Vistspor

Vistspor

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað - og líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Við vorum á ferð erlendis – fjölskylda mín - og heimsóttum stórt náttúrufræðisafn. Í einum sýningarbásnum voru vistspor þjóða sýnd. Og hvað er vistspor? Það er hver neysla hóps eða þjóðar og hvernig auðlindir eru nýttar. Vistspor er eiginlega sú náttúruafstaða sem birtist í nýtingu auðlinda náttúrunnar.

Í safninu voru vistspor nokkurra þjóða borin saman og sýnd með misstórum skóförum, sem voru máluð á gólf safnsins. Þjóðanöfn voru skrifuð við sporin til að sýna hve ólík neysla og auðlindanotkun þjóða væri. Drengjum mínum varð starsýnt á þessi spor, mátuðu fætur við þau og fannst sum þeirra vera stór. Sum sporin voru smá en önnur risastór. Hvað ætla þeir drengir að gera í neyslunni og málum lífsins? Bera þeir einhverja ábyrgð og berum við ábyrgð gagnvart lífi framtíðar?

Iðnaður, vélanotkun, eldsneytisnotkun, ferðalög, tækjakaup og fleira hafa áhrif á umhverfið. Vistsporin á safninu voru ólík. Spor íbúa í Bangladesh var mjög lítið en spor Svía var hins vegar mjög stórt - nærri tíu sinnum stærra. Vistspor Bandaríkjamanna var enn stærra.

Neysla skiptir máli og við berum ábyrgð á hvað við kaupum, hvers konar landbúnað við styðjum og hvernig pólitík okkar er. Hver sem afstaða okkar er í stjórnmálum - eða hvort við hugsum um efnahagsmál og auðlindamál eða ekki - hafa lífshættir okkar áhrif á heiminn. Við höfum áhrif.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað - líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Neysla margra er umfram getu jarðar til að næra og blessa. Reiknað hefur verið að ef allir jarðarbúar myndu lifa með svipuðum hætti og Norðmenn, Svíar og Finnar þyrfti mannkynið meira en 3 jarðir til að framfleyta sér. Danir eru enn þurftarfrekari því ef jarðarbúar neyttu jafn mikils og þeir þyrfti 4 jarðarkúlur til að standa undir neyslunni. Við Íslendingar erum neyslutröll og einhver þurftarfrekasta þjóð í heimi. Neysla okkar er slík að ef allir væru eins og við þyrfti líklega 5 eða 6 jarðir til að framfleyta mannkyninu (til eru útreikningar sem sýna mun verri útkomu okkar Íslendinga). Þetta neyslusukk setur okkur á bekk með Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem er ein neyslufrekasta þjóð heims.

Loftið er dýrmætt Í liðinni viku voru mikilvægar samkomur haldnar í New York um loftslagsmál.

Trúarleiðtogar ýmissa trúarbragða hittust í borginni til að ræða ábyrgð trúmanna á atferli, lífshætti og siðferði fólks – og hvernig trú gæti stuðlað að ábyrgara lífi og minna álagi á vef lífsins. Kristnir, gyðingar, múslimar, hindúar, búddistar og ýmsir fulltrúar trúarhreyfinga og þjóðarbrota hittust til að hvetja pólitíska leiðtoga heimsins til að horfast í augu við ástand lífríkisins og taka ákveðið á málum.

Auka – en minnka Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 23. september skuldbundu nokkrir þjóðarleiðtogar og fyrirtæki heims sig til að breyta landbúnaði á heimasvæðum sínum – draga úr kolefnislosun og auka þó framleiðslu matvæla. Á hverju ári fjölgar mannkyni um 70 milljónir og áætlað er að íbúar jarðarinnar verði nærri níu milljarðar eftir 25 ár. Því er ljóst að vegna fjölgunar fólks verður að auka matvælaframleiðslu heimsins.

Á ráðstefnu SÞ hétu tveir tugir ríkisstjórna og fjöldi fyrirtækja stuðningi við umhverfisvæna landbúnaðarstefnu, sem hefur m.a. að markmiði að gera 500 milljón bændum mögulegt að stunda umhverfisvænni landbúnað en nú er mögulegt. Ýmis samtök skuldbundu sig til að vernda fátækustu bændurna sem eru berskjaldaðir gagnvart loftslagsbreytingum.

Útþensluaðferðin Umræðuefnin á þessum tveimur þingum eru mikilvæg og varða trú, guðfræði og erindi kirkjunnar. Því er ærin ástæða til að íhuga erindi þeirra. Hvernig getum við að brugðist við loftslagskreppu og auðlindakreppu? Hvað ættum við að gera þegar okkur berast þær fréttir að lífríkinu er ógnað og mannfjöldaþróun knýr á um miklar breytingar varðandi afstöðu og aðgerðir?

Fyrr á öldum virtust loft, vatn, lífríki og orka vera sjálfsögð og óþrjótandi gæði. Auðlindir virtust sem næst ótæmandi. Á liðnum öldum hafa menn yfirleitt brugðist við kreppum með því að yfirvinna takmörk, fara yfir mæri, fara út fyrir mörkin, nýta meira og fara lengra. Kreppan var sigruð með útþenslu. Þegar landnæði Evrópu var fullnýtt var farið til Ameríku eða annarra álfa. Þegar auðlindir hinna ríku voru fullnýttar var farið að nýta auðlindir fátækari þjóða. Þegar heimafengin orka var ekki nægileg lengur hófst kapphlaup um orku annars staðar og aðgang að henni tryggður með valdi og “eign” slegið á orkuna. Lífsstíllinn í ríka hluta heimsins – okkar hluta - var og hefur verið að belgja okkur út úr kreppunum – sprengja kreppuna með því að útvíkka og þenja út. En nú höfum við uppgötvað mörk og mæri á öllum sviðum. Við getum ekki haldið áfram með sama lífsmynstri belgingsins.

Kreppan í fólki Viðbrögð einstaklinga í kreppuaðstæðum geta hjálpað okkur að skýra viðbrögð hópa, þjóða og heimsbyggðar gagnvart loftlagsbreytingum og umhverfisvá sem eru stundum furðuleg. Kreppuviðbrögðin má yfirfæra og nokkur þeirra eru þessi: 1. Afneitun, 2. flótti, 3. reiði, 4. depurð, 5. einföldun og 6. grafa vandann með því að láta gott heita.

Viðbrögð til góðs Hvað getum við gert? Í stað afneitunar og neikvæðni getum við brugðist með skapandi móti.

1. Í fyrsta lagi horfst í augu við og viðurkennt vandann. Gagnvart loftslagsbreytingum er mikilvægt að játa að við erum samábyrg og viðurkenna neysla okkar þarf að breytast. 2. Ábyrgð: Það eru ekki aðeins einhverjir “aðrir” sem bera sök og eiga því að bæta úr. Bandaríkjamenn og Kínverkjar blása vissulega mestri eiturgufu út í andrúmsloftið – en við getum margt gert þó við séum ekki aðalspellvirkjarnir. Við getum gengist við ábyrgð með því að huga vel að eigin innkaupum, eigin heimilislífi og beita okkur með jákvæðum hætti við stefnu og stjórn hins íslenska samfélags. Við getum brugðist við náttúrvá í anda frelsis og réttlætis. 3. Til að nýta reiði jákvætt þarf að tengja hana kærleika. Reiði vegna mengunar er skiljanleg en getur orðið til góðs ef hún er samferða og samtaka kærleiksríkri systur sem heitir ást. Kærleikur þarf að stjórna reiði til að vel fari bæði í einkalífi og opinberu einnig. 4. Það er engin ástæða til að leyfa depurð, fjórða kreppuviðbragðinu, að mála skrattann á veginn og draga þar með úr fólki allan matt til átaka. Við ættum fremur að temja okkur hið guðlega viðbragð, að mæta vanda með því að bæta heiminn - greina stórt og smátt til farsældar sem hægt væri að gera í eigin lífi og samfélagi okkar. 5. Í nútíð og kreppum er alltaf tækifæri til vaxtar og möguleikar til lífs og engin ástæða til annars en horfa fram á veginn. Guð kallar úr framtíðinni. 6. Gagnvart mengun, misnotkun auðlinda og manngerðum loftslagsbreytingum megum við gjarnan opna augu, eyru, hjarta og huga.

Verkefni okkar er ekki að bjarga heiminum heldur gera það sem við getum gert. Það er bæði mannleg og trúarleg köllun okkar sem einstaklinga. Og það er líka á ábyrgð okkar sem kirkju að bregðast við með einurð, óttaleysi og hugrekki. Okkur ber að gæta systra okkar og bræðra. En það er líka dásamlegt verkefni okkar að gæta móður okkar einnig. Náttúran er móðir sem er á okkar ábyrgð.

Við getum endurskoðað neysluhætti okkar – bæði á heimilum og í samfélagi. Við getum hvatt stjórnvöld til að láta náttúruna njóta vafans og lágmarka skaða í opinberum framkvæmdum. Við ættum að auka pólitísk afskipti varðandi meðferð náttúru. Raunar ættum við Íslendingar ekki að sætta okkur við neitt annað en að vera til fyrirmyndar í notkun orku og auðlinda.

Guð er ástæðan og forsenda Skiptir trú lífríkið máli? Já, trú hvetur ekki til lífsflótta heldur lífsræktar. Trú er ekki það að flýja inn í óraunsæi eða annan heim - heldur að samþætta elsku til Guðs elskunni til alls þess sem Guð hefur búið til, náttúru og þar með fólks líka. Lífið er dýrmæt gjöf sem okkur er gefið og líf heimsins er gjöf Guðs. Okkur ber að virða afstöðu Guðs sem elskar sköpunarverkið og þar með varðveita náttúruna og vernda.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað - og líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Hugleiðing í Neskirkju 28. september 2014