Það er aðventa og allt í kringum okkur sjáum við merki um að eitthvað er í vændum. Ljós á húsum og trjám, jólalög í útvarpi, auglýsingar og tilboð um hluti til kaupa, tónleika og listviðburði til að njóta, eru tákn um það sem er í nánd. Við heyrum líka áköll og áminningar um að veita hjálp og aðstoð þeim sem minna mega sín. Á þessum tíma er við hæfi að staldra við, horfa í kringum sig og lesa táknin í umhverfi okkar.
Að lesa samfélagið
Við sem eigum skólabörn, vitum hvað það er magnað og flókið ferli að læra að lesa. Með mikilli þrautseigju og þolgæði, og ótal upplestrarstundum fyrir mömmu og pabba, lærist barninu að skilja að bókstafir og hjóð mynda orð, sem mynda setningar, sem hafa merkingu. Þar með opnast því heill heimur sem það hefur aðgang að, getur lært, skilið og túlkað.
Læsi er ekki bara að kunna á stafi, orð og setningar. Læsi í samtímanum snýst ekki bara um að geta tileinkað sér þekkingu og staðreyndir, heldur líka að geta metið það sem við lesum og heyrum á gagnrýninn hátt og skoðað í ljósi þess sem við metum mest í lífinu.Það gerir okkur kleift að tala saman um gildi og verðmæti, og að leggja okkar að mörkum við að móta umhverfið okkar.
Að lesa trúna
Á aðventunni eru víða haldnir jólatónleikar tónlistarskólanna þar sem ótrúlega mörg börn mæta í fylgd stoltra fjölskyldna til að deila gleði tónlistinnar sem þau hafa verið að nema í haust og vetur. Fegurðin og gleðin sem ríkir yfir unga tónlistarfólkinu er eitt af þeim táknum sem okkur er gefið til að minna okkur á það sem skiptir máli í lífinu, sérstaklega á tímum sem valda okkur ugg og kvíða. Þetta tákn vísar í tvær áttir.
Önnur talar við okkur um aðstæður og þarfir barnanna okkar, og minnir á ábyrgð okkar fullorðnu að hlusta á þau, lesa það sem þau hafa fram að færa og hlúa að þeim.
Hin áttin vísar til barnsins sem við bíðum eftir á aðventunni. Það er barnið sem stendur fyrir ljós í myrkri, birtu í kulda, kærleika í tómlæti og gleði í kreppu. Það er barnið sem var sent í heiminn til að kenna mönnunum að lesa lífið, svo þeir gætu notið þess í fullri gnægð.
Það er farsælt og til heilla að vera læs á táknin í kringum okkur og þar með talið að vera læs á sína eigin trú. Rétt eins og við erum tilbúin að leggja heilmikið á okkur þannig að börnin okkar læri að njóta tónlistararfsins berum við ábyrgð á því að þau hafi aðgang að trúararfinum og geti notið hans.
Að lesa þarfir
Það er ábyrgðarhluti að lifa í nútíma samfélagi, að vera upplýst, læs og geta tekið þátt í lýðræðisumræðu. En ábyrgðin stoppar ekki þar heldur felur hún líka í sér að við eigum að vera þjónar hins góða og talsmenn vonar í samfélaginu.
Svo þarf stíga næsta skref. Jesúbarnið sem kemur býður okkur ekki aðeins að læra af sér og tala heldur kallar það okkur til þjónustu við lífið. Hin fjölþætta áskorun aðventunnar er þá þessi: Að við hlustum, horfum, lesum og þjónum. Tölum um hið góða líf og þjónum því í öllu sem við gerum. Höfum augun opin fyrir táknunum kringum okkur. Fyrir táknum um fegurð, gleði og von, lyftum þeim fram og minnum á þau. Fyrir táknum um það sem er ekki í lagi: um fjölskyldur sem líða skort, um fólk sem er troðið á, um misrétti, um misferli, um börn sem fá ekki að vera börn. Við eigum að haga eigin lífi þannig að það sé tími og rými til að láta gott af okkur leiða. Við eigum að láta okkur annt um þau sem þarfnast – til dæmis með því að gefa mat, peninga eða tíma til hjálparstofnanna sem sinna fólki nú fyrir jólin. Við eigum að forgangsraða þannig að börnin okkar finni hvers virði þau eru. Við eigum að vera málsvarar réttlætis, sáttar og vonar í samfélaginu.
Það er trúverðug kristni.