[audio:http://thjodkirkjan.is/hladvarp/postilla/obj-threnningarhatid-2008.mp3]
Hún er merkileg þessi bók, Biblían, hvernig hún hefur varðveitt djúp og mikil sannindi í formi sögulegra frásagna, í ljóðum, orðskviðum, skáldlegum líkingum, spámannaritum sem í eru lýsingar frá sér numinna manna af sýnum og himneskum opinberunum og svo pólitískum textum um réttlæti og miskunn. Svo koma allar þessar frásagnir af fólki, nafngreindu fólki og loks frásagnir af frelsaranum, Jesú Kristi. Og einnig í þeim hluta Biblíunnar sem fjallar um hann eru frásagnir af fólki, nafngreindu fólki, körlum og konum, fólki sama eðlis og við erum, fólki með spurningar og vangaveltur um lífið og tilveruna, reiðu fólki og glöðu fólki, heilbrigðu og sjúku fólki sem kom til að leita sér hjálpar og svo fólki sem hafði fundið það sem leitað var að og gat ekki leynt gleði sinni og fór því af stað til að leggja heiminn að fótum þess boðskapar sem er sá fegursti sem fluttur hefur verið.
Evangelíum heitir það, fagnaðarerindi, gleðitíðindi, góðar fréttir. Já, það eru góðar fréttir sem hér verða sagðar í dag, fréttir um lausn og líf, undur og tákn, umbreytingu sálarlífsins og alveg nýja framtíð. Ertu tilbúin/n fyrir slíkt? Settu þig í stellingar. Hér þarf ekki að spenna nein belti, bara sitja þægilega og opna eyrun og skilningarvitin fyrir þeim boðskap sem kemur langa leið í gegnum sögu mannkyns, um eyðimerkur og gróðurvinjar, um stræti borga og sveitavegi. Í gegnum sögu og samtíð leggur þessi boðskapur leið sína og berst nú að vitum þínum, boðskapur himinsins, boðskapur sem er eldri en jörðin og sólkerfin öll, boðskapur frá því áður en tíminn varð til, frá örófi alda, frá fortíðardögum eins og það er orðað í hinni helgu bók, boðskapur sem hefur alltaf verið til og verður ætíð til, boðskapur elskunnar sem kemur hinni einu sönnu veru, frá innsta eðli guðdómsins úr hjarta Guðs sjálfs. Þar á elskan sitt upphaf, elskan sem Kristur bar með sér úr eilífðinni og inní tímann, frá handanverunni og inn í hérveruna, frá himni til jarðar.
Þessi boðskapur er nú kominn til þín, tilboð um nýtt líf, líf í nýju samhengi, nýjum skilningi, nýrri vídd. „Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, og átti sæti í öldungaráði Gyðinga.“ Hann var hátt settur í þjóðfélagi þess tíma, voldugur og virtur. Farísei var hann, lærður vel og kunnur arfi Gyðinga í helgum ritum. Farísear töldu sig vita öðrum betur um hið rétta líf. Hann átti sæti í öldungaráðinu sem þýddi í raun að hann var einn þeirra sem réð í þjóðfélaginu. Hann var m.ö.o. stjórnmálamaður. Hann hafði heyrt Jesú tala, séð hann úr fjarska, heyrt óminn af orðum hans og svo hafði fólk komið til hans og vakið athygli hans á þessum farandprédikara sem talaði með öðrum hætti en áður hafi heyrst.
Nikódemus var varfærinn maður og fór ekki að neinu óðslega. Hann var líka ófús að láta sjá sig í námunda við Jesú enda sátu sumir af hans nánustu mönnum í öldungaráðinu á svikráðum við Jesú. En forvitnin lét hann ekki í friði, óþreyjan innra í sálinni varð að fá svör. Hann fór til Jesú að næturlagi, um niðdimma nótt, til að segja honum að hann hefði jákvæð viðhorf gagnvart honum og sagði hann hljóta að hafa Guð sín megin í lífinu. Og Jesús fer að tala við hann um að fæðast að nýju. Er það hægt fyrir fullorðinn mann? spyr Nikódemus. Hann skilur ekki orð Jesú þrátt fyrir háar lærdómsgráður, skilur ekki einfaldleikann í kenningu hans. Hann er að tala um hugarfarsbreytingu, nýja sýn á tilveruna og þessi nýja sýn getur ekki komið, þessi lækning andlegrar blindu, getur ekki gerst nema fyrir inngrip almáttugs Guðs, fyrir hræringu heilags anda.
Í guðspjallinu hefjast þrjár beinar ræður Jesú á orðunum: „Sannlega, sannlega segi ég þér . . . “ Á grísku: „Amen, amen, legó soi . . .“ Í þeirri fyrstu talar hann um Guðs ríkið. Í þeirri næstu um andann og þeirri þriðju um Mannssoninn. Þessar mikilvægu ræður eru orð hans um heilaga þrenningu og þess vegna liggur þetta guðspjall til grundvallar í dag á þrenningarhátíð kirkjunnar. Við vitum ekki mikið um hvað gerðist meira hjá Nikódemus, þessum spyrjandi manni, sem ekki þorði að tala við Jesú í dagsbirtu en þó bregður nafni hans fyrir síðar þegar farið var að hitna meir í kolunum og forystumenn Gyðinga vildi Jesú feigan að Nikódemus reyndi að bera í bætifláka fyrir hann og þegar hann hafði verið krossfestur kom hann með um hundrað pund af myrru og alóe til að smyrja líkama hans. (Jóh 19.39)
* * *
Og nú erum við hér saman komin til að heyra orð Jesú. Hann er hér og við hjá honum, ekki að næturlagi heldur á björtum degi. Samt kann að bærast innra með okkur hin sama leitandi spurn andspænis hinum stóru gátum tilverunnar, sama spurn og var í hjarta hins menntaða ráðherra forðum daga. Brennur á okkur spurningin um tilgang lífsins? Brennur sú spurning á almenningi? Eða er fólk aðallega upptekið af því að komast heilt á sálu sinni út úr hrönnum hárra skulda?
Hvað verður um okkur Íslendinga á næstu misserum? Enginn veit það nema Guð almáttugur sem kallar okkur til endurfæðingar, til endurnýjungar hugarfarsins, til nýrrar sýnar á tilveruna sem birtir okkur að lífið er í hendi Guðs, sama hvernig gengi krónunnar sveiflast eða skuldirnar hrannast upp. Guð er við völd. Það er ekkert að óttast.
Nikódemus gat ekki skilið endurfæðingu því hann skildi orð Jesú bókstaflega. Hann var fastur í eigin kenningakerfi og sýn á veruleikann. Hann þurfti að afbyggja allar sínar hugmyndir eins og það heitir á máli heimspekinnar, afbyggja eða rífa allt niður til að geta síðan byggt upp. Hann skildi ekki þá að orð Jesú og vitnisburður áttu að umvefja hann eins og móðurlíf og næra hann og fæða til nýs lífs. Við erum hér í helgidómi Guðs þar sem orð hans hljómar, orð Frelsarans er flutt og helg máltíð hans borin á borð. Hér er móðurlíf trúarinnar og við sjálft fóstrið sem nærist af móðurinni sjálfri, kirkjunni. Trúin verður til í samhengi kirkjunnar þar sem orðið er boðað og sakramentin borin fram.
Stundum kemur til mín fólk sem segist eiga í erfiðleikum með að trúa, segist ekki skilja trúna, nái ekki utan um hinar stóru spurningar lífsins. Þá bendi ég gjarnan á orð Jesú sem sagði að barnið gæti skilið Guðs ríkið með sinni tæru hugsun og innsæi.
Við skiljum aldrei alla tilveruna en við getum byrjað á að skilja fyrstu stafina í stafrófi trúarinnar. Nýlega var hjá okkur hér í Neskirkju kaþólskur munkur frá bandaríkjunum og hélt fyrirlestra um kristna íhugun og kyrrðarbæn. Hann lifir klausturlífi og helgar líf sitt Kristi og kristinni trú. Hann ætti því að vera mjög trúaður. Hann sagðist oft fá spurningar frá fólki um grundvallaratriði trúarinnar. Fólki finnst það ekki trúa nógu mikið til að geta beðið á fullnægjandi hátt. Hann sagði: Ef einhver spyr mig hvort ég elski Guð þá get ég ekki sagt mikið um það en ég gæti hugsanlega sagt að ég elskaði hann pínulítið á sunnudögum og kannski á fimmtudögum. Og þannig gætu aðrir svarað sömuleiðis. Við getum ekki sagt að við elskum Guð alltaf. Dauðlegir menn geta það ekki. Svo sagðist hann gjarnan spyrja fólk, sem ætti í erfiðleikum með að trúa og biðja, þessarar spurningar: Langar þig að elska Guð? Þeirri spurningu svara allir á einn veg: Já! Og svo bætir hann við: Það er nóg að langa til að elska Guð. Að langa er allt sem þarf.
Er það ekki léttir að heyra fjallað um trúna með þessum einfalda hætti? Að trúa á Guð er ekki flóknara en það að vilja trú, að langa til að elska Guð! Einfalt og skiljanlegt hverju barni. Hinar trúarlegu spurningar er margar og miklar en látum stærð þeirra ekki hræða okkur. Hver langferð hefst með einu skrefi. Við gripum öll andann á lofti þegar við komum úr móðurkviði og hófum lífsgönguna. Enginn kenndi okkur það, við bara önduðum og orguðum, drógum að okkur lífsandann og lofuðum Guð með barnsins gráti. Og enn erum við börn, skiljum aðeins brot af tilverunni. Maðurinn þekkir ekki einu sinni sjálfan sig til hlítar, er ekki enn búinn að kanna jörðina alla, hvað þá himingeiminn og aldrei kemst hann til botns í Guði almáttugum. En hann getur byrjað eins og barnið sem tengist móður í elsku og trausti og lærir að drekka af brjósti hennar og segja: mamma!
Guð er mamma, Guð er pabbi, sem allt gefur og allt elskar. Guð er hér og vill að við leyfum anda hans að breyta hugarfari okkar til hugarfars elsku, til opins hugar sem umfaðmar lífið og elskar það. Og allt sem þú þarf er eitt lítið skref í trausti til Guð, löngum til að elska hann. Og þegar þú tekur þetta skref, sem er ekki gert einu sinni og búið, heldur hvern dag, hvert andartak, þá mætir Guð þér og þú hefur himinn höndum tekið og lifir að eilífu. Það er gjöfin hans eins og Jesús segir í guðspjalli dagsins: „ . . . þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn svo að hann veiti hverjum sem trúir á hann eilíft líf.“ (Jóh 3.14b-15)
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Einnig birt á annál Arnar Bárðar.