Fimmta boðorið er ekki um skemmtiefni og það rímar ekki vel við konudag. Svo í hádeginu verður fyrirlestur um kreppna hér frammi á Torginu. Er þetta nú ekki heldur neikvætt – fyrst morð í messunni og síðan hrunið í hádeginu? Jú, en það er ekki bara ljós og gleði í lífinu heldur margt átakanlegt. Og nú er komið að því fimmta Sínaíorðinu. En svo verður hugað líka að voninni. Þar að auki verða skírð fermingardrengur og nýfætt barn eftir hádegið. Veisla verður haldin í messunni – líf og dauði.
En fyrst er það fimmta boðorðið sem er: “Þú skalt ekki mann deyða.” Þetta skýr regla - eða hvað? Í Íslandsklukkunni er Jón Hreggviðsson alls ekki viss um hvenær menn deyða. Hann svaraði Arnasi Arnæusi: „Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann?... …Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?”
Er fimmta boðorðið bara einfalt og auðskiljanlegt? Það leynir á sér og á meira erindi við okkur en bara banna líkamleg voðaverk. Í dag mun ég fjalla um þrennt, fyrst ástæður og samhengi til forna. Það var nauðsynlegt að verja lífið. Síðan andlega dýpkun Jesú sem stækkaði umfang boðsins og bætti við innhverfingu þess. Þar á eftir klofum við í guðfræðisögunni alla leið til Lúthers, sem kenndi, að boðorðið er ekki neikvætt heldur minnir á samfélagsskyldur okkar til að efla hag allra. Í lokin drögum við heim lærdóm fyrir okkkur og íhugum gildi fimmta boðorðins fyrir fólk í samtíðinni. Boð sem virðist ekki vera sérlega mikilvægt fyrir okkur sem eru ekki í drápshug verður allt í einu ágengt og mál dagsins.
Lífsvernd
Lífið er dýrmæti. Fornþjóðir komust að þeirri niðurstöðu að vissara væri að skýr ákvæði væru um lífsrétt. Fimmta boðorðið var regla sem sett var gegn hrárri villimennsku, yfirgangi, ofbeldi, vörn gegn hefndum og blóðugri samkeppni og skikkan gegn hrottaskap. Líf einstaklinga var ekki og mátti ekki vera eitthvað sem annar gat tekið si svona eða af því svírinn lægi svo vel við höggi eins og sagt er frá í Fóstbræðrasögu og var réttlæting Þorgeirs á mannsmorði.
Hið forna samfélag hebreanna bannaði ekki að losa sig við illvirkja. Hagsýni allra tíma hefur reiknað út að öxin og jörðin geymdu slíka best. Síðan hafa alltaf verið til rök um fælingarmátt dauðarefsinga.
Lífsvernd er þó meira en bara einföld hagsýni. Líf mannsins er grundvallað heilagri réttsýni - ákvörðun Guðs. Fimmta boðorðið er stefna Guðs. Lífið er gott – ekki bara vegna þess að það sé svo gaman að lifa og það sé stundum gaman hjá okkur - heldur vegna þess að Guð hefur ákveðið að manneskjan hafi gildi, maðurinn sé frátekinn til samvinnu í guðsverkinu. Trúmenn fyrr og síðar líta á mannlífið sem heilagt af því Guð hefur ákveðið það. Þannig var það og sú stefna hefur síðan alið af sér mannhelgi siðakerfa Vesturlanda og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Trúmenn eiga því að styðja alla viðleitni manna til að tryggja velferð fólks og réttindi. Sá réttur er óháður trú þó trúmenn sjái í þeim rétti guðlegt upphaf og guðlega visku.
Jesús og boðorðið
Auðvitað var Jesús meðvitaður um reglur samfélagsins. Hann beitti sér ekki gegn siðakerfum og hefðum sem þjónuðu góðu mannlífi. En hann beitti sér alltaf þegar menn vildu hangýta sér lög og reglur í eigin þágu eða einhverrar þrönghyggju sem væri á kostnað elsku og umhyggju.
Hópur af mönnum sem vildu klekkja á Jesú færðu til hans konu, sem var brotleg í siðferðisefnum og svo mjög að skv. reglunum mátti drepa hana með því að henda í hana grjóti. Dólgarnir ætluðu að koma Jesú í bobba. En hann stóð með lífinu í þetta sinn sem endranær þó hann afsakaði ekki gerning konunnar. Viska Jesú var til að eyðileggja prettavit hópsins: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana“ (Jóh. 8.7) var ráð Jesú og við það hurfu kastararnir.
Í Fjallræðunni kemur skýrt fram að Jesús samsinnir boðinu en gefur því nýja og dýpri merkingu. Hann túlkar það ekki aðeins svo að menn megi ekki deyða aðra heldur sé boðið líka andlegt - að við deyðum ekki aðeins fólk með því að limlesta eða meiða líkamlega, heldur getum við deytt með því að reiðast einhverjum. Jesús stækkar eða víkkar því merkingarsvið boðsins, lætur sér ekki nægja hið ytra heldur færir það inn í fólk, í afstöðu, tilfinningar þess og innræti.
Af hverju þessi stækkun, breikkun og dýpkun Jesú? Það er vegna afstöðu hans til fólks, mannafstöðu hans. Jesús leit svo á að maðurinn væri heilagur, ætti að vera heilagur og hegða sér í samræmi við þær notkunarleiðbeiningar, sem Guð setti saman fyrir gott mannlíf.
Hvenær drepur maður mann? Jesú spyr okkur hvern dag hvort við hugsum vel og fallega um fólk, okkur sjálf og samfélag okkar. Spurningin varðar hvort drep sé að byrja innan í okkur, sálardrep.
Hinn skapandi Lúther
Þá tökum við langt guðfræðiskref, til siðbótartímans. Margir verða hissa á boðorðaafstöðu Marteins Lúthers og hrífast þegar skýringarnar hans eru skoðaðar. Lúther þekkti vel sögu siðfræðinnar og að Jesús túlkaði alltaf róttækt og mannræktandi.
Skýring Lúthers á fimmta boðorðinu er merkileg. Þar er ekki talað um einangrað ofbeldisverk heldur er ramminn stór og jákvæður:
“Við eigum að óttast og elska Guð, svo við ekki meiðum náunga okkar, né vinnum honum nokkurt mein á líkama hans, heldur björgum honum og hjálpum í allri líkamlegri neyð.”
Í viðbót við innhverfingu Jesú varðandi boðorðin nefnir Lúther hér skýrt og ákveðið samfélagsvídd boðorðsins. Samkvæmt Lúther er ekki aðeins bannað að skadda aðra, heldur er hlutverk okkar uppbyggjandi, við eigum að efla aðra og bæta hag þeirra. Við eigum að hjálpa þeim, tryggja velferð annarra, beita okkur í samfélaginu svo við eflum lífsgæði, ekki aðeins okkar eigin, heldur samfélagsins alls. Hlutverk okkar varðar ekki aðeins að verja okkar eigin skrokk og eigið líf, heldur hlýðum við fimmta boðorðinu þegar við erum tilfinningalega og samfélagslega heilbrigð og ábyrg og samfélagið virkar vel og til hags fyrir heildina. Þetta er nú íhugandi gagnvart íslensku hruni og uppbyggingu. Líf okkar er heilagt og við eigum að hegða okkur í samræmi við það gildi okkar með því að rækta umhyggju og gera öðrum gott.
Vöndum líferni okkar
Einhverju sinni var farið í merkingu boðorðanna í kirkjuskóla. Eftir að búið var að tala um fjórða boðorðið spurði fræðarinn. “Nú erum við búin að tala um boðorðið sem tjáir afstöðuna til föður og móður. Er eitthvað boðorð um viðbrögð gagnvart systkinum okkar?” Ein hönd fór strax á loft og barnið svaraði. “Það er fimmta boðorðið. Þú skalt ekki mann deyða!” Dálítið róttæk nálgun - en kannski algerlega raunsæ þegar við tökum mark á Jesú og Lúther.
Boðorð fyrir okkur
Já, hvenær drepur maður mann? Og nú er komið að samantekt og hvernig boðorðið varðar okkar eigið líf. Við deyðum vissulega þegar við göngum svo í skrokk á einstaklingum að þeir láta lífið. Það er óheimilt bæði trúarlega og gegn lögum. Samfélagið hefur reglur um slíkt og refsar fyrir. En svo er allt hitt að auki.
Við getum deytt þegar tilfinningar okkar leiða okkur í gönur, þegar við leyfum heift að sá sér hið innra, spíra þar og vaxa. Þá verður til dauðaferli. Reiði, hatur, vondar hugsanir og ljótleiki eyða og deyða. Ofsi hið innra er eitur sem lífið þolir ekki. Þegar slíkt lifir í þér er dauðinn að koma, þú byrjar að deyja. Sálardrep er leið hryllingsins fyrir einstakling og samfélag.
Maður drepur mann þegar við tökum þátt í eða leyfum að varnarlitlir séu beittir harðræði, einelti, rangsleitni, ofbeldi, baktali og öðru álíka - þegar við leyfum kerfum að viðhaldast sem niðurlægja fólk, réttlæta kynjamismunun, þjóðamismunun, kynþáttamismunun eða einhverja aðra óeðlilega og ómannlega aðgreiningu hinna betri og verri, hinna æðri eða óæðri. Maður drepur mann ef við gætum ekki hagsmuna fólks og reynum að efla hag og velferð annarra. Það ættum við að muna í kosningum. Spyrjum um mannvernd og lífsvernd frambjóðenda og flokka.
Boðorðið er rótttækt og lífið er heilagt. Mannlíf fólks er eitthvað sem okkur ber að virða og engan afslátt veita. Ef slegið er af kröfum um manngildi verða jafnan hryllilegar afleiðingar eins og Gyðingamorð, kúgun alls konar og mismunun.
Við eigum ekki aðeins að beita okkur í samfélagsmótun vegna þess að það sé hagkvæmt og tryggi okkur sjálf, heldur vegna þess að Guð vill það. Í því verður siðsemin rótttæk, í því verður boðið djúpt og altækt. Guð vill að lífið sé virt, þitt eigið líf, líf þeirra sem þú elskar en líka líf hinna sem þér leiðist, líf allra, kvenna og karla, allra manna, allrar veraldar.
Amen.