Kæri páskasöfnuður. Enn komum við saman við sólarupprás á Þingvöllum til að fagna upprisunni, til að fagna hinum upprisna Drottni Jesú Kristi sem sigrað hefur dauðann og þjáninguna, brotið niður múrinn milli þessa jarðneska, stundlega heims og hins himneska heims eilífðarinnar. Enginn atburður sem minnst er á ári hverju er með nokkrum hætti sambærilegur við þennan. Auðvitað er það svo að hvert sinn og við megum upplifa það þegar ljós dagsins sigrar myrkur næturinnar þá erum við minnt á þetta. En aldrei eins og á páskamorgni, þegar sólin dansar af fögnuði, hvort sem hún gerir það ofar skýjum eins og nú er, eða á fjallatoppunum, megum við fagna sigri lífsins yfir dauðanum, sem er sigur frelsarans Jesú Krists á krossinum. Og við getum sagt eins og skáldið Davíð Stefánsson: Með innri augun mínum, ég undur mikil sé. Ég sé þig koma, Kristur. Páskasólin, táknið um ljós trúarinnar, hjálpar okkur að skyggnast gegnum tjaldið milli þessa heims og annars heims og þakka fyrir eilífðina. Þakka fyrir elsku Guðs og umhyggju hans fyrir okkur sem birtist mest og stærst í sigri Guðs sonar á dauðanum og syndinni og hinu illa. Kæru vinir. Hér viljum við gera tjaldbúð, sögðu lærisveinarnir á fjallinu forðum þegar þeir sáu Jesú ummyndast og Móse og Elía standa hjá honum. Ósk þeirra var sú að mega dvelja hjá honum í fullkomnu og öruggu trausti. Í friði fyrir hverskyns ógn og áreiti og háska. Í því sama trausti tökum við sem hér erum á páskamorgni í litlu kirkjunni á Þingvöllum á móti upprisuundri páskanna og fréttinni um að Jesús hafi sigrað dauðann, eins og guðspjallið vitnar um. Og í því trausti kveðjum við þau sem fara burt af þessum heimi og dauðinn hefur vitjað frá því við komum saman síðast hér á páskum. Nú á þessum páskamorgni minnumst við þess að Þorsteinn Rínar Guðlaugsson er genginn inn til fagnaðar Herra síns. Hann var einn af bestu og tryggustu vinum Þingvallakirkju á síðustu árum. Hann var í hópi meðhjálparanna ásamt Birnu konu sinni sem hjálpuðu til við helgihaldið hér í kirkjunni meðan ég þjónaði Þingvöllum meðfram störfum á biskupsstofu. Hér á hann mörg spor og hér voru stéttar sópaðar og jafnvel grasið líka, því hann sló aldrei slöku við, tæki hann eitthvað að sér. Og nestið sem hann lagði til, og þau hjónin bæði var í senn gleði augnanna og bragðlaukanna. Þau voru líka undirstöðustólpar hópsins sem í rúm tíu ár hefur komið saman til árdegismessu og morgunverðar í Hallgrímskirkju á miðvikudögum, kirkjufólk af lífi og sál eins og sérhver prestur óskar sér að hafa sér til hjálpar og stuðnings. Við minnumst Þorsteins hér á páskamorgni og þökkum fyrir líf hans og biðjum góðan Guð að taka vel á móti honum þegar hann nú gengur inn til fagnaðar Herra síns á himnum. Og við biðjum Guð að styrkja og hugga Birnu konu hans og ástvini hans alla. Jóhannesarguðspjall segir frá Maríu Magdalenu úti fyrir gröfinni sem þekkti ekki Jesú þegar hann gekk til hennar á upprisudeginum, og hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn. Það var ekki fyrr en hann nefndi nafnið hennar að hún þekkti hann. Hún þekkti röddina. Við skulum dvelja aðeins við þetta. Útlit okkar breytist, en röddin miklu minna. Við verðum gömul og grá, en röddin er enn ung. Við þekkjum raddir og við þekkjumst á röddinni. Við tökum upp símann og vitum hver þar er þó við sjáum engan af því að við þekkjum röddina. Jafnvel þótt langt sé um liðið síðan við heyrðum sömu rödd. Þá kom rödd af himni, segir Nýja Testamentið nokkrum sinnum, rödd sem staðfesti það hver Jesús er. Sumir heyrðu að vísu bara þrumu, aðrir heyrðu engilsrödd. Hvernig vitum við að Guð talar? Eða öllu heldur, hvenær heyrum við að Jesús talar svo að við megum þekkja hann, eins og María. Kannski gerist það einmitt þannig eins og Jóhannes lýsir í guðspjallinu. María Magdalena sem ekki þekkti Jesú samkvæmt útliti hans þegar hann birtist henni upprisinn, þekkti hann þegar hann sagði nafnið hennar. Við getum skilið þetta þannig. Á grundvelli þess sem guðspjallið segir, hugsum við og trúum við: Þegar hann nefnir nafnið okkar, þá þekkjum við hann. Hvenær nefnir hann nafnið mitt og nafnið þitt? Það eru til margar lýsingar fólks af því sem gerist á dauðastundinni, bæði þeirra sem voru komin í dauðann, en dóu þó ekki, og einnig þeirra sem voru viðstödd dauðastund annars manns. Kristið fólk á jörð hefur trúað því alla tíð að þegar dauðastundin kemur sé það Jesús sjálfur sem kemur og sækir mig. Hann nefnir nafnið mitt og ég þekki hann og ég fer með honum. Þannig sé ég það líka fyrir mér að hann hafi komið og sótt Þorstein, til að fylgja honum heim. En Jesús nefnir nafnið þitt oftar en þegar ævinni lýkur. Hann nefnir nafnið þitt í skírninni. Við heyrum foreldrana og prestinn segja nafnið, en í trúnni er það Jesús sem nefnir nafnið. Og það er líka Jesús sem teiknar táknið sitt á enni og á brjóst, þó að presturinn framkvæmi það. Og við megum einnig trúa því að í hvert sinn sem við áköllum hann og nefnum nafnið hans, nefni hann okkar nafn um leið. Í haust verða 35 ár síðan ég skírði stúlkubarn sem heitir Andrea Bóel. Við sem viðstöd vorum sungum sálm um það hvernig Jesús snertir barnið í skírninni. Við sungum sálminn við sama lag og Jóhann Sebastian Bach setur nákvæmlega í miðju Jóhannesarpassíunnar: Durch dein Gefängnis Gottes Sohn. Þar segir eitthvað á þessa leið: Vegna fangelsunar þinnar, Guðs sonur, höfum við frelsi. Dýflissa þín þinn er dýrlegt náðarsæti og frelsisreitur allra sem trúa. Hefðir þú ekki látið taka þig höndum hefðum við verið ævinlegir fangar syndarinnar. En skírnarsálmurinn hennar Andreu er svona: Þú, Drottinn Guð, sem lífið ljær oss litlum börnum þínum, ver fyrir stafni stjarna skær sem stýrir vegum mínum. Nú skírnarsáinn signdu þinn þú sonur Guðs og bróðir minn. Ó, þú sem hékkst á hörðum kross svo heimur lifað gæti, gef líka mér og öllum oss í eilífð þinni sæti, er teiknar nú þín heilög hönd þitt helga tákn, á líf og önd. Ég bið þig Jesú blessa þú hvert barnið smátt í heimi, að vaxi þeirra von og trú. Þín verndin mild svo geymi þau alla tíð í heimi hér. Ó, heyr þá bæn er biðjum vér. Frammi fyrir undri páskanna erum við börn. Lítil börn. Við vitum ekki hvað verður um okkur þegar við deyjum og göngum inn til lífsins. Hins eilífa lífs. Við vitum bara það að við höldum nafninu okkar og að við getum svarað þegar Jesús nefnir það og að þegar við svörum munu einnig aðrir þekkja röddina. Og þau munu þess vegna koma og segja: Velkominn. Nú erum við saman aftur. Og af hverju geta þau sagt það og verið þar? Svar. Það er Jesús sem leysir líf þitt frá gröfinni. Það er hann sem heldur á lyklunum að eilífðinni og lýkur upp fyrir okkur nýjum heimi að þessum heimi liðnum. Jesús lifir, lífið sanna, leysti fjötur allra manna, heldur lyklum heljar á, hann sem leysir dauða frá. Gleðilega páska. Í Jesú nafni. Amen Við munum geta fagnað í Jesú nafni um síðir, þegar þessari jarðvist lýkur. Við, börn jarðar, erum börn himinsins. Börn Guðs. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen
Páskar við sólarupprás
Flokkar