendurnar höfðu fallið af Kristslíkneskinu og þótti borgarbúum þetta bagalegt. Þeir höfðu verið aldir upp við heilli mynd af Drottni og fengu því víðfrægan listamann til að gera við höggmyndina. Hann skoðaði hana vel áður en hann tók loks verkið að sér og sagðist alveg vilja leggja sitt að mörkum. Lokaði hann sig síðan af inní kirkjunni þar sem höggmyndin stóð við altarið og sagðist vilja fá alveg frið í nokkra daga. Allir virtu þetta og svo rann upp stóri dagurinn í söfnuðinum sem varð líka að miklum viðburði allra borgarbúa. Kirkjan var þétt setin þegar listamaðurinn kynnti verkið og afhjúpaði það loksins eftir nokkur inngangsorð. Það brá öllum að sjá að enn voru engar hendur komnar á Jesúmyndina og ekkert virtist hafa breyst. Þegar fólkið hafði horft hissa á þetta um stund vakti listamaðurinn athygli á skilti sem hann hafði sett framan við styttuna við fótstall hennar. Á því stóð einfaldlega: „Ég þarfnast handa þinna.“
Ég ætla að segja ykkur aðra sögu sem er nokkurn veginn um það hvort verk trúarinnar eru í takt við þessa hvatningu sem felst í kærleika Jesú Krists og er líka fólgið í hinu tvöfalda kærleiksboði, sem er tvöfalt af því að það snýr ekki bara að mér og Guði heldur líka náunga okkar og með sérstakri áherslu á kærleika í garð annarra.
Húsasmíðameistari einn sem hafði á miðjum aldri snúið sér að prestsskap blandaði þessu tvennu ágætlega saman í einni hugvekju sem ég heyrði fyrir nokkru. Hugvekjan var reyndar á sænsku, og það úr Austurbotni, svo það má vel vera að ég hafi ekki skilið þetta alveg rétt. Hvað um það, sagan sem ég skildi, finnst mér merkileg. Hann talaði um svokallaðan núll-punkt í húsveggjum. Mér fannst í fyrstu sem þetta væri nokkuð langsótt í hugvekju í kirkju en lagði auðvitað við hlustir. Núllpunktur er nokkuð sem allir byggingafróðir menn eiga að þekkja, skilst mér, en það er sá staður í húsinu eða öllu heldur í veggjum, þar sem hitastigið er mitt á milli þess sem það er fyrir utan húsið og inni. Núll-punkturinn gæti þá verið um tíu gráður þegar stofuhitinn er 20 gráður og við frostmark úti. Og svo kom skýring úr reynsluheimi byggingarmannsins sem laut að því að allir sem hanna og byggja hús reyna að færa þennan núll-punkt eins utarlega í útveggina og hægt er. Ef hann er langt inní veggnum er líklegra að allur hluti veggjarins utan við núllpunktinn verði rakur og fauskur með tímanum og erfiðara reynist að kynda kofann. Því utar sem punkturinn er, því minni hætta á raka og myglu. Og ekki viljum við að húsakynni okkar mygli eða fyllist af þannig lífi. Svo kom guðfræðingurinn til skjalanna í þessari hugvekju. Ef trúin er of innhverf og öll um okkur sjálf er hætt við að núllpunktur kærleikans færist of nærri sjálfselskunni. Það væri í andstöðu við hið tvöfalda kærleiksboð. Ef við færum hins vegar þennan miðstuðul hitastigsins utar í veggina er líklegra að trúin haldist heit og kærleikurinn hreinn. Þannig er og líklegra að trúin verndi okkur með skel í heimi þar sem margt gengur á hið ytra. Það er líklegra að trúarloftið í sálinni verði heilnæmara og heilsusamlegra fyrir alla þá sem að okkur standa og alla sem við mætum í lífinu. Það ætti jafnvel að sjást að húsið okkar er byggt á bjargi trúarinnar en er ekki við það að falla af raka og skemmdum og viðhaldsleysi. Þel trúarinnar er þá utar og augljósara þeim sem við viljum sýna kærleika í verki. Og ef við tárumst í samlíðun með öðrum sem þjást er líklegra að tárin falli á hvarma og við þorum að sýna þau ef meðalhiti kærleikans nær út fyrir okkar eigið sjálf. Það er þá orðið meira gefandi en hitt ef við byrgjum tárin til að renna bara innvortis. Ef núll-punkturinn er nógu utarlega er líklegra að kærleikurinn nái til náungans. Við erum í það minnsta líklegri til að veita skjól þeim sem þarf ef hiti trúarinnar er nógur og gerir meira en rétt verma hús okkar, en heldur því heitu hvað sem á dynur. Náungi okkar þarfnast handa okkar.
Allt ber að sama brunni. Meistarinn vill finna okkur og hann er með eitt skýrt erindi í dag. Við skulum fara eftir því og hyggja að liljum vallarins, horfa til fugla himinsins og líta svo á hvernig við getum styrkt hendur okkar til að mæta þeirri reynslu sem hver dagur færir okkur. Hann þarfnast handa okkar til að hjálpa náunganum sem hefur mætt meiri þjáningu en hann ræður við á einum degi. Og því meir ef þjáning hans er mikil dag eftir dag og allar bjargir bannaðar. Nóg eru dæmin. Okkar er að sjá þessa þörf og mæta henni og gera það svo í nafni Drottins og eftir þessu boði hans, að þegar menn sjá góð verk okkar í garð náungans, vegsami þeir föður vorn sem er á himni, bæði á háa himninum og við botna himins hvar sem er á byggðu bóli. Guð sem er á himni, hann er hér. Náungi okkar sem er úti á vonarvölinni, hann er hér. Við sem trúum á Guð á himni og hér, og elskum samfélagið við náunga okkar sem er bæði utar og hér, við erum hér að tilbiðja þennan Guð og þjóna náunganum. En fyrir það að fá að lifa þessa stöðu í tilvist trúaðra sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem er núna, var í upphafi og verður um aldir alda. Amen.