Flutt 8. október 2017 · Langholtskirkja (útvarpað á Rás 1)
Ég heilsa ykkur með orðum postulans : Náð og friður sé með ykkur.
Hvernig lítur yfirfljótandi, allt umlykjandi og óendanlega elska út ?
Hvernig bragðast hún og ilmar ?
Hvernig hljómar hún ?
Kannski svona :„Það er nóg til fáið ykkur meira”.
Plata Hljómsveitarinnar Evu ,„Nóg til frammi” hljómaði úr tækinu þar sem ég sat og ritaði þessi orð.
,,Það er nóg til fáið ykkur meira”.
Það að hafa nóg og vera nóg er lífsglíma.
Vonin er glíma.
Að vera nóg jafnvel þó að við séum ekki nógu, hitt eða þetta.
Að vera nóg í stað þess að lifa skömm.
Að vakna með hugsunina : Ég svaf ekki nóg, fara í gegnum daginn með hugsunina ég hef ekki nægan tíma og leggjast á koddann með hugsunina ég gerði ekki nóg. Hvað sem við gerum er aldrei nóg.
Sé ömmu fyrir mér þar sem hún skreppur heim með rútunni í hádeginu úr frystihúsinu til að gefa fjölskyldunni að borða. Finn sjálf líkamlega fyrir genetískum áhyggjum um„að það sé ekki nóg til”.
Sagan af brauðinu sem rignir af himnum ofan gefur ekkert rými fyrir þá hugsun að ekki sé til nóg, gnægðin er yfirfljótandi og sýnileg, elska sem birtist í óendanlegri gjafmildi. Ganga frá þrældómi til gnægta.
Líkt þá og nú snúast áhyggjurnar um að eiga ekki nóg, fá ekki nóg, þó skorturinn snúist stundum um ólíka hluti í tíma og rúmi.
Við erum svo sem öll á leiðinni eitthvað og mörg örmagna og örþreytt.
Á leiðinni til kosninga meira að segja.
Á göngunni er oft lítil eftirvænting, fremur áhyggjur af því að þetta taki engan enda. Mörg búin að missa sjónar af boðskapnum um áfangastaðinn þar sem öll eiga að hafa nóg.
Enda er það mjög flókið að halda eftirvæntingu, von og þreki þegar gangan virðist endalaus, áreiti, áhyggjur og kvíði.
Kvíðakynslóðin var unga fólkið nefnt í leiðara í vikunni, enda eru þau mörg stödd í eyðimerkurgöngu. Sífellds áreitis og þess að valda sorgum og brekkum lífsins illa. Það er aldrei nægur tími og aldrei stundarfriður.
Erum við ekki komin ?
Nei en við erum alveg að koma !
Við erum á leiðinni.
Til þess að öll hafi nóg, til að öll séu nóg.
Við erum eins og föst í þeirri klemmu að óttast skort en um leið erum meðvituð um að það er nóg til. Það er nefnilega nóg til fyrir þarfir allra en ekki nóg til fyrir græðgi allra.
Í vikunni las ég að kjarni lífsvandans sé þessi eilífa togstreita annars vegar á milli veruleikans um að það sé nóg til fyrir öll, og hins vegar óttans um að ég fái ekki nóg. Óttinn við skort sem er eins og innbyggður í menninguna alla. Ótti um að vera ekki nóg. Ótti sem gerir okkur gráðug, eigingjörn og ógestrisin.
Í sögunni í eyðimörkinni og í sögunni sem við lifum nú er aðeins eitt sem læknar þann vanda, traust. Trúartraust. Ekki trúartraust í þeim skilningi að halda einhverri tryggð við skipulögð trúarbrögð, kirkjuna sem stofnun eða kennisetningar hennar. Heldur hinn víðasti og mest grundvallandi skilningur. Grundvallartraustið sem stýrir því hvernig við sjáum heiminn. Með hvaða hætti við upplifum návist þess heilaga í heiminum. Sjón sem sér gæði og gnægtir sköpunarinnar.
Áhyggjur þeirra sem mest eiga eru nefnilega líkar hinna, að þau muni ekki hafa nóg ef þau fá minna. Óttinn kemur í veg fyrir að þau þori að gefa með sér með þeim hætti að öll hafi nóg. Þori að treysta því að nóg sé til.
Traustið fjallar nefnilega ekki bara um að næra sig með öllu því góða sem til er, heldur ekki síður að axla ábyrgð á að öll fái fæðu. Því það er nóg til fyrir þarfir allra en ekki nóg fyrir græðgi allra.
Það sem er sérstaklega fallegt í sögunni úr eyðimörkinni sem og sögunni sem við lifum nú, er að er að andstæða þess að hafa ekkert er að hafa nóg. Því það að hafa nóg er ekki það sama og búa við ofgnóttir. Þarna í eyðimörkinni voru fólkinu nefnilega sett skilyrði fyrir brauðinu sem rigndi af himni. Þau skyldu á hverjum morgni safna því sem þau þurftu fyrir daginn, ekki meira, ekki minna. Einu sinni í viku gátu þau svo safnað fyrir tvo daga, svo að einn dag í viku gætu þau bara hvílt í núinu og nært sig á sálinni með því að gera ekkert. Upplifa sig og hið heilaga í einingu. Auðvitað voru einhver eins og alltaf sem að hlustuðu ekki, reyndu að safna meira en þau þurftu, en það skemmdist bara. Önnur reyndu að safna á hvíldardeginum til að ná forskoti en gipu í tómt.
Eins og ótal miðaldra konur hef ég auðvitað drifið mig á núvitundarnámskeið til að reyna að læra hið sama og þau glímdu við sjöunda dag hverrar viku í eyðimörkinni. Að hafa engar áhyggjur af morgundeginum heldur hvíla í grundvallartraustinu til elsku almættisins. Treysta bara.
Þarna í eyðimörkinni var áskorunin raunveruleg því matarlaust var þegar lagst var til svefns. En morgundagurinn kæmi samt. Engar frystikistur til að safna vetrarforðanum í engir staflar af klósettpappír úr Costco.
Já, ég veit það við erum á leiðinni, en við komumst aldrei á leiðarenda ef við erum ekki með á hreinu hvert skal halda.
Það að ráðast hvert á annað mun alla vega ekki koma okkur þangað hraðar. Það er hættan, því þegar ferðin fer að verða erfið þá fer löngun okkar sjálfra í öryggi og þægindi, að verða til þess að við gætum ekki að velferð annarra.
Í lok sögunnar um eyðimerkurgöngunnar er fólkið síðan beðið um að geyma einn skammt af brauði til að minna næstu kynslóðir á að nóg er til. Brauði rignir af himnum og brauð táknar líf ef þú trúir. Ekki einhverjum ákveðnum setningum, játningum eða slíku heldur trúir á tengsl, samskipti og samband hins heilaga við í heiminn og við þig. Trúir því að himininn sé ekki áfangastaður, heldur það að vera í návist þess helga. Það er upprisa ! Því það allra helgasta fæddist í heiminn i litlu barni til að vera með þér, vera þér brauð og líf. Ekki til að hlýða þér yfir eða tékka á því hvort að þú ferð í bingó á föstudaginn langa .
Ef til vill ert þú langt niðri og við það að gefast upp, hefur áhyggjur af framtíðinni og skilur ekki hvers vegna þetta þarf að vera svona. En mundu að elskan til þín er óendanleg, leyfðu þér því að vera eins og barn sem þiggur ást og brauðmola, algerlega komin uppá náð þess sem gefur.
Sjáðu það bara. Trúðu því. Finndu og upplifðu. Það er erfitt ég veit það, það er glíma trúarinnar, glíma lífsins, þá og núna og í framtíð, en gerðu það samt.
Sagan af brauðinu sem riginir af himni er ekki aðeins vitnisburður um náð og gnægð í guðfræðilegum skilningi heldur umfram allt pólitískt ákall um nýja forgangsröðun og skilning á heiminum.
Við erum háð hvert öðru og háð þessari jörð sem við búum á. Við getum aldrei aðskilið eigin hag frá hag annarra. Annað getur ekki án hins verið. Snauð eyðimörk þar sem brauði rignir, birtir jörð sem er fær um að fæða öll. Spurningin sem ætti að brenna á okkur er því : Hvað ef sagan er sönn ? Ef einn hlekkurinn á milli gjafa skaparans og neyð náungans erum við sjálf, samfélag okkar mín og þín. Ef það er ekki raunin þá lifum við skort á öllum sviðum og aldrei verður nóg. En hins vegar ef það er satt og við trúum því þá getum við lifað þá náð og þann kærleika að það er nóg til.
Í ljóðinu segir :
Treystu náttmyrkrinu
fyrir ferð þinni
heitu ástríku náttmyrkrinu
Þá verður ferð þín
full af birtu
frá fyrstu línu
til þeirrar síðustu
Svo ritaði Sigurður Pálsson heitinn, skáld og orðaði þar fagurlega grundvallartraustið sem allar ferðir þurfa á að halda.
Traust á því að við komumst þangað. Að öll fái nóg, að við séum nóg.
Traust sem þó er ekki hlutlaust, verklaust, til baka heldur virkt og gerandi.
Það er glíma og það eru athafnir.
En stundum líka bara núið……
Amen.