Utangarðsmenn

Utangarðsmenn

Það er eitt að tala saman og annað að vera saman. Það er eitt að skilja aðra og annað að samneyta fólki. Jesús lætur ekki duga almennar upplýsingar, almenn mannréttindi og góðar reglur í samfélaginu. Hann vill meira.

Við hjónin fórum á bíó í vikunni sem leið. Það gerist ekki oft en við höfðum fengið ábendingar úr mörgum áttum um að þessa frönsku kvikmynd mættum við ekki láta fara framhjá okkur, hún væri ein þessara mynda þar sem maður gæti bæði grátið og helgið. Þar að auki væri hún sannsöguleg og lýsti samskiptum tveggja manna á eftirminnilegan hátt. Þegar við komum út úr bíóinu vorum við þakklát að vita að þessi mynd væri búin að vera lengi í sýningu og salirnir alltaf þétt setnir. Því þessi kvikmynd er svo gríðarleg kennsla í samskiptum og virðingu fyrir mennskunni í fjölbreytileika sínum. Hún heitir The Intouchables og fjallar um milljónamæring sem er lamaður fyrir neðan háls eftir slys. Frásögnin hefst á því að hann er að velja sér starfsmann til þeirra verka sem í dag heita notendastýrð persónuleg aðstoð við faltaða. Í upphafi myndarinnar sitja margir áhugasamir og sérlega vel menntaðir hvítir Frakkar í biðstofu sem sækjast eftir starfinu en meðal umsækjaenda er afar óheflaður svartur maður sem er þarna kominn fyrst og fremst til þess að fá undirskrift þess efnis að hann hafi sýnt áhuga svo að hann geti haldið áfram að fá atvinnuleysisbæturnar sínar. En það undarlega gerist að á meðan allir hinir umsækjendurnir lýsa kostum sínum og hjartagæsku í garð fatlaðra og áhuga á að bæta samfélagið. Þá horfir ungi maðurinn engan vegin á fötlun mannsins og er síst að skilja að maðurinn geti ekki lyft hönd til að skrifa nafnið sitt. Og þegar hann yfirgefur herbergið segir hann: „Ég bara geng út vertu ekkert að standa upp fyrir mér“ Þannig heilsaði hann og kvaddi algjörlega án þess að horfa á hjólastólinn og fötlun mannsins. Þessi óheflaða framkoma kveikir einhvern neista í milljónamæringnum og ný von kviknar hjá honum. Von um það að eiga ærleg samskipti, ekki auðveld en ærleg. Samskipti sem næðu yfir múra ríkdæmis og fötlunar.

Þegar Driss kom til starfa komst hann að því með líkama og sál að hann var í orðsins fyllstu merkingu hendur og fætur Filippe. Það fór um mann í bíósætinu þegar þessi óheflaði, sterki og stóri náungi var að drösla veikum og lömuðum manninum inn í baðið til að þvo honum. Og þegar sjampóið freyddi ekki kom í ljós að hann hafði nuddað fótakremi í höfuðið á honum, en í stað þess að biðjast afsökunar hélt hann langa ræðu um fáránleika þess að karlmaður væri með fleira snyrtidót en sápu. Svo tók steininn úr þegar í ljós kom að hlutverk Driss var m.a. það að losa þarma Filippe í vikulegri þar að lútandi aðgerð, og maður vissi ekki með hvorum maður átti að hafa meiri samúð. Áhorfendur myndarinnar fengu það tilfinningalega verkefni að yfirstíga með báðum söguhetjum þessa ósýnilegu múra sem varða líkamann og alla hans vessa um leið og við blasti náin líkamleg snerting tveggja karlmanna á ólíkum aldri og litarhætti. Í bakgrunni eru allir hinir umsækjendurnir um starfið sem haldnir eru sama líkamsóttanum, óttanum við mennskuna í nekt sinni og varnarleysi sem kemur í veg fyrir að þeir geti verið í andlegum jafningjasamskiptum við þann sem þarf á þjónustu að halda.

Ungi maðurinn kunni ekkert til verka í venjulegum skilningi en hann kunni listina að lifa af í umhverfi þar sem voru endalausar hindranir. Hans menntun var af götunni þar sem enginn er umvafinn og engum er vorkennt og mannlegt varnarleysi var honum engin ný frétt heldur sjálfsögð staðreynd. Svo ólíkar sem aðstæður þessara tveggja manna voru var sannleikurinn þó sá að þarna mætti utangarðsmaður öðrum utangarðsmanni. Ríkidæmi og fötlun eru hvort tveggja utan garðs. - „Ég verðast ekki með þér í þessum bíl með þig hér aftur í!“ sagði Driss með miklum þunga þar sem þeir stóðu bak við vandaðan sendibíl með stólalyftu og kyrfilega merktur fatlaðramerkinu. „Hvað með þennan?“ sagði hann og svipti dúknum ofan af svörtum Jagúar sem stóð á hlaðinu. Stóllinn fauk í skottið og manninum var hnoðað í framsætið áður en brennt var af stað með 500 hestöfl undir vélarhlífinni.

Ég hvet fólk til að sjá þessa mynd og setja sig inn í sögu þessara manna því það er margt sem kemur manni svo skemmtilega á óvart í þræði hennar. Ástæða þess að ég er að tala um myndina er sú að andrúm hennar tengist svo innilega guðspjalli dagsin þar sem Jesús ofbýður líkamsótta okkar, virðir engar hindranir og færir fötluðum manni lífið að nýju. „Hlustum nú á guðspjallið og tökum eftir tilfinningunum sem kvikna: „Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaða“, þ.e.: Opnist þú.“ Skyldi vera að þessi nákvæma lýsing á hinni óvenjulegu snertingu Jesú og fatlaða mannsins hafi skilaboð að færa okkur? Getur verið að hér sé okkur réttur lykill að mennskunni?

„Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði“ segir Páll postuli í pistli dagsins. Ég held að öryggi þess sem fylgir Jesú sé reynslan af því að það sé óhætt að vera manneskja. Öll guðspjöllin ilma af frásögnum þar sem Jesús er að láta sig varða líkamlega líðan fólks og þar sem hann er í sífellu að losa út hindranir svo að fólk geti lifað góðu lífi bæði til líkama og sálar. Við höfum söguna um Bartimeus blinda, konuna með blóðlátin, konuna með kreppta bakið, svangan mannfjölda sem fékk brauð og fisk o.s.frv. o.s.frv. Ítrekað er Jesús að greina líkamlegar þarfir og mæta þeim þannig að sá sem þjónustuna þiggur stendur eftir sterkur og heiðraður en ekki aumkaður.

Kvikmyndin The Intouchables fjallar um þetta. Hún segir sögu af mannlegri frelsun. Hvernig það atvikast þegar fólk miðlar hvert öðru af hlýju og reisn. Og rétt eins og sagan af Jesú þannig flytur þessi saga þá góðu frétt að frelsun mannsins er möguleg. Það þarf enginn að lifa í einangrun. Hvorki þú né ég. Það geta allir átt innihaldsríkt líf og það mega það allir. Effaða! Sagði Jesús við manninn, búinn að stinga fingrum í eyru hans og væta tungu hans með eigin munnvatni. Opnist þú!

Hvað átti að opnast? Hvað opnast þegar við getum bæði heyrt og talað? Er það ekki samtalið sem opnast? Samskipti og skilningur. Jú, en það sem gerir söguna af Jesú svo þykka og safaríka og frelsandi, það sem gerir sögu Jesú að frétt er sú staðreynd að það verður meira en samtal. Jesús flytur ekki bara boðskap sem má ræða og skilja heldur framkvæmir hann boðskapinn. Hann hvetur fólk ekki bara til almennra dáða heldur kallar hann það til að koma og fylgja sér. Hann opnar ekki bara heyrn og mál mannsins í guðspjallinu heldur opnar hann líkamann allann manninn allan.

Kæri áheyrandi mig langar svo til þess að þú grípir þetta. Það er eitt að tala saman og annað að vera saman. Það er eitt að skilja aðra og annað að samneyta fólki. Jesús lætur ekki duga almennar upplýsingar, almenn mannréttindi og góðar reglur í samfélaginu. Hann vill meira. Hann vill frelsun mannanna. Hann hvetur til samveru og samneytis. Hann framkvæmir frelsið, virðinguna, kærleikann og mannréttindin og vill að við gerum það með honum.

Þess vegna göngum við gjarnan til altaris þegar við komum saman í Jesú nafni. Þar standa allir eða krjúpa þétt við hlið ókunnugs fólks, borða úr sömu skál og þiggja af sama bikar því við erum svo örugg vegna Krists eins og postulinn segir.

Það er eitthvað í þessu sem er þykkt og safaríkt og algerlega satt. Eitthvað bjargfast og raunverulegt sem aldrei verður prédikað heldur bara lifað. Það er jú í gegnum samneyti sem manneskjan verður til. Við fæðumst nakin og háð umönnum og hlýju og lærum að þekkja sjálf okkur eftir því sem sjóndeildarhringurinn vex í samveru með fólki. Og það er þarna á hinni breiðu bylgjulengd mennskunnar sem Jesús Kristur hittir okkur fyrir. Erindi hans er ekki orð, ekki bókstafur, heldur andi. Ekki skilaboð að handan eða aðferðir til árangurs heldur persónuleg nálægð. Þess vegna er kristinn átrúnaður mild og íhugul lífsafstaða. Kristin trú getur ekki verið bókstafstrú því hún er eftirfylgd við hann sem alltaf braut bókstafinn og reglurnar til þess að rýma fyrir mennskunni.

Amen.

Textar Jes. 29.17-24 2.Kor. 3.4-9 Mark 7.31-37