Samhygð, samlíðan, samkennd

Samhygð, samlíðan, samkennd

Samlíðan er samkvæmt sálfræðinni eiginleiki sem við virðumst öll fæðast með ekki bara menn heldur líka dýr
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
25. desember 2013
Flokkar

Það hefur bæði verið fróðlegt og gefandi að fylgjast með jóladagatali kirkjunnar á þessari aðventu. Yfirskrift þess er Koma kærleikans og þar hafa ýmsir einstaklingar, vígðir þjónar kirkjunnar, listamenn og lífskúnstnerar skilgreint kærleikann á 45 sekúndum. Þorsteinn Guðmundsson leikari og grínisti beindi athyglinni að fósturpabbanum honum Jósef og dáðist að kærleika hans, að hafa alið upp krakka sem hann átti ekkert í eins og hann orðar það og staðið með Maríu alla leið á þeirri flóknu vegferð. Gerður Kristný rithöfundur talar um að kærleikurinn fylli okkur ofurmannlegum kröftum þegar við þurfum að berjast fyrir mikilvægum málstað, kærleikurinn stýri okkur eins og strengjabrúðum því hann fyllir okkur hugrekki í ótrúlegustu aðstæðum og hjálpi okkur til þess að breyta rétt. Ævar Kjartansson talaði um að kærleikurinn væri eins konar fyrirkomulag á samskiptum manna þegar réttlætinu hefur verið náð, þegar menn hafa komið sér saman um ákveðnar leikreglur til að ná fram félagslegu réttlæti en til þess að ná því þurfa menn að hafa kærleiksríka afstöðu til náungans. Kollegi Ævars, Guðfinnur Sigurvinsson benti á að kærleikurinn væri bæði hversdagslegur og afhjúpandi. Séra Bjarni Karlsson talaði frá Kaliforníu og hann fjallaði um baslið í Betlehem eða stöðu parsins sem var falið að koma frelsaranum í heiminn. Hann sagði að Jósef og María hafi verið baslarar, faðernið var óljóst, sambandið var ótryggt, þau gátu engu reddað og enduðu með að fæða barnið í fjárhúsi, ef allt hefði verið með felldu þarna í Betlehem segir Bjarni þá hefði barnavernd komið fyrst á staðinn en ekki fjárhirðarnar. Og að lokum varpar hann fram eftirfarandi spurningu, hvað er Guð að segja með því að fæðast inn í heiminn í hendurnar á böslurum? Já hvað er Guð að segja með því? Jú hann er að segja að kjarni kærleikans hvíli í samlíðaninni, samkenndinni og samhygðinni, því ef til vill má segja að þessi þrenning sé andardráttur kærleikans. Ef við skoðum jólaguðspjallið og veltum fyrir okkur þessum böslurum Maríu og Jósef að ég tali nú ekki um fjárhirðana og síðar vitringana, hvað er það sem dregur þetta fólk saman? Jú það er þörfin fyrir tengsl og nánd. Því ef öllu er á botnin hvolft þá getur ekkert annað hafa dregið þau að fjárhúskofa þar sem fátækt par með hvítvoðung er að reyna að finna merkingu með tilveru sinni. Engill drottins birtist fjárhirðunum á Betlehemsvöllum og stjarna á himni leiddi vitringana á sömu slóðir, við erum að tala um að Guð hafi leitt fólkið saman af því að Guð veit hvers við þörfnumst til að lifa af. Við þurfum tengsl og nánd til að lifa. Þetta er nokkuð sem undirrituð hefur svo sem alltaf vitað í hjarta sínu bara með því einu að finna hvað veldur vellíðan og hamingju en í raun ekki náð að skilja í fræðilegu ljósi fyrr en ég las bók sálfræðingsins Guðbrandar Árna Ísberg sem kom út á þessu ári og ber titilinn Í nándinni innlifun og umhyggja. Þar fjallar Guðbrandur um fjögur hugtök út frá ýmsum sjónahornum og skýrir þau með dæmum úr eigin lífi og starfi. Þessi hugtök eru samlíðan, samkennd, samhygð og frávarp. Samlíðan er samkvæmt sálfræðinni eiginleiki sem við virðumst öll fæðast með ekki bara menn heldur líka dýr, við virðumst ekki þurfa að þroskast mikið til þess að skynja líðan annarra, tilfinningin verður til í líkama okkar þegar við horfum upp á aðstæður annarra lífvera. Samkennd er hins vegar dálítið annar hlutur, samkennd er hluttekning með öðrum en líka löngun til að minnka vanlíðan þeirra . Samhygð er síðan skilningur á öðrum sem byggist á því að setja sig í spor þeirra. Frávarp er líka skilningur á öðrum en sá skilningur er hins vegar sjálfmiðaður og byggist á eigin reynslu og skoðunum ( Guðbrandur Árni Ísberg. Í Nándinni innlifun og umhyggja. 2013.bókarkápa). Samhygð er sá eiginleiki sem krefst hvað mestrar innlifunar og þroska, þessi eiginleiki að geta sett sig í spor annarra og skilja þarfir þeirra jafnvel þó þær séu ekki þær sömu og okkar. Jesús hafði einstakt lag á því að sýna samhygð, hann náði einhvern veginn alltaf að mæta fólki þannig að honum tókst að taka eigin þarfir út fyrir mengið. Við manneskjurnar höfum nefnilega mjög ríka tilhneigingu til að bregðast við með hinu svokallaða frávarpi þ.e. að ætla fólki sömu þarfir og langanir og við höfum. Og það er svo sannarlega ekki illa meint og jafnvel bara mjög fallega hugsað. En það er hins vegar ekki endilega líklegt til árangurs ef okkur langar virkilega til þess að reynast náunga okkar vel. Við þurfum að gæta þess að snúa ekki Gullnu reglunni á hvolf en þar segir „allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulu þér og þeim gjöra.“ Reglan gullna segir hins vegar ekki: Þú skalt gjöra öðrum mönnum það sem þú ert viss um að þeir vilja. Undirrituð hefur mjög ríka tilhneigingu til frávarps t.d. kaupi ég alltaf jólagjafir handa fólki sem mig langar sjálf að eiga af því að ég er svo viss um að það sé það sem mínir nánustu þurfa. Það er svo sem ekki stórglæpur en lítil birtingarmynd þess veruleika, að ætla öðrum þínar hugsanir og tilfinningar. Frávarp er í raun barnsleg viðbrögð því eðli barna er að skynja umhverfi sitt allt út frá eigin þörfum. Samhygð krefst þroska og vilja til að setja sig í spor annarra , hæfileikinn til þess eflir líka sjálfsþekkingu okkar svo það er til mikils að vinna. Þegar ég leiði hugann að böslurunum frá Betlehem þeim Maríu og Jósef þá kemst ég ekki hjá að hugsa að þau hafi fengið þetta ótrúlega hlutverk af því að þau hafa haft getu til að sýna samhygð. Þannig verður pælingin hans Þorsteins Guðmundssonar grínara ekki bara fyndin heldur í raun mjög sönn. Jósef hefur verið virkilega kærleiksríkur maður og kærleikur hans hefur opinberast hvað best í hæfileikanum til að setja sig í spor Maríu og skilja hvað hún þurfti á að halda burtséð frá því hvað hann hefur persónulega talið best fyrir hana að gera. Og eins er með Maríu þegar hún fékk boðin frá Guði um að hún ætti að fæða frelsrarann í heiminn. Ég er viss um að ef ég hefði fengið þessa meldingu að himnum ofan að þá hefðu fyrstu viðbrögð mín verið þau að segja Guði hvaða manneskja væri best til þess fallin að græja þetta verkefni. Það væri einhver sem ég vissi að hefði mikla reynslu í svona vinnu. En María hún hlustaði og það er einkenni þess sem kann að sýna samhygð, já svolítið eins og nafna hennar í Betaníu sem settist við fætur Jesú til að heyra hvað hann hefði að segja á meðan Marta pirraðist í eldhúsinu af því að henni fannst að systir hennar ætti að gera það sem henni fannst rétt að gera, að sýna kærleika með mat og huggulegheitum. Marta var nefnilega mikil frávarpsdrottning þó kærleiksrík væri. Það var frábært hjá henni að hugsa um Jesú en systir hennar valdi bara aðra leið til að nálgast hann.

Mér finnst svo falleg sagan í bókinni hans Guðbrandar Árna sálfræðings þar sem hann vitnar í eina af stuttmyndum pólska leikstjórans Krzysztofs Kieslowski en þar segir frá Pavel sem er forvitinn og íhugull drengur, einhverju sinni er hann staddur hjá föðursystur sinni og þau sitja á tali, þá spyr drengurinn frænku sína „ Hver er Guð?“ Frænkan tekur sér góða stund til að svara breiðir síðan út faðminn og drengurinn fer til hennar og hallar höfðinu upp að öxl hennar. Þá hvíslar frænka að honum „hvernig líður þér ?“ Vel hvíslar Pavel á móti. Þá segir frænkan lágum rómi: „Þetta er Guð.“ ( GÁÍ.Í nándinni. S.13).

Ef frænkan hefði mætt drengnum með frávarpi þá hefði hún sennilega farið að ræða um það hvernig Guð birtist í heiminum og hvernig hann byggi í hjörtum okkar og allt þetta sem okkur er tamt að segja en í staðin hugsaði hún hvar hann væri staddur sem barn og hvað veitti barni mesta öryggi og vellíðan. Þess vegna faðmaði hún drenginn litla svo að hann vissi að Guð væri góður og að nærvera hans væri hlý og örugg já eins og frænkufaðmur. En aftur að parinu unga í Betlehem, þeim var falið þetta hlutverk ekki vegna þess að þau hefðu fjárhagslega burði til þess, ekki vegna þess að þau væru af fínum ættum, ekki vegna þess að þau væru hokin af lífsreynslu, heldur vegna þess að þau höfðu getu til að sína samhygð og samkennd og þess vegna tókst þeim að yfirstíga þær ótrúlegu hindranir sem urðu á vegi þeirra. Það hefur komið í ljós með rannsóknum að eftir sirka tveggja ára samband fara pör frekar að beita frávarpi en samkennd í samböndum, sennilega vegna þess að þá telja þau sig vera farin að þekkja hvort annað svo vel að þau geti nánast lesið hugsanir hvort annars. Þannig fer fólk kannski að hætta að hlusta almennilega á maka sinn og þá fer að fjara undan umhyggjunni sem helst svo sterkt í hendur við samhygðina, í raun má segja að samhygðin stýri umhyggjunni (GÁÍ.2013,s.31). Nú er ég ekki að segja að Guð hafi verið búin að reikna þau Maríu og Jósef út frá þessum forsendum en það er hins vegar mjög áhugavert að velta fyrir sér ástæðunni fyrir því að svo ungt og fátækt og reynslulítið par skyldi vera valið til að koma frelsaranum sjálfum í heiminn. Það var ekki valið af handahófi, nei það var valið af ástæðu. Í raun af mörgum ástæðum. Með því að velja þau var Guð líka að segja að stærstu og mikilvægustu verkefni lífsins séu ekki bara á færi þeirra sem tíðarandinn útnefnir sigurvegara heldur allra sem hafa rétt hjartalag og vilja til að þjóna öðrum. Þau María og Jósef voru hamingjufólk þrátt fyrir að vera baslarar. Og þau voru líka sigurvegarar á mælikvarða Guðsríkis. Þau kunnu að hlusta og meðtaka og setja sig í spor annarra, Guði sé lof því annars er óvíst að fjárhirðarnir hefðu þorað að banka upp á og mæta frelsara sínum, þá er eins víst að þau hefðu orðið hrædd við hina tignu gesti frá Egyptalandi sem komu færandi hendi með gull reykelsi og myrru. Hvað segir þetta okkur? Jú þau María og Jósef voru fyrstu boðberar fagnaðarerindisins í veröldinni, Guð valdi þau og svona komu þau fyrir. Þetta þýðir að það eru eiginleikar þeirra, parsins unga sem kirkjan á öllum tímum þarf að tileinka sér svo að allar manneskjur finni sig þar heima, rétt eins og hirðarnir og vitringarnir í fjárhúsinu í Betlehem. Kirkjan er samhygðarstofnun, hennar hlutverk er að mæta fólki með því að leggja við hlustir og leyfa skilaboðunum að ná til hjartans. Takk María og Jósef fyrir að gefa okkur forskriftina og takk góði Guð fyrir að velja þau til starfa en umfram allt þökkum við á helgum jólum fyrir frelsara okkar Jesú Krist sem kom í heiminn til þess að kenna okkur að elska hvert annað. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.