Matt 28:16-20
Ég heilsa ykkur í nafni Jesú Krists frelsara okkar. Þannig ávarpa flestir sem taka til máls í kirkjunum í Pókot í Keníu söfnuðinn á þessum sunnudegi, eins og öðrum. Þess vegna geri ég það einnig hér í dag, því kirkjan okkar tekur þennan dag frá til að minnast kristniboðsins, í þakklæti fyrir vöxtinn sem Guð hefur gefið um leið og við horfum fram á við til verkefna sem enn bíða á akri Drottins. Dagurinn minnir okkur á köllun kirkjunnar til boðunar.
Kristniboðsstarfið Í kristniboðsstarfinu heyrum við jafnt og þétt þakkarorð sem full ástæða er til að koma áfram, þakkarorð fólks sem hefur verið snortið af kristniboðsstarfinu víða úti í heimi: „Takk fyrir að koma og kenna okkur hvað kærleikur er og hvað það þýðir að Jesús sé frelsari. Takk fyrir að hafa lagt allt þetta á ykkur og þakkið fólkinu sem stóð að baki ykkur á Íslandi fyrir fyrirbænir og fjárhagslegar fórnir sem færðar hafa verið svo þið gætu unnið þetta starf. Takk fyrir hjálp ykkar í brýnni neyð. Takk fyrir að hafa látið ykkur varða um okkur. Takk fyrir að hafa fengið að fylgjast með sjónvarpsdagskrá Sat7 í erfiðum aðstæðum okkar sem kirkju og kristinna einstaklinga hér í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Takk fyrir að sýna mér og segja að ég skipti mál og sé dýrmæt. Ég vildi að þið hefðuð komið fyrr. Ég þakka fyrir að fá að vera á lífi, það átti að drekkja mér vegna trúar og siðar þjóðflokksins þegar ég var lítill drengur... Takk fyrir að koma með Jesú til okkar.“
Við getum haldið lengi áfram enda sagan orðin löng. Margir hafa þakkað og enn fjölgar þeim sem þakka. Rúm 110 ár eru frá stofnun fyrsta kristniboðsfélagsins hér á landi, Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík. Það var 11 árum áður en konur fengu kosningarétt hér á landi sem við minnumst sérstakalega í ár. Konur sátu ekki á bekknum eða heima fyrir og biðu þess að allt breyttist heldur létu til sín taka á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Birtist það m.a. í starfi kristniboðsins. Kristniboðsfélög kvenna í Reykjavík og á Akureyri voru skipuð hugsjónaríkum konum sem báru hag fólk í öðrum löndum fyrir brjósti – og töldu sig geta lagt sitt af mörkum þrátt fyrir fjarlægð og takmörkuð almenn réttindi kvenna í samfélaginu hér heima á þeim tíma. Á Akureyri byggðu konurnar t.d. hús og réðu sér starfsmann á kreppuárunum sjálfum.
Konur hafa alltaf verið framarlega í kristniboðsstarfinu og óteljandi þúsundir kvenna hafa notið kristniboðsstarfsins á margan hátt rétt eins og margar konur nutu starfs Jesú á svo margan hátt þegar hann gekk hér um á jörð. Hann tók burt skömm og sekt kvenna jafnt og karla og veitti þeim virðingu og reisn. Það á því vel við að minna á tengsl kvenna og kristniboðs, bæði hér heima og úti á akrinum á þessum degi. Fyrsti íslenski kristniboðinn var Steinunn Jóhannesdóttir Hayes sem varð kristniboði, prestur og læknir fyrst íslenskra kvenna. Ung á árum flutti hún til Ameríku enda sá hún þar tækifæri til menntunar í ríkari mæli en hér. Þar vestra kynntist hún eiginmanni sínum, Charles Arthur Hayes og störfuðu þau um langt árabil í Kína. Ekki er spurning að heimsóknir hennar hingað til lands urðu kristniboðsstarfinu mikill hvati. Önnur kona, Ingunn Gísladóttir fór ung að árum til kristniboðs- og hjúkrunarstarfa til Eþíópíu fyrir 60 árum og vann mikil afrek á sjúkrastöð kristniboðsins í Konsó í áraraðir um leið og hún þráði að Konsómenn eignuðust trú á Jesú Krist og yrðu leystir úr fjötrum Satansdýrkunar. Þannig mætti telja upp fleiri.
Á seinni márum má nefna starf sjónvarpsstöðvarinnar Sat7 í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum sem Kristniboðssambandið hefur verið í samstarfi við í áraraðir. Stöðin sendir út fjölbreytta dagskrá á fimm rásum á arabísku, farsi og tyrknesku. Megnið af dagskránni er framleidd af kristnu fólki, Aröbum, Tyrkjum og Írönum á þessu svæði. Ólæsi meðal kvenna er mikið en þær geta fylgst með sjónvarpinu og þar eru þættir sem sérstaklega tala inn í, oft á tíðum, erfiðar aðstæður þeirra enda ættferðahugsunin sterk á svæðinu. Einstæðar mæður eru víða illa settar. Ofan á allt þetta bætast stríðsátök og flótti frá öryggisleysi, ofsóknum og fátækt á síðustu mánuðum og árum þar sem Sat7 reynir að miðla von og styrk og huga sérstaklega að fjölskyldum, einstæðum mæðrum og börnum. Margar konur hafa fengið ómetanlegan stuðning. Í nafni hins þríeina Guðs
Þó svo við höldum ekki myndasýningu hér í dag þá hafa myndasýningar lengi fylgt kristniboðskynningum. Um ævina hef ég sjálfur tekið margar myndir, flestar líklegast á starfsárunum í Keníu. Mér lærðist fljótt að til að taka myndir við léleg birtuskilyrði þyrfti lengri tíma og þá væri þörf fyrir þrífót. Annars yrði myndin hreyfð. Sama var upp á teningnum með kvikmynda- og myndbandsvél. Ef áhorfendur eiga ekki að þurfa að taka sjóveikipillur er æskilegast að nota þrífót.
Þrífóturinn er einn en samt með þrjá fætur og er ágæt myndlíking um Guð sem er þríeinn og kallar okkur til samfélags og þjónustu sem slíkur. Guðspjallið talar um kristniboð og skírn í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Það eru boð frelsara okkar sem við stöldrum við á þessum degi, kristniboðsdegi þjóðkirkjunnar. Þríeinn Guð og þríþættur grunnur kristniboðsins. Þetta minnum við okkur á þegar við signum okkur. Útilitið var reyndar ekki burðugt þegar Jesús stóð með lærisveinunum á fjallinu og sagði þeim hvað biði: Að fara út um allan heim og skíra í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Heimurinn þurfti að fá að þekkja Guð – sem föður, son og heilagan anda. Hann þarfnast enn Guðs síns.
Í fyrsta lagi segjum við: Í nafni Guðs föður Í trúarjátningunni er áherslan á „almáttugan, skapara himins og jarðar.“ Strax á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar er dregin upp skýr mynd af Guði sem skapar og kemur skikkan á sköpunina. Hann er jafnframt alvaldur og vakir yfir sköpun sinni og viðheldur henni. Hann er skaparinn sem hefur skapað manninn, sem karl og konu og til samfélags við sig. Hann er skapari allra manna og elskar alla menn. Hann þráir samfélag við mig og þig eins og alla aðra menn, hvar sem þeir búa á jarðarbóli. Hann vill að við þekkjum sig. Hann vill að við eigum persónulegt, náið og djúpt samfélag við sig. Til að það gerist þurfum við að lifa með honum. Hann er faðir og skapari okkar allra, ber umhyggju fyrir okkur öllum og er faðir hinna föðurlausu og móðir hinna móðurlausu. Í Sálmi 103 segir: Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum,eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann. Guð faðir okkar er fullur af miskunn og á nóg handa öllum.
Boðskapur Biblíunnar um að Guð sé skapari okkar allra ætti að knýja okkur áfram í því verkefni að flytja öllum þjóðum fréttirnar. Orð Guðs á erindi til sérhvers manns. Hann vill að allir menn komist til þekkingar á sér. Með öðrum orðum: Læri að þekkja hann af því að lifa með honum. Að Guð er miskunnsamur minnir okkur á hvers vegna hann gaf son sinn.
Þess vegna segjum við líka: Í nafni Guðs sonar Lúther sjálfur á sínum tíma og lútersk kirkja síðan hefur haldið á lofti kjarna Biblíunnar, sem er Jesús Kristur. Allt stefnir til hans og aftur frá honum. Guðspjöllin fjalla um Jesú frá Nasaret, segja okkur sögu hans svo að við lærum að þekkja hann og hlusta þegar hann kallar: „Fylg þú mér og farðu með mér.“ Í öðrum kafla bréfs Páls til Filippímanna er þessi sálmur sem trúlega var sunginn í frumkirkjunni og lýsir svo vel verki Jesú: Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.
Nafn Jesú er hverju nafni æðra og sérhver tunga mun játa að Jesús Kristur er Drottinn. Þetta eru sterkar yfirlýsingar og valda sums staðar hneykslan. Jesú er gefið allt vald á himni og jörðu. Hann hefur vald til að fyrirgefa og reisa hinn fallna, til að afmá sekt og skömm, til að gefa nýtt líf og ný tækifæri. Hann hefur vald til að lækna og reisa menn frá dauðum, til að dæma og gefa eilíft líf. Hann kallar til eftirfylgdar, hann kallar okkur til samfélags. Hann vill að við þekkjum sig. Það gerist aðeins þegar við segjum „já“ við Jesú og lifum með honum. Hann þráir að gera okkur brennandi í samfélaginu við sig og brennandi í kærleikanum hvert til annars. Hann vill að við séum lifandi, knúin áfram af ákafa elsku hans.
Þess vegna segjum við að lokum: Í nafni heilags anda Til að vera brennandi þurfum við að vera fyllt Heilögum anda. Heilagur andi gegnir lykilhlutverki í öllu kristniboðsstarfi. Jesús benti á kraft andans sem kæmi yfir lærisveinanna og að þeir myndu þess vegna verða vottar eða vitnisburður um hann í nánasta umhverfi sínu og áfram til ystu endimarka jarðar. Krafturinn til að þjóna kemur frá heilögum anda. Sama er að segja um kærleikann, „Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.“ Ef heilagur andi kemst ekki að í lífi okkar til að fylla okkur krafti og náðargjöfum, kærleika og ávexti andans er ekki við því að búast að orð okkar og verk beri neinn ávöxt sem varir. Við þurfum að vinna kristniboðsstarfið í nafni heilags anda. Hann þarf að fá að komast að í hjörtum okkar til að hreinsa burt brot og bresti, veikleika okkar og mistök, til þess að skapa sér rými, svo að við fyllumst honum og berum Jesú Kristi vitni í krafti og kærleika og séum knúin af kraftinum, áfram allt til ystu endimarka jarðarinnar. Þá er það hann sem ræður, ekki vanmáttur okkar, brestir og brot. Kristniboðssambandið reynir, fyrir utan kristniboðsstarfið sjálft, að ýta við kirkjunni hér heima. Að hún keppi eftir því að vera brennandi og boðandi, að hún sé kirkja sem sækir út í bæði sitt nánasta umhverfi og út í heim. Að hún gleymi ekki þessari köllun og að henni sé sinnt af einlægu hjarta. Hjarta sem Guð faðir, sonur og heilagur andi hefur fengið að snerta og tala til. Hjarta sem Guð fær að knýja áfram til að bera sér vitni í orði og verki á svo margvíslegan hátt í heimi örra breytinga. Áminningin þarf einnig að ná til okkar hvers og eins persónulega:
Hefur þú fundið þér þinn stað? Hvar er Guð í lífi þínu? Skipta orð Jesú þig einhverju máli? Hefur hann fengið að tala til þín? Ertu brennandi í andanum? „Farið því...,“ segir hann. Hvað gerum við, hvað gerir þú? Erum við sem kirkja boðandi, biðjandi og þjónandi? Leyfum þessum spurningum að lifa með okkur á komandi dögum. Komum til Jesú og förum með honum með fagnaðarerindið um kærleika Guðs til þjóða og þjóðarbrota sem þekkja hann ekki.