Ég hef skemmt mér konunglega á samskiptasíðunni Facebook undanfarna mánuði.
Ég reyni að skrifa eitthvað sniðugt og gáfulegt í stöðuna hjá mér sem gengur misjafnlega vel. Svo bíð ég spennt eftir því hvað fólki finnst um það sem ég skrifaði, hvort einhverjum líki það. Stundum fæ ég fullt af „like“ en stundum er eins og enginn hafi séð það sem skrifaði. Kannski fannst engum ég sniðug eða allir voru í mat.
Best er að hafa þessa stöðulýsingu óræða eða margræða svo hún veki forvitni og helst umræðu.
Svo eru það vinaboðin. Hjartað tekur örlítinn kipp þegar mín bíða vinarboð. Hver ætli þetta sé? Er þetta kannski löngu týndur eða gleymdur vinur. Einhver vill vera vinur minn!
Facebook er bæði hægt að nota persónulega og af fyrirtækjum, stofnunum og hópum sem vilja ná til margra með boðskap sinn. Því er sjálfsagt fyrir söfnuði sem vilja ná til fólks, að stofna hóp á fésinu. Þarna nær kirkjan til enn fleira fólks en með auglýsingum í blöðum eða með veggspjöldum út um borg og bæ. Nú hef ég stjórnað facebook síðu fyrir Grafarvogskirkju í rúmlega eitt ár og þeim fer fjölgandi sem senda fyrirspurnir um athafnir, viðtöl og námskeið með skilaboðum á facebook. Það tekur mig ekki langan tíma að senda boð til mörg hundruð manns þegar eitthvað er að gerast í söfnuðinum.
Kostirnir við að vera með persónulega síðu á facebook eru margir. Ég get sagt skoðun mína á því sem mér þykir skipta máli. Ég get orðið meðlimur í hópum og síðum sem snúast um málefni sem ég tel vera mikilvæg. Ég get auðveldlega fylgst með því sem er að gerast í menningarlífinu og á því sviði sem ég hef áhuga á og ég get verið í samskiptum við vini um allan heim á einfaldan og kostnaðarlítinn hátt.
En facebook heimurinn er ekki alvöru heimur.
Ég get búið til hvaða mynd af mér sem ég vil að mínir nánustu, u.þ.b. - 500+ - vinir-, hafi.
Ég get verið þessi áhugaverða sem er alltaf á opnunum í menningarheiminum, sú sem les gáfulegar vefsíður og klassískar bókmenntir og veit alltaf hvaða staðir eru mest inn akkúrat núna. Þessi sem sjaldan skrifar um stöðu sína og ef hún gerir það, þá er það mjög órætt.
Ég get líka verið góða móðirin og hamingjusama eiginkonan sem er alltaf að setja inn eitthvað gáfulegt um uppeldi barna. Ég er þá alltaf að vitna í börnin mín og minn yndislega maka. Ég bý til þá mynd af mér að ég sé alltaf í sundi, í fjallgöngum og að baka með börnunum. Á kvöldin fer ég gjarnan á veitingastað með eiginmanninum því hann er svo rómantískur.
Svo get ég verið þessi ofsalega pólitíska hefur skoðanir á öllu og öllum. Þessi sem er alltaf að setja inn greinar og fréttir og skrifar síðan athugasemdir við þær. Þá hef ég skoðanir á öllu sem aðrir segja og er ég með í fjölda hópa sem meira og minna allir fjalla um réttlætismál. Svo á ég svo ótrúlega marga vini því ég er svo mikilvæg.
Svo get ég verið einhver blanda af þessu öllu eða eitthvað allt annað.
Ég get búið til mynd af mér sem er alls ekki rétt en verður kannski sönn þegar ég er búin að vinna að henni nógu lengi.
Mér finnst ég kannski vera fullkomna mamman, með yndislega eiginmanninn sem alltaf er verið að bjóða í partý og á svo ótrúlega marga vini, þó ég sitji bara alltaf í sófanum heima hjá mér og taki ekki stóran þátt í lífinu, sem ekki fer fram á netinu.
Ég held að, þrátt fyrir kosti samskiptasíðna eins og þessarar, þá verðum við samt að gæta okkur á því að láta þær ekki koma í staðin fyrir umgengni við fólk. Vissulega er facebook alvöru samfélag að því leyti að við erum sannarlega í samskiptum við fólk, þó við horfum ekki í augun á því. Við getum þó aldrei verið alveg viss um að allir „vinir“ okkar á facebook séu þeir sem þeir segjast vera eða gefa sig út fyrir að vera, nema ef við látum okkur nægja að vera eingöngu í samskiptum við okkar allra nánustu á þessari síðu.
Sjálfsagt getum við búið til allskyns myndir af okkur sannar og falskar þó við séum ekki á netinu allar stundir. Gáfaður maður benti mér t.a.m. á að þetta var kannski það sem margir gerðu í samskiptum við pennavini hér áður fyrr fyrir tíma tölvupóstsins.
Ég hef ekki hugsað mér að hætta að eiga samskipti og samfélag á facebook og mögulega öðrum þesskonar síðum en ég vil sannarlega reyna að vera alltaf meðvituð um að þessi skemmtilegi netheimur er bara viðbót við hinn heiminn, þennan sem er örlítið sannari.