Haldin augu sjálfumgleðinnar

Haldin augu sjálfumgleðinnar

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
12. apríl 1992
Flokkar

Guðspjall: Lúk: 19: 29-40 Lexia: Jes. 49. 1-8 Pistill: Fil 2.1-5

Biðjum saman. Lifandi Drottinn. Við þökkum þér fyrir blessaða nærveru þína hér í helgidómi þínum í dag. Ég bið þig að yfirskyggja okkur hvert og eitt með þínum heilaga anda og snertu við okkur þannig að við verðum áþreifanlega vör við nærveru þína á þessum Pálmasunnudegi. Blessaður sért þú Jesús konungur konunganna þegar þú kemur nú til okkar. Gef okkur stöðuga og trausta trú á þig sem aldrei bregst. Amen.

Nú er dymbilvikan gengin í garð með þessum Pálmasunnudegi. Ef ég man rétt þá er dymbill trékólfur sem settur var í kirkjuklukkur hér áður fyrr í staðinn fyrir blýkólfana í því skyni að kirkjuklukkurnar gæfu frá sér drungalegt og leiðinlegt hljóð. Það var gert í því skyni að minna fólk á þá alvarlegu atburði sem gerðust í þessari nýbyrjuðu viku allt frá því að Jesú Kristi var fagnað sem konungur væri og þar til hann var krossfestur fimm dögum síðar af sama fólkinu og fagnaði komu hans áður.

Hvað olli þessari snöggu og afdrifaríku viðhorfsbreytingu hjá fólkinu? Hvað olli því að það fólk sem áður fagnaði honum sem konungi sneri nærri því jafnskjóttt við honum baki og framseldi hann í hendur böðlum sem tóku hann af lífi fáum dögum síðar? Vissulega óttuðust Farísearnir sem voru ráðandi menn á þeim dögum alla þá miklu athygli sem Jesús fékk þessi þrjú ár sem hann er talinn hafa starfað opinberlega. Þeir óttuðust að missa völd sín yfir fólkinu í hendur þessa manns sem hafði safnað um sig svo mörgum áhangendum. Þess vegna reyndu þeir allt hvað þeir gátu til þess að finna snöggan blett á honum til þess að þeir gætu dregið hann fyrir dómstól sinn og þeir reyndu að hafa áhrif á þann lærisveinahóp sem næstur stóð Jesú. Þeim tókst það að lokum þegar Júdas Ískaríot sveik Jesú í hendur þeim fyrir þrjátíu silfurpeninga. Júdas var þarna nokkurs konar fulltrúi fyrir mannnkynið sem brann svo af girnd gagnvart því sem heimurinn gefur að hann missti af miskunn og kærleika Guðs sjálfs í Jesú Kristi. Þetta er hrikalegur smánarblettur á mannkyninu að bera ekki gæfu til þess að skynja og þekkja hinn eina sanna Guð í þessum manni sem sýndi með líferni sínu hvaða dyggðir það eru sem manneskjan á að leggja stund á en æðsta dyggðin er skilyrðislaus kærleikur gagnvart öllu lífi. Í þrjú ár lagði Jesús stund á þessar háleitu og dýrmætu dyggðir vegna þess að hann elskaði óumræðilega mikið það fólk sem hann umgekkst og sýndi því nærgætni í orði og verki. Vissulega sveið mörgum undan orðum hans eins og t.d. Fariseunum en það var vegna þess að orðin hans gerðu þá svo berskjaldaða að þeirra eigin sekt kom í ljós. Það þoldu þeir ekki því að þeir álitu að engir lifðu guðrækilegra líferni en þeir sjálfir. En Jesús elskaði þá einnig og vildi fyrirgefa þeim ef þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir voru á rangri braut og þyrftu á fyrirgefningu að halda. En þeir voru svo uppteknir af sjálfum sér að það komst ekkert annað að hjá þeim en það sem snerist um þá sjálfa. Þeir lifðu í eigin fílabeinsturni og mátu mannlífið út frá því sem hentaði hagsmunum þeirra sjálfra.

Og ég tel að þannig hafi því verið háttað með margt af því fólki sem fagnaði komu Jesú Krists þegar hann reið inn í Jerúsalemborg á Pálmasunnudag. Þetta fólk lifði í landi sem hafði í langan tíma verið hernumið af Rómverjum og það vonaðist nú til þess að losna undan þessari áþján ef

Jesús yrði gerður að konungi þess. Hann virtist hafa alla burði til þess, margt fólk fylgdi honum eftir og hlustaði á hann og fylgdist með því sem hann gerði. Hann virtist vera merkilegur maður sem orð fór af.

Fólkið sá svo sannarlega manninn Jesú frá Nazaret, son trésmiðsins. En fáir sáu meira við þennan mann þrátt fyrir öll þau yfirskilvitlegu kraftaverk sem hann vann um þriggja ára skeið. En það er það sem mér þykir hvað sorglegast. Jafnvel flestir af hans nánustu lærisveinum báru ekki gæfu til þess að þekkja hinn eina sanna Guð í þessum manni þrátt fyrir að þeir hefðu stritað í sveita síns andlitis með honum allan þennan tíma.

Það virðist sem að augu þeirra hafi verið haldin þannig að þeir sáu ekki guðdómleikann að verki í honum þegar hann gerði kraftaverkin fyrir augum þeirra. Og þrátt fyrir að Jesús kenndi þeim á einfaldan og auðskiljanlegan máta með frábærum dæmisögum úr daglegu umhverfi þeirra og lífi fólksins þá náðu orðin hans einhvern veginn ekki að bera ávöxt í hjörtum þeirra flestra. Það virtist stundum sem að orðum hans væri stolið úr hugarfylgsnum lærisveinanna líkt og að einhver væri að reyna að koma í veg fyrir að orðin hans skildust til fulls. Þannig gekk þetta í þrjú ár Jesú til lítillar ánægju. En hann gladdist yfir sérhverjum sigri. Við munum eftir játningu lærisveinsins Símonar. En Jesús spurði hann eitt sinn hvern hann teldi sig vera? Símon svaraði honum og sagði: "Þú ert Kristur sonur hins lifanda Guðs". Eftir þessa játningu sá Jesú leiðtogaefni í Símoni og gaf honum nafnið Pétur sem þýðir klettur. Jesú gaf í skyn að hann myndi síðar byggja söfnuð sinn á honum. Jesús gafst ekki upp þrátt fyrir mótlætið og skilningsleysið heldur hélt ótrauður áfram, drifinn áfram af Guði föður sínum sem hann átti svo náið daglegt samfélag við. Enginn gat þá skilið þetta nána samfélag þeirra feðga og þetta tal Jesú um föður sinn vegna þess að það kom ekki heim og saman við þær hugmyndir sem fólkið hafði gert sér af Guði. Hverjum gat þá dottið í hug að Guð sjálfur myndi gerast maður? Jesús sagði eitt sinn við lærisveina sína: "Ég og faðirinn erum eitt". Þetta var fjarstæðukennt í hugum þeirra, gjörsamlega út í hött að þeirra mati, algjört hneyksli. Maðurinn guðlastar er það ekki?, sögðu sumir. Þegar þessi orðrómur um Jesú barst Fariseunum til eyrna þá leituðu þeir færis að fá hann framseldan.

Jesús gerði sér auðvitað grein fyrir þeirri hættu sem steðjaði að honum þegar hann nálgaðist Betfage og Betaníu við Olíufjallið, þorp sem er rétt hjá Jerúsalem. Hann hefði getað læðst inn í borgina óséður og falið sig einhvers staðar úr því að fé var lagt til höfuðs honum. En ég tel að hann hafi að vandlega yfirlögðu ráði ákveðið að fara hina augljósu leið inn í borgina. Áður en hann gerði það þá sendi hann tvo lærisveina sína inn í þorpið sem framundan var og bauð þeim að sækja þangað ösnufola sem væri bundinn en enginn hefði enn komið á bak honum. Og ef einhver myndi spyrja þá að því hvers vegna þeir væru að leysa folann þá ættu þeir að segja: "Herrann þarf hans við" og þá myndu þeir fá hann. Hvernig gat Jesús vitað að hans biði ösnufoli í þorpinu framundan? Það er athyglisvert hversu vel Jesú lýsti folanum fyrir lærisveinum sínum og hugsanlegum viðbrögðum eiganda hans þegar þeir hygðust taka folann af honum. Þetta bendir til þess að Jesús vissi hvað fyrir honum ætti að liggja.

Hann ætlaði sér að ríða inn í Jerúsalem og gefa þannig til kynna með augljósum hætti að hann væri Messías, hinn smurði konungur Guðs.

Hvílík ögrun, dirfska og hugrekki í ljósi þess sem ég hef rætt um hér á undan. Fé hafði verið lagt til höfuðs honum. Hann hafði í raun verið gerður útlægur af ráðandi mönnum í Jerúsalem. Af ásettu ráði ákvað hann að ríða inn í borgina með slíkum hætti að sjónir allra manna myndu beinast að honum. Það verður aldrei gert of mikið úr hugrekki Jesú í þessu sambandi, slíkar voru kringumstæður hans á þessum tíma. En hann ákvað að gera þetta til þess að ritningin rættist. En í spádómsbók Sakaría er ritað: "Fagna þú mjög dóttirin Síon, lát gleðilátum dóttirin Jerúsalem! Sjá konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola"

En hvers vegna ösnufoli? Af hverju reið Jesú ekki á hesti inn í Jerúsalem? Því er til að svara að konungar riðu einungis á hestum þegar þeir voru í stríði en þegar þeir komu með friði þá riðu þeir asna. Asninn gegndi þannig göfugu hlutverki í Palestínu á þessum árum. Þess vegna vildi Jesú með þessum hætti gefa til kynna að hann kæmi sem konungur kærleikans og friðarins en ekki sem sigursæll herkonungur líkt og fólkið vænti af honum sem fagnaði honum við komu hans inn í borgina. Áður en mannfjöldinn gleypti hann vegna haturs þá stóð hann andspænis þeim með tilboð um skilyrðislausan kærleika sinn sem þeim yrði veittur. En mannfjöldinn vildi ekki taka á móti útréttri kærleikshönd hans vegna þess að það lifði í eigin fílabeinsturni.

Margir lifa þannig í sjálfumgleði enn þann dag í dag og krossfesta Krist dag hvern. Þeir þekkja ekki sinn vitjunartíma sem er hér og nú. Nú er hjálpræðistíð vegna þess að Jesús lifir í anda sínum hér mitt á meðal okkar og vill fylla líf okkar krafti, gleði og tilgangi. Þegar hið lifandi orð Guðs fær að komast inn í fílabeinsturninn okkar þá brýtur það hann gjörsamlega niður þannig að ekkert stendur eftir nema rústir einar. Þá stöndum við gjörsamlega berskjölduð gagnvart skapara okkar en hann elskar okkur þrátt fyrir það sem við erum. Hann reisir okkur upp úr rústunum, hjálpar okkur að standa á fætur og leiðir okkur sinn veg. Þannig verðum við ekki framar vegalaus því að Jesús gengur við hlið okkar og bendir okkur á þann veg sem við eigum að ganga. Jesús er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemst til föðurins nema fyrir hann. Hann er sannleikurinn vegna þess að hann er Guð sjálfur mitt á meðal okkar í anda sínum. Og hann er lífið sjálft, án hans hefði lífið engan tilgang.

Jesús mætti örlögum sínum sökum elsku sinnar í okkar garð. Hann tók á sig allar syndir mannkynsins, bar þær á krossinum. Þar var skuldabréf okkar neglt fast við krossinn með öllum ákvæðum þess. Þegar blóð Krists rann þá bætti hann fyrir allar syndir mannkynsins. Þá var hin eina sanna sáttargjörð milli Guðs og manna gjörð. Við getum ekki í eigin mætti bætt fyrir afbrot okkar gagnvart Guði. Hann varð sjálfur að koma til okkar í holdi og ganga þennan einstaka píslargönguveg til þess að sáttargjörðin gæti farið fram. Þess vegna stöndum við öll í ævarandi þakkarskuld við Jesú Krist sem elskar okkur svo mikið að hann var tilbúinn til þess að gefa sitt eigið líf til þess að við mættum lifa fyrir hann. Guð gefi okkur öllum gleðilega páska á göngu með Jesú Kristi upprisnum um lífsins veg. Amen. Í Jesú nafni. Amen.