Ritningartextar: Jes. 29. 17-24, 2. Kor. 3. 4-9, Mark 7, 31- 37Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen
Ekkert okkar man hvernig við lærðum að tala, en við höfum séð hvernig börnin læra málið. Málið lærum við vegna þess að við okkur er talað. Þegar við fæðingu berast ótal orð að eyrum og smám saman vaknar vitund okkar fyrir því að sumum þessara orða er beint að okkur, orð sem ávarpa, tjá ástúð, huggun, áminningu, uppörvun. Og smám saman öðlumst við hæfileikann að svara. Allt okkar mál er svar. Við vorum öll ávörpuð áður en við töluðum sjálf.
Þetta mál sem við lærðum er óhemju flókið og margslungið. Það er mikið undur hvernig við lærum að velja og tengja og beita á ótal vegu þessum ótal þáttum hljóða og þagna, tákna og forma til að tjá svör okkar við sífellt fleira fólki og síbreytilegum aðstæðum. Og þar kemur að mál okkar er á einhvern hátt svar við ávarpi Guðs, það er bæn. Bæn er hámark málþroskans, þar sem málið megnar að tjá það er innst og dýpst í andsvari við þann sem ávarpar duftið og kallar fram líf og ljós.
Mikið á sá bágt sem er mállaus, eins og maðurinn í guðspjalli dagsins, daufur og málhaltur. Þessi maður naut þó þeirrar gæfu að eiga vini sem færa hann til Jesú, eins og guðspjallið segir frá, svo hann gæti lagt hönd sína yfir hann. Ekkert er sagt frá ástæðum þess að þeir leita til Jesú, um trú þeirra eða lífsskoðanir er ekkert sagt. Bara þetta: „Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann.“ Eiginlega eins og foreldrar hennar Maríu litlu, sem hér var borin til skírnar. Hún kann ekki að tala, ekki enn, en foreldrar hennar –eins og þorri foreldra á Íslandi - vita hve mikilvægt það er að Jesús snerti við sál hennar í heilagri skírn, leggi blessun og náð yfir hjarta hennar og skilningarvit. Og ég veit það líka að þau eru þar með líka að heiðra góða hefð og hlýja minningu um umhyggju þeirra sem eitt sinn báru þau sjálf ómálga á örmum og lögðu í faðm Guðs. Og ekki síst um hann séra Andrés Ólafsson, heitinn, afa hennar Maríu litlu, og það sem hann stóð fyrir, það helga samhengi og samfélag sem hann þjónaði af kærleika. Guð blessi minningu hans og þau öll sem feta veg trúarinnar.
En svo er margur daufur og málhaltur í öðrum skilningi, þótt hin líkamlegu skilningarvit séu í besta lagi, heyra ekki það sem máli skiptir, geta ekki tjáð það sem mikilvægast er. Ég hef undanfarna daga verið að lesa bók sem fjallar um mann sem tekst á við slíkt. Það er bókin,„Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry.“ Vel skrifuð og yndisleg bók, ferðasaga, já, en sem dregur fram mörg meginstef fagnaðarerindisins. (Rachel Joyce: Hin ótrúlega pílagrímsganga Harlods Fry. þýð. Ingunn Snædal. Bjartur, Reykjavík, 2012.)
„Bréfið sem breytti öllu barst á þriðjudegi.“ þannig hefst sagan. Fáort bréf leiðir til langrar ferðar, ekki aðeins um landið, heldur innri ferðar þeirra einstaklinga sem málið varðar. Aðalpersóna sögunnar, Harold Fry, er nýkominn á eftirlaun. Hann hefur lifað að því er virðist fremur viðburðasnauðu lífi ásamt Maureen eiginkonu sinni. Svo berst þetta bréf frá konu sem hann hafði unnið með fyrir 20 árum og aldrei heyrt eða séð síðan. Nú er hún að deyja á hjúkrunarheimili norður í Berwick í Skotlandi. Harold skrifar henni svarbréf og fer með það út í póstkassa. Upp úr þurru ákveður hann að ganga með bréfið alla þessa óraleið um landið endilangt. Hann sannfærir sjálfan sig um að með því geti hann bjargað lífi hennar. Og við fylgjum honum á göngunni, og finnum brátt að þessi ganga, verður líka eins og saga lífsgöngunnar sem er pílagrímsferð að settu marki. Og hún er saga um uppgjör og endurmat, saga um sáttargjörð, saga um fyrirgefningu,friðþægingu, og um upprisu.
Á göngu sinni upplifir Harold Fry gleði og sælustundir, en líka djúpa reynslu er hann horfist í augu við sjálfan sig. Þetta er vissulega þrautaganga óvönum manni, illa skæddum og óundirbúnum. Þegar dagarnir líða og verkirnir í tám og iljum, fótleggjum og stoðkerfi líkamans verða næstum óbærilegir þá verður æ meiri vafa undirorpið hvort hann á sínum slitnu mokkasíum muni nokkru sinni ná markinu.
En sagan er líka sagan af því að rjúfa önnur mörk en hin landfræðilegu og líkamlegu sem felast í göngunni löngu. Með honum vex samhugur með fólki. Fjöldi fólks verður á vegi hans. Eins og segir: „Það var svo margt um að vera, svo mikið líf sem gekk sinn vanagang, með þjáningum og baráttu, og enginn vissi að hann var þarna og fylgdist með. Honum fannst hann enn vera bæði innan og utan við það sem hann sá, að hann væri í senn tengdur því og aðeins áhorfandi.“ Honum verður ljóst að þetta var einkennandi fyrir líf hans, samskipti hans við ástvini og samstarfsfólk. Einatt áhorfandi, ósnortinn, lokaður, afskiptalaus, sem auðveldlega hafði lokað á tilfinningar sínar.
Augu Harolds og skilningarvit opnast fyrir umhverfinu og því sem á vegi verður. Og hann öðlast nýja sýn á líf sitt, upphaf og ákvörðun, ástvini sína og sjálfan sig. Hann uppgötvar að allir hafa eitthvað að gefa, maður lærir eitthvað af öllum, ef til vill aðeins af einu orði, eða látæði, þú þiggur eitthvað af öllum og öllu, sem á vegi verður. Ef þú ert opinn fyrir því, opinn og viðbúinn að gefa - og ekki síður að þiggja, í auðmýkt. Og það er jafnvel erfiðast alls og útheimtir mikið hugrekki.
Harold finnur þjáninguna í að rifja upp atvik frá ævi sinni, minningar einatt svo sárar, að horfast í augu við tilfinningar sínar og tilfinningaleysi, það sem hann hefur sópað undir teppið, lokað augum fyrir, en getur nú fyrst horfst í augu við og tekið utan um á göngu sinni undir opnum himni. Hann reynir að hlaupa frá minningum sínum, flýja. En nú sér hann sig um hönd og horfist í augu við þær, og lýkur upp hugskoti sínu og hjarta fyrir því, í auðmýkt.
Og það á eins við um Maureen, konuna hans, sem heima situr í undrun og ótta. Hún á líka sína innri ferð er hún rannsakar hug sinn í einrúmi eða í viðræðum við skilningsríkan granna. Það var svo margt sem Maureen vildi hafa gert öðruvísi, sagt og sýnt, og sorgin yfir því sem miður fór er svo sár. Hún horfist í augu við hve þau höfðu einatt forðast hvort annað öll þessi ár, lokað á, hún leyfði reiðinni og vonbrigðunum að loka og læsa á það sem máli skipti þegar erfiðleikarnir sóttu að, mistökin og áföllin. Þó að hún fari ekki að heiman þá verður einveran henni einskonar pílagrímsferð endurmats og sannleika.
Þetta er undursamleg bók um pílagrímsferð, um lífið, sem svo sannarlega er ferð að marki. Bókin er auðug og auðgandi af innsýn inn í sátt, fyrirgefningu og friðþægingu, um endurheimt kulnaðrar ástar og rofinna tengsla, og að það er aldrei of seint. Það er þegar allt kemur til alls ekki meiri vandi en það að setja annan fót fram fyrir hinn.
„Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur“ þessi orð lexíu dagsins vísa til þess sem Harold Fry upplifir og við njótum í fylgd með honum á ótrúlegri pílagrímsgöngu hans. Einhverju sinni þegar úrhellið stytti upp og sólin braust í gegn og baðaði landið birtu sinni og þá segir í sögunni:„Harold var svo þreyttur að hann gat varla lyft fótunum. Samt fylltist hann slíkri von að hann svimaði. Ef hann héldi áfram að horfa á það sem var stærra en hann, kæmist hann til Berwick.“ „... að horfa á það sem var stærra en hann...“ sú sjón er trúin og vonin. Og í lokin segir: „Ef við opnum ekki hjarta okkar, hugsaði Maureen, ef við samþykkjum ekki það sem við skiljum ekki, eigum við okkur enga von.“
Við erum hér í helgidóminum, á áningarstað á ótrúlegri pílagrímsgöngu sem líf okkar er. Sögu þinni, lífsgöngu þinni er líka ætlað að vera slík pílagrímsför til sáttar, upprisu. Og forsendan þess alls er fyrirgefning og friðþæging sem þú hefur hlotið, er annar tók á sig sektina þína og bar í þinn stað. Þú hefur líka fengið bréf sem breytir öllu, orð Guðs sem ávarpar þig og mætir þér í Jesú Kristi, orðinu sem varð hold á jörð og býr með oss, hann sem sagði um sjálfan sig: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið!“ Biblían, bók bókanna, hefur verið kölluð bréf Guðs, ástarbréf frá höfundi lífsins, það er „bréfið sem breytti öllu“ og sem kallar okkur til vegferðar í þágu hins góða, lífs og lækningar. Guðspjall dagsins segir frá honum sem er Orðið sem varð hold og birtir okkur hjartaþel Guðs og vilja. Ekki aðeins með orðum, heldur líka með atferli og verkum, með göngu sinni um rykuga vegi landsins, og eins þar sem hann nam staðar. Það talaði allt sínu máli um Guð sem leitar hins týnda til að frelsa. Og þegar hann tók börnin sér í fang og blessaði þau, það var sterk prédikun. Eins þegar hann tók daufa og málhalta manninn afsíðis og stakk fingrum sínum í eyru hans og vætti tungu hans með munnvatni sínu og leit til himins. Hann talaði til mannsins á því eina máli sem maðurinn gat numið: með táknum. Það er sem hann segi: „Ég veit og skil. Treystu, trúðu.“ Og svo kom andvarpið djúpa, „Effaþa, - opnist þú!“ Og það náði í gegn: eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði, já, talaði skýrt! Tökum eftir því, „talaði skýrt.“
Við höfum numið staðar á pílagrímsgöngu okkar og áð hér í helgu húsi. Hvers vegna? Til að æfa okkur í því að horfa á það sem er stærra en við. Hér hefur Jesús leitt þig afsíðis því að hann vill að þú opnist fyrir áhrifum orðs hans og anda. Hann snart þig eitt sinn í heilagri skírn. „Effaþa. Opnist þú!“ andvarpaði hann þá yfir þér, opnist þú fyrir orðinu sem lífgar og leysir og læknar. Hann vill enn fá að snerta þig, opna eyru þín, losa tunguhaft þitt, svo þú getir hughreyst og hjálpað og borið orð hans og blessun áfram til samferðarfólks þíns á lífsgöngunni. Hann vill fá að opna augu þín svo þú sjáir það sem er stærra en þú, svo þú getir haldið áfram ferðinni. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.