Löngu er tímabært að vekja athygli á eftirtektarverðum kvikmyndasýningum Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíó í Hafnarfirði í vetur. Sýningar safnsins hafa verið í boði á þriðjudagskvöldum og laugardagseftirmiðdögum að vetri til nú í heilan áratug. Útbúnar hafa verið ákveðnar seríur eða temasýningar, kynningar á megin verkum tiltekinna kvikmyndaleikstjóra og kvikmyndatökumanna, myndir frá ákveðnum löndum, myndir um þjóðfélagsleg efni, kvikmyndir ákveðinna kvikmyndatökumanna, glæpamyndir, áróðursmyndir, myndir frá gullaldarsýningum Hafnarfjarðarbíóanna og áfram mætti telja. Þessar myndir lýsa tíðaranda en hafa líka oftar en ekki glöggar siðferðilegar og trúarlegar skírskotanir.
Dagskráin að þessu sinni, svo sem Erlendur Sveinsson, ritstjóri kynningarrits safnsins, greinir frá í síðasta riti, byggist á einu af höfuðverkefnum safnsins, sem er varðveisla og endurvakning sameiginlegra minninga þjóðarinnar. Hann vísar til þess að á meðal mikilvægustu gersema í lífi hverrar fjölskyldu séu ljósmyndir í fjölskyldualbúum og fjölskyldumyndir á tölvum, kyrrar og hreyfanlegar. Þeirra er enda mjög saknað ef þær glatast. Á líkan veg sé hægt að halda því fram, að kvikmyndir úr þjóðarsögu, sem varðveittar eru í geymslum Kvikmyndasafnsins, séu verðmæti þjóðarfjölskyldunnar.
Í hverjum mánuði eru nú sýndar í Bæjarbíói á vegum safnsins kvikmyndir, sem tengjast einu ári sérstaklega, hafa verið framleiddar á því ári erlendis eða hérlendis eða sýndar hér á landi. Með því móti kunna dýrmætar minningar að vakna frá þeim tíma. Á dagskrá eru t.d. kvikmyndir er sýndar voru á þrjúbíósýningum og ætlaðar börnum og unglingum eins og tveggja hluta myndaflokkurinn, ,,Í ríki undirdjúpanna”, sem sýndur var fyrst 1952 og oft síðar við miklar vinsældir og Tarzanmyndin, ,,Tarzan og hlébarða konan” frá 1947. Slíkar myndir er upplagt fyrir afa og ömmur að sjá með barnabörnum sínum og segja þeim frá hvernig var að fara í bíó í gamla daga. Kærleikur og lífsvirðing felast vissulega í því að styrkja kynslóða- og vinabönd og miðla gleðilegri reynslu.
BLACK NARCISSUS, bresk mynd í leikstjórn Michael Powel & Emeric Pressburger frá 1947 var sýnd þriðjud. 20. mars kl. 20 og verður enn sýnd laugardaginn 24. mars kl. 16. Þetta er Óskarverðlaunamynd sem lýsir tilraun nunna til að koma upp klaustri í hallarbyggingu í fjallabyggð á Indlandi. Fagurt en framandi umhverfi og menning reyna mjög á þær þótt leggi sig fram. Myndin vísar til þess að kristin trú fær helst fest rætur í annarlegu umhverfi sé gætt að því sem þar er dýrmætt að finna jafnframt því sem trúarljósið skíni í fórnfúsum kærleika. Sem aukamynd eru sýndir valdir kaflar úr kvikmynd Óskars Gíslasonar; ,,Reykjavík vorra daga”, og kvikmynd eftir Vígfús Sigurgeirssonar, sem báðar sýna komu fyrsta nýsköpunartogarans til landsins 1947. Í apríl verða sýndar myndir frá 1967 þar á meðal:
MOUCHETTE, frönsk mynd í leikstjórn Robert Bresson verður sýnd 3. apr. kl. 20 og 7. apr. kl. 16. Hún fjallar um mennskuna og þjáningu þeirra sem búa við ómennskar aðstæður eins og hin 14 ára gamla Mouchette og felur í sér ákall um samkennd, lausn og björgun. Sem aukamynd verður sýnd kvikmyndin, Maður og verksmiðja, eftir Þorgeir Þorgeirsson er lýsir síldarverksmiðju á Raufarhöfn.
LE JOURNAL D’UNE FEMME DE CHAMBRE. Dagbók herbergisþernu, frönsk mynd í leikstjórn Luis Bunuel verður sýnd 17. apr. kl. 20 og 21. apr. kl. 16. Myndin fjallar um kynja- heimilis og samfélagspólitík. Bunuel fyrirleit borgarmenninguna og það siðferði sem bundið er trú, föðurlandsást og fjölskyldu. Þær undirstöður þjóðfélagsins taldi hann ,,óréttlátustu stofnanir samfélagsins,” Vert er að huga að því með hvaða rétti hann heldur því fram.
Þriðjudagskvöldið 1. maí kl 20. verður sérstök hátíðarsýning í Bæjarbíó þar sem sýnd verður syrpa kvikmynda frá Akureyri á fyrri tíð. Minningar frá bæjum og sveitarfélögum landsins í kvikum myndum eru líka minningar þjóðarinnar.
Fagna ber því, að Bíó Paradís bjóði nú í miðbæ Reykjavíkur upp á kvikmyndaperlur fyrri tíðar og framsækna kvikmyndalist í samtíðinni.
Kvikmyndasýningarnar í Bæjarbíó í Hafnarfirði á vegum Kvikmyndasafn Íslands eru þó ekki síður athyglisverðar. Þær hafa víða siðferðilega og menningarlega skírskotun og því einnig trúarlegt inntak. Þessar tilgreindu myndir lýsa því hvernig tíðarandinn var hverju sinni á tilteknum árum, innanlands og utan, þjóðlífs- og listastraumar. Þær hafa sitthvað að segja þeim sem prédika og boða trúna í Jesú nafni, því að það er hinn áþreifanlegi veruleiki, sem trúin snertir og glímir við hverju sinni og á að salta og lýsa. Heimasíða kvkmyndasafnsins er. http://www.kvikmyndasafn.is/