Mér virðist sem kirkja og þjóð hafi á samleið sinni komið að
vatnaskilum á kristnitökuafmælinu árið 2000 og haldið þaðan með nokkrum
hætti hvort sína leið. Kannski allt þjóðfélagið hafi komið að þessum
vatnaskilum um þessar mundir og eining þjóðarinnar hafi öðlast aðra
merkingu en hún hafði áður.
Það er merkilegt ef satt er og táknrænt að samleiðinni skyldi hafa lokið þar sem hún hófst.
Þorgeir Ljósvetningagoði hafði lýst nauðsyn þess að við hefðum í senn ein lög og einn sið. Þetta er ekki talið satt lengur, ein lög að vísu en marga siði má hafa því frjáls maður með fjölbreytt tengsl mótar sér sínar hugmyndir að mannskilningi og tilverusýn, og er undir hælinn lagt með hverjum hann telur sig geta átt samleið um það. Fjölhyggja er einkenni á því menningarumhverfi sem við lifum í, menningarumhverfi Vesturlanda. Margt frjótt sprettur þar upp og framfarir eru sem betur fer á flestum sviðum.
Íslendingar sjá það almennt ekki sem svo að þeir geti þróað lífshætti sína á vettvangi kirkjunnar; tilbeiðsla og trúrækni Þjóðkirkjunnar sé ekki vettvangur þeirra. Kerfi hennar hefur ekki reynst megna að svara væntingum margra um viðbrögð við áleitnum spurningum og knýjandi úrlausnarefni hafa vafist fyrir henni og fellt hana í áliti meðal margra.
Viðhorfið til efnis trúarinnar sætir ekki sömu örlögum. Margir landsmenn eru kristilegrar trúar, iðka bæn, hugleiðslu helgra texta og leitast við að láta gott af sér leiða á þeim grundvelli. Það er ef til vill helsta áhyggjuefnið þeirra vegna að þeir finni ekki vettvang til þess að bera saman ráð sin, efla hver annan í leit sinni að skilningi. Ef til vill treysta þeir fáum fyrir óburðugum hugsunum sínum og kirkjuþröskuldarnir álitnir í hærra lagi. Þjóðkirkjan er altént ekki vettvangur þeirra nærri allra.
Svo eru þau sem hafa misst með öllu tiltrú til kristninnar í heild sinni og leita á önnur mið. Sum kanna heima annarra hefðbundinna trúarbragða sem þau kynnast með kynnum af iðkendum þeirra hér eða erlendis, nema þá þau hafi einfaldlega lesið sér til á eigin spýtur. Sum verða upptekin af nýjungum, speki sem sprottin er upp í frjóum huga. En ærið mörg grauta mörgu saman og hafa sína skoðun hvern daginn. Enn eru þau sem snúið hafa baki við öllum trúarbrögðum.
Trúhneigð
Trúarlífssálfræðingar segja flestir að manninum sé það nauðsyn að trúa.
Það sé svo margt í reynsluheimi mannanna sem vísar út fyrir sig að það
verði ekki tekin afstaða til þess nema á grundvelli trúar. Lúther talaði
um mannsandann sem „guðafabrikku“ og margir hafa látið í ljósi
hliðstæðar hugmyndir. Víst er það reynsla okkar flestra að í mörgu hafa
ályktanir okkar um lífið og tilveruna reynst í lausu lofti og ekki verið
bundnar því sem verður mælt og vegið. Tilfinningar okkar hafa reynst
duglegar við að koma okkur til að heimta og vona, loka og binda án þess
að raunsæi hafi þar mikið vægi. Því er það skiljanleg og heiðarleg
afstaða að hafna öllu sem ekki er „jarðtengt.“ Það að binda sig við
reynsluheiminn byggist þannig jafnt á trúarafstöðu og það að álykta út
fyrir hann.
Trúin mun þó seint hverfa úr lífi samfélags mannanna og jafnvel má fullyrða að hún verði fyrirferðarmeiri þegar lífsaðstæður verða tvísýnni en verið hefur um skeið. En ef trú manns á ekki að verða sérviska hans einber þarf hún félagslegt rými. Viðhorf okkar skipta í raun fyrst máli þegar þau mæta viðhorfum annarra og maður er manns gaman. Sú speki er líka forn að illt sé þeim manni sem enginn ann. Hann er sem tré á berangri. Menn munu því ævinlega gera sér félag í einhverri mynd um trúarviðhorf sín og ræktina við þau. Því munu áfram verða til kirkjur og trúfélög.
Vantrú
Allmikið hefur borið á áróðri vantrúarfólks að undanförnu og hann hefur
orðið tilefni ýmissa til þess að vilja þrengja að kristinni boðun og
hlut kristninnar í samfélaginu. Það fólk klifar á aðskilnaði ríkis og
kirkju. Viðbrögð okkar hafa einkennst af að vilja hrista þau af okkur,
en það mun ekki ganga. Þau eru í raun boðberar nýrrar þjóðfélagsskipanar
sem ryður sér til rúms um Vesturlönd. Sýn þeirra byggist ekki á
andstöðu við kirkjuna sérstaklega, heldur á hugmyndum um frelsið sem við
ættum raunar að taka undir. Áróðursbrögð og þrætubók þeirra er svo
annað mál.
Í frelsinu sem ryður sér nú rúms felst í senn tækifæri og áskorun.
Við munum ekki framar geta rekið þjóðfélag okkar eins og einsleitan
skoðanahóp, trúfélag eða skýrt afmarkað húshald (ökonomiu). Það munu
ekki framar gefast grið frá því að standa fyrir því sem maður er og vill
hafa. Hlutskipti okkar framvegis er að reyna að hafa áhrif á
samfélagið með þeim sem eru sömu hugsunar og við, sem sé á kristnum
grundvelli.
Gallinn á hugmyndum margra valdamanna er að þeir nota hugsun frelsisins
sem vopn til þess að setja öðrum en sjálfum sér skorður. Þeir hafa
eignast „rétttrúnað“ sem þeir telja sig ekki þurfa að rökstyðja og vilja
líkt og kirkjan áður steypa alla í mót þess rétttrúnaðar. Þessa hefur
séð stað í ummælum þeirra um kristindóm í skólum til að mynda.
Frelsinu fylgir að það þarf að gefa öllu rúm innan eðlilegra marka, líka kristindómi í skólum, ellegar leysa upp skólakerfið og gefa ólíkum hugmyndahópum tækifæri til að móta menntun barna sinna eftir skoðunum sínum að almennum skilyrðum uppfylltum. Kúgun af þessu tagi mun elta samfélagið uppi síðar eina og öll afneitun frelsisins. Valkostir í þessu væri frjálsir skólar, þessvegna kirkjuskólar, ellegar rými fyrir kristna trúfræðslu innan ramma skólans (frístund/lengd viðvera).
Þessari umræðu hefur líka fylgt vangavelta um grundvöll siðgæðis og því haldið fram að vantrúarfólk geti einnig verið vel siðað. Reynslan hefur sem betur fer kennt okkur hvað almennt borgar sig í þeim efnum og fer auðvitað vel saman við kristna sýn. Á það verður þó að benda að kristin hugsun hefur næsta örugga grundvöllun fyrir siðgæðisgildum sínum í Ritningunni, fordæmi og kenningu Krists og guðsviljanum, eins og hann birtist í Boðorðunum tíu, Æðsta boðorðinu og Gullnu reglunni. Því verður heldur ekki haldið fram að það að leggja kristni til hliðar hafi reynst Vesturlöndum til heilla. Hitler og Stalín voru ekki trúaðir menn, né heldur fylginautar þeirra, svo eitthvað sé nefnt.
Aðgreining
Samfélagsmótun Vesturlanda hefur einkennst mjög af margbrotinni
félagslegri hólfun og færist einstaklingurinn milli hólfa eftir ástæðum
sínum, er kannski heimamaður í þeim nokkrum. Fjölskyldan er honum minna
mál en áður var og í besta falli eitt hólfa hans. Íþróttahópar,
skólaklíkur, vinnufélagar og félagskapur hvers konar skipa þar stóran
sess.
Sömuleiðis hafa hópar fólks af öðrum menningarsvæðum flust hingað og
eru í sumum löndum verulegur hluti samfélaganna. Hér á Íslandi þarf
færri í hópinn til þess að hann sé í senn áhrifaríkur og þarfnist rýmis.
Þorgeir á þingi hafði áhyggjur af því hvernig færi við þessar aðstæður
og við höldum með honum í því að knýjandi nauðsyn sé að allir lúti sömu
lögum og í því felst líka jafnrétti, og frelsi allra takmarkast jafnt af
ákvæðum þeirra. En um siðinn telja menn augljóslega gegna öðru máli. Þó
að margir aðhyllist einn sið í einu samfélagi og njóti sín hvað það
varðar, þá er hætt við að öðrum verði þrengt ef flest er við hann miðað
og ekki nægilegt tillit tekið til annarra. Svo getur það líka hent að
frelsis- og jafnréttishugsjónin verði notuð sem kúgunartæki á
meirihlutann sem ekki fær notið sín með eðlilegum hætti. Þetta þarf að
vega með góðri dómgreind og sanngirni.
Það þykir flestum sem illa fari á því þegar ríkisvald binst ákveðinni hugsjón. Klerkaveldi í múslimaríkjum er jafnómögulegt og guðríki kalvínista í Genf var á sínum tíma eða kommúnistaríkin voru fyrir svo skömmu. Einræðisríki þar sem allt fer að geðþótta eins manns er yfirgengilegasta mynd þessara þrenginga frjálsrar hugsunar og athafna. Enginn vill þetta!
Við tölum um stjórnarskrá núna. Hvað á að vera í stjórnarskrá ríkis þar sem frelsið er meginmarkmið? Líklega fyrst og fremst hvernig við búum um ríkisvaldið, aðkomu stjórnmálaafla að því og endurnýjun umboðs þeirra sem með það vald fara. Kannski þurfum við ekki að hafa neina hugsjón í stjórnarskrá nema frelsið, mannhelgina og jafnréttið og af því leiðir að lýðræðishugsjónin situr í fyrirrúmi. Þeir sem hafa svo völdin á grundvelli hennar setja lög og breyta lögum eftir þeim vilja sem er í þjóðfélaginu og hefur komið þeim til valda.
Samkvæmt þessu höfum við hvorki þjóðarflokk né þjóðkirkju. En af þessari hugsun leiðir að við eigum að hafa frelsi til þess að hafa kirkju, trúfélög eða lífsskoðunarhópa sem ekki ganga á annarra rétt.
Þjóðkirkjan
Er Þjóðkirkjan þá orðin fyrir í samfélaginu? Já, að einhverju leyti. Að
því leyti sem hún sýnist yfir annað hafin. Að því leyti sem hún situr
yfir einhverra hlut og leyfir ekki þróun. Að því leyti sem hún tekur með
sér skoðanahópa í ferðalag sem þeim er ekki um gefið. Ef hún er með
einhverjum hætti orðin sjálfri sér að markmiði er hún orðin fyrir.
Kannski sætta menn sig við að hafa Þjóðkirkjuna enn um sinn í því horfi sem hún er, en ekki þarf margt að breytast til þess að stórbreytingar verði á. Eins og á sér safnar kirkjan flestum meðlimum sínum í kringum útfarir, fermingar og hátíðahald.
Í nálægum löndum fylgja næsta fáir manni til grafar. Vel má vona að Íslendingar fari ekkert eftir því og áfram verði útfarir sá stóri félagslegi atburður sem þær eru. Ekki er þó víst að þær geti talist alls kostar trúarathafnir. Vart verður vaxandi tilhneigingar til þess að hafa á þeim veraldlegt yfirbragð og sumir prestar stunda þá sjálfsritskoðun að hafa boðun í lágmarki ef nokkra. Vel kunna að koma í auknum mæli fram kröfur um borgaralegar útfarir í kirkjum.
Fermingar eru mun tíðari hér en í nálægum löndum. Fermingarundirbúningur hefur víða styst og líklega útvatnast þrátt fyrir lakari undirbúning barna úr grunnskólanum og takmarkaða þátttöku í barnastarfi kirkjunnar. Ef kröfurnar minnka verulega til fermingarbarnanna er óvíst að við getum talið um þær muna til trúareflingar framvegis. Ef þær yrðu auknar svo sem vert væri kæmi líklegast brestur í þátttökuna. Þetta þekkja prestarnir og við sjáum öll hversu mjög fermingarbörn og foreldrar þeirra bera uppi kirkjusóknina um veturinn. Lítið þarf til að dragi úr þátttöku í fermingum.
Helgihald um jól hefur dregist saman í tíma og etv líka hvað þátttöku varðar. Á aðfangadagskvöld og jólanótt fyllast kirkjurnar en á jóladag er ekki margt nema um skírnir sé að ræða, sem hafa færst aftur meira inn á heimilin og út af hátíðisdögunum, og um leið orðið einkathafnir í meira mæli en orðið var var um sinn að mér hefur sýnst. Páskar og hvítasunna eru ekki fjölsóttar hátíðir nema um fermingar sé að ræða. Sumar kirkjur loka svo yfir sumarmánuðina án þess að veruleg aukning verði í helgihaldi þar sem fólkið heldur sig í sumardvalastöðum sínum.
Aðra helga daga fer kirkjusókn eftir ræktinni í söfnuðunum, hefðum þeirra og vinsældum prestanna. „Tilefniskirkjusókn“ er ekki grundvallandi fyrir starf kirkju eða safnaðar s.s. átthagamessur og kirkjugöngudagar félagasamtaka þó að þau séu góðra gjalda verð.
Áhyggju vekur jafnvel umfram annað að ekki verður séð að viðgangur og efling sé í öðrum trúfélögum almennt, nema þá helst hjá ásatrúarmönnum. Það er reyndar umhugsunarvert Kaþólska kirkjan og Hvítasunnuhreyfingin sem hafa haft öfluga starfsemi um aldar skeið hér á landi eru ekki að auka meðlimafjölda sinn verulega meðal innfæddra Íslendinga.
Er kristnin þá að visna á Íslandi?
Já, ég held að því verði ekki á móti mælt og ekki fallegt að fela þá
staðreynd. Er Kristur þá ekki lengur sá sem allt vald er gefið á himni
og á jörðu? Er hann ekki Frelsarinn? Erum við í stórri blekkingu um
hann? Páll postuli sagði að ef Kristur væri ekki upprisinn værum við
aumust allra manna, allt ónýtt hjá okkur! En nú er Kristur upprisinn,
bætti hann við, sem frumgróði þeirra sem sofnuð eru (1Kor 15:18-20).
Þetta vísar okkur á sögulegan viðburð sem kristnir telja opinberun heims sem í senn er handan alls sem séð verður og heyrt en gegnumsýrir alla tilveru. Ef Kristur er í raun upprisinn frá dauðum eins og guðspjöllin greina, þá er hann bæði ævarandi leiðtogi okkar og Guð eilífðarinnar. Það er þá ekki því að kvíða að hann verði að söguminjum. Hann mun „alltaf ganga aftur“ eins og skáldið ályktaði svo kaldhæðnislega!
Við kirkjufólkið lifum hins vegar ekki samkvæmt þeim sannleika að Kristur sé lifandi og starfandi Drottinn alls. Ljós okkar kristinna manna er undir mælikeri í þessu þjóðfélagi. Víst er mikil þoka margvíslegra hugmynda, eða nær að segja að ljósin í umferðinni séu svo mörg að erfitt er að átta sig á hvað eru önnur farartæki eða umferðarljós og hvað auglýsingar eða skraut. Við þurfum að fara um eins og Kóklestin, svo allir sjái og þekki að þetta erum við! Við eigum að þekkjast af ávöxtunum. Af því eiga menn að þekkja okkur að við elskum hvert annað í nánd og firrð. (Jóh 13:35)
Heilagur andi gæðir kirkju sína lífi, en tekur ekki vald á henni, neyðir hana ekki til neins. Það er aðal mennskunnar að frammi fyrir Guði stendur maðurinn frjáls í þeim skilningi að hann getur hafnað boði Jesú um samfylgd þegar hún er honum boðin. Hann getur snúið baki við Guði í þessu lífi og þá eiga þeir ekki samfélag upp frá því þó að fundum beri örugglega saman þegar öllu er komið um kring.
Við sem viljum halda saman í Kristi berum því ríka ábyrgð á sjálfum okkur, fjölskyldu okkar og samfélaginu sem við lifum í, þar með Þjóðkirkjunni og trúarsöfnuðum okkar. Komum að því síðar.
Aðskilnaður ríkis og kirkju
Fullkominn aðskilnaður ríkis og kirkju er fyrir dyrum svo sem ég hef
haldið í aldarfjórðung og löngum talað út frá þeim skilningi mínum af
stóli, í fjölmiðlum og á Kirkjuþingi í þau átta ár sem ég sat þar. Það
er hvorki gott né vont. Það er háð menningarþróun og verður ekki séð í
bráð hvort hún er farsæl eða ekki. Mér finnst ég sjá þróun til góðs
þrátt fyrir stór áföll en hvort svo er í augnablikinu veit ég ekki
fremur en aðrir.
Verulegur aðskilnaður hefur átt sér stað nú þegar hvað varðar stjórnun
og starfshætti. Þjóðkirkjan á enn eftir að átta sig á frelsi sínu og
skipa málum með tilliti til breytinga á samfélaginu. Enn er spurningum
ósvarað um fjárhagsmálefni hennar en ljóst að þeim mun verða skipað með
nýjum hætti. Ég held að við munum sjá mjög breytta mynd á kirkjunni
eftir áratug eða tvo.
Nú þegar hefur fækkað svo í sveitum að kirkjuhald er erfiðleikum bundið víða. Messur haldast ekki vegna fjárskorts og mannfæðar. Dýrar kirkjubyggingar í þéttbýli vantar nú þegar fjárhagsgrundvöll og nýting sumra þeirra byggist á ýmsum framangreindum þáttum og almennum menningarlegum notum.
Áhugi fólks á kirkjustarfi verður því í kastljósinu þegar rætt verður um rekstur kirkjubygginganna þá stuðningur ríkisins breytist. Þannig verður Þjóðkirkjan að stórefla starf sitt og þjónustu við samfélag sitt ef ekki á illa að fara. Ég óttast að prestar og sóknarnefndir sjái ekki hversu brýnt það er að hugsa starf sitt upp á nýtt. Ég sakna ástríðu, brennandi hjartna í þessu efni.
Einhvern tíma lærði ég að skoða sóknarmörk í þrívídd. Ekki einasta tekur sóknin yfir landsvæði, heldur líka samfélagslög eða hópa. Engin kirkja í þéttbýli rúmar alla meðlimi sína. Góður genginn klerkur sagði að það gerði ekkert til: - Við messum þá bara oftar!
Það þarf að byggja upp samfélagshópa sem bera uppi ólíkar gerðir af kirkjustarfi, allt eftir fjölbreyttum þörfum fólksins. Það hefur lítið eitt gerst í þeim efnum og er ekki nógu markvisst og heldur ekki að marki á grasrótargrundvelli. (Ekki handa fólkinu, heldur af fólkinu.) Ekkert stirðbusalag má vera á viðkvæmum sóknarprestum og tortryggnum sóknarnefndum, heldur opinn hugur og glæðing framtaks sóknarfólks. Kirkjufólkið þarf að skynja ábyrgð sína og vera leitt til margvíslegra hlutverka í söfnuðunum.
Ég vil ekki að við látum hendur fallast vegna tíðarandans, heldur skulum við leita leiða í tíðarandanum og jafnvel framhjá honum. Höfum uppi vörumerkið, kross Krists og lyftum fram boðskap hans í tíma og ótíma. Reynum ekki að elta tíðarandann, köllum fólk til fylgdar.
Og nú má ég til að segja að ég hef ekki gleymt góðri viðleitni víða en finnst þó talsvert á vanta þegar á heildina er litið. Ekki dugir heldur að horfa aðeins á hina góðu viðleitni heldur verður að skoða heildarmyndina, markvísi er ekki einkenni á kirkjustarfinu, ekki heldur gæðaþróun starfsins. Sameiginleg prógramvinna og skilgreiningar þarf að vera mun meiri og mankvissari. Sjálfumglöð værukærð er ekki í boði og er hættuleg núna.
Vakandi kirkja
Leiðtogar eru þýðingarlitlir ef enginn vill fylgja þeim. Kirkjuklukkur
eru ekki hafðar í kjallara, heldur í turni. Þau meðal þjóðarinnar sem
vilja að hugsun Krists eigi sér athvarf hér verða að skilja tímanna tákn
og skipa sér í sveit. Nú gildir orð Dottins: Sá sem ekki er með mér er á
móti mér(Lúk 11:23). Hver sem sundurdreifir vinnur óþurftarverk.
Skoðaðu breytni þína og þá muntu sjá að þér er þörf á hugarfarsbreytingu
(Jer 6:16). Þú skalt því ganga í þig og biðja um kraft Heilags anda í
trúarlíf þitt og vitnisburð og þú munt fá hann ef þú aðeins leggur af
stað til móts við Drottinn þinn og lífgjafa.
Þú gætir byrjað á því að efla kirkjusókn þína, fara á fleiri samkomur. Ekki setjast út í horn og bíða eftir traktéringum eftir löngun þinni, heldur leggja þitt fram með einlægni í lofsöng og bænargjörð, árvakri hlustun og þátttöku í þjónustunni í húsi Guðs. Hvettu til einhvers helgihalds í hverfinu þínu, þorpinu þínu, sumarbústaðahéraði þínu. Ef ekki vill betur til í bili sestu þá inn í kirkju og lestu í Biblíunni þinni og gjörðu bæn þína. Taktu með þér þau sem þú getur mögulega talið á að koma til kirkjunnar og láttu opna hana ef hún reynist lokuð!
Hafðu í þér kröfuna um að það sem þar fer fram sé verðugt og mæti þér og þínum þar sem þið eruð stödd. Togaðu prestinn ofan úr stólnum ef þarf og fáðu hann til þess að setjast hjá þér og tala við þig, ekki endilega yfir þér. Slepptu ekki hönd hans fyrr en Guð hefur notað hann til þess að blessa þig (1Mós 32:26). Þú ruglast ekkert á því að ekki þurfa orð hans að vera sætleg til þess að þau byggi þig upp. Hann tali út frá orði Guðs í anda Jesú Krists sem svo elskaði okkur …(Jóh 3:16)
Þú ert ekki gestur í húsi Guðs heldur heimamaður eins og þau hin, systkin þín! Taktu saman höndum við þau og inntu þau eftir því hvernig þú getir orðið þeim til gagns og spyrðu með þeim, hvernig þið getið gengið í verk Krists sem Guð hefur fyrirbúið til þess að við getum lagt stund á þau (Ef 2:10). Takið hvert annað að ykkur og takið saman þau að ykkur sem eru í vanda eða neyð. (Róm 15:7) Hugsið stórt!
Munið að Guð á börn í fjarlægum löndum sem eru systkin ykkar. Þau eiga svo mörg of lítið til hnífs og skeiðar og hafa fá tækifæri. Og athugið það að framtíð mannkyns er í þessu fólgin, framtíð barnabarna ykkar og þeirra barnabarna. Skapið jöfnuð og réttlæti.
Guð vill ekki að þetta fari illa, og þetta þarf ekki að fara illa. Látum hann leiða okkur út úr þrælahúsi eigingjarnrar og nærsýnar lífssýnar og til fyrirheitna landsins/heimsins, þó að það kunni að vera leiðin löng og taka tímann sinn. Reyndu að vera með í því að byggja nýtt, styrkja veikt og þróa og efla, ganga til góðs.
Á þessu veltur framtíð kristni á Íslandi, viðgangur kirknanna og þar með Þjóðkirkjunnar. Það er minna mál fyrir hverju kirkjustofnunin verður en hvernig kirkjusamfélagið bregst við breyttum aðstæðum hverju sinni, og sérhvert samfélag er byggt upp af einstaklingum eins og þér.
Í fermingunni var okkur gefin þessi hvatning sem við skulum bæði
minnast og endurnýjast í: Vertu trú(r) allt til dauða og ég mun gefa þér
kórónu lífsins
Opinberunarbókin 2:10; Hósea 12:7
Áður birt 2011 á heimasíðu sem nú er ofan tekin.