Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu. Þannig sungu friðarsveitir englanna á Betlehemsvöllum. Mikið er þetta falleg kveðja. Þá getum við sagt af innstu hjartans rótum: Gleðileg jól.
Þú horfir inn í fjárhúsið þar sem ungbarnið er reifað og lagt í jötu. „Vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri“, sagði skáldið okkar, sr. Einar í Heydölum, í sálminum sínum ástkæra Nótin var sú ágæt ein. Þá finnst þér eins og þú sért með Guð í fanginu.
Jósef og María virðast svo ein og yfirgefin í upphafi frásagnar í guðspjalli jólanna. Þú sérð þau fyrir þér í ys og þys borgarinnar eftir erfiða ferð frá Nasaret að ganga á milli staða til að biðjast gistingar. Þau fá skjól í gripahúsi þar sem María fæddi barnið. En þá gerast atburðir. Fjárhirðar út í haga, sem gættu um nóttina hjarðar sinnar, mæta engli sem boðar þeim tíðindi: „Sjá ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn“. Og svo var með englinum fjöldi himneskra friðarsveita sem lofuðu Guð og sögðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnum“. Og hirðarnir sögðu sín í milli: „Förum beint til Betlehem að sjá það sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss“. Hirðarnir fóru á vettvang til að samfagna og sögðu frá því sem gjörst hafði.
Í Matteusarguðspjalli er svo sagt frá vitringum frá Austurlöndum sem fóru og fylgdu stjörnu að jötunni í Betlehem til þess að heiðra barnið með gjöfum og samfagna með foreldrum
Þessar frásagnir ljóma af samfélagi og einlægri vináttu. Frumstæðar aðstæður í gripahúsinu skipta þá ekki máli, heldur samfélag fólksins um nýfætt barnið. „Förum að sjá það sem gjörst hefur“, sögðu fjárhirðarnir, yfirgáfu allt til þess að umvefja nýfætt barn samfögnuði.
Og það gerum við á Íslandi, yfirgefum allt hið hefbundna til þess að samfagna þessu barni, höldum hátíð, köllum til samfélags, boðum frið á jörð og gerum það saman, allir hafa hlutverki að gegna og segjum svo frá því sem gerst hefur. Þessi veruleiki er um margt svo ólíkur daglegu lífi þar sem samkeppnin og harkan vega svo þungt og snýst um að eignast mest og krýna sigurvegara. Hver er bestur og mestur. Hetjudýrkun sem ekki vílar fyrir sér að upphefjast á kostnað annarra. Hamingjan á að felast í að verða frægastur og eiga mest þar sem meira er aldrei nóg. En á ekkert skylt við fallegt hrós og hvatningu um að leggja sig fram og gera vel.
Stundum er eins og uppeldi barnanna eigi að miðast við að búa til sigurvegara. Í þeirri veröld upplifa margir sig utanveltu, líða fyrir félagslega einangrun og sjá einasta úrræðið að hverfa inn í leikjaheima tölvunnar eða fíkniveröld algleymis. Er neyslumenningin komin að þolmörkum fyrir sálina og jörðina, að eignast allan heiminn þar sem taumlaus ágrindin ræður för? En gildir það, þegar alvaran blasir við og líf er í húfi?
Nýlega stóð í fyrirsögn fjölmiðils: „Þakklátur fyrir að hafa misst allt“. Þar sagði einstaklingur frá því að hafa ekki skynjað hinn sönnu verðmæti um samfélagið með ástvinum sínum fyrr en hann hafði glatað öllu sínu veraldargóssi.
Langt genginn fíkill sagði frá því í bókinni Skuggabörn, sem kom út árið 2005, að hún hafði verið eins og trúður dauðans og gat alla blekkt með bros á vör þrátt fyrir sársaukann í sálinni. En svo birtist henni skyndilega eins og áletrun á himninum: “Þú getur orðið hólpinn. Þú verður að snúa við og lifa fallegu lífi“.
Er þetta ekki einmitt boðskapur jólanna og berst af himni ofan? Að verða hólpinn af ástinni sem tignar að lifa fallegu lífi. Að bregðast við himnesku ákalli, snúa við og lifa fallegu lífi, að njóta samfélags með ástvinum sínum, friðar og grósku sem blómgast í einlægri vináttu samferðafólks.
Á jólum er það samfélagið með ástvinum sem rís hæst, samfögnuður með foreldrum, systkinum, englum, hirðum og vitringum um ungbarn reifað og lagt í jötu sem er Guð á jörð. Við tökum þá undir með sálmaskáldinu okkar: „Lofið og dýrð á himnum hátt, honum með englum syngjum þrátt, friður á jörðu og fengin sátt, fagni því menn sem bæri“.
Förum að sjá það sem gjörst hefur sögðu hirðarnir sín í millum. Við verðum vitni að því í dagsins önn. Að svara kalli til samfélags þar sem fólkið tekur höndum saman. Að leita að týndum í óbyggðum, umvefja í sorginni, rétta hjálparhönd, bera hvers annars byrðar og elska hvert annað. Við eigum öll og hvert fyrir sig sögur í hjarta sem vitnar um það.
Í áföllum veikinda eða missis, þá gildir ekki samkeppni, heldur samfélag ástvina hönd í hönd. Þá er ekki spurt um gróðann, heldur þrek til að elska. Þá er ekki spurt um veraldargóssið, heldur traustið í vináttu. Þá er heldur ekki spurt um hégómans sigra, heldur um vonina sem áræðir að treysta.
Þetta þráir trúin að boða og hefur verið haldreipi þjóðar um aldir og nærist af ljósinu sem ljómar af barninu í jötunni. Í hita leiksins þegar í lyndi leikur finnst sumum við hæfi að hamast á trúnni og kirkjunni og finna nokkuð til foráttu. Það er satt um mannanna verk að oft er þar mislögðum höndum farið og verður að iðrast fyrir það, en breytir hvorki inntaki né boði trúarinnar að elska lífið. Kirkjan er samfélagið okkar um þá heilögu von.
Ekki aðeins kirkjan þar, heldur hér mitt á meðal okkar, samfélagið okkar í dagsins önn. Þá þarf stundum að spyrja: Hvað get ég gert fyrir kirkjuna mína? Og ekki vanþörf á þegar hamast er á mennskunni líka. Þarf ekki að leita langt um það í miskunnarlausri veröld þar sem borist er á banaspjótum í skeflilegum stríðsátökum á jörðinni og saklaust fólk líður eða í keppni nútímans um gróðann á meðan stór hluti jarðarbúa hefur hvorki til hnífs og skeiðar.
Hugsum til þeirra og minnumst í bænum okkar, biðjum um daglegt brauð, frið og mannréttindi þeim til handa. Förum saman að sjá það sem gjörst hefur. Við sjáum ljósið sem ljómar af barninu í jötunni. Það er barnið þitt og bregður birtu sinni yfir öll börnin sem fæðast á jörðinni. Þetta barn er líka fætt í Aleppo í Sýrlandi.
Hvert einasta barn er helgað til lífs og réttar um farsæld og frið. Það tjáum við svo innilega í skírninni sem er meira en nafngjöf, heldur von og bæn í samfélagi um fallegan þroksa barnsins. Heilagt barn sem verðskuldar það besta sem í boði er. Það er sigur lífsins í samfélagi, en ekki samkeppni sem sundrar og elur á að sumir séu betri en aðrir. Það er virðingin sem trúin boðar um lífið. Mennska nútímans þráir þessa virðingu svo innilega, að lífsréttur hvers einasta manns er heilagur. Á þeim grunni byggjum við heilbrigðis-og velferðarþjónustu, skólakerfið og alla opinbera þjónustu. Á þeim grunni viljum við að mannlífið blómgist. Ekki þar sem sumir eru umfram aðra, meiri og merkilegri, ekki í samkeppni, heldur í samfélagi þar sem allir njóta réttar og velferðar.
Hátíð á jólum er einmitt svo snortin af virðingu við lífið í samfélagi. Við förum saman og sjáum það sem gjörst hefur, að friður blómgist af vináttu og ástríki. Jólin þín vitna um það með faðminn opinn að taka á móti þeim sem elska þig. Mikið er það sælt að njóta samfélags ástvina sinna, að finna að við skiptum máli. Við finnum líka til í söknuði yfir þeim sem við höfum misst og sætið hennar eða hans er svo tómt og berskjaldað í ljósinu. En ljósið heitir von sem þráir að bera þig í fangi sínu, hugga, bregða birtu sinni yfir fagrar minningar sem eru svo kærar og geta treysta því að genginn ástvinur hvíli í náðarfaðmi Guðs. Í sorginni erum við eins og englar með einn væng. Við getum ekki flogið nema saman, hönd í hönd.
Við reynum þetta svo þáþreifanlega á jólum, lífið í sinni innstu rót. Um það vitnar faðmlagið og kveðjurnar, hlýjar og einlægar, Guð gefi þér gleðileg jól. Þetta er svo kærkomið. Boðskapur jólanna þráir að kalla fram allt það besta sem í mannlífinu felst. Við förum og sjáum, njótum og gefum,- saman í samfélagi þar sem við deilum kjörum og samgleðjumst um vonina sem elskar lífið. Þá verður englaraust á Betlehemsvöllum hér og nú lifandi fagnaðaróður: Verið óhrædd. „Sjá, ég boða þér mikinn fögnuð sem veitast mun öllum líðnum. Þér er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn“. Þá eru heilög og gleðileg jól. Í Jesú nafni Amen.